148. löggjafarþing — 70. fundur
 7. júní 2018.
sérstök umræða.

verðtrygging fjárskuldbindinga.

[11:07]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að vera málshefjandi við sérstakar umræður um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Um leið þakka ég fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að vera til andsvara.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún muni taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum, en samhliða þeim verði ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði. Til grundvallar umræðunni liggja nokkrar spurningar sem ég óska svara ráðherra við og leyfi mér að vænta að þau verði eins ítarleg og kostur er.

Í fyrsta lagi. Hvaða áform hefur ríkisstjórnin uppi um markviss skref til afnáms verðtryggingar á lánum, sem boðuð eru í fyrrgreindri stefnuyfirlýsingu, og hafa einhver skref þegar verið stigin? Ef ekki, hvenær áformar ráðherra að stíga fyrsta markvissa skrefið og í hverju verður það fólgið?

Í öðru lagi. Lántaki tekur á sig áhættu vegna verðbreytinga með því að ábyrgjast greiðslur í samræmi við þær til lánveitanda, sterkari aðilans í samningssambandinu, og hefur litla sem enga möguleika á að verjast þessari áhættu. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa í því skyni að jafna þennan aðstöðumun?

Í þriðja lagi. Mikil óvissa, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, ríkir um framtíðargreiðslur af verðtryggðum lánum vegna óvissu um framvindu efnahagsmála og verðlagsþróun. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að draga úr óvissu og treysta fjárhagsgrundvöll lántaka í þessu tilliti?

Í fjórða lagi. Lántaka er ætlað að bæta lánveitanda álagningu óbeinna skatta eða hækkun slíkra skatta að svo miklu leyti sem slíkt leiðir til hækkunar á vísitölu. Nýlegt dæmi er 50% hækkun kolefnisgjalds til að rækja markmið í loftslagsmálum sem gróflega áætlað leggur allt að 500 millj. kr. byrðar á heimilin og skapar fjármálastofnunum kröfur á þau að sama skapi án þess að þau hafi nokkuð til unnið. Lánastofnanir hafa allt afl réttarkerfisins að baki sér til að innheimta þær kröfur sem stofnast vegna þess að ríkisstjórnin er að rækja markmið í loftslagsmálum. Heimilin eiga engar varnir. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa svo aðilar að verðtryggðum lánasamningi standi jafnfætis þegar kemur að áhrifum óbeinna skatta á skuldbindingar og réttindi þeirra?

Í fimmta lagi. Húsnæðisliður vísitölunnar hefur af ýmsum ástæðum leitt af sér umtalsverða hækkun vísitölu þrátt fyrir að almennt verðlag í landinu hafi farið hjaðnandi. Hækkun húsnæðisliðar á sér sumpart rót í stefnu Reykjavíkurborgar sem einkennist af lóðaskorti og tilheyrandi hækkun á fasteigna- og leiguverði. Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að verja lántaka fyrir slíkum íþyngjandi áhrifum sem þeir hafa fáar eða engar varnir gegn?

Fjármálaráðherra hefur fyrir skemmstu upplýst í svari við fyrirspurn frá þeim sem hér stendur að á liðnum fimm árum hafi verðbætur vegna íbúðalána numið 15 milljörðum vegna almennra verðhækkana en verðbætur á sömu lán vegna húsnæðisliðar vísitölunnar hafi numið 118 milljörðum kr. Hann einn leggur 118 milljarða kr. ofan á heimilin þar sem þau hefðu ella þurft að taka á sig 15 milljarða vegna almennra verðhækkana. Sjá menn skrímslið?

Nú þegar við blasir að meiri hluti borgarstjórnar fær fjögur ár til viðbótar til að halda uppi stefnu lóðaskorts og sérvisku blasir við að húsnæðisliðurinn mun halda áfram að hækka af þeim ástæðum.

Ég kallaði eftir því í eldhúsdagsumræðum fyrr í vikunni að ríkisstjórnin sjái til þess að húsnæðisliðurinn verði án tafar felldur brott úr vísitölunni. Þetta væri neyðarráðstöfun til að verja heimilin gegn því að missa húsnæði, eins og allt of margar fjölskyldur þekkja með tilheyrandi róti og öryggisleysi sem kemur harðast niður á börnunum.

Tekur ráðherra undir að þróun húsnæðisliðarins á skjön við almenna verðlagsþróun í landinu gefi tilefni til að fella án tafar húsnæðisliðinn brott úr vísitölunni með það að markmiði að verja heimilin fyrir þeirri eignaupptöku sem við blasir?



[11:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðu sem skiptir miklu máli fyrir almenna umræðu um efnahagsmál á Íslandi. Fyrst er spurt hvaða áform ríkisstjórnin hafi uppi. Það verður að segjast eins og er að á þessum fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar hefur ríkisstjórnin svo sem ekki stigið skref til afnáms verðtryggingar á fasteignalánum en vinna er samt sem áður hafin í samræmi við stefnuyfirlýsinguna við að skoða lánaumhverfi hér á landi.

Nýlega samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem mælir fyrir um að starfshópur sérfræðinga meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar, eða að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar.

Um þessar mundir hafa heimili val á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána, auk þess sem þau geta blandað þessum lánum í þeim hlutföllum sem þeim hentar. Hugsanlegt er að draga úr vægi verðtryggingarinnar með því að auka val heimilanna enn frekar og gera þeim kleift að binda lán sín við aðrar vísitölur. Slík lán sem bundin væru t.d. við vísitölu neysluverðs án húsnæðis eða samræmdri vísitölu neysluverðs væru þá í einhverjum skilningi hálfverðtryggð.

Svo er spurt vegna þeirrar áhættu sem lántakar taka á sig vegna verðbreytinga, hvaða mótvægisaðgerða verði gripið til. Því er til að svara að ég tel í fyrsta lagi afar mikilvægt að hafa í huga að lántaki hefur val. Við ættum að vinna í átt að frekara vali, vali um það hvort menn taki á sig verðtryggt eða óverðtryggt lán, en heimili virðast í auknum mæli velja óverðtryggða fjármögnun. Þannig voru tæplega helmingur nýrra íbúðalána óverðtryggð árið 2017 og hlutur þeirra af heildarupphæð íbúðalána til heimila óx.

Verðtryggð lán hafa þó þann kost að greiðslubyrði þeirra framan af lánstíma er lægri en greiðslubyrði sams konar óverðtryggðs láns og slíkt fyrirkomulag hentar mörgum, sérstaklega hefur ungt fólk kosið þann kostinn.

Fjölbreytni lánamöguleika og samkeppni milli lánveitenda hefur aukist á undanförnum misserum, m.a. eftir að lífeyrissjóðir fóru í auknum mæli að veita fasteignalán. Þá tóku gildi 1. apríl 2017 lög um fasteignalán til neytenda þar sem reglum um uppgreiðslugjald var breytt. Með breytingunum er stuðlað að auknu framboði lána á föstum vöxtum, sér í lagi óverðtryggðum lánum og auknum hreyfanleika og samkeppni á fasteignamarkaði. Heimilunum er þar með gert kleift að endurfjármagna lán sín, færa sig á milli lánveitenda ef betri kjör bjóðast annars staðar og skipta út verðtryggðum lánum fyrir óverðtryggð með lægri tilkostnaði en ella. Afnám stimpilgjalds vegna endurfjármögnunar var stórt skref í því tilliti.

Síðan er spurt í tilefni af óvissu um framtíðargreiðslur af verðtryggðum lánum, hvað sé hægt að gera í því. Því er til að svara að það er rétt að ákveðin óvissa er um framtíðargreiðslur af húsnæðislánum vegna óvissu um framvindu efnahagsmála, verðlags, en þetta á svo sem ekki aðeins við um verðtryggðu húsnæðislánin heldur húsnæðislán almennt. Vaxtabreytingar Seðlabankans til að mynda vegna óvæntrar verðlagsþróunar hafa meiri áhrif á greiðslubyrði óverðtryggðra lána en verðtryggðra. Óverðtryggðu lánin eru í dag almennt með hærri greiðslubyrði og geta tekið sneggri breytingum í greiðslubyrði ef einhver áföll dynja yfir. Á móti kemur að breytingar á verðlagi hafa með beinum hætti áhrif á greiðslubyrði verðtryggðra lána en það dreifist hins vegar yfir lánstímann, sérstaklega í jafngreiðslulánum.

Ein helsta leið stjórnvalda til að hafa áhrif á framtíðargreiðslur af lánum heimila er að hafa áhrif á framvindu efnahagsmála og verðlagsþróunar með það að leiðarljósi að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Oft og tíðum hefur mér þótt við taka of mikinn tíma í verðtrygginguna, við hefðum átt að taka meiri tíma í að ræða einfaldlega vexti á þessu landi. Skýrsla sem kom út í gær um ramma peningastefnunnar var mikilvægt innlegg inn í umræðu um stöðugleika og vexti á Íslandi til framtíðar.

Mig langar að segja varðandi áhrifin af ýmsum óbeinum sköttum, svo sem hér var nefnt með kolefnisgjöld, hvaða mótvægisaðgerða eigi að grípa til. Þá verð ég að halda því til haga að stjórnvöld hafa einmitt fellt niður vörugjöld og virðisaukaskatt af rafbílum til þess að opna fyrir þann kost. Það hefur líka haft áhrif á verðlagið til lækkunar, enda hefur verið mjög mikil fjölgun í þeim valkosti á götunum eins og við sjáum.

Ég ætla að koma inn á önnur atriði sem ég hef ekki náð að snerta á í fyrri ræðu minni. Ég ítreka þakkir fyrir mikilvæga umræðu.



[11:17]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Fyrir hartnær tíu árum töpuðu venjuleg íslensk heimili stórfé, töpuðu sparifé sínu, 90% af hlutabréfamarkaðnum hurfu og lánin okkar ruku upp úr öllu valdi, m.a. vegna verðtryggingarinnar. Besta leiðin gegn of háum vöxtum er heilbrigt og stöðugt efnahagslíf. Sá stöðugleiki hefur ekki verið fyrir hendi.

Í fyrsta lagi hafa þrjár síðustu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins sprungið. Slíkur pólitískur óstöðugleiki af hálfu Sjálfstæðisflokksins skapar efnahagslegan óstöðugleika.

Í öðru lagi liggur grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar í gjaldmiðlinum. Fram hjá þeirri staðreynd verður bara ekki komist. Að sjálfsögðu tengist þetta. Þeir sem eru á móti verðtryggingunni verða að taka umræðuna um gjaldmiðilinn.

Það er ljóst að krónan er og hefur verið slæmur förunautur öll þessi ár. Nú sjáum við að raungengi hefur aldrei verið eins sterkt en raungengi íslensku krónunnar hefur sveiflast mest allra vestrænna gjaldmiðla undanfarin 15 ár. Ég velti fyrir mér hvort ekki hljóti að vera nógu erfitt að vera í viðskiptum á Íslandi þótt ekki bætist við sú staðreynd að maður þurfi helst að vera gjaldeyrissérfræðingur í ofanálag.

Við eigum að hætta að nýta gengisfellingar sem viðbragð við efnahagsástandinu, enda er það almenningur sem borgar alltaf brúsann. Við gengisfellingu borgar almenningur brúsann.

Lausnin er því í nýjum gjaldmiðli. Í því sambandi kemur einungis einn kostur til greina að mati langflestra sérfræðinga og það er evran með aðild að Evrópusambandinu, enda er það leið sem 19 þjóðir í Evrópu hafa kosið að fara. Á meðan við höfum krónuna munum við búa við verðtrygginguna og oft hærri vexti en aðrar þjóðir. Það er bara svo einfalt.

Herra forseta. Að tala um krónu án verðtryggingar er eins og að tala um pylsu án kóks. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt þótt hvort tveggja sé manni óhollt.



[11:19]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar verðtryggingu eins og við þekkjum hana var komið á hér á landi árið 1979 var verðbólga gríðarlega mikil og erfitt að afla lánsfjár. Húsnæðiskerfið leið fyrir þetta og eignir lífeyrissjóða rýrnuðu hröðum skrefum. Ég vil minna á þetta til að halda því til haga að ákvörðunin um að koma verðtryggingunni á fól í sér viðbrögð við mikilli verðbólgu og óstöðugleika í fjármálum. Þannig var verðtryggingin afleiðing en ekki orsök. Það er meginatriði þegar um hana er rætt að minnast þess hvernig orsakasamhenginu er háttað og því aðeins hefur verðtrygging lánsfjár orðið svo langlíf hér sem raun er og runnið fjármálakerfinu í merg og bein að verðbólga og víxlhækkanir hafa lengstum einkennt íslenskt efnahagslíf.

Það er auðvitað ekkert keppikefli í sjálfu sér að viðhalda verðtryggingu. Hún er einungis tæki til að fást við tiltekin efnahagsleg vandamál og væri óþörf ef þau væru ekki til og kölluðu á úrlausn. Verðtryggingin skapar ákveðnar forsendur fyrir báða aðila lánasamnings þar sem í aðferðinni felst að verðmæti endurgreiðslna lánsfjárins er fastsett. Þarna eru markaðar mikilvægar grunnforsendur fyrir báða aðila sem stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu. Því megum við ekki gleyma þegar gagnrýni er beint að verðtryggingunni sem forsendu fyrir lánasamningum.

Ríkisstjórnin hefur áform um að afnema verðtryggingu, a.m.k. í þeim mæli sem henni hefur verið beitt hérlendis. Hið góða við það er að þá mun ríkisstjórnin líka hafa áform um að eyða þeim ástæðum sem urðu til þess að verðtryggingin var tekin upp á sínum tíma. Við megum ekki gleyma því að um skeið hefur lántakendum staðið til boða að velja á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána, sem bera þá hærri vexti. Margir velja verðtrygginguna og lægri vexti og er það vel skiljanlegt með tilliti til hins háa vaxtastigs hér, sem mikilvægt er að lækka niður á skikkanlegra stig.

Í því sambandi vil ég benda á að hv. málshefjandi bendir á það í síðustu spurningu sinni að húsnæðisliður vísitölunnar hafi hækkað. Hann kennir stefnu sveitarfélaga í skipulags- og lóðamálum um það en lítur fram hjá áhrifum hinna háu vaxta hvað það snertir. Þar tel ég að hv. málshefjandi hafi gerst nokkuð glámskyggn.

Ég ítreka að verðtryggingin er (Forseti hringir.) fyrst og fremst afleiðing en ekki orsök og hún verður því fljótast og öruggast tekin af með því að skapa stöðugleika með lágri verðbólgu og jafnvægi í eftirspurn eftir (Forseti hringir.) lánsfé. Það er meginverkefnið sem ber að sinna og sannarlega ánægjulegt (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin hafi sett það á verkefnalista sinn í stjórnarsáttmála.



[11:22]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Verðtryggingin er eins og við vitum öll mannanna verk. Hún var ákveðin, eins og fram hefur komið í þessum sal, árið 1979 með setningu svokallaðra Ólafslaga. Reyndar hafði hún verið við lýði síðan 1955 að hluta með lögum um húsnæðismálastjórn þar sem 1/4 hluti hvers láns var verðtryggður. Rökin fyrir verðtryggingunni voru mikil verðbólga, tregða lánastofnana til lánveitinga og hvatning til sparnaðar. Auk þess var mikil verðbólga á heimsvísu.

Verðtryggingin var sett til þess að bregðast við verulega neikvæðum aðstæðum í efnahagslífinu. Verðtryggingin á árunum í kringum 1980 var um 60%. Bankainnstæður og lán urðu að engu og bankar skiljanlega mjög tregir til lánveitinga. Við það bættust aðstæður á heimsvísu eins og mjög hátt olíuverð. Í dag búum við við allt aðrar aðstæður. Verðbólga er lág, hér ríkir stöðugleiki og olíuverð er lágt. Þrátt fyrir það er verðtryggingin enn í fullu gildi. Í sögulegum og efnahagslegum samanburði er engin þörf fyrir verðtryggingu á Íslandi í dag. Stjórnmálaflokkar hafa reglulega fyrir kosningar ýmist lofað því að draga úr vægi verðtryggingar eða afnema hana með öllu. Við þekkjum öll hvernig gengið hefur að efna loforðin, ekkert gerist og það er ekki síst ákvarðanafælni stjórnmálamanna að kenna.

Við gætum t.d. farið strax að fordæmi laganna frá 1955 og látið verðtrygginguna aðeins gilda að hluta, síðan yrði hún afnumin í áföngum. Við gætum innleitt ákveðið aðlögunarferli, fyrst þannig að verðtryggingin myndi gilda að 3/4 af hverju láni, síðan helming, síðan 1/4 af hverju láni og loks hyrfi hún alveg. Mér heyrðist ráðherra opna fyrir þann möguleika í ræðu áðan að lán gætu verið verðtryggð að hluta og það þykir mér jákvætt. Þetta er allt framkvæmanlegt og við getum hafist handa strax.



[11:24]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ólafi Ísleifssyni, þessa umræðu og eins hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir innlegg hans í umræðuna. Fyrst vil ég segja að verðtryggingin er ekki góð aðferð til að ákveða vexti á fasteignalánasamninga. Virkar þannig að tekjuháir geta horft til kostnaðar og valið óverðtryggða samninga en tekjulágir neyðast til þess að horfa til greiðslubyrðar. Þá má ekkert út af bera langt inn í framtíðina.

Mikilvægt er að taka umræðuna um þetta mál sem snertir ekki síst heimilin og hag þeirra, snertir marga aðra þætti hins vegar og við verðum að horfa á heildarsamhengi hlutanna. Þetta snertir peningastefnu í landinu, hvernig vextir, sem verðtryggingin er sannarlega, verða á peningum sem teknir eru að láni. Þá skiptir máli hvaða viðmið eru notuð. Vísitölumælikvarði lánasamninga. Ætla ég að víkja að því í seinni ræðu, en í gær kom einmitt út skýrsla starfshóps um framtíð peningastefnu á Íslandi, um endurmat á ramma stefnunnar.

Þá skiptir verðtryggingin máli fyrir fjármálafyrirtækin, lánveitendur. Þar er nefnd að störfum sem vinnur að hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem á að leggja fyrir Alþingi til umfjöllunar. Þetta er allt mikilvægt innlegg í umræðuna og um víðtæk áhrif verðtryggingar. Ég lít svo á að þetta sé mikilvæg undirbúningsvinna í þeim skrefum sem ríkisstjórnin áformar og birtir í stjórnarsáttmála áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar, (Forseti hringir.) en efnahagslegur stöðugleiki og vaxtaákvarðanir skipta miklu máli, virðulegi forseti.



[11:27]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það hefur margt rétt og sumt misvísandi komið fram í umræðunni sem er samt góð. Þetta er mál sem við ættum að ræða mun oftar, alla vega þar til lausn er komin í málið.

Það er rétt að skoða aðeins að sá harmleikur sem almenningur verður fyrir, og kannski einstaka lántakendur, þegar stökkbreytingar verða á lánum vegna mikils verðbólguskots er enginn í samanburði við þann gríðarlega harmleik sem verður þegar sama hendir alla sem eru með slík lán. Í dag eru verðtryggð útlán u.þ.b. 550 milljarðar kr. í heild. Ef við miðum við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem er þó frekar lágt í sögulegu samhengi, erum við að tala um 14 milljarða kr. á ári — púff — sem verða til inni á efnahagsreikningi bankanna og sambærileg skuld verður til í skuldadálknum hjá lántakendum. Þegar verðbólgan er hærri eykst munurinn eftir því.

Það má minnast á að 85% nýrra lána eru verðtryggð. Það er að hluta til vegna þess að bankar beina fólki helst inn á verðtryggðu lánin. Valkostirnir eru vissulega gagnlegir en það er betra að hafa lágt vaxtastig og hafa ekki fyrirkomulag sem þekkist nánast hvergi annars staðar í heiminum, heldur en viðhalda núverandi ástandi.

Það má líka nefna húsnæðisliðinn. Það hefur átt sér stað fimmföldun lóðaúthlutana í Reykjavík á síðustu árum undir meiri hlutanum og enn hefur það ekki skilað sér fullkomlega í framboði til húsnæðis, en það er byrjað að sjást í því hversu stór þáttur húsnæðisverðið er í verðbólguútreikningum, þegar þetta dempar í raun þann þátt. Auðvitað eigum við samt að afnema húsnæðisliðinn út úr þessu núna þegar við getum, þó svo að þetta geti valdið minni háttar skaða fyrir neytendur, vegna þess að við vitum að þegar (Forseti hringir.) liðurinn stækkar að nýju mun hann hafa töluvert meiri neikvæð áhrif en hann hefur núna.



[11:29]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegi forseti. Þetta er alltaf mjög áhugaverð umræða. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir hana. Mér finnst hins vegar alltaf grundvallarvandamálið vera: Tölum um háa vexti á Íslandi. Verðtrygging er ein myndbirting hárra vaxta. Verðtryggingin hefur verið tæki okkar til að ráða við hátt vaxtastig í landinu en það er allt of lítið talað um af hverju við búum við svona hátt vaxtastig. Þessari umræðu er algjörlega drepið á dreif með gagnrýninni á verðtrygginguna sjálfa. Ég er ekki aðdáandi verðtryggingar. Mér þykir hún ógagnsætt, óskilvirkt fyrirkomulag en ég skil af hverju við höfum stuðst við hana eins og hækju á undanförum árum, einfaldlega út af óstöðugleika krónunnar og gríðarlega hás vaxtastigs.

Ég fagna sérstaklega útkomu nýrrar skýrslu um valkosti okkar í peningastjórn. Ef ég mætti gera eina tillögu á þingi held ég að það ætti að prófa þingmenn upp úr þeirri bók í haust. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir okkur öll að lesa þá harmsögu sem peningastjórn okkar er í gegnum áratugina, í raun allan fullveldistímann. Þar er bent á þau atriði sem við ættum að taka hvað mest til okkar. Veigamesta ábendingin er að það skiptir engu máli hvaða fyrirkomulag við höfum á þessum málum hér á landi ef við viljum ekki spila eftir þeim leikreglum sem það fyrirkomulag krefst. Þar er ekki hvað síst mikilvægt að stjórnmálin líti í eigin barm og átti sig á því að ríkisfjármálin spila t.d. mjög stóra rullu í hvaða peningastjórn sem er. Hér erum við væntanlega að fara að ræða ríkisfjármálaáætlun á eftir sem þverbrýtur einmitt þær sömu leikreglur.

Enn hefur okkur ekki lærst að fara eftir (Forseti hringir.) þeim leikreglum sem við höfum þó sjálf sett okkur. Það er grunnurinn að þeim vanda sem við erum að glíma við. Síðan getum við tekist á við umræðuna um krónuna og hvort hún sé ákjósanlegur framtíðargjaldmiðill eða ekki. En það skiptir engu máli hvaða tæki við veljum okkur í þessum efnum ef við sjálf kjósum ekki að spila eftir þeim leikreglum sem því fylgir.



[11:32]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, meðflokksmanni mínum, dr. Ólafi Ísleifssyni, fyrir þessa mjög svo þörfu umræðu. Verðtryggingin á sér 40 ára langa sögu hér á landi. Hún var sett á við sérstakar aðstæður í landinu. En fáeinum árum eftir setningu laganna um verðtrygginguna breyttust aðstæður, mjög fljótlega og verulega. Og hafa verið að breytast allar götur síðan.

Það var fljótlega ljóst, fyrir löngu síðan, að við sitjum uppi með fortíðardraug þar sem verðtryggingin er. Þrátt fyrir áralanga umræðu stjórnmálanna hefur ekki tekist að berja verðtrygginguna utan af okkur. Þess vegna furða ég mig á orðum hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, þar sem hún leitar 40 ár aftur í tímann til að réttlæta núverandi stöðu.

Nú á síðustu árum hefur komið í ljós, þegar allar aðstæður í þjóðfélaginu hafa leitt til þess að verð á vörum og þjónustu hefur ekki hækkað vísitöluna að neinu marki, að það er fíll í partíinu. Húsnæðisverð í landinu hefur hækkað upp úr öllu valdi og leiðir til þess að heimilin í landinu eru allt í einu stórskuldug, eins og hv. málshefjandi nefndi. Um 118 milljarða hefur húsnæðisliðurinn hækkað vísitöluna þegar verðbólgan ein og sér, fyrir utan húsnæði, hefði hækkað hana um 15 milljarða.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Tekur ráðherra undir tillögu nefndar um framtíð peningastefnunnar um að húsnæðisverð ætti ekki að vera hluti af verðbólgumarkmiðum? Ber að skilja þessi orð á þann veg að nefndin leggi til að húsnæðisþátturinn verði felldur út úr vísitölunni?



[11:34]
Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Við höfum svo sem áður rætt um verðtryggingu, kosti og ókosti hennar, og spurningarnar um hvort taka eigi húsnæðislið út úr vísitölu. Hægt er að færa mörg rök fyrir því að svo eigi að gera, en hlutirnir eru ekki alltaf jafn einfaldir og þeir virðast við fyrstu sýn. Menn mega þó ekki gleyma því að á fyrstu árunum eftir fall viðskiptabankanna var það húsnæðisverðið sem hélt niðri vísitölunni vegna þróunar, þannig að það var þá hagstætt að því leyti.

Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson vék að áðan, auðvitað er verðtrygging ekki góð leið til lengri tíma. Það hlýtur að vera markmið okkar að bjóða upp á heilbrigt fjármálakerfi þar sem fólk sem þarf á húsnæðislánum að halda getur valið um vaxtakjör, hvort það vilji miða við einhverja ákveðna verðtryggingu o.s.frv., að það allt saman standi til boða.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að við í þessum sal tökum mjög alvarlega til umræðu þá skýrslu og tillögur sem starfshópur um endurmat á peningastefnu Íslands kynnti í gær. Þar skiptir gríðarlega miklu máli og ég mun beita mér fyrir því að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins taki þá skýrslu til efnislegrar meðferðar og beiti sér fyrir því að hér verði efnisrík og umsvifamikil umræða, ekki bara í nefndinni heldur líka í þingsal þegar við höfum tök á því. Það verður líklegast ekki fyrr en næsta haust, enda hygg ég að fæstir þingmanna hafi haft tök á því að kynna sér þessa umfangsmiklu skýrslu sem ég verð að segja að þeir eiga hrós skilið fyrir, (Forseti hringir.) þremenningarnir sem sátu í þeim starfshópi. Og vinnan (Forseti hringir.) mun skila árangri ef við tökum til við efnislega umræðu um skýrsluna.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)



[11:37]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hafa ber í huga að margir sérfræðingar, og flestir, telja að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna afturvirkt vegna eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar af þegar teknum lánum. Þetta mun því engu breyta fyrir þá sem þegar hafa tekið verðtryggð lán. Við skulum passa okkur að vera ekki að blekkja fólk hvað það varðar.

Í öðru lagi bjóða lánastofnanir upp á valkosti um hvort fólk taki verðtryggt lán eða óverðtryggt eða blöndu af hvoru tveggja. Það er samningsfrelsi hvað þetta varðar.

Í þriðja lagi er ljóst að það eru helst tekjulægstir sem hafa eingöngu haft efni á löngu verðtryggðu lánunum. Þess vegna þarf að koma með mjög markvissar mótvægisaðgerðir ef menn ætla að banna slíkt samningsform. Hins vegar á meðan við búum við krónuna þurfum við að endurskipuleggja fjármálakerfið okkar út frá hagsmunum almennings. Nú vill svo til að 70% af fjármálakerfinu eru á höndum ríkisins og er því einstakt lag núna, sem gefst ekki aftur, að hugsa hlutina aðeins upp á nýtt.

Það er ein hugmynd sem ég vil varpa hér fram fyrir utan upptöku alvörugjaldmiðils en það er að reyna að fá beina erlenda samkeppni inn á fjármálamarkaðinn. Ísland er hluti af EES-samningnum, sem betur fer, sem gerir ráð fyrir frjálsri för fjármagns. Ég er sannfærður um að ef erlendur banki myndi hefja starfsemi hér, t.d. með óverðtryggðum útlánum til almennings, myndi samkeppnin stuðla að bættum kjörum fyrir almenning. Sjáið bara hvað Costco gerði fyrir dagvörumarkaðinn.

Vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Á Íslandi eru peningar dýrir, m.a. vegna krónunnar og sveiflunnar í hagkerfinu. Verðtryggingin er ekkert annað en hækja krónunnar sem við munum ekki losna við fyrr en krónan okkar fær að setjast í helgan stein. Hennar tími er einfaldlega liðinn, herra forseti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:39]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna. Hún er afar mikilvæg og það er dýrmætt fyrir þingmenn að fá að viðra sjónarmið sín, hver gagnvart öðrum, á tiltölulega hlutlausan hátt eins og gerist hér í ræðustól. Það eru náttúrlega mörg sjónarmið uppi. Það eru margir fletir á þessari umræðu. Hún er ekki einföld. Eitt af því sem við náttúrlega sem hér erum vitum öll er að lífeyriskerfið okkar er í rauninni bundið allt á klafa verðtryggingarinnar. Í því felst ákveðin trygging að vísu fyrir þá sem þiggja lífeyri, en á móti kemur að kerfið allt er einhvern veginn sokkið í það fen sem verðtryggingin hefur að þessu leyti skapað. Þessu þarf að bregðast við og þetta er hluti af því sem þarf væntanlega að skoða þegar verðtryggingin verður felld niður.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom inn á það áðan að þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir með verðtryggingu verður ekki breytt í einu vetfangi nema með samningum, þ.e. það þarf að semja um það við þá sem hafa tekið lánin og þá sem hafa veitt þau. Það er ekki einfalt, en það er náttúrlega eins og hvert annað verkefni og þarf að ganga í það.

Það má í rauninni segja að verðtryggingin eins og hún er núna sé að sumu leyti ákveðin afurð af séreignarstefnunni eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson ýjaði að hér áðan. Verðtryggð lán hafa verið eina leið þeirra sem hafa tiltölulega lágar tekjur til þess að komast inn á húsnæðismarkaðinn af einhverju öryggi. Þetta er eitt af því sem við þurfum að ræða í þessu samhengi (Forseti hringir.) og það er ekki hægt að taka þessa umræðu nema skoða alla þessa fleti.



[11:42]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka upphafsmanni þessarar umræðu og hæstv. fjármálaráðherra fyrir að þetta mikilsverða mál sé komið hér til umræðu. Það kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að víst sé í stjórnarsáttmála gert ráð fyrir markvissum skrefum til þess að afnema verðtryggingu, en áform séu ekki um að fara í það alveg á næstunni. Þetta er leiðarstef hjá ríkisstjórninni. Eiginlega í flestum málum eru áform uppi, en það stendur alls ekki til að fara í þau í næstu framtíð.

Herra forseti. Þegar neyð ríkisstjórnarinnar er stærst þá er hjálpin næst. Miðflokkurinn er búinn að leggja fram frumvarp um að húsnæðisliðurinn verði tekinn út úr vísitölu. Það frumvarp er núna í efnahags- og viðskiptanefnd og er ekkert að vanbúnaði að taka það þaðan út og færa inn í þingsal þannig að við getum átt um það umræður. Það hefur komið í ljós í djarfmannlegri innfærslu formanns Framsóknarflokksins að sá flokkur hafi ætíð stutt það að húsnæðisliðurinn færi út úr vísitölu og þá er alveg ljóst að þar sem Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og auðvitað Flokkur fólksins eru hlynntir því að þetta mál verði tekið þessum tökum, ég á von á því að Píratar jafnvel geri það líka, er hér breið samstaða til þess að hjálpa ríkisstjórninni í þessu máli, hæstv. ráðherra.

Það liggur því beinast við að þessu máli um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu þeirri sem lögð er til grundvallar þegar húsnæðislán eru tekin verði einfaldlega hraðað í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, það verði tekin hér góð umræða og málið að endingu samþykkt mjög fljótt. Þar með er málið leyst, hæstv. ráðherra, og verður okkur öllum til sóma.



[11:44]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að skoða heildarsamhengi hlutanna, allar veigamiklar breytingar sem snerta efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Þá er ég að ræða peningastefnu, fjármálastöðugleikann, hag heimila og möguleika heimila til að fjármagna fasteignakaup og hvaða mælikvarða er skynsamlegt að miða við með alla þessa þætti í huga. Þess vegna lögðum við Framsóknarmenn fram þingsályktunartillögu sem samþykkt var á þessu þingi þar sem Alþingi ályktaði að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sérfræðinga sem meti kosti og galla þess að miða verðtryggingu fjárskuldbindinga við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar, ellegar að lántaki hafi val um hvaða vísitala liggi til grundvallar verðtryggingu slíkrar skuldbindingar. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti sem og áhrif sem tillögur verkefnisstjórnar um endurmat peningastefnu kynnu að hafa á vísitölu, verðtryggingu og vaxtastefnu Seðlabankans.

Skýrslan um endurmat peningastefnu kom út í fyrradag og þingsálykunartillagan sem Alþingi samþykkti fellur fullkomlega að henni vegna þess að starfshópurinn leggur það til að skoða hvaða vísitölu eigi að leggja til grundvallar. Við verðum að gera greinarmun á því þegar við tökum mið af vísitölu og vaxtaákvörðun til grundvallar inn í kerfið og svo því hvaða viðmið liggja til grundvallar verðtryggðum lánasamningum. Þetta er mikilvægt og þess vegna fellur vel saman sú vinna sem starfshópurinn hefur lagt fram og þingsályktunartillagan, sem var hugsuð sem innlegg í þessa vegferð.



[11:46]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er búið að vera áhugavert að fylgjast með umræðunni vegna þess að í henni hefur komið fram það sem ég held að sé tilefni til að tala um sem hina vanheilögu þrenningu íslenskra fjármála, þ.e. verðtryggingin, krónan og svo almennur flæðisóstöðugleiki sem kemur til vegna þess að við erum með lítið hagkerfi sem er fáar undirstöðuatvinnugreinar, sem leiðir af því að við erum alltaf með stórar hagsveiflur og vaxtaþvælan öll tengist því.

Skoðum vandamálið sem hefur nefnt, að erfitt hafi verið fyrir fólk að fóta sig í séreignarstefnunni, sem skýrist að hluta til af því að séreignarstefnan er ekki góð en líka af því að sögulega hafa laun verið frekar lág og lítil geta, sérstaklega hjá ungu fólki, til að leggja fyrir. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að komast út á húsnæðismarkaðinn.

Ef maður horfir aðeins á krónuna, vegna þess að það er að ég held einn auðveldasti staðurinn til að laga hluti, er mjög áhugavert að lesa skýrsluna sem kom út í gær. Hún er að mörgu leyti góð en það sló mig strax á fyrstu síðum hennar þar sem var tekið fram að það væru aðeins tvö mynstur sem væri hægt að taka upp, þ.e. stífari verðbólgumarkmið eða einhvers konar myntráð. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefið út skýrslu, eða það er ekki einu sinni skýrsla heldur undirstöðuplagg hjá honum, þar sem talað er um níu stöðluð mynstur fyrir peningastefnu. Það að þessi nefnd hafi eingöngu getað komið auga á tvö þeirra kemur mér svolítið á óvart þar sem ágætlega menntaðir hagfræðingar unnu að skýrslunni.

Ég gæti svo sem talið upp alla kosti þess að afnema verðtrygginguna. Ég gæti talað lengi um það af hverju krónan sem slík er ekki framtíðargjaldmiðill, en í öllu falli heyrist mér vera mikill stuðningur við að laga þetta. (Forseti hringir.) Allir koma auga á vandann sem slíkan, það er kannski bara herslumunurinn og áhersluatriðin sem breytast á milli manna og við ættum auðvitað að reyna að koma okkur saman um þau.



[11:49]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég held að við ættum einmitt að sammælast um það í þessum sal að taka þá skýrslu sem unnin hefur verið um möguleika okkar í peningamálum til vandaðrar umræðu í þingsal. Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Við þurfum með einhverjum hætti að ná að taka saman höndum um hvernig við náum vaxtastiginu í landinu niður. Fyrr losnum við ekki við verðtryggingu. Verðtrygging er hækja óstöðugs gjaldmiðils, hækja hás vaxtastigs.

Það er hins vegar áhugavert líka þegar rýnt er í þessa skýrslu og þegar horft er einmitt í húsnæðislið vísitölunnar að þar erum við að reikna þennan húsnæðislið með allt öðrum hætti en nágrannalönd okkar þannig að hækkunaráhrif hans eru miklum mun meiri en ef við horfum t.d. til þeirra fáu annarra landa sem í raun og veru notast við sambærilega reikniaðferð í húsnæðisliðnum. Við erum að uppreikna það í raun og veru eins og húsnæði eða hækkun á jaðarverði húsnæðis, þess litla hluta húsnæðis í landinu sem skiptir um hendur á hverju ári, það hækkar kostnað allra landsmanna af húsnæði sínu, sem er auðvitað kolrangt. Það eru auðvitað þeir sem kaupa húsnæði á háu verði sem bera af því einhvern kostnað. Það hefur engin áhrif á kostnað minn þótt nágranni minn hafi keypt sér hús á hærra verði en ég.

Þetta er í raun og veru að sprengja upp verðbólguviðmiðið eða húsnæðisviðmiðið í vísitölunni og er auðvitað mjög alvarlegt af því að það er ekkert annað ríki sem styðst jafn mikið við verðtrygginguna og við í uppreikningi á lánum. Þetta er eitthvað sem ég held að ætti að vera algjört forgangsmál að leiðrétta. Það eru engin sjáanleg rök fyrir þessu og myndi skipta mjög miklu máli fyrir verðtryggð lán landsmanna ef við gerðum þetta með sambærilegum hætti og önnur lönd.

En að því sögðu megum við heldur ekki gleyma hinu, við verðum að nálgast þessa umræðu vitrænt. Við verðum að tala um alla þætti peningastjórnunarinnar, (Forseti hringir.) kosti og galla krónunnar, kosti og galla annarra möguleika eins og evru og hvernig við getum síðan bætt hagstjórnina til þess að stuðla að (Forseti hringir.) lægra vaxtastigi en við höfum átt að venjast hér á undanförnum áratugum.



[11:51]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlag hans til umræðunnar og sömuleiðis fyrir framlag allra hv. þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni og fylgst með henni.

Ég ætla ekki að gera miklar athugasemdir á þessum stutta tíma við ræðu ráðherra en vil þó segja tvennt. Það kannski hrekkur ekki ýkja langt að bera fyrir sig það val sem menn að nafninu til eiga á milli lánaforma þegar bankarnir hafa það í hendi sér að verðleggja óverðtryggðu lánin með þeim hætti að margur flýr vegna þeirrar háu verðlagningar á náðir verðtryggingarinnar. Á skákmáli heitir þetta þvingað val. Það má ekki verða til þess að draga úr þrótti og áhuga manna á því að færa okkur inn á okkar svæði í heiminum í fjármálalegu tilliti þó að að nafninu til eigi menn þetta val. Bankarnir hafa af því mikinn hag vegna jákvæðs verðtryggingarjöfnuðar að sem mest af lánum þeirra séu verðtryggð.

Ég vil líka leyfa mér að segja vegna orða ráðherra um að umræðan um verðtrygginguna sé í einhverjum skilningi of mikil að ég get ekki tekið undir það. Við þurfum að ræða hana miklu meira. Umræðan hérna hefur leitt í ljós að menn eru náttúrlega fastir í sínum skotgröfum. Ég leyfi mér að furða mig á því hversu langt hv. þingmaður Vinstri grænna gengur þegar hún réttlætir (Forseti hringir.) verðtrygginguna með efnahagsaðstæðum sem voru hér fyrir 40 árum. Hv. þingmaður blandar saman vöxtum og verðtryggingu og sakar þá um glámskyggni, (Forseti hringir.) herra forseti, sem ekki (Forseti hringir.) eru í sömu þokunni og mistrinu.

Að öðru leyti þá vil ég ljúka máli mínu með því að þakka fyrir umræðuna.



[11:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu í dag. Ég ætla að leyfa mér að byrja á að segja að mér finnst vandinn á húsnæðislánamarkaðnum vera fyrst og fremst sá að það er ekki nægilega mikið frelsi á markaðnum. Þegar menn ætla að taka verðtryggt lán eða þegar lánveitandi ætlar að verðtryggja lán er bara ein vísitala í boði. Það er kannski vandinn. Ef við hefðum meiri fjölbreytni í lánakostum gætum við séð hina ólíku vexti sem af frelsinu myndu leiða. Það er ekki hægt að fara þá leið sem mér finnst sumir hv. þingmenn hafa gert í dag, að segja að húsnæðisliðurinn einn og sér sé ábyrgur fyrir þetta stórum hluta verðbóta undanfarinna ára, eins og að ef við hefðum kippt húsnæðisliðnum út hefðu vextirnir með öllu verið óbreyttir. Við höfum ekki svarið við því.

Hér hafa sumir kallað eftir því að evran væri lausnin á því öllu saman, en staðan er sú í Svíþjóð í dag að þar eru rétt rúmlega 200 þúsund ungmenni á aldrinum 20–27 ára í foreldrahúsum, um 1/4 allra ungmenna á þeim aldri. Það hlutfall hefur ekki verið hærra síðan mælingar hófust árið 1997. Þar hjálpa evruvextirnir, jafnvel þótt þeir henti engan veginn efnahagsástandinu í Svíþjóð, ekki til við að leysa húsnæðisvandann. Húsnæðiskrísan hefur aldrei verið meiri hjá ungu fólki í evrulandinu en einmitt í dag.

Ég verð líka að segja vegna þess sem kom fram í síðustu ræðu málshefjanda að ég kalla ekki eftir því að menn hætti umræðu um verðtrygginguna, hún má alveg halda áfram. En ég hefði gjarnan viljað hafa meiri umræðu um vexti vegna þess að það eru oft þeir hinir sömu og kvarta undan háum vöxtum sem í þessum þingsal þrýsta á mig, fjármálaráðherrann, ríkisstjórnina, að ganga strax til samninga við þá (Forseti hringir.) sem krefjast tugprósenta launahækkana. Það er m.a. eitt samhengi sem hefur aldrei verið viðurkennt í þingsal, að ef menn vilja búa í landi þar sem laun hækka um 10–15% á hverju ári, ár eftir ár eftir ár, vilja menn búa í hávaxtalandi.