149. löggjafarþing — 30. fundur
 12. nóvember 2018.
gerð krabbameinsáætlunar.

[15:45]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Árið 2002 gaf Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin út leiðbeiningar um það hvernig krabbameinsáætlanir skyldu byggðar upp og mælti með því að þjóðir tækju upp slíka áætlun til að ná betri árangri varðandi krabbamein, draga úr nýgengi og dánartíðni, ásamt því að stuðla að bættum lífsgæðum sjúklinga. Einnig sé markmið þeirra að bæta lífsgæði einstaklinga með krabbamein með hefðbundinni innleiðingu gagnreyndra aðgerða á vettvangi forvarna, snemmgreiningar, meðferðar og líknar. Í krabbameinsáætlun skal jafnræði þegnanna og hagkvæmni haft að leiðarljósi.

Fjölmörg lönd hafa yfir að ráða krabbameinsáætlun og Ísland hefur fram til þessa verið eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur heildstæða krabbameinsáætlun. Árið 2013 skipaði þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, ráðgjafarhóp um tillögur að markmiðum og aðgerðum í krabbameinsáætlun. Sá ráðgjafarhópur skilaði niðurstöðum sínum til ráðuneytisins á síðasta ári. Í tillögum ráðgjafarhópsins segir að markmið með krabbameinsáætlun verði að landsmönnum skuli standa til boða að búa í samfélagi þar sem áhersla verði lögð á forvarnir með heilsueflingu og snemmgreiningu sem miði að því að lágmarka hættuna á því að fá krabbamein. Þar skuli standa til boða heilbrigðisþjónusta þar sem einstaklingsbundið mat er lagt á hættu á krabbameini út frá áhættuþáttum erfða- og fjölskyldusögu. Einnig er talað um hópleit.

Ekki síst snýst þetta um að einstaklingum sem fá krabbameinsgreiningu skuli standa til boða greining og einstaklingsmiðuð meðferð og að þeir eigi rétt á að málefni þeirra séu rædd á faglegum samráðsfundi til að tryggja bestu meðferð. Því spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvenær hyggst hæstv. heilbrigðisráðherra koma krabbameinsáætluninni í framkvæmd?



[15:47]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að drög að krabbameinsáætlun voru lögð fram á síðasta ári og vinna hefur farið fram í ráðuneytinu um allnokkurt skeið á þessu ári við að fara yfir þær tillögur sem þar komu fram. Margt í þeim drögum er þegar komið til framkvæmda eða er til vinnslu, t.d. er unnið öflugt heilsueflandi starf á vegum embættis landlæknis í samvinnu við sveitarfélögin í landinu og nú búa um 85% landsmanna í sveitarfélögum sem geta kallað sig heilsueflandi samfélög.

Skimunarráð, sem er ein tillagan í drögunum, hefur verið sett á stofn. Það er ráðgefandi fyrir embætti landlæknis og ber ábyrgð á því að landsmönnum stendur til boða á hverjum tíma skipulögð hópleit sem byggist á gagnreyndri þekkingu um skimun krabbameina og forstiga þeirra. Enn fremur hefur svokallað „PET scan“ verið tekið í notkun á Landspítalanum sem bætir verulega alla möguleika á greiningu og meðferð krabbameina hér á landi.

Krabbameinsskrá hefur verið til í áratugi og unnið er að stöðugum endurbótum á henni og möguleikum á norrænu samstarfi um gæðaskrár krabbameina.

Í krabbameinsáætlunardrögunum eru sett fram tíu aðalmarkmið með tilheyrandi undirmarkmiðum og hef ég forgangsraðað fjórum verkefnum og mun deila þeim til viðkomandi heilbrigðisstofnana sem augljóslega gegna meginhlutverki í framkvæmd áætlunarinnar.

Í fyrsta forgangi er að einstaklingar með krabbamein og aðstandendur þeirra skuli eiga kost á fullkomnustu þjónustu af vel mönnuðum starfseiningum og sérhæfðu starfsfólki. Þá er sett í forgang að einstaklingi með krabbamein sé boðin greining, meðferð og umönnun sem byggist á bestu gagnreyndri þekkingu, aðferðum og tækjabúnaði.

Þessir tveir þættir fara aðallega fram á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og þessum tveimur stofnunum verður falið að koma með greinargerð til ráðuneytisins er tilgreinir hvað af þessum aðgerðum er þegar til staðar og hvað skortir til að krabbameinsáætlun sé fullnægt. Ef þessum tveimur þáttum er fullnægt með breiðri aðkomu fagstétta er sú forsenda fyrir hendi að krabbameinssjúklingum standi til boða fullnægjandi upplýsingamiðlun sem er eitt af aðalmarkmiðum áætlunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég mun svara spurningunni ítarlegar í síðari innkomu.



[15:49]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin og hvet hana til dáða í þessum efnum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir því að krabbameinssjúklingum í heiminum fjölgi árlega um 70% á næstu tveimur áratugum. Stofnunin telur ólíklegt að hægt verði að stemma stigu við krabbameinssjúkdómum með lækningum heldur verði að koma í veg fyrir ný tilfelli með fyrirbyggjandi aðferðum. Því er mikilvægt að fólk og samfélög hafi yfir að ráða góðri áætlun þar sem horft er til þess hvernig halda eigi utan um þann heilbrigðisvanda, auk þess sem hægt er að gera svo miklu betur í utanumhaldi um þá einstaklinga sem greinast með krabbamein. Það myndi skila þeim fyrr til baka til þátttöku í atvinnulífi og/eða gera þeim betur kleift að lifa með sjúkdómnum í daglegu lífi.

Með því að einbeita sér með skipulögðum hætti að líðan og þjónustuþörfum einstaklinga með krabbamein og veita þjónustu í samræmi við það skilar það sér til baka í betri líðan og styttri meðferð sem allir græða á. Þá er maður helst að tala um einstaklinginn, að hann renni inn í ákveðið ferli sem honum er veittur stuðningur í, (Forseti hringir.) auk þess sem honum er veitt sú besta meðferð sem völ er á.



[15:50]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í þessari áætlun er líka sett í forgang að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum þeirra sé boðið upp á þjónustu sem byggist á virkri gæðaskráningu, þar með sé skapaður möguleiki til mats á árangri og samanburði við alþjóðleg viðmið. Þetta er líka í samræmi við ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ábyrgðaraðili í þessu verkefni verður embætti landlæknis, Krabbameinsskrá í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala – háskólasjúkrahús.

Loks verður sett í forgang að einstaklingum með krabbamein og aðstandendum verði boðin skipulögð, samfelld og samræmd þjónusta sem veitt er á réttum tíma. Ábyrgðaraðilarnir hér eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri og Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem samræmir viðbrögð heilsugæslunnar um allt land.

Virðulegi forseti. Þessi forgangsröðun mín verður auðvitað gerð með formlegum hætti og væntanlega sett á heimasíðu ráðuneytisins og staðfesting á þeim drögum sem hafa borist ráðuneytinu og hafa verið til vinnslu þar þannig að niðurstaðan sé sýnileg öllum, þar með talið þeim sem þjónustunnar njóta.