149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

gerð krabbameinsáætlunar.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að drög að krabbameinsáætlun voru lögð fram á síðasta ári og vinna hefur farið fram í ráðuneytinu um allnokkurt skeið á þessu ári við að fara yfir þær tillögur sem þar komu fram. Margt í þeim drögum er þegar komið til framkvæmda eða er til vinnslu, t.d. er unnið öflugt heilsueflandi starf á vegum embættis landlæknis í samvinnu við sveitarfélögin í landinu og nú búa um 85% landsmanna í sveitarfélögum sem geta kallað sig heilsueflandi samfélög.

Skimunarráð, sem er ein tillagan í drögunum, hefur verið sett á stofn. Það er ráðgefandi fyrir embætti landlæknis og ber ábyrgð á því að landsmönnum stendur til boða á hverjum tíma skipulögð hópleit sem byggist á gagnreyndri þekkingu um skimun krabbameina og forstiga þeirra. Enn fremur hefur svokallað „PET scan“ verið tekið í notkun á Landspítalanum sem bætir verulega alla möguleika á greiningu og meðferð krabbameina hér á landi.

Krabbameinsskrá hefur verið til í áratugi og unnið er að stöðugum endurbótum á henni og möguleikum á norrænu samstarfi um gæðaskrár krabbameina.

Í krabbameinsáætlunardrögunum eru sett fram tíu aðalmarkmið með tilheyrandi undirmarkmiðum og hef ég forgangsraðað fjórum verkefnum og mun deila þeim til viðkomandi heilbrigðisstofnana sem augljóslega gegna meginhlutverki í framkvæmd áætlunarinnar.

Í fyrsta forgangi er að einstaklingar með krabbamein og aðstandendur þeirra skuli eiga kost á fullkomnustu þjónustu af vel mönnuðum starfseiningum og sérhæfðu starfsfólki. Þá er sett í forgang að einstaklingi með krabbamein sé boðin greining, meðferð og umönnun sem byggist á bestu gagnreyndri þekkingu, aðferðum og tækjabúnaði.

Þessir tveir þættir fara aðallega fram á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og þessum tveimur stofnunum verður falið að koma með greinargerð til ráðuneytisins er tilgreinir hvað af þessum aðgerðum er þegar til staðar og hvað skortir til að krabbameinsáætlun sé fullnægt. Ef þessum tveimur þáttum er fullnægt með breiðri aðkomu fagstétta er sú forsenda fyrir hendi að krabbameinssjúklingum standi til boða fullnægjandi upplýsingamiðlun sem er eitt af aðalmarkmiðum áætlunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég mun svara spurningunni ítarlegar í síðari innkomu.