149. löggjafarþing — 126. fundur
 19. júní 2019.
menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, 2. umræða.
stjfrv., 801. mál. — Þskj. 1262, nál. 1909, breytingartillaga 1910 og 1911.

[20:25]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Með frumvarpinu er lagt til að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu sem felur í sér staðfestingu á þeirri hæfni sem leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar þurfa að búa yfir. Í frumvarpinu er byggt á því að viðmiðum um hæfni kennara verði lýst í svonefndum hæfniramma og að komið verði á fót kennararáði sem fjalli um þróun hæfnirammans. Gert er ráð fyrir að útgáfa leyfisbréfa kennara og veiting undanþágna vegna ráðningar leiðbeinenda færist til Menntamálastofnunar. Þá er lagt til að skólastjórnendur beri aukna ábyrgð við mat á hæfni umsækjenda um kennslustörf. Breytingunum er ætlað að greiða fyrir fjölbreyttri starfsþróun kennara, flæði kennara milli skólastiga og auknu starfsöryggi þeirra.

Á fundum nefndarinnar var rætt um skort á kennurum og nýliðun í kennarastétt og hvernig taka mætti á þeim vanda. Meiri hlutinn leggur áherslu á að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu leysa ekki einar og sér þann vanda en frumvarpið er einn liður í mörgum aðgerðum sem m.a. er ætlað að gera kennarastarfið eftirsóknarverðara og leiða til þess að fjölgun verði í kennarastétt með auknum starfsmöguleikum kennara.

Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um þá meginbreytingu sem frumvarpið felur í sér að lögfest verði ákvæði um eitt leyfisbréf sem byggist á almennri og sérhæfðri hæfni kennara og að lögfestur verði hæfnirammi um menntun kennara og skólastjórnenda. Rætt var um markmið frumvarpsins, þ.e. að auka sveigjanleika og stuðla að auknu flæði kennara milli skólastiga, sem hefur þótt skorta í gildandi lagaumhverfi. Í því sambandi var m.a. bent á að heimild kennara til að kenna á aðliggjandi skólastigum hefur ekki verið viðurkennd og kennarar því verið ráðnir til kennslu sem leiðbeinendur og búið við skert starfsöryggi. Þá hefur verið staðhæft að gildandi lagaumhverfi varðandi leyfisbréf haldi aftur af starfsþróun kennara.

Fyrir nefndinni komu fram ólík sjónarmið um hvort gildandi lög heimili kennurum að starfa á aðliggjandi skólastigum. Meiri hlutinn bendir á að með frumvarpinu er stefnt að því að setja skýrari reglur um flæði kennara milli skólastiga. Þannig er ákvæði um eitt leyfisbréf ætlað að leysa úr ákveðinni óvissu í gildandi lagaumhverfi þannig að ljóst sé hvaða stöðu kennari sem hefur fengið útgefið leyfisbréf til kennslu á tilteknu skólastigi hefur við ráðningu í kennslustarf.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að breytingar frumvarpsins feli í sér að dregið verði úr kröfum um sérhæfingu kennara. Þá komu fram athugasemdir um að ekki væri æskilegt að lögfesta skilyrði um hæfni kennara og sjónarmið um að óljóst væri hvernig meta ætti hæfni samkvæmt viðmiðum frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að með frumvarpinu er ekki stefnt að því að draga úr kröfum til sérhæfðrar menntunar kennara. Samkvæmt frumvarpinu eru breyttar kröfur að því er varðar sérhæfingu kennara á svokölluðu 1. hæfniþrepi, þar sem kenndir eru kynningar- og upprifjunaráfangar sem eru sameiginlegir með grunn- og framhaldsskólum. Hins vegar getur skólameistari sem vill krefjast frekari sérhæfingar sett fram kröfur um slíkt í starfsauglýsingu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að hæfniramminn er til leiðsagnar um inntak kennaramenntunar, starfsþróun og skilyrði fyrir leyfisbréfi. Hann mun jafnframt verða nýttur við mat á gæðum skólastarfs. Lögfesting hæfniramma er í takt við alþjóðlega þróun, en í flestum ríkjum Evrópu eru hæfnirammar fyrir kennarastarf gefnir út af yfirvöldum menntamála. Þá bendir meiri hlutinn á að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að gefin verði út reglugerð þar sem fjallað verði nánar um lýsingu á almennri og sérhæfðri hæfni.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um kennararáð og hlutverk þess. Fram komu sjónarmið um að verk- og valdsvið ráðsins væri óljóst. Meiri hlutinn leggur áherslu á að kennararáði er ætlað að vera samstarfsráð um þróun hæfniramma fyrir menntun kennara og skólastjórnenda og er ráðinu fyrst og fremst ætlað ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðherra í þeim efnum.

Við meðferð málsins í nefndinni var jafnframt rætt um breytingar á stjórnsýslu um útgáfu leyfisbréfa kennara og veitingu undanþágu vegna ráðningar leiðbeinenda, en lagt er til að þessi verkefni færist frá mennta- og menningarmálaráðherra til Menntamálastofnunar. Matsnefnd vegna útgáfu leyfisbréfa verður lögð niður og undanþágunefndir fyrir grunnskóla og framhaldsskóla sameinaðar í eina undanþágunefnd kennara. Meiri hlutinn bendir á að ákvæðum frumvarpsins er ætlað að leiða til meiri skilvirkni í umsýslu leyfisbréfa og stuðla að auknu réttaröryggi þar sem synjun Menntamálastofnunar um útgáfu leyfisbréfs verði hægt að kæra til mennta- og menningarmálaráðherra. Meiri hlutinn leggur áherslu á að breytingar á stjórnsýslu verði unnar faglega og að Menntamálastofnun fái nauðsynlegar fjárheimildir til að vinna að innleiðingu þeirra.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem eru á fylgiskjali í breytingartillögum og bið ég þingmenn um að kynna sér þær. Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Þeir telja að í ljósi þess hve viðamiklar breytingar felast í frumvarpinu sem varða kennarastéttina í heild hafi málið þarfnast meiri undirbúnings þannig að unnt væri að ná breiðari samstöðu um það meðal stéttarinnar. Þeir telja málið engu síður horfa til framfara og styðja það í trausti þess að áfram verði unnið að sáttum um það og niðurstaðan verði betra og sveigjanlegra skólakerfi nemendum og kennurum til hagsbóta.

Undir nefndarálitið skrifa Páll Magnússon formaður, Steinunn Þóra Árnadóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Guðmundur Andri Thorsson, með fyrirvara, Anna Kolbrún Árnadóttir og Jón Steindór Valdimarsson, með fyrirvara. Birgir Ármannsson skrifar undir álitið með heimild samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Virðulegi forseti. Framsögumaður vill einnig leggja fram breytingartillögu við frumvarpið í eigin nafni sem hljóðar svo:

1. 1. mgr. 19. gr. orðist svo:

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2020 nema ákvæði til bráðabirgða sem öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008.

2. Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ráðherra skipar samráðshóp til að fjalla um framkvæmd og innleiðingu laganna. Í hópnum skulu vera fulltrúar leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, Kennarasambands Íslands, skólastjórnenda, menntavísindasviðs Háskóla Íslands og menntavísindasviðs Háskólans á Akureyri. Samráðshópurinn skilar niðurstöðum sínum til ráðherra fyrir 1. desember 2019 og gerir allsherjar- og menntamálanefnd grein fyrir framvindu starfa sinna fyrir 15. október 2019.

Í ljósi þess, virðulegi forseti, að öllum er það ljóst sem hafa fylgst með málinu að töluverður órói hefur verið í kringum það leggur framsögumaður þessa tillögu fram til að reyna að nálgast þau sjónarmið sem uppi eru og vonast til þess að með því að við gefum okkur lengri tíma, þ.e. miðað við núverandi frumvarp er gildistakan 1. júlí 2019, með því að við gefum okkur tíma til áramóta 2020 og reynum að vinna málið í sameiningu með forystu kennara þá trúi ég því að við náum farsælli niðurstöðu skólakerfinu okkar og þeim sem menntun sækja til heilla.



[20:35]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef í allsherjar- og menntamálanefnd komið nálægt því að vinna þetta mál og hef fylgst með því. Það hefur að mörgu leyti verið mjög fróðleg og ánægjuleg reynsla en það hefur líka verið dálítið erfið reynsla. Mín reynsla af skólakerfinu er sú ein að vera þar nemandi og raunar foreldri líka en mín persónulega reynsla er fyrst og fremst sú að hafa verið nemandi, og þegar maður er nemandi hefur kennarinn alltaf rétt fyrir sér. Maður hefur það fyrir satt sem kennarinn segir og þegar maður situr svo sem nefndarmaður og það streyma fyrir mann kennarar sem eru hver öðrum mælskari og meira sannfærandi fer ekki hjá því að maður verði örlítið ráðvilltur þegar þessir kennarar halda mjög ólíkum hlutum fram og eru nánast komnir í hár saman. Maður veit eiginlega ekki sitt rjúkandi ráð.

Það er erfitt að gera upp á milli þessara sjónarmiða og ég tel að það sé mjög mikils til vinnandi að reyna til þrautar að sætta þau ólíku sjónarmið sem þarna eru uppi skólakerfinu og ungu fólki landsins til heilla. Ég held að kennari þurfi náttúrlega að vera margvíslegum og alveg ótrúlegustu kostum búinn en kennari þarf að mínu mati fyrst og fremst að kunna að kenna. Ég held að það sé númer eitt og þess vegna held ég að það sé gott, eins og stefnt er að í þessu máli, að sú stoð kennslustarfsins sem snýr að uppeldis- og kennslufræði sé styrkt. Ég held að kennari þurfi að kunna fagið að kenna. Ég held að kennsla sé sérstakt og mjög sérhæft fag og að öllu varði að ná valdi á því fyrir kennarann. Auðvitað verður kennarinn að hafa til að bera djúpan mannskilning og hann þarf að hafa kærleika og umburðarlyndi í miklum mæli og hann þarf líka að hafa djúpa og góða þekkingu á því efni sem hann er að kenna en fyrst og fremst þarf hann að kunna fagið að kenna. Ég er ekkert frá því að það sé til bóta að auka þátt kennslufræði í þessu fagi, jafnvel þó að það kunni að líta svo út sem það sé á kostnað svokallaðrar fagþekkingar, þ.e. þekkingar á þeirri kennslugrein sem kennd er hverju sinni, sem kennarinn þarf vissulega að hafa gott vald á en hann þarf kannski ekki að vera postdoktor í.

Markmiðið með þessu frumvarpi sýnist mér vera jákvætt og gott sem er að greiða fyrir fjölbreytni og fjölbreyttri starfsþróun kennara og greiða fyrir því að það geti átt sér stað mikið, öflugt og gott flæði milli skólastiga og það verði aukið starfsöryggi kennara, þ.e. þegar þeir missa starf á einu skólastigi eigi þeir greiða leið á annað skólastig án þess að þurfa að sæta því að vera þar í hlutverki leiðbeinenda og búa við starfsóöryggi. Þetta hefur verið vandamál og hefur skort í gildandi lagaumhverfi, að þetta flæði sé eðlilegt og náttúrulegt og þrátt fyrir tilraunir til að ráða bót á hafa þær einfaldlega ekki borið árangur. Það ríkir augljóslega óvissa þarna sem þetta frumvarp mun bæta úr.

Það hafa komið fram áhyggjur, aðallega af hálfu framhaldsskólakennara, af því að verið sé að draga úr kröfum um sérhæfingu kennara. Þeir óttast sem sé að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til þess hversu sérhæft og sérstakt starf kennsla á hverju skólastigi er og þeir leggja eðlilega áherslu á sitt skólastig sem þeir hafa þekkingu á sem er framhaldsskólinn. Á móti hefur því verið svarað að ekki sé stefnt að því að draga úr kröfum til sérhæfni í menntun og á það hefur verið bent að skólastjórar geta í atvinnuauglýsingum krafist sérstakrar og frekari sérhæfingar og skólastjórnendur geta valið kennara eftir því sem hentar best þeirra skólum. Þetta þarf reynslan náttúrlega að leiða í ljós og eins álitamál sem komið hafa upp varðandi kennararáð sem er ætlað að verða nokkurs konar samstarfsráð um þróun þessa hæfniramma og á að hafa ráðgefandi hlutverk fyrir ráðherrann. Reynslan þarf bara að leiða í ljós hvernig það gefst.

Við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson skrifuðum undir nefndarálitið með fyrirvara sem ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér:

„Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Þeir telja að í ljósi þess hve viðamiklar breytingar felast í frumvarpinu sem varða kennarastéttina í heild hefði málið þarfnast betri undirbúnings þannig að unnt væri að ná breiðari samstöðu um það meðal stéttarinnar. Þeir telja málið engu að síður horfa til framfara og styðja það í trausti þess að áfram verði unnið að sáttum um það og niðurstaðan verði betra og sveigjanlegra skólakerfi, nemendum og kennurum til hagsbóta.“

Þegar við hv. þingmaður settum þennan fyrirvara við frumvarpið var ekki komin fram breytingartillaga um að fresta gildistöku þessa máls og skipa starfshóp sem væri skipaður fulltrúum ólíkra og ýmissa skólastiga. Þegar þessi breytingartillaga er komin fram vaknar spurningin: Ja, af hverju ekki bara þá að fresta sjálfu málinu þennan tíma sem á að taka sér til að vinna málið betur og ná betri sáttum? Sú spurning stendur opin og ég hef ekki fengið svar við henni sem ég átta mig á. Ég vil ítreka að lokum að mér finnst erfitt að ganga gegn vilja svo mætrar og ágætrar stéttar framhaldsskólakennara sem hafa látið sig svo eindreginn vilja sinn í ljós í þessu máli.



[20:45]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft og skylt að koma hér upp og svara spurningu hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar varðandi breytingartillöguna, hvort ekki hefði verið heppilegra að seinka allri gildistökunni. Ástæðan er sú að ég og hv. þingmaður, ásamt fleiri hv. þingmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd, höfum rætt þetta töluvert okkar á milli. Við erum búin að taka aukafundi eftir að málið var tekið úr nefndinni. Ég ráðfærði mig við þá sem betur vita hér á þingi, hvernig heppilegast sé að koma hlutunum fyrir, og þetta er sú leið sem var talin heppilegust, að ég myndi sem framsögumaður bera þessa breytingartillögu upp. Í staðinn fyrir að taka málið til baka inn í nefnd og fara að grauta í því þar er þetta sú leið sem var farin.

Ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.



[20:46]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að forseti misvirði það ekki við mig að ég sé hér að spyrja spurninganna og hv. þingmaður svari. Það á sennilega að vera á hinn veginn. En við skulum ekki fást um það. Ég geri ekki athugasemd við þessa málsmeðferð, alls ekki, en eftir sem áður stendur spurningin hvort það hefði ekki fremur verið fallið til þess að stuðla að sáttum við þá stétt kennara sem helst hefur beitt sér gegn þessu máli, framhaldsskólakennara, að fresta málinu alveg, fresta því að Alþingi samþykkti þetta frumvarp og freista þess að vinna málið áfram í sumar í samráði við hagaðila og leggja það síðan aftur fram á næsta þingi.



[20:47]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hvor leiðin sem er sé fær, þ.e. að ef sú breytingartillaga sem ég lagði fram verður samþykkt yrði tíminn nýttur í framhaldinu, sumarið og haustið nýtt, til að reyna að fara þann veg að sætta þau sjónarmið sem uppi eru sem okkur hv. þingmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd eru orðin mjög vel kunn. Ég tel að tímasetningin sé svo sem ágæt. Það er mjög gott að frumvarpið verði að lögum og að menn nýti tímann í framhaldinu, til 1. desember 2019, til að skila af sér og vinna að málinu og ná sáttum. Ég trúi ekki öðru en þeim sem treyst er fyrir uppeldi æsku Íslands auðnist að ná saman um farsæla niðurstöðu.



[20:49]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mál það sem við ræðum er býsna viðamikið og felur í sér umtalsverðar breytingar. Ég held að frumvarpið sé í fyrsta lagi lagt fram af góðum ásetningi, en eins og fram kemur skrifa ég undir álitið með fyrirvara. Í grunninn tel ég að málið sé gott og markmiðin góð, þ.e. að líta í ríkari mæli á skólann sem sinnir fræðsluskyldu og skólaskyldu, þ.e. skólaskyldunni upp að 16 ára aldri og síðan fræðsluskyldu til 18 ára aldurs, að mjög mikilvægt sé að við lítum á þetta sem eina heild. Þrátt fyrir að það sé ein heild eru samt eðli málsins samkvæmt mismunandi áherslur í kennslu, kennsluaðferðum og námsefni. Það leiðir auðvitað af sjálfu en við þurfum samt að líta einhvern veginn á þetta allt saman sem eina heild. Og þó að það sé ekki efni þessa frumvarps held ég að mjög æskilegt væri að skoðað yrði í framhaldinu að gera þær breytingar á skóla sem sinnir fræðsluskyldunni, þ.e. fræðslu barna upp að 18 ára aldri, að litið sé þetta sem einn skóla og horfa á þetta þannig. Ég held að í sjálfu sér geti frumvarpið verið ágætur liður í þeirri hugsun sem ég tel að við verðum að temja okkur og sé því, sem mestu máli skiptir, á endanum nemendunum fyrir bestu og sé til þess fallið að tryggja bestu menntunina. Aðalatriðið í málinu er að þeir sem í skólanum eru fái bestu menntun og kennslu sem nokkur möguleiki er á.

Óhætt er að segja, og kom fram hjá framsögumanni málsins, og hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni sem einnig hefur tekið til máls, að það er mjög miður að ekki hafi tekist — og sjálfsagt eru ýmsar ástæður fyrir því sem bæði er hægt að setja á reikning kennarasamtakanna, þ.e. fagfélaga kennara, og sjálfsagt að einhverju leyti á þá sem hafa verið að vinna þetta mál, undirbúa og kynna — að ná sammæli um að þetta sé allt saman til bóta. Þarf svo sem ekki að tala neitt rósamál í kringum það að ágreiningur er fyrst og fremst af hálfu framhaldsskólakennara um að málið sé gott, þeim þykir að vegið sé að sérstöðu þeirra og hlutverki í þessu kerfi.

Ég er reyndar ekki alveg sannfærður um að það sé að öllu leyti rétt mat, en það skiptir svo sem engu máli hvert mitt mat er í því ef það er mat kennaranna sjálfra sem í hlut eiga. Það er miður og að því lýtur sá fyrirvari sem við hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson gerðum og er búið að gera hér rækilega grein fyrir.

Lagt hefur verið í þá vegferð að reyna að finna grunn að því, eftir að frumvarpið kom fram og er komið til meðferðar þingsins, að ná einhvers konar betra samkomulagi um málið í heild sinni. Það hefur ekki alveg tekist og er auðvitað mjög miður. Ég held samt, og þó að ég tali mikið um mikilvægi þess að sammæli og sátt náist, að þegar búið er — ég er ekki að segja að það sé búið núna — að reyna til þrautar að ná samkomulagi um hvernig Alþingi og menntamálayfirvöld hafa hugsað sér að skipa málum verður á endanum að höggva á þann hnút. Auðvitað er best, ef hægt er, að leysa hnútinn og að því þurfum við að vinna og að því lýtur þessi fyrirvari.

Varðandi það hvort skynsamlegt er annaðhvort að fresta málinu í heild eða fallast á breytingartillögur sem hv. framsögumaður hefur lagt fram í eigin nafni, þ.e. að fresta gildistökunni og reyna að ná samkomulagi, veit ég ekki alveg hvað er best í því. Ég vil þó segja að ég held að á endanum skipti kannski ekki alveg höfuðmáli hvor leiðin er farin í rauninni. Málið snýst um að reyna að ná samkomulagi sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt og fyrir mína parta get ég í sjálfu sér fallist á breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram um þessa frestun á gildistökunni og tilraunum til að ná sáttum og jafnframt held ég að ég verði að taka fram að ég áskilji mér rétt til þess í framhaldinu þegar þessar sáttatilraunir allar hafa verið lagðar fram. Mér þykir líklegt að þær muni óhjákvæmilega leiða til þess að gera þurfi breytingar á þeim lögum sem fyrir verða. Ég held að mikilvægt sé að brýna það fyrir hæstv. menntamálaráðherra að hafa þá opin augu fyrir því hvort og hvað er hægt að gera annað en bara að takast á við hið einangraða vandamál, af því að málið fjallar um miklu meira en bara leyfisbréfið og þennan ágreining sem er uppi, eða mismunandi sjónarmið skulum við segja, milli kennarafélaganna um þátt uppeldis- og kennslufræðinnar og sérgreinarinnar hins vegar. Mjög mikilvægt er að horfa á málið allt og vita hvort hægt er að sníða það þannig — ég er ekki með neinar tillögur í því samhengi — að menn hafi mjög opinn huga þegar menn koma að þessu til að reyna að endurnýja málið með einhverjum hætti. Eða vera tilbúnir til þess ef það er það sem til þarf og leggja þá fram tillögur og frumvörp í þeim efnum. Ég veit að ekki mun standa á hv. allsherjar- og menntamálanefnd að takast á við það verkefni ef það kemur á hennar borð. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Þó að ég hafi talað um að á endanum þurfi að höggva á hnúta er gríðarlega mikilvægt að við reynum allt sem við getum til að leysa úr þessu máli með farsælum hætti.

Ég ætla að ljúka máli mínu á þessu, að það er eiginlega mikil ábyrgð sem hæstv. menntamálaráðherra fær í fangið, nauðug viljug sjálfsagt, að reyna að koma þessu þannig fyrir að víðtækari sátt geti orðið um málið. Ég vil að það komi fram úr þessum ræðustól að það er líka mikil ábyrgð á herðum kennarasamtakanna og kennarafélaganna allra að vinna að því af opnum huga að vita hvort hægt er að finna leiðir til að greiða úr þessu.



[20:59]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sem í daglegu tali, í þinghúsinu a.m.k., hefur oft verið kallað leyfisbréfamálið. Ég lýsti við 1. umr. ákveðnum efasemdum um þetta mál, hvort það væri í raun fullbúið og hvort líklegt væri að það næði þeim markmiðum sem m.a. koma fram í greinargerðinni, til að mynda eins og því að það leiði til þess að aðsókn í kennaranám muni aukast.

Ég lýsti líka áhyggjum mínum af því að ég sjái fyrir mér ákveðna hættu á því að dreifðari byggðir úti um land, svæði sem hafa átt erfitt með að ná til sín kennurum, gætu orðið verr settar en er núna og þá væri kannski ekki nægilega vel af stað farið. Mér finnst nefndin kannski ekki hafa tekið mikið á þessum áhyggjum og heldur ekki tekið nægjanlega á þeim áhyggjum sem framhaldsskólakennarar hafa lýst vegna málsins. Breytingartillögur nefndarinnar og breytingartillaga hv. þm. Þórarins Péturssonar eru hins vegar til bóta, það er óhætt að segja það, og munu vafalítið hjálpa til. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sá samráðshópur sem þarna er talað um að skipa skili áliti og komi tillögum sínum til þingsins og ráðherra og að þingnefndin eða ráðherra eftir atvikum hugleiði, ef ekki er komin almennileg sátt í málið þegar samráðshópurinn skilar af sér, að skoða hvort hægt væri að fresta málinu frekar til að ná betri sátt í því. Ég held að það skipti okkur öll og menntun í landinu alveg gríðarlega miklu máli að samstaða sé um að við séum að fara rétta leið og að sú leið sem verður farin verði menntakerfinu til heilla.



[21:02]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að byrja á að nefna að þótt ég eigi sæti í allsherjar- og menntamálanefnd var ég ekki viðstaddur fundinn þegar málið var afgreitt úr nefndinni og kom því ekki að samþykkt nefndarálitsins sem við ræðum hér. Eins og hefur komið fram hjá flestum ræðumönnum, heyrist mér, er alveg ljóst af umfjöllun nefndarinnar að fjölmörg tækifæri til framþróunar skólakerfisins eru í þeim hugmyndum sem koma fram í frumvarpinu. Hins vegar vantar ákveðinn herslumun upp á að allt gangi saman. Oft er það þannig að herslumunurinn er kannski mesti munurinn. Það birtist í því, sem hér hefur líka komið fram í umræðunni, að það hafa komið fram verulegar athugasemdir við málið sem ég tel mjög mikilvægt að bregðast við. En það næst ekki á þessu þingi, það næst ekki á vettvangi allsherjar- og menntamálanefndar fyrir þinglok sem verða væntanlega á morgun. Það er vinna sem þarf að gera af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Umfjöllun nefndarinnar snerist mikið um hugmyndina um eitt leyfisbréf til kennslu fyrir öll skólastig en fram hefur komið að Félag framhaldsskólakennara leggst eindregið gegn þeirri breytingu á meðan önnur félög innan vébanda Kennarasambandsins eru jákvæðari gagnvart þeirri breytingu. Að mínu mati er það lykilatriði, þegar löggjafinn breytir ákvæðum laga sem snúa beint að grundvallarréttindum vinnandi fólks, að þá sé það ekki gert í mikilli ósátt við þann hóp sem um ræðir. Hér er ég ekki að tala um að allir eigi að ganga fullkomlega sáttir frá borði heldur einfaldlega að ekki sé ólgandi ágreiningur um málið sem ég tel því miður vera stöðuna varðandi leyfisbréfin og framhaldsskólakennara sérstaklega. Þess vegna þykir mér sú breytingartillaga sem komin er frá hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni góð að því leyti að hún býr til ákveðið svigrúm til að freista þess að ná þeirri sátt sem þarf inn í málið með því að fresta gildistöku og bæta við ákvæði til bráðabirgða um starfshóp sem taki á þessum málum. Þar að auki held ég að með þessari frestun sé einfaldlega komið til móts við kaldan veruleika málsins sem er sá að innviðirnir voru væntanlega ekki tilbúnir að taka við þessari breytingu fyrir næsta skólaár. Menntamálastofnun hefði þurft að breyta sínum kerfum og væntanlega ekki náð því í tæka tíð þannig að þessi breytingartillaga er með góðri raunveruleikatengingu og ég fagna því. Það er samt mikilvægt að halda því til haga að þó að leyfisbréfin hafi tekið drjúgan hluta af umfjöllun nefndarinnar eru þau alls ekki eina atriðið sem vantar herslumuninn upp á.

Ég segi herslumun aftur af því að það vantar ekki svo mikið upp á. Það á að vera hægt að nýta nokkrar vikur, örfáa mánuði, á haustmisseri til að ná utan um þetta mál ef allir koma viljugir að borðinu. Sem dæmi um slík efnisatriði er það að kennararáði er falið víðtækt hlutverk í frumvarpinu. Það var bent á að hlutverk þess sé óljóst og að mikilvægt sé að skýra betur formlega stöðu ráðsins, m.a. með hliðsjón af hlutverki sambærilegra kennararáða erlendis. Svo er lögfesting hæfniviðmiða mikil breyting. Það var bent á að inntak þeirra einkenndist af núgildandi menntastefnu, en menntastefna er einmitt í endurskoðun þessa dagana, en jafnframt að árekstrar geti komið upp á milli hæfniviðmiðanna og gæða- og hæfniviðmiða sem háskólar hafa skilgreint um inntak kennaramenntunar sem sömuleiðis eru í endurskoðun þessa dagana. Það er mikið í deiglunni sem þetta mál hefði gott af því talast á við.

Þá hafa komið fram ábendingar um að frumvarpið dragi úr sérhæfðri hæfni og menntun kennara og þar sem afar mikilvægt er að útfærsla hæfniviðmiða sé vönduð og ígrunduð færi mögulega betur á að viðmiðin sjálf séu skilgreind í reglugerð frekar en í lögum eins og hér er lagt til. Þessi tvö atriði, kennararáð og hæfniviðmið, komu til að mynda fram í umsögn Kennarasambandsins, regnhlífarsamtaka kennara á Íslandi, og við þeim er ekki brugðist í tillögum allsherjar- og menntamálanefndar.

Þá var bent á að frumvarpinu er ætlað að tryggja atvinnuöryggi fyrir kennara sem flytja sig á milli skólastiga en þeir hafa til þessa þurft að stóla á tímabundna ráðningu sem leiðbeinendur. Þetta hefur verið bagalegt ástand fyrir þá kennara sem mætti auðvitað leysa með því að þeir sem reka skólana greiddu þeim einfaldlega laun sem kennurum frekar en að pína þá niður á leiðbeinendalaun eða að þeir sem reka skóla myndu meta starf leiðbeinandans nær því sem starf kennarans er metið, að framlag einstaklingsins væri metið meira. Það eru útfærsluatriði sem eiga kannski frekar heima í kjarasamningum, en þetta aukna flæði er eitthvað sem ýmis aðildarfélög Kennarasambandsins fagna. Á móti kemur að Alþýðusambandið t.d. setur spurningarmerki við það hvers vegna ekki sé leitað leiða til að styrkja stöðu þeirra sem ekki hafa kennaramenntun og leyfisbréf, svo sem leikskólaliða sem hafa búið við sama óöryggi og aðrir leiðbeinendur, að ganga á eins árs ráðningarsamningum en vera oft mjög góðir í sínu starfi. Eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði: Þú þarft bara að vera flinkur kennari með samkennd og frásagnarhæfileika og gott hjartalag.

Við þessu er ekki brugðist í tillögum allsherjar- og menntamálanefndar en ætti vel heima í þeirri skoðun sem fram undan er.

Þá stöndum við eftir með spurninguna sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson spurði: Ja, ef við erum hvort eð er að fresta málinu með því að fresta gildistöku þess, af hverju þá ekki að fresta afgreiðslu málsins líka? Við höfum tvær leiðir að þessu. Við getum breytt lögunum í dag og skapað sáttina á morgun. Út á það gengur breytingartillagan frá Þórarni Inga Péturssyni. Hins vegar getum við skapað sáttina í dag og breytt lögunum á morgun. Ég er hrifnari af síðari útgáfunni af því að hin útgáfan, sú sem byggir á breytingartillögunni sem hér liggur fyrir, felur í sér þá áhættu að samtalið í sáttanefndinni renni út í sandinn og þá stöndum við frammi fyrir því í lok þessa árs, þegar lögin taka gildi, að ekki hefur skapast nein sátt og ekki hafa unnist neinar breytingar á málinu. Þar með hefðum við gert það sem mér þykir svo mikilvægt að við gerum ekki, þar með hefðum við breytt ákvæðum laga sem snúa beint að grundvallarréttindum vinnandi fólks í bullandi ósætti við þann hóp.



[21:12]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég verð alveg að viðurkenna að það er engin sérstök hrifning hjá mér hvað þetta frumvarp varðar. Ég er ekki að segja að ég sé endilega á móti því eða greiði atkvæði á móti því en ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að það skapi meiri vanda en það á að leysa. Í nefndarálitinu segir að tilefni frumvarpsins sé skortur á kennurum og nýliðun í kennarastétt. Nú eru að vísu fréttir um annað. Ég verð að vera viss um að hér sé á ferð eitthvað sem er til bóta miðað við núverandi aðstæður.

Það er heilmikil andstaða við þetta frumvarp, sérstaklega hjá framhaldsskólakennurum. Í mínum huga eru skólastigin bara gjörólík. Ég velti fyrir mér að á sama tíma og við erum að lengja kennaranámið, hvort sem er hjá leikskólakennurum eða grunnskólakennurum, við erum nýbúin að lengja það úr þremur árum í fimm til að tryggja að það sé góð, fagleg þekking til að kenna þessum aldurshópi, er það næsta sem við gerum að heimila fólki sem hefur kannski tekið BA-gráðu eða MA-gráðu eða BS-/MS-gráðu í háskóla og tekið kennslufræði í einn vetur að fara að kenna þessum sömu krökkum, fá leyfisbréf upp á það. Til hvers vorum við þá að breyta þessu námi úr þremur árum í fimm ár? Hér er einhvern veginn verið að flakka fram og til baka, gefa ein skilaboð um að það sé svo mikilvægt þegar við kennum börnunum okkar, yngstu börnunum, að menn hafi fimm ára háskólanám eftir stúdentspróf, en svo getum við haft einhvern úr háskóla sem lærir þar í þrjú ár eða jafnvel fimm og einn vetur í kennslufræði og hann getur farið að kenna. Við getum ekki hugsað okkur að gefa leikskólaliða sem er búinn að fara á öll námskeið og hefur haft umsjón leikskólakennara, jafnvel í 30 ár, leyfisbréf til að kenna, bara alls ekki.

Ég skynja að það er mest andstaða hjá framhaldsskólakennurum við þetta. Ég hefði samt haldið að það gæti einna mest gagnast þeim, mestir möguleikar fyrir þá af öllum. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér að skólastjórnendur framhaldsskóla þar sem gerð er krafa um mjög mikla fagþekkingu á því fagi sem viðkomandi kennir telji að grunnskólakennarar og leikskólakennarar, með fullri virðingu fyrir þeim, hafi slíka þekkingu til að kenna fögin, enda er bara gjörólíkt að kenna í framhaldsskóla og að kenna börnum í grunnskóla. Ég tala nú ekki um leikskóla. Það kann samt að vera einhver skurðpunktur með efstu bekkjum í grunnskólanum. En ég tel miklu eðlilegra að skoða þetta aðeins betur og fara betur yfir þetta, það gæti verið eðlilegt að framhaldsskólakennarar gætu kennt líka í efstu bekkjum grunnskóla þar sem er meira verið að kenna fagið en að halda alveg utan um börnin, eða unglingana í því tilviki. Ég óttast að þetta muni skapa meiri vanda en var ætlað að leysa, ég tala nú ekki um ef öll kennarastéttin er einhvern veginn upp í loft, meira og minna, í sambandi við þetta frumvarp.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er stjórnarfrumvarp og ég er í stjórnarmeirihlutanum og hef alveg sérstakar mætur á framsögumanni þessa máls en þrátt fyrir það er mjög erfitt fyrir mig að samþykkja það þótt óvíst sé að ég setji mig sérstaklega á móti því. Ég vildi bara benda á þetta. Ég tel eðlilegt að skoða málið betur og tek því undir með hv. þingmönnum Guðmundi Andra Thorssyni og Jóni Steindóri Valdimarssyni sem eru með fyrirvara. Þetta eru viðamiklar breytingar og þær geta haft ýmsar afleiðingar. Við þurfum að skoða öll tilvik sem gætu komið upp og freista þess að fara betur yfir þetta, ná meiri samstöðu, hugsanlega finna einhverjar breytingar, hafa einhverja skurðpunkta — sem gætu verið þá leikskólakennarar og yngstu árin í grunnskóla með sama leyfið, og efstu bekkirnir í grunnskólanum og svo framhaldsskólinn gætu verið með einhvers konar leyfisbréf. En ef er bara eitt leyfisbréf yfir allt, eins ólík og þessi skólastig eru að mörgu leyti, alla vega á ákveðnum aldri, held ég að það væri alveg þjóðráð að skoða þetta betur.

Ég er að hugsa um að láta þetta gott heita.



[21:19]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Þetta er fyrir margra hluta sakir áhugavert mál sem rætt er hér, það mál sem við höfum rætt um sem eitt leyfisbréf. Hugsunin eða pælingin á bak við það er góð að mínu mati, að auka sveigjanleika og möguleika í starfi kennara, hvort sem það er á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi. Verið er að halda áfram þeirri hugsun sem þverpólitísk samstaða hefur verið um að auka starfsöryggi og fjölbreytni í starfsumhverfi kennara, möguleika þeirra á að fara á milli skólastiga en um leið að nota það í þeim tilgangi að efla og styrkja kerfið og gera það fjölbreyttara þannig að hægt sé að mæta ólíkum þörfum allra þeirra ólíku einstaklinga sem eru innan skólakerfisins. Og við erum alltaf að taka, að mínu mati, hverju sinni jákvæð skref fram á við í þá átt.

Lenging kennaranáms hefur verið umdeild. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt skref, sannfærð um að það hafi verið rétt skref að lengja kennaranámið. Margir segja að umsóknum í kennaranámið hafi fækkað eftir að það var lengt. Það er ekki rétt, umsóknum var þegar byrjað að fækka á árunum 2003–2004. Ákveðin þróun var alveg til ársins 2010 í kennaranám sem var kannski ekki nægilega jákvæð. Lenging kennaranámsins var fyrst og fremst sett fram í tengslum við heildstæða endurskoðun á skólalöggjöfinni í leik-, grunn- og framhaldsskóla, og kröfum sem við settum fram á sínum tíma og, eins og ég segi, þverpólitísk samstaða var um lengingu kennaranámsins í fimm ár. Mikið var talað um Finnland og markvisst litið til Finnlands varðandi kennaranámið og líka unnið í mikilli samstöðu við alla kennarastéttina, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa það í huga að það var ekki sjálfgefið, en það skiptir máli að að þeirri breytingu var unnið í samstöðu við kennarastéttina og fyrirmynda var m.a. leitað til Finnlands.

Ég hef hins vegar gagnrýnt það einu sinni, tvisvar og oftar úr þessum ræðustól að eftir gildistöku laganna og síðan má kannski segja eftir hrun hafi útfærslunni á kennaranáminu ekki verið fylgt nægilega eftir. Útfærslan ein og sér átti ekki að vera þannig að það væri eingöngu lenging á kennslufræðinni sem slíkri heldur átti að fara í það að auka starfskennslu, vinnu á vettvangi, en það var ekki gert nægilega markvisst. Því vil ég fagna að verið er að vinna að því í dag. Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt erum við ekki að hvika frá þeirri kröfu, en erum að gera það í rauninni eins og vilji löggjafans á sínum tíma var, að víkka það út, annars vegar að efla fagþekkingu og kennslufræði en hins vegar að fara líka út í það að auka reynslu á vettvangi og fara þá einnig í markvissara samstarf við sveitarfélögin sem m.a. bera ábyrgð á leik- og grunnskólastiginu og gera það sama síðan við framhaldsskólastigið.

Þetta er svona það sem mér finnst mikilvægt að halda til haga, að við sýnum að við gerum ekki minni kröfur til kennara og menntunar kennara en til annarra mikilvægra starfa sem við leggjum áherslu á í íslensku samfélagi. Þetta er lykilstaða fyrir íslenskt samfélag og framþróun þess til að afla ákveðinna tækifæra og gera börnin okkar og samfélagið í stakk búið til að takast á við fjölbreytta framtíð sem bíður okkar og verður að vera þannig. Það þýðir að við þurfum að hafa öfluga kennara, sem við höfum, eins og lýst hefur verið og ég sé hv. þm. Guðmund Andra Thorsson sem hélt einmitt fína ræðu um hvernig við sjáum kennarana, hvaða eiginleika þeir eiga að hafa og við getum blessunarlega horft upp á það dagsdaglega, við sem eigum börn sem hafa farið í gegnum öll skólastig.

Mikilvægt er að sjá þennan sveigjanleika á milli, gera kerfið þannig að það verði sveigjanlegt en ekki slaka á kröfum, að við höfum ákveðinn metnað og ákveðna sýn til skemmri sem lengri tíma. Og hægt er að hjálpast að með margt. Ég tel til að mynda að breytingar á lánasjóðskerfinu sem stefnt er að séu til bóta.

Það sem ég staldra hins vegar við núna er að ég tel að í fyrsta lagi sé hægt að ná þessu fram undir núverandi fyrirkomulagi og láta reyna á þennan sveigjanleika sem nú er til staðar í löggjöf, til að mynda að framhaldsskólakennarar eða grunnskólakennarar geti farið á milli.

Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir eru innan Kennarasambandsins. Leik- og grunnskólakennarar vilja þessa breytingu en framhaldsskólakennarar hafa varann á sér. Það er skiljanlegt. Ég skynja það þannig að þó að þetta mál hafi verið vel unnið af hálfu nefndarinnar verði bara betra að gefa því örlítið meiri tíma. Þó er tillaga hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar allrar athygli verð. Ég held að þar sé einmitt verið að reyna að nálgast þessi sjónarmið með því að framlengja og ég held að hún yrði a.m.k. til bóta, en varðandi öll þau mál sem hafa verið erfið eða umdeild þvert á flokka í gegnum tíðina — ef þau hafa fengið aðeins meiri tíma til að gerjast og þroskast, veita meira svigrúm til þess og tækifæri til að tala saman við viðkomandi hagaðila, kerfið líka sem slíkt, hvort sem það er Menntamálastofnun eða menntamálaráðuneyti, þá hafa þau alltaf batnað. Ég man ekki eftir neinu máli sem hefur verið sett í bið, flutt aftur og síðan samþykkt, hafi versnað við það. Í fljótu bragði man ég ekki eftir því að mál hafi versnað við það að verða síðan samþykkt á næsta þingi.

Mér finnst vera svo mikið undir. Það er svo mikið undir að við náum breytingum í sem mestri sátt. Ég tala af ágætri reynslu þar, ég vona að ég hljómi ekki stútfull af hroka, en ég rak mig á að fara af stað með ákveðnar breytingar í ekki nægilega miklu samráði við kennaraforystuna og ýmsa aðra. Það var ágætt að staldra aðeins við og ná m.a. tíu punkta eða skrefa samkomulaginu á sínum tíma sem hafði mikla þýðingu fyrir alla vinnu síðar varðandi heildstæða löggjöf í skólunum, kennaramenntunina og margt fleira má telja. Í mestu vinsemd tel ég betra fyrir þessa mikilvægu hugsun sem er undirliggjandi í frumvarpinu, og ég tek undir, varðandi sveigjanleika í námi og möguleika kennara, að gefa málinu meiri tíma. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra myndi gera allt til þess að ná enn ríkari og meiri samstöðu og ég undirstrika að ég er sannfærð um að málið myndi ekki versna. Það er þess virði að láta á það reyna og mér hugnast heldur ekki miðað við þá tóna — ég segi eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði, ég er ekki einu sinni með þær vonir og væntingar að hægt sé að ná samstöðu um öll mál. Það er ekki þannig og ekki heldur í þessu, en það er hægt að ná meiri samstöðu en nú er. Það fer ekki allt alveg mótatkvæðalaust hér í gegn.

Ég velti fyrir mér, ef það er rétt sem maður heyrir og skynjar innan kennarastéttarinnar að kennarastéttin verði sundruð, hugsanlega að kennarasamtökin tvístrist, þá spyr ég, af því að við erum að afgreiða þetta núna með þessum hætti: Fyrir hverja er það til hagsbóta? Er það til hagsbóta fyrir skólakerfið eða fyrir kennarastéttina sem slíka að hafa ekki látið reyna á enn meiri samstöðu? Fyrir hverja er sundruð kennarastétt til hagsbóta? Hún er ekki til hagsbóta fyrir skólakerfið sem slíkt, skólana, nemendur sem vita að þeir fara í leikskóla, grunnskóla og langflestir í framhaldsskóla. Það þarf að vera fallegt samtal þarna á milli. Þrátt fyrir ákveðinn ágreining verður að vera teygja og sveigjanleiki þar á milli og samtalsbið líka þannig að ég velti fyrir mér fyrir hverja sundruð kennarastétt er. Hún er kannski best fyrir pólitíkusa, kannski best fyrir menntamálaráðherra og stjórnendur hverju sinni að taka hverja stétt fyrir sig, það er kannski betra en að taka stéttina heildstæða, en mér hugnast ekki sú sýn.

Þess vegna segi ég enn og aftur í mestu vinsemd að þetta er mál sem ég tel að hægt verði að vinna betur í sumar og strax á haustdögum og vinna síðan á næsta þingi. Við í Viðreisn höfum sýnt að við höfum nálgast svona snúin mál málefnalega. Við erum lausnamiðuð, við erum ekki að gera það til að tefja málið, við erum að setja þetta fram, eða ég fyrir mína parta, til að það náist meiri samfella í nálgun og samstaða í þessu áhugaverða máli sem snertir eitt leyfisbréf.

Fleira var það kannski ekki af minni hálfu en ég vona að sagan hjálpi okkur til að skilja þessa nálgun mína. Ég held að það sé þess virði að láta á það reyna að fara í eina yfirferð í viðbót, þó að ég undirstriki að nefndin hefur unnið þetta vel, ráðuneytið, ekki spurning, og líka tillaga hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar varðandi breytingu á þessu. Mér finnst þetta meira en umhugsunar virði og hvet ráðherra og þingið til að huga betur að þessu. Einnig er vert að draga fram að þetta er eitt af þeim málum sem við í hinni ábyrgu stjórnarandstöðu drógum fram og sögðum: Þetta getur orðið snúið. Þetta getur valdið ákveðnum núningi á síðustu metrum. Þetta mál er nokkuð umdeilt en á móti kemur að það var alveg skýrt af hálfu forystufólks ríkisstjórnarflokkanna, forsætisráðherra, formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins, að menn lögðu áherslu á að fá þetta afgreitt. Ég skil alveg að menn vilji fá málin afgreidd en þetta er mál sem ég tel að geti orðið enn þá betra með aðeins meiri yfirlegu og umfjöllun.