149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

801. mál
[20:35]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef í allsherjar- og menntamálanefnd komið nálægt því að vinna þetta mál og hef fylgst með því. Það hefur að mörgu leyti verið mjög fróðleg og ánægjuleg reynsla en það hefur líka verið dálítið erfið reynsla. Mín reynsla af skólakerfinu er sú ein að vera þar nemandi og raunar foreldri líka en mín persónulega reynsla er fyrst og fremst sú að hafa verið nemandi, og þegar maður er nemandi hefur kennarinn alltaf rétt fyrir sér. Maður hefur það fyrir satt sem kennarinn segir og þegar maður situr svo sem nefndarmaður og það streyma fyrir mann kennarar sem eru hver öðrum mælskari og meira sannfærandi fer ekki hjá því að maður verði örlítið ráðvilltur þegar þessir kennarar halda mjög ólíkum hlutum fram og eru nánast komnir í hár saman. Maður veit eiginlega ekki sitt rjúkandi ráð.

Það er erfitt að gera upp á milli þessara sjónarmiða og ég tel að það sé mjög mikils til vinnandi að reyna til þrautar að sætta þau ólíku sjónarmið sem þarna eru uppi skólakerfinu og ungu fólki landsins til heilla. Ég held að kennari þurfi náttúrlega að vera margvíslegum og alveg ótrúlegustu kostum búinn en kennari þarf að mínu mati fyrst og fremst að kunna að kenna. Ég held að það sé númer eitt og þess vegna held ég að það sé gott, eins og stefnt er að í þessu máli, að sú stoð kennslustarfsins sem snýr að uppeldis- og kennslufræði sé styrkt. Ég held að kennari þurfi að kunna fagið að kenna. Ég held að kennsla sé sérstakt og mjög sérhæft fag og að öllu varði að ná valdi á því fyrir kennarann. Auðvitað verður kennarinn að hafa til að bera djúpan mannskilning og hann þarf að hafa kærleika og umburðarlyndi í miklum mæli og hann þarf líka að hafa djúpa og góða þekkingu á því efni sem hann er að kenna en fyrst og fremst þarf hann að kunna fagið að kenna. Ég er ekkert frá því að það sé til bóta að auka þátt kennslufræði í þessu fagi, jafnvel þó að það kunni að líta svo út sem það sé á kostnað svokallaðrar fagþekkingar, þ.e. þekkingar á þeirri kennslugrein sem kennd er hverju sinni, sem kennarinn þarf vissulega að hafa gott vald á en hann þarf kannski ekki að vera postdoktor í.

Markmiðið með þessu frumvarpi sýnist mér vera jákvætt og gott sem er að greiða fyrir fjölbreytni og fjölbreyttri starfsþróun kennara og greiða fyrir því að það geti átt sér stað mikið, öflugt og gott flæði milli skólastiga og það verði aukið starfsöryggi kennara, þ.e. þegar þeir missa starf á einu skólastigi eigi þeir greiða leið á annað skólastig án þess að þurfa að sæta því að vera þar í hlutverki leiðbeinenda og búa við starfsóöryggi. Þetta hefur verið vandamál og hefur skort í gildandi lagaumhverfi, að þetta flæði sé eðlilegt og náttúrulegt og þrátt fyrir tilraunir til að ráða bót á hafa þær einfaldlega ekki borið árangur. Það ríkir augljóslega óvissa þarna sem þetta frumvarp mun bæta úr.

Það hafa komið fram áhyggjur, aðallega af hálfu framhaldsskólakennara, af því að verið sé að draga úr kröfum um sérhæfingu kennara. Þeir óttast sem sé að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til þess hversu sérhæft og sérstakt starf kennsla á hverju skólastigi er og þeir leggja eðlilega áherslu á sitt skólastig sem þeir hafa þekkingu á sem er framhaldsskólinn. Á móti hefur því verið svarað að ekki sé stefnt að því að draga úr kröfum til sérhæfni í menntun og á það hefur verið bent að skólastjórar geta í atvinnuauglýsingum krafist sérstakrar og frekari sérhæfingar og skólastjórnendur geta valið kennara eftir því sem hentar best þeirra skólum. Þetta þarf reynslan náttúrlega að leiða í ljós og eins álitamál sem komið hafa upp varðandi kennararáð sem er ætlað að verða nokkurs konar samstarfsráð um þróun þessa hæfniramma og á að hafa ráðgefandi hlutverk fyrir ráðherrann. Reynslan þarf bara að leiða í ljós hvernig það gefst.

Við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson skrifuðum undir nefndarálitið með fyrirvara sem ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér:

„Guðmundur Andri Thorsson og Jón Steindór Valdimarsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Þeir telja að í ljósi þess hve viðamiklar breytingar felast í frumvarpinu sem varða kennarastéttina í heild hefði málið þarfnast betri undirbúnings þannig að unnt væri að ná breiðari samstöðu um það meðal stéttarinnar. Þeir telja málið engu að síður horfa til framfara og styðja það í trausti þess að áfram verði unnið að sáttum um það og niðurstaðan verði betra og sveigjanlegra skólakerfi, nemendum og kennurum til hagsbóta.“

Þegar við hv. þingmaður settum þennan fyrirvara við frumvarpið var ekki komin fram breytingartillaga um að fresta gildistöku þessa máls og skipa starfshóp sem væri skipaður fulltrúum ólíkra og ýmissa skólastiga. Þegar þessi breytingartillaga er komin fram vaknar spurningin: Ja, af hverju ekki bara þá að fresta sjálfu málinu þennan tíma sem á að taka sér til að vinna málið betur og ná betri sáttum? Sú spurning stendur opin og ég hef ekki fengið svar við henni sem ég átta mig á. Ég vil ítreka að lokum að mér finnst erfitt að ganga gegn vilja svo mætrar og ágætrar stéttar framhaldsskólakennara sem hafa látið sig svo eindreginn vilja sinn í ljós í þessu máli.