131. löggjafarþing — 113. fundur
 19. apríl 2005.
Lánasjóður landbúnaðarins, 1. umræða.
stjfrv., 786. mál (afnám laganna). — Þskj. 1164.

[20:35]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Lánasjóð landbúnaðarins á þskj. 1164, 786. máli. Með frumvarpi þessu er lagt til að landbúnaðarráðherra verði heimilt að selja allar eignir og semja um yfirtöku skulda Lánasjóðs landbúnaðarins. Einnig er gert ráð fyrir því að söluandvirði sjóðsins, að frádregnum kostnaði við sölu og niðurlagningu hans, renni til Lífeyrissjóðs bænda. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að starfsemi sjóðsins verði hætt um næstu áramót. Gert er ráð fyrir því að störf starfsmanna Lánasjóðs landbúnaðarins falli niður frá og með sama tíma og fer um réttindi og skyldur þeirra samkvæmt lögum nr. 70/1998, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Þegar starfsemi sjóðsins verður hætt tekur ríkissjóður við öllum réttindum og skyldum sjóðsins gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Í athugasemdum við frumvarp þetta segir að gert sé ráð fyrir að einkavæðingarnefnd verði falin framkvæmd sölunnar og að nauðsynlegt sé að fram fari mat á væntanlegum kaupanda þar sem stór hluti skuldbindinga sjóðsins er í formi óuppgreiðanlegra skuldabréfa með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs. Þá tel ég einnig mikilvægt í söluferlinu að hugað verði að hag starfsmanna sjóðsins svo og viðskiptavina hans, bændanna í landinu.

Lánasjóður landbúnaðarins var stofnaður á grunni Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Meginhlutverk sjóðsins er að tryggja landbúnaðinum aðgang að lánsfé til fjárfestinga á hagstæðum kjörum og stuðla að æskilegri þróun atvinnuvegarins. Miklar breytingar hafa orðið á síðustu árum á innlendum lánsfjármarkaði. Er nú svo komið að bankar og sparisjóðir geta í mörgum tilvikum boðið upp á sambærileg eða hagstæðari lán en Lánasjóður landbúnaðarins. Hefur það valdið samdrætti í útlánum sjóðsins. Þá hafa einnig aukist óútskýrðar uppgreiðslur lána hjá sjóðnum.

Í ljósi þessa ákvað ég í upphafi þessa árs að skipa sérstaka verkefnisstjórn til að fjalla um stöðu og framtíð Lánasjóðs landbúnaðarins. Tilnefndu Bændasamtök Íslands tvo af fimm nefndarmönnum. Einn var tilnefndur af stjórn Lánasjóðs landbúnaðarins og tveir fulltrúar komu frá landbúnaðarráðuneytinu. Verkefnisstjórninni var falið að endurskoða framtíðarhlutverk og tilgang Lánasjóðs landbúnaðarins í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á fjármálamarkaði hér á landi.

Verkefnisstjórnin lauk störfum rétt fyrir páska og skilaði til mín áliti. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Það er mat verkefnisstjórnarinnar að miðað við núverandi aðstæður komi vart til greina að Lánasjóður landbúnaðarins verði rekinn áfram í óbreyttri mynd. Gjörbreyttar aðstæður á fjármálamarkaði, óvissa um framtíðarskipan búnaðargjalds og samkeppnisstaða sjóðsins sem fjármálafyrirtækis benda ótvírætt í þessa átt.“

Þá var fjallað um málefni lánasjóðsins á búnaðarþingi sem haldið var 6.–10. mars síðastliðinn en þingið samþykkti m.a., með leyfi forseta: „… í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði verði tæpast forsendur til áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til lánasjóðsins.“

Verkefnisstjórnin mat ályktun búnaðarþings þannig að þingið telji einungis tímaspursmál hvenær hætt verði innheimtu búnaðargjalds til Lánasjóðs landbúnaðarins. Ein af meginforsendum fyrir þessu mati er sú að nokkur hluti viðskiptavina Lánasjóðs landbúnaðarins hefur greitt upp lán sín og flutt viðskipti sín til annarra fjármálastofnana. Því er líklegt að krafan um að hætt verði innheimtu búnaðargjalds til lánasjóðsins verði sterkari eftir því sem fram líða stundir. Það er ljóst að sjóðurinn á í vök að verjast og niðurfelling búnaðargjalds mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu sjóðsins til lengri tíma litið. Þá er það athyglisvert að þótt sú verði raunin að búnaðargjaldið renni áfram til sjóðsins þá verður erfitt að viðhalda eigin fé sjóðsins í breyttu umhverfi en samkvæmt núgildandi lögum ber að viðhalda eigin fé sjóðsins að raungildi.

Hæstv. forseti. Niðurstöðurnar af vinnu verkefnisstjórnarinnar eru í stuttu máli eftirfarandi:

1. Vaxtaáhætta vegna uppgreiðslumöguleika á útlánum sjóðsins en ekki á skuldbindingum hans er veruleg, sérstaklega í ljósi aukinnar samkeppni. Vaxtaáhættan er einkum vegna þess að útlán sjóðsins eru uppgreiðanleg án sérstaks gjalds en lántökur sjóðsins eru í óuppgreiðanlegum skuldabréfum. Uppgreiðslur á útlánum sjóðsins hafa aukist verulega frá júlí á síðasta ári og virðast þær auknu uppgreiðslur halda áfram á þessu ári.

2. Afnám búnaðargjalds mun neyða sjóðinn til að hækka vexti sem mun auka uppgreiðslur enn frekar.

3. Í ljósi lágra og lækkandi langtímavaxta virðist afar takmarkað rými til vaxtahækkana til að mæta rýrnun eigin fjár og virðist það rými bundið við útlán á lægri vöxtum.

4. Niðurstaða útreikninga bendir til þess að eiginfjárstaða rýrni um 2.250 millj. kr. árið 2015 við afnám búnaðargjalds að öðru óbreyttu, þ.e. ef búnaðargjaldið yrði afnumið og sjóðurinn rekinn áfram.

5. Niðurstöður útreikninga eru þær í meginatriðum að vextir útlána sjóðsins þurfi að hækka umtalsvert til að viðhalda raunvirði eigin fjár eða að lágmarki tæp 2%, en lánasjóðnum er skylt að viðhalda eigin fé sjóðsins samkvæmt lögum nr. 68/1997. Það mun enn frekar auka tilhneigingu skuldara til frekari uppgreiðslna. Verkefnisstjórnin taldi því erfitt fyrir lánasjóðinn að viðhalda eigin fé sjóðsins til lengri tíma litið vegna skertrar samkeppnisstöðu og því væri nauðsynlegt að bregðast hratt við.

Líklegt er að stærri viðskiptavinir sjóðsins hverfi fyrstir og minni viðskiptavinir sitji eftir. Auknar uppgreiðslur þýða hækkun á handbæru fé sem leiðir til þess að sjóðurinn þróast í að verða einhvers konar fjárfestingarsjóður með fullar skúffur fjár. Í framreikningum er gert ráð fyrir að uppgreiðslur útlána beinist í auknum mæli að útlánum á hærri vöxtum. Þetta leiðir til þess að meðalvextir útlána fara lækkandi úr um 4,7% á þessu ári í um 4,05% árið 2015, miðað við niðurstöður verkefnisstjórnar. Sjóðurinn virðist of lítill með tilliti til rekstrarlegrar hagkvæmni.

Hæstv. forseti. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að söluandvirði Lánasjóðs landbúnaðarins renni til styrkingar Lífeyrissjóðs bænda.

Margvísleg rök eru fyrir þessari ráðstöfun en helst ber að nefna að undir lok 8. áratugar síðustu aldar var höfuðstóll Stofnlánadeildar landbúnaðarins orðinn neikvæður. Árið 1978 var tekið upp lánajöfnunargjald, 1%, sem lagt var á alla búvörusölu til viðbótar þeirri gjaldtöku sem fyrir var. Síðari árin var gjaldtakan samtals 2% og lagðist á heildsöluverð auk 0,25% hlutar í búnaðarmálasjóðsgjaldi sem lagt var á verð til framleiðenda. Frá árinu 1998 hefur verið innheimt búnaðargjald og hefur stór hluti þess runnið til Lánasjóðs landbúnaðarins eða um 140 millj. kr. á ári síðustu ár. Eigið fé Lánasjóðs landbúnaðarins hefur því myndast og verið viðhaldið á síðasta aldarfjórðungi af lánaviðskiptum við bændur og innheimtu sjóðagjalda sem bændur hafa borið.

Einnig ber að minnast þess að þegar Lífeyrissjóður bænda var stofnaður, 1971, var ákveðið að taka sérstaklega á málum bænda, sem fæddir voru 1914 eða fyrr. Sjóðnum var ekki gert að greiða þeim lífeyri heldur tók ríkið það á sig að hluta, 62,5%, en Stofnlánadeild var gert að greiða hluta lífeyrisins, 37,5%. Lífeyrissjóði bænda var á hinn bóginn gert að lána Stofnlánadeildinni óverðtryggt um árabil til að mæta þessum kostnaði deildarinnar. Þá er í 11. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, kveðið á um að arð af eigin fé megi einungis „nota til að lækka vexti af útlánum sjóðsins … nema raungildi sjóðsins hafi rýrnað“. Í athugasemd um þessa grein í lagafrumvarpinu sagði á sínum tíma: „Ákvæðið um að arð af eigin fé skuli einungis heimilt að nota til að lækka vexti á útlánum sjóðsins er sett vegna þess að eigið fé er byggt upp með gjöldum sem annars vegar hafa verið lögð á búvöruframleiðendur og hins vegar á búvöruframleiðsluna …“ Það var augljós vilji löggjafans á þessum tíma að bændur landsins skyldu njóta eigin fjár sjóðsins.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins, er búnaðargjald einn af tekjustofnum sjóðsins. Í 6. gr. laga nr. 84/1997, um búnaðargjald, sbr. 4. gr. laga nr. 166/2002, um breytingu á þeim lögum, kemur fram hlutfallsleg skipting tekna af búnaðargjaldi eftir afurðum. Ef frumvarpið verður að lögum er ljóst að breyta þarf lögum nr. 68/1997, um búnaðargjald, með áorðnum breytingum, þar sem kveða þarf á um hlut Lánasjóðs landbúnaðarins í búnaðargjaldinu. Þau lög þurfa að taka gildi fyrir 31. desember 2005.

Ég geri ráð fyrir að koma með slíkt frumvarp á þingið í haust eða þegar landbúnaðarráðuneytið í samvinnu við Bændasamtök Íslands hafa komist að nýju samkomulagi um innheimtu búnaðargjalds og ráðstöfun þess.

Ég mæli einnig fyrir breytingum á ýmsum lögum vegna sölu Lánasjóðs landbúnaðarins og niðurlagningu hans sem er nauðsynlegt til samræmis við það sem hér hefur verið rakið. Á þetta við um 47. gr. jarðalaga, 100. gr. laga um lax- og silungsveiði og 28. gr. laga um skógrækt.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.



[20:48]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það má sjálfsagt telja það tímanna tákn og hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, flytti frumvarp til laga um að einkavæða Lánasjóð landbúnaðarins, leggja hann niður, selja hann og færa verkefnið yfir í einkarekstur og afskrifa þann félagslega fjárfestingarlánasjóð sem bændur byggðu upp og var um áratugi ein af kjölfestustofnunum í uppbyggingu íslensks landbúnaðar og hefur óumdeilanlega leikið mikið hlutverk.

Að sjálfsögðu er ekkert óumbreytanlegt og nýjar aðstæður geta kallað á nýjar lausnir. Það blasir við mönnum að rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins er erfiður í óbreyttri mynd, a.m.k. eins og aðstæður eru í augnablikinu og vegna utanaðkomandi áhrifa á starfsemi hans, sérstaklega þau gylliboð sem sumar bankastofnanir hafa allt í einu séð sér fært að veita vel völdum viðskiptavinum sjóðsins, svipað og ákveðnar bankastofnanir fundu allt í einu upp á síðsumars, að þær gætu boðið almenningi miklu hagstæðari lán til húsnæðiskaupa en þær höfðu áður látið hvarfla að sér. Vel að merkja gerðist það ekki fyrr en sömu bankastofnanir höfðu tapað máli fyrir Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þær hugðust knésetja Íbúðalánasjóð með þeim aðferðum. Þegar það tókst ekki fundu bankastjórarnir allt í einu forsendur í sínum ranni til að stórlækka vexti til íbúðalána, fara með hlutfall upp í 90% og síðan 100% um tíma og mætti margt um það segja.

Ég held því að menn ættu í fyrsta lagi áður en þeir hrapa að niðurstöðum í málinu, að greina svolítið ástæðurnar sem að baki liggja og velta því fyrir sér hvers vegna tvísýnar horfur séu um áframhaldandi rekstur stofnlánadeildarinnar um sinn. Er það eitthvað sem er endilega komið til með að vera?

Í öðru lagi verða menn auðvitað að spyrja sig að því, þó svo menn standi frammi fyrir einhverjum erfiðleikum, hvort einfaldasta leiðin að leysa þá erfiðleika sé að gefast upp, leggja niður skottið og gefast upp með það að landbúnaðurinn eigi sér trygga stofnfjármögnun til fjárfestinga og uppbyggingar í greininni sem tryggir aðilum jafnræði og aðgang að fjármagni án þess að þeir þurfi að ganga svipuð göng eftir aðstæðum hver fyrir sína lánastofnun og láta reyna á kjör sín þar.

Ég verð að segja alveg eins og er að þegar maður horfir til reynslunnar sem margir mæra mjög um þessar mundir af einkavæðingu bankanna og einkavæðingu fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, sjávarútvegsins og iðnaðarins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðan áfram leiðina í Íslandsbanka, eru tvær hliðar á því máli. Menn bera sig vel á veltitímum á meðan afkoma bankanna er góð og telja sig vera að sigra heiminn, en það er ekki sömu sögu að segja alls staðar á landsbyggðinni þar sem einyrkjar í útgerð eða menn sem eru að baksa við að byggja upp iðnað, utan við 101, segja. Ég geri ráð fyrir að hæstv. landbúnaðarráðherra, þó hann sé ekki nema af Suðurlandinu, þekki það að það hefur ekki verið þrautalaust hjá öllum sem fyrrum gengu að þessari grunnfjármögnun í atvinnuuppbyggingu sinni vísri. Ég veit dæmi um að menn hafa mátt berjast í bönkum í bókstaflegri merkingu mánuðum og jafnvel missirum saman til þess að fá fyrirgreiðslu til að fjármagna nýsmíði fiskiskipa, þó í boði væri 1. veðréttur í skipinu og jafnvel einhverjar veiðiheimildir að auki. Að vísu lyftist yfirleitt brúnin á bankastjórunum ef hægt er að setja kvóta einhvers staðar að veði.

Jafnvel 1. veðréttur í fínasta skipi varð skyndilega einskis virði þegar búið var að leggja niður Fiskveiðasjóð, svo maður tali ekki um erfiðleika iðnrekstrar úti á landi til að fá fyrirgreiðslu. Það þýðir lítið að bjóða upp á veð í húsnæðinu sem á að byggja eða vélunum sem á að kaupa. Ef póstnúmerið er hærra en 1 vandast málin. Það er því ekki að sækja í þá reynslu þó hún sé auðvitað blendin. Þó stærri fyrirtæki og þau sem eru orðin nægjanlega burðug til að leita jafnvel tilboða í bankaþjónustu komist ágætlega af er ekki slíku að heilsa í öllum tilvikum þegar í hlut eiga smærri einyrkjar í rekstri í sjávarútvegi og iðnaði sem áður nutu mjög góðs af því kerfi sem þar hafði verið uppbyggt. Fiskveiðasjóður skilaði t.d. viðskiptavinum sínum ákaflega hagstæðri fjármögnun í áratugi og endurgreiddi hluta af vaxtagreiðslunum yfirleitt um hver einustu áramót inn á reikning viðskiptavinanna. Það er önnur hlið á því máli sem minna er talað um þegar sigurlýsingarnar vella út úr fjölmiðlunum. Það eru verulegir erfiðleikar ákveðins hluta atvinnugreinanna sem urðu fyrir breytingunum og sérstaklega bundið eftir landshlutum.

Hvað halda menn þá með landbúnaðinn sem er í viðkvæmari og erfiðari stöðu á flestan hátt en eiginlega nokkur önnur atvinnugrein í landinu úti í hinu eiginlega strjálbýli landsins? Það er þá fyrst og fremst það eina veð sem þeir bændur enn hafa sem eiga sínar jarðir sem kynni að verða einhvers metið í dag vegna þess að það er í tísku að kaupa jarðir. Hæstv. landbúnaðarráðherra er ákaflega hrifinn af því að jarðnæði er unnvörpum að komast úr höndum þeirra sem stunda búskap í hendur einhverra stóreignamanna sem finnst fínt að eiga jarðir, jafnvel þó búsettir séu í útlöndum og líti þær eiginlega aldrei augum. En það er önnur saga.

Ég held að landbúnaðurinn gæti átt eftir að reynast í ákaflegra viðkvæmri stöðu þar sem dragi hratt í sundur með þeim sem eru með sínar jarðir best staðsettar þannig að þær séu líklegastar til að halda háu endursöluverði, sem hafa framleiðslurétt í þeim greinum sem búa við hann og fá stuðning frá ríkisvaldinu, og svo aftur hinum sem eru lakar settir, sem búa fjær slíkum svæðum og hafa ekki rótgrónar eignir eða framleiðsluréttindi til að setja að veði. Með öðrum orðum, hvernig verður staða ungra bænda sem ætla að byggja upp á afskekktri bújörð til þess að fá einhverja fyrirgreiðslu? Verður hún mjög burðug? Verður mikill áhugi á að lána í slíkt? Ég held að menn ættu að velta því aðeins fyrir sér áður en þeir taka þá afdrifaríku ákvörðun að slá þetta af.

Ég les það ekki út úr neinum þeim gögnum sem ég hef undir höndum varðandi málið að bændur séu með uppgerðan hug í því. Það er dálítið neyðarlegt að þurfa að lesa það í greinargerð með frumvarpinu þar sem svo er tekið til orða: „Verkefnisstjórnin telur að meta verði ályktun búnaðarþings þannig …“ Bíddu. Verið er að reyna að ráða í óljóst orðaða ályktun búnaðarþings sem var afgreidd við þær aðstæður að forsendur málsins lágu ekki fyrir, starfshópurinn hafði ekki skilað niðurstöðum.

Ég held því að skoða þurfi málið miklu betur og ræða það, m.a. verði bændum og landbúnaðinum að gefast tóm til þess að fara rækilega yfir hlutina og meta hagsmuni sína og velta því fyrir sér hver vænlegasta kosturinn í stöðunni er. Það er engin slík tímanauð á ferðum að hrapa þurfi stórkostlega að einhverri afdrifaríkri og óafturkræfri ákvörðun, því hún getur reynst það a.m.k. fyrir landbúnaðinn og búsetuna í hinum strjálu byggðum.

Mér finnst dálítið fljótræðislegt satt best að segja, þó menn hafi vaknað upp við vondan draum um áramótin og ráðherra skipað starfshóp í janúar sl., að leggja strax til fyrir miðjan aprílmánuð að gefast upp og selja sjóðinn, gefast upp og einkavæða lánasjóðinn. Ég sé hvergi þá kortlagningu á öðrum mögulegum ráðstöfunum og leiðum sem ég vildi sjá áður en ég veldi á mikilli slíkra kosta. Er ekki eðlilegt að gera það fyrst og leggja málið fyrir í ákvarðanatækum búningi fyrir Alþingi? Ég lít ekki á að það sé hér. Það lyktar af því að menn hafi gefið sér niðurstöðuna meira og minna fyrir fram, menn ráða eitthvert einkafyrirtæki, ráðgjafa og efnahagsspá, sem eðlilega miðað við tíðarandann lætur sér það helst til hugar koma að einkavæða sjóðinn, það er mjög í tísku, og virðist sem aðrir kostir hafi sáralítið verið skoðaðir.

Staðan er þannig að ójafnvægið er innbyggt í starfrækslu lánasjóðsins eins og hún er í dag. Hverjir bera ábyrgð á því? Þeir sem hafa stýrt málum hans undanfarin ár og búið til lánasafn hans og fjármagnað hann með þeim hætti sem raun ber vitni og er ákaflega ógæfulegt auðvitað þegar það blasir við mönnum að þarna geti komið upp stórkostleg hætta á verulegu ójafnvægi í rekstri sjóðsins vegna þess að hann er með föst óuppgreiðanleg lán, fjármagnar sig þannig, en bændur hafa hins vegar möguleika til að greiða upp lán sín og þá getur skapast ójafnvægi í vöxtunum. Sú staða er innbyggð og hverfur ekki þó menn einkavæði sjóðinn. Hver segir mönnum að menn fái einhvern til að kaupa hann sem horfi fram hjá veilunum, lækkar ekki bara söluverðið sem því nemur? Maður skyldi halda það.

Það sem lýtur að bættum rekstri sjóðsins og sparnaði í þeim efnum kemur mönnum auðvitað til góða. En ég skil ekki alveg hver hugsunin er í þessu, ef menn halda að það finnist kaupandi sem horfir fram hjá þessu ójafnvægi og getur tekið þannig við rekstri sjóðsins að sá vandi gufi bara upp. Er það hugsunin? Vill þá hæstv. landbúnaðarráðherra útskýra fyrir mér í hverju sú barbabrella verður fólgin því ég sé ekki af hverju einhver ætti að gera það.

Vandinn er á ábyrgð ríkisins. Lánin eru með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs, hin óuppgreiðanlegu skuldabréf, og eru til staðar og þau verður að virða hvernig sem á allt er litið. Séu líkur á því að vaxtastig og vaxtakjör þróist þannig og verði þannig á komandi árum að þarna verði verulegt misræmi á hverfur vandinn ekkert, þá verður einhvern veginn að bera hann og hann mun annaðhvort koma fram í lægra söluandvirði sjóðsins, ef hann verður seldur núna, eða að menn finni svo örlátan og miskunnsaman kaupanda að hann taki þetta yfir. Ég held að það þurfi aðeins að útskýra þetta betur. Ég er ekki hagfræðingur en maður hefur glímt við þetta dálítið m.a. í gegnum störf sín á þingi í yfir 20 ár og eitthvað segir mér að þetta sé ekki endilega hugsað í botn. Eru menn endilega að leysa vandann með þessu? Hverfur hann? Gufar hann upp í gegnum það að menn finni miskunnsama Samverjann einhvers staðar í fjármálaheiminum til að kaupa vandann af ríkinu sem þarna er til staðar. Við skulum kalla það hættu á eða lýkur á að þarna geti myndast ójafnvægi.

Svo skulu menn muna að það er ekki víst að núverandi vaxtastig og núverandi aðstæður verði um aldur og ævi. Hvað gerist ef gengi krónunnar fellur innan árs, innan hálfs árs jafnvel, um 20–30 af hundraði? Breytast þá ekki aðstæður talsvert? Jú, ætli það ekki. Eigum við þá ekki að kíkja á vextina, hvernig þeir verða þá? Er víst að bankarnir gangi þá um, bjóðandi með sama hætti sömu kjör og þeir hafa verið að gera? Nei, það er ekki alveg víst, aðstæður gætu nefnilega breyst verulega hvað varðar vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa og að það verði hægt að gera út á hann í öruggri vissu þess að stóriðjustefnan og skattalækkunarstefnan haldi uppi gengi krónunnar. Ef það bilar aðeins minnkar arðurinn af þeim útvegi, að gera út á vaxtamuninn milli Íslands og annarra landa í skjóli þess að genginu sé haldið uppi með handafli. Það getur mjög margt átt eftir að breytast hér innan jafnvel skemmri tíma en menn virðast gefa sér þegar þeir leggja niður fyrir sér forsendur þessa máls.

Ég held að það sé fljótræðislegt að gefa sér að þetta þurfi endilega að blasa við með sama hætti ef aðstæðurnar teiknast eins upp innan eins árs, jafnvel hálfs. Það er engin slík brennandi brýn nauð eða vá fyrir dyrum að þetta þoli ekki svolitla skoðun, herra forseti. Ég hvet eindregið til þess að það verði gert.

Það eru enda margir aðrir álitlegir möguleikar til þess að takast á við þá hluti sem takast þarf á við varðandi rekstur Lánasjóðs landbúnaðarins. Það er t.d. alveg augljóst mál og það er rétt sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins að þetta er lítil eining og rekstrarkostnaðurinn vill verða allt of hátt hlutfall af ekki stærri einingu þegar svoleiðis er, 80 milljónir eða hvað það nú er af ekki meiri veltu. Þar væri alveg augljóslega hægt að ná miklum samlegðaráhrifum, t.d. með því að samreka Lánasjóð landbúnaðarins og Lífeyrissjóð bænda eða fela einhverri burðugri stofnun á grundvelli samninga, þótt það væri útboð, að forvaxta sjóðinn og halda utan um hann. Annað eins hefur verið gert. Veðdeild Húsnæðisstofnunar sem svo hét í gamla daga var um árabil ekki rekin af Húsnæðisstofnun sjálfri. Reksturinn var boðinn út, reyndar fyrst á grundvelli samninga við Landsbankann en síðustu árin var umsjón hennar boðin út þangað til Íbúðalánasjóður varð til.

Þetta var mjög praktískt fyrirkomulag. Ég kynntist því. Ég sat í stjórn Húsnæðisstofnunar um skeið og tók þátt í því að meta þau mál og fara yfir og ganga frá því með hvaða hætti menn sömdu til ákveðins árafjölda í senn um þennan rekstur. Það var alveg borðleggjandi að það var til mikilla muna hagkvæmara en að reka þetta sem sjálfstæða, litla einingu, með yfirbyggingu, yfirstjórn og öðru slíku.

Önnur leið gæti verið fær, breyta mætti talsvert áherslum sjóðsins, gera upp þann vanda sem þarna er sannarlega til staðar, eða verður, láta bara á það reyna hver hann verður, hann er hvort sem er á ábyrgð ríkisins eins og stendur, en halda eftir ákveðnum grundvallarþáttum í þessari starfsemi sem gætu að verulegu leyti tryggt áfram þau markmið sem gera átti á sínum tíma með stofnlánadeildinni og síðar lánasjóðnum.

Svona grunnfjármögnunarsjóður sem þarf þá e.t.v. ekki að vera með jafnvíðtæka starfsemi og sjóðurinn hefur verið með að undanförnu, t.d. bara þannig að fjárfestingarlánaeining sem rekin væri í tengslum við Lífeyrissjóð bænda veitti jarðakaupalán tengd sjóðfélagalánum sem lífeyrissjóðurinn getur veitt, gæti myndað möguleika fyrir t.d. unga bændur gagnvart jarðakaupum og því að hefja búskap. Þegar menn væru síðan komnir lengra út í reksturinn væru þeir í allt annarri og betri stöðu til að leysa þau mál við viðskiptabanka sinn.

Svo koma að lokum, herra forseti, auðvitað upp margar spurningar sem tengjast þessari sölu, spurningar sem verður að fara rækilega yfir og svara áður en menn halda lengra. Ef menn ætla t.d. að gera þetta sisvona og selja sjóðinn bara einhverjum kaupanda, ætla menn þá að selja bændurna með á fæti og viðskipti þeirra? Ef kaupandinn verður fjármálastofnun sem hefur enga afgreiðslustaði og enga þjónustu á viðkomandi svæðum, segjum að bændur þar séu almennt í viðskiptum hjá sparisjóði en þetta væri Íslandsbanki eða KB-banki — einstöku manni hefur dottið í hug að það sé hugsanlegt að KB-banki eigi að fá hnossið — ætla menn þá að selja bændurna á fæti yfir í viðskiptin við KB-banka og 1. veðrétt í bújörðum þeirra með? Er það þannig sem menn hugsa sér að standa að þessu? Er þetta í raun og veru forsvaranleg leið þegar tekið er tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem hér er við að eiga?

Ég hef m.a. orðið var við það að bændur, margir hverjir, eru mjög órólegir þegar þessi staða fer að renna upp fyrir þeim. Þeir telja þrátt fyrir allt að það fyrirkomulag sem hér hefur verið hafi verið þeim hagstætt. Það er enginn vafi á því að þannig hefur það lengst af verið. Auðvitað hafa vaxtaniðurgreiðslurnar og gjöldin komið þar til. Þau hafa þýtt félagslega eða kynslóðarlega millifærslu innan greinarinnar sem hefur stutt við bakið á þeim ungu, þeim sem eru að byggja sig upp, og að sama skapi hafa þeir rótgrónari og ráðsettari í greininni lagt sitt af mörkum. Eðlilega. Að mínu mati hefur það verið félagslega merkilegt og jákvætt fyrirkomulag og mér er eftirsjá að því. Menn geta svo sagt að það sé allt saman misskilningur og liðin tíð og guð má vita hvað. Ætli menn endi ekki bara með því að fara að tala um hestasláttuvélarnar og moldarkofana ef maður leyfir sér að lýsa því sjónarmiði sínu að það geti verið eftirsjá að félagslegri hugsun og félagslegri samstöðu innan einnar stéttar af þessu tagi? Ég geri það nú samt og tek þá glaður við nafnbótunum sem því fylgja.

Það skyldu þó ekki vera ýmis sannindi sígild þegar betur er að gáð. Það er harmsefni hversu holt er orðið, vissulega, undir stuðningi við þessa hugsun hjá bændum. Maður skilur af hverju það er, vegna þeirra miklu erfiðleika sem greinin hefur gengið í gegnum og vegna þess að sumir hlutar greinarinnar hafa nánast ekki verið í aðstöðu til að fjárfesta eða byggja upp áratugum saman. Eðlilega spyrja menn sig þá t.d. í sauðfjárræktinni sem eru að greiða á löngu árabili þessi gjöld, en greinin er varla í aðstöðu til þess að fjárfesta eða byggja upp, hvort þeir eigi að búa við þetta endalaust. Það skyldi þó ekki vera að vonin um að þetta breyttist væri m.a. fólgin í því að þá ættu menn tryggan aðgang að fjármögnun til þessara fjárfestinga sem lýtur engum markaðslögmálum þegar komið er út í fjölskyldubúrekstur í strjálbýlinu á Íslandi. Ef það er einhvers staðar í heiminum sem markaðslögmálin og frjáls samkeppni leysa ekki allan vanda er það þar. Þetta ætti nú hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum að vita.



[21:08]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér hefur hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins mælt fyrir frumvarpi um einkavæðingu og sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Það er lýsandi dæmi um metnað — eða réttara sagt metnaðarleysi — ráðherrans fyrir þessum atvinnuvegi.

Ég vil í upphafi aðeins gagnrýna þau vinnubrögð sem ráðherrann hefur haft við framlagningu málsins.

Lánasjóður landbúnaðarins er í sjálfu sér félagslegt verkefni ríkisins og bænda. Þó að hann eigi að teljast í eigu ríkisins eru það jú bændur sem hafa átt þátt í að fjármagna hann og þess vegna er ráðstöfun á sjóðnum sem slíkum engan veginn bara einkamál ríkisins eða einkavæðingargræðgi Framsóknarflokksins. Maður hefði því getað ætlað að þessar hugmyndir yrðu lagðar fyrir bændur, yrðu t.d. lagðar fyrir búnaðarþing með formlegum hætti, þannig að samtök bænda hefðu getað fjallað um þær. Því er ekki að heilsa. Á nýafstöðnu búnaðarþingi var einungis greint frá því að verið væri að skoða lánasjóðinn, verkefnisstjórn eða hópur væri í að skoða stöðu sjóðsins, en hvorki neinar upplýsingar um þá skoðun né önnur gögn sem gætu skipt máli lögð fyrir þingið til að meta eða taka afstöðu til. Búnaðarþing var haldið 6.–10. mars og þá lágu ekki fyrir nein þau gögn sem ráðherra gæti lagt fyrir búnaðarþing til þess að meta stöðu sjóðsins, enda segir svo í ályktun þingsins, með leyfi forseta:

„Búnaðarþing 2005 hefur fjallað um málefni Lánasjóðs landbúnaðarins. Starfshópur sem landbúnaðarráðherra skipaði til að fara yfir málefni sjóðsins hefur ekki lokið störfum og eftir er að leggja mat á nokkur atriði sem lúta að því hvernig þörf landbúnaðarins fyrir lánsfé verði best mætt á komandi árum.“

Þarna kemur skýrt fram að þessi gögn liggja ekki fyrir þinginu þannig að það getur ekki metið neitt á grundvelli þeirra.

Síðan kemur, eins og hæstv. ráðherra vitnaði í, reyndar ekki í fyrri hluta ályktunarinnar, einungis í seinni hlutann, enda hélt hann að það passaði sér betur, með leyfi forseta:

„Það er skoðun þingsins að í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði verði tæpast forsendur til áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til lánasjóðsins.“ — Tæpast forsendur, það er ekki tekið dýpra í árinni en að segja það svona. Tæpast forsendur, það er ekki kveðið skýrt á um það.

„Verði það niðurstaða starfshópsins að við þessar aðstæður sé ekki mögulegt að halda áfram rekstri lánasjóðsins, leggur þingið þunga áherslu á eftirfarandi: Stærstur hluti þeirra lána sem bændur hafa tekið hjá sjóðnum er með breytanlegum vöxtum. Tryggja þarf hagsmuni og réttarstöðu skuldara lánasjóðsins ef rekstri hans verður ekki haldið áfram.“

Þarna er á engan hátt kveðið neitt á um eða samþykkt að eigi að leggja hann niður.

Síðan segir:

„Verðmætum lánasjóðsins verði ráðstafað til að styrkja lífeyrisréttindi bænda.“

Ég hef, herra forseti, rætt við bæði stjórnarmenn og búnaðarþingsfulltrúa sem komu að þessari tillögugerð og ályktun og þeir mótmæla því harðlega að í því felist að þeir séu að leggja til að lánasjóðurinn verði lagður niður, hvorki hafi þær forsendur legið fyrir þinginu — skrýtið, svo stutt síðan því lauk — að taka um það ákvörðun, né heldur hafi það verið rætt á nokkurn hátt. Mér finnst mjög langt seilst ef á að nota þessa ályktun m.a. sem röksemd fyrir því að leggja sjóðinn niður og selja hann eins og ráðherra leggur hér til.

Það er líka mjög fróðlegt að sjá skýrslu þessarar verkefnisstjórnar sem ráðherra vitnaði til. Í frumvarpinu stendur að verkefnisstjórnin hafi ráðið fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég hef aldrei heyrt það nefnt fyrr. Þetta er sjálfsagt vænsta fyrirtæki en það væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hverjir eiga það og reka, bara svona til upplýsingar svo að það sé ljóst. Þetta fyrirtæki, Ráðgjöf og efnahagsspár ehf., var notað til að meta samkeppnisstöðu lánasjóðsins og fjalla um hlutverk hans og framtíðarhorfur.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna ekki var leitað til annarra aðila. Tökum t.d. hagþjónustu landbúnaðarins eða hagfræðideild Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Hvers vegna var ekki leitað til aðila sem hafa meiri sérþekkingu á störfum og þörfum landbúnaðarins en ég leyfi mér að draga í efa að fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. hafi? Ég spyr hvers vegna það hafi ekki verið gert og spyr líka hver reki fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. sem þykir svona merkilegt að það skuli vera valið til að gera slíka úttekt sem svo afdrifarík ákvörðun er byggð á, að einkavæða og selja lánasjóðinn. Það er margt í þessu vinnuferli sem setja verður stórt spurningarmerki við. Það læðist óneitanlega að manni grunur í þessu einkavæðingarferli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins á almannaeigum að ákvörðunin hafi verið tekin, herra forseti, fyrir löngu og síðan leiti menn allra ráða til að staðfæra hana og láta hana ganga upp. Það læðist að manni sá grunur í þessu ferli. (Gripið fram í: Hvaða grunur?) Að ráðherra hafi ekki unnið verkin sín.

Þegar litið er á stöðu sjóðsins þá er alveg rétt að hann virðist hafa verið rekinn á frekar metnaðarlítinn hátt undanfarin ár. Það kemur fram í skýrslunni að fjármögnun sjóðsins sé í formi skuldabréfalána sem hann hafi tekið og þau skuldabréf nemi allt að 15 milljörðum kr. eða einhvers staðar á þeirri stærðargráðu, og lánskjörin sem sjóðurinn hefur á þeim eru að viðbættu ríkisábyrgðarálaginu meira en sem nemur 6% vöxtum, sem er óeðlilega hátt miðað við vexti sem eru á markaði núna. Vel má vera að á sínum tíma þegar þessi lán voru tekin hafi það reynst óhjákvæmilegt, en ég spyr: Hefur verið látið á það reyna hvort ekki sé hægt að semja við eigendur þessara skuldabréfa um lækkun á vöxtum þegar vextir sjóðsins eru að meðaltali í kringum 4,5%? Mér finnst a.m.k. ólíklegt annað en að kaupandi sem kæmi að sjóðnum og keypti hann byrjaði á því að semja um þessi bréf.

Hvernig var það ekki með Spöl? Við ræddum um Spöl fyrr í vetur og þá var einmitt talið að ekki væri hægt að lækka gjaldið í Hvalfjarðargöngunum vegna þess að skuldabréfalánin sem hvíldu á göngunum væru bundin með háum vöxtum og ekki væri hægt semja um lækkun á þeim. En það reyndist þó hægt, bankastofnun gekk í málið og þau voru endurfjármögnuð og endursamið að einhverju leyti um þessar skuldbindingar. Maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi verið reynt hér, herra forseti.

Það er ábyrgðarhluti þegar verið er með handarsveiflu einni saman, bara af einkavæðingarlöngun Framsóknarflokksins, að einkavæða og selja félagslegan sjóð eins og Lánasjóð landbúnaðarins, selja þar með 1. veðrétt að nánast öllum jörðum í landinu, selja samninga sem bændur hafa gert í þeirri trú að þetta væri sjóður, þetta væri stofnun sem lyti félagslegri forsjá í samstarfi ríkis og bænda. Svo kemur allt í einu einhver einkavæðingarráðherra sem sér það eitt að einkavæða og selja og selur (Gripið fram í.) þau samskipti sem þarna hafa verið gerð við bændur.

Staðreyndin er sú að lánasjóðurinn hefur gegnt gríðarlega miklu hlutverki. Lánareglur sjóðsins hafa verið fullkomlega gagnsæjar. Þar hefur ekki verið nein mismunun, bændur hafa átt jafnan aðgang að þessum sjóði, óháð búsetu, eftir settum reglum. Sjóðurinn hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir uppbyggingu landbúnaðar í landinu. Í viðskiptabönkum þar sem einungis er hugsað um hámörkun á arði á eigin fé er starfað á allt öðrum grundvelli en hjá þessum sjóði. Margir hafa einmitt reynt það nú með viðskiptabankana sem hafa komist í þá aðstöðu að geta deilt og drottnað. Þeir ráða og meta á sínum forsendum hvar lán eru veitt og á hvaða kjörum þau eru veitt, þeir ákveða það á sínum forsendum. Það eru því engar líkur til þess að bændur frekar en aðrir geti átt þar einhvern rétt eða samningsstöðu sem heild til lánskjara. Við þekkjum það líka og heyrum um það að sumar jarðir eða sumir bændur eru eftirsóttir til að ná þeim í viðskipti en aðrir ekki. Ég sé ekki fyrir mér að einkavæddur og seldur Búnaðarbanki í höndum viðskiptabanka sem eingöngu hugsar um arðsemi eigin fjár fari að taka á sig samfélagslegar skyldur með því að lána til bænda og bújarða á svæðum sem að mati bankans munu ekki skila hámarksarði af fjármagni hans.

Við skulum líka að skoða hvað hefur t.d. gerst í sjávarútveginum, viðskiptabankinn þar deilir og drottnar. Hann er farinn að stjórna því hvaða sjávarútvegsfyrirtæki fá að lifa og hvaða sjávarútvegsfyrirtæki eru látin deyja, því að fái þau ekki eðlilega fjármagnsfyrirgreiðslu hjá sínum banka hafa þau ekki góðan starfsgrundvöll. Þegar sami banki er kannski orðinn aðalfjármögnunaraðili á vinnslustöðvum í landbúnaði þá getur hann farið að stjórna því hvar hagkvæmast er að framleiðslan fari fram að hans mati. Þegar menn selja slík viðskipti með þeim hætti sem hér gæti orðið sjá menn ekki fyrir endann á því hvernig það færi.

Herra forseti. Mér finnst þetta mál illa undirbúið, verið er að koma aftan að mörgum bændum og reyndar landbúnaðinum í heild með flutningi þessa frumvarps. Ef það gengur svo eftir að lánasjóðurinn verði seldur er verið að koma aftan að bændum sem hafa treyst á hann sem lánasjóð sinn og veitt honum veð í jörðum sínum, 1. veðrétt. Við upplifum það að ýmsir aðilar stunda nú raðuppkaup á jörðum og eru auk þess að kaupa upp framleiðslurétt á mörgum jörðum án þess að búa á þeim. Sú umgjörð sem verið hefur landbúnaðinum ákveðin stoð og stytta og skapað honum traust er að bresta. Þegar svo líka á að selja Lánasjóð landbúnaðarins, sem veitt hefur lán á jafnræðisgrunni til bænda, tel ég að miklir óvissutímar séu fram undan fyrir íslenskan landbúnað við þær aðstæður að ástæðulausu.

Hitt er svo nauðsynlegt að endurskoða sjóðinn og aðlaga hann að öðrum þáttum. Ég hef einmitt lagt til, og reyndar við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eins og kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að skoða ætti aðra möguleika varðandi framtíð sjóðsins. Skoða ætti hvort samreka mætti hann t.d. með Lífeyrissjóði bænda eða annarri fjármálastofnun þar sem hann hefði áfram ákveðið grunnfélagslegt hlutverk í að veita bændum lán. Það mætti afmarka lánshlutverk hans við ákveðinn grunnstuðning við búskap, við jarðakaup, við frumbýlinga. Það mætti finna honum slíka sérstöðu svipað og verið er að gera t.d. með Íbúðalánasjóð. Það gilda nákvæmlega sömu röksemdir varðandi Lánasjóð bænda og Íbúðalánasjóð að það eru nógir til að slást um feitustu bitana í að lána fjármagn, en ákveðnir hlutar landsins munu verða afskiptir ef svo fer. Íbúðalánasjóður hefur það mikla félagslega hlutverk að gera öllum kleift að hafa aðgang að lánum, óháð búsetu, og sama á einnig við um Lánasjóð landbúnaðarins, hann hefur haft það hlutverk líka.

Herra forseti. Ég tel að frumvarp þetta sé fullkomlega vanbúið, bæði er ekki hægt að keyra þetta mál áfram án þess að það sé gert í mun meira samráði við bændur og auk þess tel ég að kanna eigi miklu betur aðra möguleika fyrir sjóðinn til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan viðskiptabankarnir fóru að bjóða fjármagn á lægri kjörum og það getur breyst. Og hvað varðar að útstreymi úr sjóðnum hafi verið mikið þá skilst mér að það hafi stöðvast núna á síðustu mánuðum. Hlutverk sjóðsins sem jöfnunaraðili til að veita lán vítt og breitt um landið á jafnréttisgrunni er óbreytt og maður sér ekki neitt í farvatninu sem kemur í staðinn fyrir þau verkefni sjóðsins verði hann seldur.



[21:27]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka þessa umræðu og kannski miklu frekar hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir um margt prýðilega ræðu og drengilega. Sú síðasta var á margan hátt með öðrum brag. Stundum finnst manni undarlegt að rígfullorðnir þingmenn skuli tala með eins strákslegum brag og þeir leyfa sér margir hverjir og eins og gert var í síðustu ræðu.

Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að það hefðu kannski þótt fréttir og stórtíðindi ef því hefði verið spáð að varaformaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra stæði hér og flytti frumvarp um að leggja bæri þennan sjóð niður og selja eignir hans. Ég get alveg tekið undir það. Ég hef miklar tilfinningar til þessa sjóðs. Hann hefur verið landbúnaðinum mikilvægur í gegnum áratugi. Sjálfur var ég formaður hans um nokkra hríð og sat í stjórn hans, ég sat í stjórn hins nýja lánasjóðs landbúnaðarins þegar hann var stofnaður og ákveðið var að þessi fjárfestingarsjóður landbúnaðarins rynni ekki inn í banka eins og hinir sjóðir atvinnuveganna gerðu. Þeirra tími var þá liðinn. Nú stendur síðasti fjárfestingarlánasjóður atvinnuveganna á þeim tímamótum.

Ég get lýst því yfir að þessi staða er ekki nein óskastaða fyrir mig. Ég hef miklar tilfinningar til sjóðsins og er auðvitað ekki alls kostar áhyggjulaus við þær breytingar. En mér ber skylda til að varðveita þau verðmæti sem þarna eru og láta þau ekki eyðast upp. Í ríkisstjórninni hef ég hef því sett annað markmið á oddinn við þessar breytingar. Bankastarfsemin hefur breyst með þeim hætti að vextir hafa lækkað og verðgildi jarðanna hefur vaxið. Bændurnir hafa náttúrlega ætíð verið skilvísustu menn. Ég minnist þess að þegar ég sat í bankaráði Búnaðarbankans var oft haft orð á því að bankinn hefði aldrei tapað á viðskiptum við bændur. Ég hygg að það sé í stórum dráttum saga hinna bankanna og staðreyndin er sú, hæstv. forseti, þrátt fyrir ummæli hv. þingmanna, að flestir íslenskra bænda eru tryggir viðskiptavinir einhvers viðskiptabanka eða sparisjóðs um leið og þeir hafa sótt réttindi og fjármagn til Lánasjóðs landbúnaðarins og Stofnlánadeildarinnar gömlu. Allt tal um að hér standi menn eftir án nokkurra viðskipta o.s.frv. er því út í loftið.

Ég vil hins vegar hrinda þeim ummælum, ég tel þau ómakleg og ómerkileg, sem hér komu fram í umræðunni að hér standi ráðherra sem sé hrifinn af því að jarðir fari úr höndum bænda yfir til stóreignamanna. Þetta eru ómerkileg orð sem ekki á að þurfa að segja úr ræðustól enda vita hv. þingmenn betur um þær tilfinningar sem ég hef til sveitanna. Ég fagna ekki öllum þeim breytingum en ég fagna því þó að jarðir hafi hækkað í verði. Sveitin er dýrmætari og vinsælli og margir vilja setjast þar að.

Auðvitað vildi ég sjá sem flestar jarðir undir góðum búskap, með ær og kýr þess vegna. En ég fagna hinum nýju greinum landbúnaðarins sem hafa þróast ört á síðustu árum. Ég geri mér grein fyrir því að þessum jörðum fækkar því miður, búin stækka, tæknin breytist o.s.frv. Þetta er þróun sem ég hef ekki leyft mér að stöðva með neinum hætti enda staðan sú að íslensk bú eru á mælikvarða heimsins eða nálægra landa ekki nein stórbú. Ég vil að þetta komi skýrt fram.

Ég vil að það komi fram að bændur hafa fjallað um málið, ekki bara á búnaðarþingi. Síðan málið kom fram og ákveðið var að skoða leiðir til breyta sjóðnum hefur Landssamband kúabænda haldið ársfund og eins Landssamband sauðfjárbænda haldið ársfund. Þeir fundir ályktuðu í svipaða veru.

Hæstv. forseti. Svo að ég lesi það skýrt sem búnaðarþing ályktaði í málinu, því að ég bað búnaðarþing að fara yfir þetta mál alveg sérstaklega og skoða það. Með leyfi forseta, ályktuðu þeir svo:

„Búnaðarþing 2005 hefur fjallað um málefni Lánasjóðs landbúnaðarins. Starfshópur sem landbúnaðarráðherra skipaði til að fara yfir málefni sjóðsins hefur ekki lokið störfum og eftir er að leggja mat á nokkur atriði sem lúta að því hvernig þörf landbúnaðarins fyrir lánsfé verði best mætt á komandi árum. Það er skoðun þingsins að í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði verði tæpast forsendur til áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til lánasjóðsins.“

Svona ályktuðu þeir á búnaðarþingi og hafa ályktað í nokkur ár, með því að búnaðargjaldið yrði fellt niður.

Þeir segja síðan:

„Verði það niðurstaða starfshópsins að við þessar aðstæður sé ekki mögulegt að halda áfram rekstri lánasjóðsins, leggur þingið þunga áherslu á eftirfarandi:

1. Stærstur hluti þeirra lána sem bændur hafa tekið hjá sjóðnum er með breytanlegum vöxtum. Tryggja þarf hagsmuni og réttarstöðu skuldara lánasjóðsins ef rekstri hans verður ekki haldið áfram.

2. Verðmætum lánasjóðsins verði ráðstafað til að styrkja lífeyrisréttindi bænda.“

Svo mörg voru þau orð. Hér er lagt til að andvirði þessa sjóðs, ef hann selst og fæst fyrir hann gott verð, renni til lífeyrissjóðsins. Þannig er farið að þessari ályktun.

Hvað fyrra áhersluatriðið varðar, að tryggja þurfi hagsmuni og réttarstöðu skuldara, þá var í umræðum hjá báðum hv. þingmönnum nánast látið liggja að þeim ómerkilega málflutningi að það sé verið að selja jarðir bændanna. Bændurnir eiga jarðir sínar og ég hygg að allir virði það og sem betur fer eru ekki allar jarðir stórskuldugar þannig að bændur ráða jörðum sínum. Ég vil segja um þetta að 1. veðréttur sjóðsins hefur ætíð verið umdeildur og hefur sú gagnrýni ekki síst komið frá bændum sem hafa viljað gefa lánasjóðnum meiri sveigjanleika í útlánum, m.a. með því að gefa eftir 1. veðrétt.

Í sjálfu sér er ekkert að óttast fyrir skilvísa menn, eins og bændur eru upp til hópa, en ég veit að íslenskir bændur eru skilvísir og standa ávallt við skuldbindingar sínar. Ég óttast þetta því ekki, enda munu bændur áfram fara með ráðstöfunarrétt yfir eignum sínum. Ég vona að menn reyni ekki að halda því fram í umræðunni að þessi breyting verði til þess að jarðirnar verði teknar af bændum. Það er náttúrlega bara útúrsnúningur og allt annað mundi liggja fyrir ef af framkvæmdinni verður.

Ég hef fyrir mitt leyti viljað sjá bændur hafa sem ríkastan ráðstöfunarrétt á eignum sínum. Þeir hafa kvartað yfir 1. veðrétti, þeir vinna úti í frá, eiga að fá lífeyrissjóðslán og fá þau ekki o.s.frv. Það hafa verið árekstrar við bankana þeirra og árekstrar við Íbúðalánasjóð og heilmikil átök. En ég sagði í upphafi að eitt það vandmeðfarnasta, sem vaka yrði yfir, væri að bændur eru í bankaviðskiptum. Ég sagði að það yrði að huga að réttindum starfsfólksins í söluferli sjóðsins og ekki síður að réttindum viðskiptavinanna, þannig að ég er meðvitaður um alla þessa þætti. Ég vil að það komi fram.

Síðan reynir hv. þingmaður jafnan að gera lítið úr því ef einhver er fenginn til að skoða verkefni, t.d. þetta fyrirtæki, Ráðgjöf og efnahagsspár ehf., sem ég hygg að séu bara hinir mætustu menn úti í bæ, vel menntaðir á sínu sviði og þekktir sem góðir ráðgjafar og heiðarlegir menn. Nöfn þessara manna, fyrst að hv. þingmaður spyr eftir þeim, eru Sverrir Sverrisson, sem mun hafa doktorsgráðu í hagfræði, og Ingvi Harðarson, svo því sé hér haldið til haga og þeirri spurningu svarað.

Hv. þingmenn fjallaði um óuppgreiðanleg lán. Hv. þm. Jón Bjarnason fór að tala um Spöl, eins og oft áður. Það liggur fyrir að Spölur hefur verið fjármagnaður þannig að hann hefur haft uppgreiðsluheimild á lánum sínum. Það er ljóst að þær skuldir eða þau skuldabréf sem lánasjóðurinn á úti í bæ hjá einstaklingum eru bréf í eigu fyrirtækja og einstaklinga úti í bæ sem sjóðurinn ræður ekki yfir í dag og hefur verið samið um. Það er því erfitt og sennilega engin leið að fara þá leið sem hv. þingmaður stakk upp á, að kalla þau inn og fjármagna sjóðinn upp á nýtt. Ég hygg að sjóðurinn hafi á árunum, þegar verðbólga var aðeins stígandi, tekið einhver lán sem voru aðeins óhagstæðari. Svo hafa vextir lækkað nú seinni árin.

Varðandi samfélagslegar skyldur, sem hv. þingmaður ræddi um, þá tel ég félagshyggju og samfélagslegar skyldur mikilvægar, ekkert síður en aðrir hv. þingmenn. Ég hef barist fyrir þeim í minni pólitík og í raun einnig meðan ég var formaður Stofnlánadeildarinnar og stjórnarmaður í Stofnlánadeildinni. Þá leit ég á þær skyldur sem mjög mikilvægar, ekki síst úr af því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minntist á, að ein kynslóð var í þeim efnum oft að styðja aðra til uppbyggingar. Ég hafði mjög gildar skoðanir gagnvart þessu og ríkulegar og taldi þetta gott á þeim tíma. Nú stend ég hins vegar frammi fyrir því að greinarnar hafa þróast með öðrum hætti. Þeir bændur sem ekkert eru að byggja upp hjá sér, sauðfjárbændur eða bændur í öðrum greinum sem eru búnir að fjárfesta og þess vegna búnir að borga upp skuldir sínar segja í dag: Við viljum ekki borga þetta gjald til að byggja þessi risafjós eða framkvæmdir þeirra stóru. Við viljum frekar fá þennan pening í okkar vasa, segja þeir. Það getur vel verið að þetta sé breytt félagshyggja en það getur líka vel verið að það standist ekki tímans tönn að hafa slíkt kerfi í gangi öllu lengur, ég tala nú ekki um ef það er ekki sátt um það hjá atvinnugreininni eins og fram hefur komið.

Ég geri mér auðvitað vonir um að það fáist gott verð fyrir Lánasjóð landbúnaðarins því að ég er sannfærður um að hann býr yfir heilmiklum verðmætum. Í honum er ,,good will“ til viðskipta. Hann á eigið fé upp á 3,5 milljarða kr. Í honum er mikil þekking á sviði þar sem er mikil gróska í dag, þ.e. fjárfestingum í sveitum. Það kann vel að vera að hann verði rekinn áfram af þeim, hvort sem það verður banki, fjárfestingarsjóður eða hver það verður sem kaupir hann. Það getur vel verið að hann verði rekinn áfram sem jarðadeild sem sérhæfi sig áfram á þessu sviði.

Mér er efst í huga við þessar breytingar að ég geri mér grein fyrir því að aðrir eru tilbúnir að fjármagna framkvæmdir sveitanna, sparisjóðir og bankar landsmanna. Þeir eru tilbúnir til þess og hafa lýst þeim viðhorfum sínum. Þeir hafa, er mér óhætt að segja, allar peningastofnanirnar, stóru bankarnir þrír, viðskiptabankarnir, auk sparisjóðanna, haft samband og gert skýra kröfu um að fá að fylgjast með, geta verið aðilar að þessu ferli, geta tekið við sjóðnum og eignast hann og borgað fyrir hann fé. Ég hef heitið þeim því að jafnræðisregla muni ráða þar, að þetta verði opið og opinbert mál og skýrt jafnræði á milli aðila í þeim efnum.

Stærsta von mín við þessar breytingar er sú að bændurnir fari ekki illa út úr þeim heldur fremur vel. Það getur vel verið að þeir fari mjög vel út úr því þegar annar tekur við þessum sjóði og skuldbreytir (Forseti hringir.) lánum þeirra o.s.frv. En hitt er stærsta málið, hæstv. forseti, að styrkja Lífeyrissjóð bænda, sem er verst setti sjóðurinn. Í dag vantar í hann 2,6 milljarða kr. til að hann nái að standa við skuldbindingar sínar í dag.



[21:43]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að í ályktun búnaðarþings felist samþykki þingsins fyrir því að sjóðurinn sé seldur með þeim hætti sem hér er lagt til og hvort haft hafi verið nægilegt samráð við Bændasamtökin til að mega ganga fram með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem fram kemur í bréfi verkefnisstjórnarinnar. Hún leggur nánast þennan eina valkost til, þ.e. að selja sjóðinn.

Hún segir að vísu, með leyfi forseta:

„Þá telur verkefnisstjórnin það ekki vænlegan kost að sameina lánasjóðinn öðrum sjóðum eða stofnunum ...“

Það eru ekki settir upp valkostir og þeir metnir út frá tölulegum rökum heldur er þetta bara sett fram sem fullyrðingar. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hann vilji ekki endurskoða þetta og kanna aðrar leiðir til að taka á framtíð sjóðsins en með þeim hætti sem þarna er lagt til. Ég get ekki séð að í skýrslu nefndarinnar hafi aðrir valkostir verið settir upp heldur er bara gengið út frá einum og aðrir slegnir út af borðinu með því einfaldlega að segja aðra kosti ómögulega.



[21:45]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að bændurnir geri sér nú almennt grein fyrir því að sjóðurinn er formlega í eigu ríkisins. Þeir virða það við þessa ríkisstjórn og þessa skoðun að menn vilja nota fé sjóðsins til þess að styrkja stöðu lífeyrissjóðsins, þeirra sem reka sjóðinn. Ég er því ekkert að hætta samstarfi við bændurna. Þeir hafa ályktað. Þeir hafa ályktað með skýrum hætti og ég las það hér yfir að þeir komast nánast að þeirri niðurstöðu að hann verði ekki rekinn áfram með þessum hætti og leggja til að þessu verði varið til lífeyrissjóðsins.

Í þessari undirbúningsnefnd sat og situr formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson, og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, Sigurgeir Þorgeirsson. Ég mun halda áfram og samstarfi við Bændasamtökin og forustumenn landbúnaðarins er ekkert lokið. Ég ræddi þetta á aðalfundi sauðfjárbænda. Ég ræddi þetta á aðalfundi kúabænda og bað menn um viðhorf þannig að ég held áfram því samstarfi.

Ég vil líka taka það fram, hæstv. forseti, að ég ætla hér ekki að skjóta mér á bak við einhverja nefnd eða ráðgjafa í þessu máli. Það er sem sé mín pólitíska niðurstaða eftir að búið er að fara yfir alla kosti þessa máls mjög rækilega að þetta sé leiðin sem verði að fara við þessar aðstæður. Ég tel að hún sé hyggileg og betri en að láta eigið fé sjóðsins étast upp þegar vilji er til að styrkja lífeyrissjóðinn og að sjóðurinn reki sig ekki með þessum hætti. Starfsemi bankanna í landinu er orðin allt önnur og þeir eru tilbúnir að fjármagna framkvæmdir sveitanna. Vonandi munu þeir gera það vel.

Ég hef auðvitað kannað margar aðrar leiðir. Ég hef kannað þetta með lífeyrissjóðinn sem hér kom nú fram í utandagskrárumræðu við hv. þingmann. Ég fór yfir það mál og hef farið yfir það í mínu ráðuneyti. Það kemur í ljós að lög standa í veginum fyrir þeirri leið að sameina og reka sjóðinn inn í lífeyrissjóðinn. Það gekk því ekkert upp. Þetta er því hin pólitíska niðurstaða sem ég tek fulla ábyrgð á og skýt mér ekki á bak við neinn í þeim efnum og hef stuðning ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) með mér í því og stjórnarflokkanna hér á þinginu.



[21:48]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held það sé ágætt að það komi skýrt fram að þetta er einmitt pólitísk niðurstaða en ekki fagleg. Þó svo ráðherra hafi látið fara fram þessa vinnu þá er niðurstaðan pólitísk og aðrir möguleikar faglegir eru ekki í sjálfu sér kannaðir. Þetta er ekki metið á þeim forsendum. Þetta er fyrst og fremst pólitísk niðurstaða. Þó ég sé ekki sammála þeirri pólitísku niðurstöðu þá finnst mér ráðherrann maður að meiri að viðurkenna það samt. Það er þá bara pólitísk ákvörðun sem ég er ekki sammála.

Varðandi það að styrkja lífeyrissjóðinn þá vil ég bara benda á að samfélagsleg ábyrgð er á Lífeyrissjóði bænda eins og öðrum lífeyrissjóðum. Það er núna verið að taka á Lífeyrissjóði sjómanna. Það er vitað að Lífeyrissjóður bænda á erfitt og ef heldur áfram að fækka í stéttinni og lífeyrissjóðsfélagar eldast þá mun vandi hans aukast. Þó svo að þarna kæmu 2–3 milljarðar inn í lífeyrissjóðinn í gegnum að selja þessa félagslegu eign sem ég tel nú lánasjóðinn vera þó svo að ríkið teljist eiga hann þá sé ég ekki að sú ráðstöfun leysi það vandamál og viðfangsefni Lífeyrissjóðs bænda til framtíðar. Það verður að taka á þeim þætti áfram. Það er bara samfélagsleg ábyrgð að tekið sé á málum Lífeyrissjóðs bænda óháð Lánasjóði landbúnaðarins, herra forseti.



[21:50]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason er meistari útúrsnúninganna. Þegar ég segi að þetta sé mín pólitíska ákvörðun sem ég hef stuðning við þá er hann fljótur að slá því upp og segja: „Pólitísk en ekki fagleg ákvörðun.“ Þetta er sem sé pólitísk ákvörðun sem er byggð á faglegum rökum margra sem yfir málið hafa farið. Ég hef af fullri ábyrgð leitað álits margra fleiri en hér eru tilgreindir. Ég hef leitað í smiðju þeirra og rætt þessi mál við aðila sem þekkja vel til á peningamarkaði og kunna með þessi mál að fara, fyrrum starfsmanna og til bændanna og peningamanna sem sjá framtíðina. Þetta er sem sé fagleg niðurstaða en pólitísk ákvörðun. Ég vil hafa það alveg skýrt að við höfum legið yfir þessu og lagt í þetta mikla vinnu til að undirbúa það.

Við teljum líka mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að þetta mál gangi dálítið hratt fyrir sig því peningastofnun sem ákveðið er að selja eða breyta er viðkvæm. Hún er eins og egg. Hún getur brotnað í þeim meðförum. Hún er mikið verðmæti í dag. Þess vegna þurfa öll svona mál og allar svona breytingar að ganga hratt fyrir sig.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að lífeyrissjóðurinn er veikur en sem betur fer lifa bændur langa ævi. Staðreyndin er sú að við 70 ára aldur eiga þeir tíu árum lengri lífslíkur samkvæmt rannsóknum en aðrir Íslendingar og stafar það sjálfsagt af þeirri hollu fæðu og miklu hreyfingu og lífsgleði sem hefur einkennt þeirra störf. En sú er staða sjóðsins að hún er veik og ég tel mikilvægt að semja um að styrkja (Forseti hringir.) sjóðinn sem allra mest við þessar breytingar.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu.