139. löggjafarþing — 55. fundur
 18. desember 2010.
sjúkratryggingar, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 191. mál (frestun gildistöku ákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir). — Þskj. 652.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:24]

[14:18]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum með mál sem gengur út á það að gefa hæstv. ráðherra aftur frest til að klára lögbundið verkefni en það sem eftir er að gera er að skipta upp verkefnum milli Tryggingastofnunar ríkisins og Sjúkratrygginga og færa starfsmenn frá Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisráðuneyti í Sjúkratryggingar þannig að við getum náð fram betri árangri í heilbrigðisþjónustunni.

Einhverjir hafa sagt að þetta kallaði á aukinn kostnað. Það er misskilningur. Einhverjir hafa sagt að þessi hugmyndafræði, að vanda vel til verka, sé gjaldþrota og það er sömuleiðis mikill misskilningur. Sem betur fer náðum við því fram að stytta frestinn úr þremur árum í eitt ár. Það er einu ári of langur tími en í nafni samstöðu, góðvildar og gleðilegra jóla gerðum við það, virðulegi forseti. En við sitjum hins vegar hjá, sjálfstæðismenn, við þessa atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Nú?)



[14:20]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. fyrr í dag var því haldið fram að ég hefði haft í hótunum út af þessu máli. Það er alrangt. Ég benti einfaldlega á þá staðreynd að sá frestur sem við erum að veita núna er of skammur. Ekki mun vinnast tími til að klára þessa samninga á þessum tíma. Það er grundvallarvinna sem á eftir að fara fram til að finna út úr því hver kostnaðurinn er, hver kostnaðargreiningin er — þetta eru allt verk sem eru algerlega óunnin og ekkert hefur verið farið út í og það er óraunsæi að halda því fram að þetta gangi á einu ári.



Frv.  samþ. með 40 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁI,  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁRJ,  BirgJ,  BJJ,  BVG,  EyH,  GuðbH,  HHj,  HöskÞ,  JóhS,  JRG,  KJak,  KaJúl,  KLM,  LMós,  MSch,  MT,  MÁ,  OH,  ÓGunn,  RM,  SDG,  SER,  SII,  SIJ,  SSS,  SF,  SkH,  SJS,  SSv,  VBj,  VigH,  ÞSa,  ÞSveinb,  ÞrB,  ÞBack,  ÖJ.
13 þm. (ÁsbÓ,  BÁ,  BjarnB,  GÞÞ,  JónG,  ÓN,  PHB,  REÁ,  RR,  SKK,  TÞH,  UBK,  ÞKG) greiddu ekki atkv.
10 þm. (AtlG,  ÁJ,  BjörgvS,  EKG,  GStein,  JBjarn,  KÞJ,  LRM,  ÓÞ,  ÖS) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[14:21]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég lýsti því yfir að í trausti þess að unnið yrði að lögum sem samþykkt voru 1. október 2008 og til að fullnusta lögin greiddi ég atkvæði með þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir um að veita hæstv. heilbrigðisráðherra eitt ár í staðinn fyrir þrjú ár, því að um það hljóðaði breytingartillagan, til að fullnusta lögin frá 1. október 2008. Hér kemur enn og aftur fulltrúi í hv. heilbrigðisnefnd, Ólafur Þór Gunnarsson, og segir að þetta muni ekki takast, lýsir því yfir við atkvæðagreiðsluna áður en frumvarpið og breytingartillagan er orðin að lögum. Frú forseti, þetta er skrípaleikur.



[14:22]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér var samþykkt breytingartillaga við 2. umr., sem ég lagði þá fram í mínu nafni til að ná sátt milli ólíkra sjónarmiða hvað varðar frestun, heimild fyrir heilbrigðisráðherra til að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt á hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Ég taldi að með þessari breytingu, sem hér hefur verið samþykkt, að fresta um eitt ár, í staðinn fyrir að hafa heimild að fresta til þriggja ára, hefðum við náð sátt í málinu en við verðum líka að horfa á staðreyndir. Sjúkratryggingastofnun Íslands er vanbúin til að taka þetta hlutverk að sér (Gripið fram í.) og við verðum að gefa henni þann tíma sem þarf til að undirbúa samningagerðina og til þess var verið að vísa í fyrri atkvæðaskýringum.



[14:23]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög alvarlegt þegar menn ná saman um einhverja hluti að í kjölfarið komi stjórnarliðar, ekki einu sinni heldur tvisvar, með hótanir um að ekkert verði gert með viðkomandi samkomulag. Enn og aftur koma hv. þingmenn stjórnarliðsins og fara rangt með. Sjúkratryggingar Íslands voru tilbúnar til að taka þetta verkefni 1. janúar á næsta ári. Af hverju í ósköpunum koma hv. þingmenn hvað eftir annað og halda öðru fram? Til hvers er sá leikur gerður?

Virðulegi forseti. Ég vonast til að þetta hafi ekki neinar neikvæðar afleiðingar. Við stóðum að þessu samkomulagi í góðri trú um að staðið væri við lögin. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra muni gera það en ekki hlusta á hótanir í hv. þingmönnum Vinstri grænna.