142. löggjafarþing — 23. fundur
 4. júlí 2013.
almannatryggingar og málefni aldraðra, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 25. mál (frítekjumörk, tekjutengingar). — Þskj. 83, brtt. 79 og 82.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[23:30]

Brtt. 79 samþ. með 62 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OO,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SÁA,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SkH,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[23:26]
Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gera grein fyrir atkvæði mínu eða tala um atkvæðagreiðsluna almennt. Var ég þá ekki að gera einhverja vitleysu núna?

(Forseti (EKG): Atkvæðagreiðslan verður endurtekin. Forseti hafði litið svo á að hv. þingmaður vildi fá að gera grein fyrir atkvæði sínu.)

Já, afsakið.

(Forseti (EKG): Hv. þingmaður gerir þá grein fyrir atkvæði sínu. Atkvæðagreiðslan heldur áfram.)

Virðulegur forseti. Við munum styðja þetta frumvarp og viljum ekki standa í vegi fyrir því vegna þess að við teljum að þær breytingar sem eru þó gerðar í því séu þess eðlis að við viljum ekki koma í veg fyrir þær. Við mundum þó vilja sjá að frumvarpið þjónaði fleiri hópum og gerði heldur ekki upp á milli kynjanna.

Nú held ég samt að ég eigi að vera að gera grein fyrir atkvæði mínu um breytingartillöguna. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.)

Já, einmitt, þá er ég bara formlega búin að klúðra þessu máli. (Gripið fram í: Nei.) En ég vil nýta tækifærið og hvet ykkur til þess að samþykkja þær breytingartillögur sem liggja fyrir um að gera frumvarpið þannig að það þjóni stærri hópi fólks en það gerir án breytingartillagnanna.



[23:28]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér gerir meiri hluti nefndarinnar að tillögu sinni að bráðabirgðaákvæði um frítekjumark á atvinnutekjur örorkulífeyrisþega verði framlengt út næsta ár, árið 2014. Ég fagna því, en samtímis finnst mér óeðlilegt að frítekjumark á atvinnutekjur örorkulífeyrisþega sé í bráðabirgðaákvæði en sams konar ákvæði um ellilífeyrisþega sé í lögunum, lagatextanum. Af hverju þessi mismunun á þessum tveimur hópum lífeyrisþega er nú lögfest er mér hulin ráðgáta, en ég fagna því að bráðabirgðaákvæðið sé þó framlengt og (Forseti hringir.) mun styðja það.



[23:29]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Báðir stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar að það yrði forgangsmál að hækka lífeyrisgreiðslur til aldraðra og öryrkja. Hér er verið að mæta litlu broti af því sem lofað var fyrir kosningar og gagnast fyrst og fremst þeim tekjuhærri. Það er ekki rétt forgangsröðun. Þeir verst settu í hópi elli- og örorkulífeyrisþega fá ekki neinar kjarabætur. Stjórnarandstaðan lagði til að komið yrði til móts við þá hópa en það var fellt, því miður. Ég styð samt þetta skref, þótt ég telji það ekki vera rétta forgangsröðun, og brýni þingmenn til að halda áfram þeirri heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu sem hafin var og þeir nýti þá miklu vinnu sem búið er að leggja í þá endurskoðun og stórir hópar eins og Samtök atvinnulífsins, ASÍ og fleiri hafa mælt með að yrði haldið áfram.



Brtt. 82 samþ. með 63 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OO,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SÁA,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SkH,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[23:31]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp því að í dag hefur meiri hlutinn því miður ekki stutt tillögur minni hlutans, en þetta er tillaga þess eðlis, hún er formtillaga varðandi fyrirsögn frumvarpsins. Úr fyrirsögn frumvarpsins falla orðin „og eftirlitsheimildir“ af því að við vorum sammála um það í nefndinni að samþykkja ekki breytingar á lögunum hvað varðaði eftirlit stofnunarinnar heldur ætlum að vinna að því nánar í haust og erum sammála um markmiðin að því. Þetta er formtillaga um fyrirsögn frumvarpsins og ég taldi rétt að koma hér og skýra það út.



Frv., svo breytt, samþ. með 62 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁPÁ,  ÁÞS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BirgJ,  BjG,  BjarnB,  BjörgvS,  BjÓ,  BSB,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FrH,  GuðbH,  GÞÞ,  GBS,  HarB,  HE,  HHG,  HHj,  HöskÞ,  IllG,  JMS,  JónG,  KG,  KJak,  KaJúl,  KÞJ,  KLM,  LRM,  LínS,  OO,  PVB,  PJP,  PHB,  REÁ,  RR,  RM,  SDG,  SÁA,  SII,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SkH,  SJS,  SSv,  UBK,  ValG,  VigH,  VilB,  WÞÞ,  ÞM,  ÞorS,  ÞórE,  ÖJ,  ÖS.
1 þm. (JÞÓ) greiddi ekki atkv.
6 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[23:32]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að líta yfir atkvæðatöfluna og sjá að hér er næstum því komið 63:0, en það eru 62 sem virðast ætla að styðja málið og það er mjög þakkarvert.

Ég vil þakka samstarfið við velferðarnefnd og vinnuna þar. Það hefur margítrekað komið fram að þetta er fyrsta skrefið hjá ríkisstjórninni að bæta kjör lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja og annarra sem þiggja greiðslur frá Tryggingastofnun. Þetta mun bæta kjör þúsunda lífeyrisþega og að sjálfsögðu, eins og kom fram í framsögu minni, munum við halda áfram að vinna að heildarendurskoðun á almannatryggingunum þannig að nýtt kerfi muni gagnast öllum lífeyrisþegum, öldruðum og öryrkjum og við getum tryggt að við verðum áfram með gott öryggisnet fyrir þá sem á því þurfa að halda.



[23:33]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég greiði atkvæði með frumvarpinu en með semingi vegna þess að ég var í þeirri nefnd sem vann að því að samræma lífeyrisgreiðslur almannatrygginga og lífeyrissjóða og sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu, eftir mikla yfirlegu, umhugsun og umræðu, að hverfa skyldi frá öllum frítekjumörkum, taka heldur upp lægri prósentu og horfa til framtíðar og þess kostnaðar sem lífeyriskerfið og Tryggingastofnun mun mæta á næstu árum sem er umtalsverður og háttvirt Alþingi verður að taka afstöðu til innan tíðar.

Þess vegna er það með semingi sem ég samþykki þetta en þetta eru góð mál svona hvert fyrir sig og hugsuð til skamms tíma.



[23:34]
Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að skandalísera ekki aftur núna, en mér finnst ég knúin til að segja að þrátt fyrir að vilja styðja þetta frumvarp, vegna þess að ég tel að það sem er þar í geti stutt við ákveðinn hóp og ég vil ekki koma í veg fyrir það, þykir mér afar flókið og það hefur mikið togast á innra með mér að greiða því atkvæði mitt vegna þess að það tekur ekki tillit til allra hópa. Það er ekki í rauninni mjög heildstætt og ég hefði viljað sjá miklu markvissari aðgerðir sem þjónuðu hópnum öllum. Jafnframt finnst mér mjög flókið að greiða atkvæði með frumvarpi þar sem jafnræði kynjanna er ekki gætt. Ég hef því ákveðið, eins og hefur komið fram, að greiða því atkvæði en þó af miklum trega.



[23:36]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir allt það sem hér var sagt á undan og mér líður nákvæmlega eins. Mér finnst mjög sárt hve margir hópar sitja eftir og það eru þeir hópar sem þurfa hvað mest á stuðningi og betri kjörum að halda frá okkur á Alþingi. Það er því miður svo oft á þessum vinnustað að tilfinningarnar eru blendnar gagnvart þeim ákvörðunum sem maður þarf að taka. Ég vil alls ekki taka möguleikann frá þeim sem fá bætur en á sama tíma mótmæli ég því harðlega að ekki sé tekið tillit til þeirra sem hafa hvað minnst og hafa beðið hvað lengst og áttu von á því að kjör þeirra yrðu rétt hér í dag.



[23:37]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að styðja þetta frumvarp því að margir fá úrlausn sem ekki eru ofhaldnir. Hitt er sérkennilegra að frumvarpið færir þeim allra, allra mest sem hafa allra, allra mest fyrir og meiri hlutinn hefur látið fram hjá sér fara í kvöld tækifæri til að gefa eitthvað til þeirra sem minna hafa milli handanna. Fólksins sem fær lítinn lífeyri úr hinum almennu lífeyrissjóðum. Þess bíður núna að borga þennan reikning og fá ekkert í sinn hlut.

Það er líka áhyggjuefni að aðferðafræðin sem valin er af hálfu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra gengur, eins og hv. þm. Pétur Blöndal rakti áðan, þvert gegn því sammæli sem hefur verið að myndast á milli aðila vinnumarkaðarins og þvert á alla flokka um nýtt almannatryggingakerfi. Það verkefni er sett í uppnám og ábyrgðin á því er kirfilega í höndum ríkisstjórnarinnar.



[23:38]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er svo sannarlega oft sem við í þessum þingsal viljum geta gert betur við þá sem minna mega sín. Því er haldið fram um þetta mál að það komi einkum þeim til góða sem hafa skásta stöðuna meðal eldri borgara og öryrkja. Þá er rétt að halda því til haga að fyrrverandi ríkisstjórn hafði einmitt skert kjör þessara og hlíft hinum sem voru með mestu réttindin. Það er verið að vinda ofan af því með þessum aðgerðum (Gripið fram í.) og koma þannig til móts við þann hóp.

Hér er því haldið fram að þetta sé ekki nóg. Þeir eru rétt nýfarnir frá völdum sem hæst láta í þeirri umræðu og notuðu ekki tímann til að hrinda sínum hugðarefnum í framkvæmd. (SII: Þú veist að þetta er rangt.)(Gripið fram í: Það er allt annað …) Síðan er því haldið fram að núverandi ríkisstjórn hafi fallið frá áformum um að endurskoða tryggingakerfið. Það er einfaldlega úr lausu lofti gripið (Gripið fram í.) en það verður ekki gert á einu sumarþingi. Engu að síður koma þessir sömu þingmenn og styðja frumvarpið en segja það ganga í berhögg við málið sem þeim er svo hjartfólgið. (Forseti hringir.)

Þessi umræða er alveg óskaplega grunn, öfugsnúin og (Gripið fram í.) rökin öll á hvolfi. (Forseti hringir.) (SII: Skætingur.) Nú er kallað fram í að ég sé með skæting. Reyni að benda á einfaldar staðreyndir. (Forseti hringir.) Það væri hægt að halda lengi áfram í þessu máli en kjarni þess (Forseti hringir.) er óskaplega einfaldur, (Forseti hringir.) það er verið að bæta kjör eldri borgara og öryrkja sem fráfarandi ríkisstjórn hafði skert. (Gripið fram í: Skammastu þín.) (Gripið fram í: Skætingur.)