144. löggjafarþing — 76. fundur
 3. mars 2015.
jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 107. mál (jöfnunargjald). — Þskj. 964, brtt. 992.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:36]

[14:29]
Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til lokaafgreiðslu frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, jöfnunargjald. Þetta eru fögur fyrirheit en ég hef sagt það áður, virðulegi forseti, og afstaða mín kom fram við 3. umr. þessa máls sem og í breytingartillögu, að ég held að enn einu sinni hafi hæstv. iðnaðarráðherra valið verstu leiðina alveg eins og gert var með náttúrupassann sem er nú sem betur fer dauður og mun taka miklum breytingum. Því miður hefur stjórnarmeirihlutinn ekki fallist á að lagfæra tekjuöflunarhliðina hvað þetta varðar og ætlar að halda sig við það að leggja skatt á almenna raforkukaupendur í þéttbýli til að greiða niður í dreifbýli.

Eins og ég sagði áðan eru það fögur fyrirheit að jafna orkukostnað en aðferðafræðin við að ná í þessar 950 milljónir er kolröng. Við í minni hlutanum lögðum til að hálfur raforkuskattur sem á að leggjast af um næstu áramót yrði tekinn í þessar (Forseti hringir.) jöfnunaraðgerðir, en því miður hefur stjórnarmeirihlutinn fellt þær tillögur. Þess vegna munum við þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.



[14:30]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Að öllu jöfnu ætti maður að hrópa húrra fyrir að þetta mál sé komið svona langt en því miður eru stórir gallar á því þar sem vandinn færist bara til. Það er verið að lækka kostnað hjá dreifbýlinu en vandinn færist yfir í þéttbýlið úti á landsbyggðinni. Orkureikningar hækka mikið þar sem orkuverð er hátt fyrir eins og hjá fjarvarmaveitum.

Tillaga mín og hv. þm. Kristjáns L. Möllers var að fara í þetta með öðrum hætti, að nýta raforkuskatt sem nú er á stórfyrirtæki til helminga til að jafna að fullu dreifingu á raforku og jöfnun húshitunarkostnaðar. Það hefði verið hægt að ganga alla leið strax með því að stórnotendur tækju þátt í þessari samfélagslegu aðgerð. Hún var felld og þess vegna tel ég að við göngum alls ekki eins langt og við hefðum getað gert. Við hefðum getað gert það miklu betur og þess vegna munum við Vinstri græn sitja hjá í þessu máli og vona að menn (Forseti hringir.) nái einhverjum áttum í þessu öllu saman.



[14:31]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp og segi: Húrra, loksins, loksins, eftir mjög mörg ár sem menn hafa strögglað við að viðurkenna að auðlindin sem við búum til raforkuna úr sé sameign þjóðarinnar. Ísland er eitt land og (Gripið fram í.) dreifikostnaðurinn ætti að vera jafn alls staðar, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Þó að menn hafi farið út af því spori einhvern tímann er ég glaður yfir að hér og nú sé verið að jafna dreifikostnað í landinu þar sem allir landsmenn sitja við sama borð. Við búum í einu landi og erum að nýta þessa sameiginlegu auðlind og því segi ég: Húrra, loksins, loksins.



[14:32]
Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Markmiðið er gott, það er gott markmið að jafna kostnað við dreifingu raforku, en aðferðin sem hér er valin er afleit. Hún er þannig að fyrirtækin í þéttbýli eru skattlögð til að borga niður fyrir aðra. Það er ekki rétt sem hæstv. sjávarútvegsráðherra segir, að við séum að jafna kostnað. Þéttbýlið er að borga meira fyrir dreifbýlið, það er þannig. Hér leggur Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur atvinnulífsins hefur hann kallað sig, aukinn skatt (Gripið fram í: Nýja skatta.) á atvinnulíf í þéttbýli svo við höfum það á hreinu.

Við sitjum hjá við þessa afgreiðslu af því að við erum ekki sammála þessari aðferðafræði.



[14:33]
Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mikið réttlætismál. Það gengur út á að allir landsmenn sitji við sama borð. Ég hef heyrt marga í stjórnarandstöðunni flytja langar og góðar ræður um hversu mikið sanngirnis- og réttlætismál þetta er. Og ég bara trúi því ekki að stjórnarandstaðan á þingi sé svo harðvítug að hún geti ekki greitt atkvæði með þessu máli.

Að sjálfsögðu segi ég já. Ég fagna þessu frumvarpi, ég fagna því að það sé komið til atkvæðagreiðslu og ég er virkilega stoltur af því að fá að taka þátt í því á Alþingi að jafna raforkukostnað um allt land.



[14:34]
Haraldur Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna þeim áfanga sem við erum að ná í dag. Ég fagna því sérstaklega þessi leiðrétting sé að verða að veruleika. Við getum sagt að áður hafi verið vitlaust gefið en að í dag sé verið að leiðrétta það og færa til betri vegar. Þetta snýst um það að við erum að hækka … (Gripið fram í.)— Já, því miður, og ég hef samúð með þeim sem fá 150 kr. hækkun á mánuði í þéttbýlinu en ég fagna með þeim í dreifbýlinu sem fá 900 kr. lækkun á mánuði. Ég fagna því sérstaklega að við séum að afgreiða þetta mál á þessum degi þegar búnaðarþing stendur yfir því að þetta er eitt heitasta baráttumál búnaðarþings til margra ára, að jafna dreifingarkostnað á rafmagni milli sveita og milli þéttbýlis.



[14:35]
Þórunn Egilsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir fögnuð þeirra sem hér fagna. Þetta er gríðarlegt réttlætismál sem við erum að afgreiða hér. Þetta er skref í rétta átt, þetta er fyrsta skrefið sem við erum að stíga og vissulega getur það verið þungbært fyrir þá sem reikningurinn hækkar hjá um 150 kr. á mánuði, en ég samgleðst með hinum sem reikningurinn lækkar hjá um mun hærri upphæð.



Brtt. 992 samþ. með 28 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  SDG,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SBS,  VilB,  ÞorS,  ÞórE,  ÖS.
19 þm. (ÁPÁ,  ÁstaH,  BirgJ,  BjÓ,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  KaJúl,  KLM,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VBj) greiddu ekki atkv.
16 þm. (ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BP,  GÞÞ,  IllG,  KG,  KJak,  OH,  REÁ,  RR,  UBK,  ValG,  VilÁ,  WÞÞ,  ÖJ) fjarstaddir.

Frv., svo breytt, samþ. með 27 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsF,  BjarnB,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GBS,  HarB,  HE,  HöskÞ,  JMS,  JónG,  KÞJ,  LínS,  PJP,  PHB,  SDG,  SÁA,  SigrM,  SIJ,  SilG,  SBS,  VilB,  ÞorS,  ÞórE.
20 þm. (ÁPÁ,  ÁstaH,  BirgJ,  BjÓ,  GuðbH,  GStein,  HHG,  HHj,  KaJúl,  KLM,  LRM,  ÓP,  PVB,  RM,  SII,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VBj,  ÖS) greiddu ekki atkv.
16 þm. (ÁsmD,  BÁ,  BjG,  BP,  GÞÞ,  IllG,  KG,  KJak,  OH,  REÁ,  RR,  UBK,  ValG,  VilÁ,  WÞÞ,  ÖJ) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[14:36]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikið réttlætismál og baráttumál að jöfnun verði á dreifikostnaði raforku og jöfnun á húshitunarkostnaði í landinu. En hvernig það tókst að búa til úr því ágreining, eins og hér hefur komið fram, þar sem menn setja þrefalt hærri upphæð á almenna notendur til að hlífa stóriðjunni við að taka þátt í verkefninu er mér óskiljanlegt. Við hefðum getað tekið allt skrefið í einu ef við hefðum gengið fram eins og hugmyndir og tillögur voru um frá þverpólitískri nefnd sem gerði tillögur um hvernig jafna ætti húshitunarkostnað í landinu. Það er það sem við erum að segja með atkvæði okkar með því að sitja hjá, að við missum þarna tækifærið að stíga miklu stærra skref með auðveldari hætti fyrir heimilin í landinu en hér er valið að stíga. Það er það sem þetta snýst um. Við erum sammála um markmiðin um jöfnun húshitunarkostnaðar og dreifingarkostnaðar.