146. löggjafarþing — 44. fundur
 20. mars 2017.
nám í máltækni.
fsp. KJak, 254. mál. — Þskj. 352.

[16:46]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Staða íslenskunnar í stafrænum heimi hefur verið mörgum hv. þingmönnum hugleikin á undanförnum árum. Hér var samþykkt þingsályktunartillaga frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem miðaði að því að sett yrði af stað nefnd sem myndi smíða aðgerðaáætlun um það að íslenskan yrði gjaldgeng í hinum stafræna heimi. Á svipuðum tíma var lagt fram mat 200 evrópskra sérfræðinga sem höfðu greint stöðu 30 evrópskra tungumála út frá hinum nýja veruleika. Þar kom fram að íslenskan væri í næstmestri útrýmingarhættu af þeim 30 tungumálum sem metin voru, á eftir maltnesku.

Ég veit að hæstv. ráðherra gerði íslenskuna að umtalsefni á fyrstu vikum sínum í embætti. Ég fagna því ef hæstv. ráðherra ætlar að taka þau mál til sérstakrar skoðunar. Það var farin af stað vinna sem fyrrverandi hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson boðaði um að samin yrði aðgerðaáætlun hvað varðar tungutækni og máltækni. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í nám í máltækni og framtíðarhorfur þess.

Ég hef grafist fyrir um að ekki verði tekið við umsóknum fyrir kennsluárið 2017–2018 inn í meistaranámið í máltækni við Háskóla Íslands, sem er það fræðisvið sem snýst um að mennta nemendur til að geta unnið með annars vegar tæknina og hins vegar tungumálið. Þetta kom mér á óvart. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þeirra upplýsinga, nema einhverjar nýjar upplýsingar séu fyrir hendi um að þessu hafi verið breytt, hvort til standi að skoða þetta nám sérstaklega og styrkja það með tilliti til þeirra áætlana sem stjórnvöld hafa boðað um að efla íslenskuna í stafrænum heimi. Meistaranámið snýst um að tengja saman gervigreind, málvísindi, tölvunarfræði, tölfræði og sálfræði þannig að þeir sem ljúka því námi geti komið að því verkefni að þróa búnað sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Það er það sem stendur upp úr öllum sérfræðingum á þessu sviði, að svo verði innan fárra ára, og raunar er það þegar byrjað, ég hef kynnt mér einhver slík tæki sem láta stjórnast af tali mínu en krefjast ekki þess að maður nýti fingurna til að slá inn skipanir. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í framtíðarsýn hans varðandi þetta nám og hvort til einhverra aðgerða verði gripið þannig að unnt sé að taka inn nemendur í þetta nám, helst á hverju ári.



[16:49]
mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Þær eru í tveimur liðum og lúta að framtíðarhorfum í máltækninámi á háskólastigi. Hér er spurt hvort til standi að styrkja sérstaklega nám í þeirri grein með tilliti til áætlana stjórnvalda um að efla íslensku í stafrænum heimi. Fyrirspyrjandi vitnaði réttilega til samþykktar sem síðasta ríkisstjórn gerði og það var á fundi ríkisstjórnarinnar 2. september sl. Þar var samþykkt að leggja til 50 millj. kr. á fjáraukalögum á árinu 2016 til kortlagningar á tækni fyrir máltækni, stefnumörkunar og vals á tæknilegri útfærslu fyrir íslenskuna, stöðumats íslenskra gagnasafna og gerðar nákvæmrar fjárhags- og verkáætlunar fyrir fimm ára markáætlun á sviði máltækni fyrir íslensku.

28. október sl. var skipaður sérstakur stýrihópur yfir þetta verkefni. Meginverk hans er að setja upp verkáætlun um máltækni fyrir íslenskuna. Í tengslum við þá vinnu stýrihópsins er verið að vinna jafnhliða að skýrslu um stöðu og framtíð menntunar í máltækni. Í þeirri skýrslu á að fjalla sérstaklega um almenn námskeið í háskólum sem tengja megi við máltækni eða máltækniverkefni, hvernig skuli skipuleggja meistaranám í máltækni og hvaða verkefni gætu fallið innan þess. Jafnframt á í þeirri skýrslu að taka sérstaklega á þáttum sem lúta að doktorsnámi sem gætu tengst máltækni á hinum ýmsum fræðasviðum háskóla hér á landi.

Þá skýrslu munu fjórir háskólakennarar vinna, tveir frá tölvunarfræðideildum Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands og frá íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og fulltrúar frá samtökum atvinnulífsins. Það er von á skýrslunni á næstu mánuðum. Hún er beinlínis tengd þeirri fimm ára aðgerðaáætlun um máltækni fyrir íslenskuna sem ég nefndi áðan. Síðast þegar ég frétti af því verki og spurðist fyrir um stöðu þess máls átti ég að fá tillögur að markáætlun núna á vormánuðum.

Svo er spurt hvort teknir verði inn nýir nemendur í meistaranám í máltækni við Háskóla Íslands næsta haust og ef svo er ekki hver ástæðan sé. Meistaranámið í máltækni á háskólastigi hefur verið rekið í samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík frá árinu 2007. Í upphafi, og nú eru þetta upplýsingar sem mér eru bornar úr ráðuneytinu, var ákveðið að taka inn annað hvert ár og gekk það upp að mestu leyti fram til ársins 2015. Fram að árinu 2011 var námið rekið í samstarfi við Norræna máltækniskólann sem gerði háskólunum kleift að senda nemendur í stutt námskeið við háskóla á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum. Þegar því samstarfi lauk skilst mér að það hafi veikt mjög námsframboð í máltækni hér á landi. Af þeirri ástæðu hafi Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík ákveðið að bjóða ekki upp á meistaranám í máltækni veturinn 2016–2017, m.a. vegna skorts á hæfum kennurum og erfiðleikum með að bjóða upp á sérhæfð námskeið í máltækni.

Persónuleg skoðun mín á þessu máli er sú að ég tel mikilvægt að líta til forgangsröðunar í þágu máltækni á háskólastigi, bæði hvað varðar skipulag og fjármögnun. Ég hef óskað eftir að það verði skoðað sérstaklega í tengslum við aðgerðaáætlun um máltækni fyrir íslenskuna sem ég nefndi áðan. Ég hef heyrt utan að mér, án þess að hafa fengið það staðfest, að legið hafi fyrir að það væri áhugi og nemendur sem vildu gjarnan komast til þessa náms. Ég hef ekki fengið aðrar skýringar en þær sem ég hef rakið á því hvers vegna ekki hefur verið boðið upp á þetta. Vilji minn stendur til þess að tengja þetta því verki sem ég hef gert að umtalsefni um aðgerðaáætlun eða markáætlun í máltækninni og ég bind vonir við að við getum einhvern veginn fjármagnað starf innan háskólans á þessu sviði í tengslum við það verkefni.



[16:54]
Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þær upplýsingar sem hann kemur hér fram með. Ég viðurkenni að mér var ekki kunnugt um að ekki hefði heldur verið boðið upp á þetta nám þennan veturinn, þ.e. 2016–2017, sem eykur nú enn á áhyggjur mínar í ljósi þess að við höfum verið að ræða þetta mál í raun og veru allt frá 2013 þegar fram kom sterkt ákall um það þyrfti að fara að vinna að þessum málum. Það liggur fyrir að þessi verkefni, eins og önnur, skertust eftir hrun. En það má líka benda á að það átak sem ráðist var í í tíð hæstv. fyrrverandi ráðherra Björns Bjarnasonar var tímabundið en það skipti miklu máli. En ég held að staðan núna sýni okkur að ekki er hægt að gera þetta bara með átaksverkefni. Það þarf að tryggja viðvarandi nám, kennslu og rannsóknir á þessu sviði.

Þetta eykur enn á áhyggjur mínar í ljósi þess að tíminn líður ansi hratt í þessum málum. Við sjáum tæknina þróast með miklum hraða, en vitum um leið að við höfum ekki staðið okkur í því að uppfæra þessa tækni.

Hæstv. ráðherra vitnar til þess að veittar hafi verið 50 milljónir á fjáraukalögum 2016 til mótunar aðgerðaáætlunar og að fyrir liggi áætlanir um ákveðna fjármuni til lengri tíma. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það geti nýst til þess að bjóða upp á það nám sem kynnt er á heimasíðu HÍ sem samstarfsverkefni HÍ og HR veturinn 2017–18, að það sé unnt? Hæstv. ráðherra segir, og ég hef heyrt hið sama, að það virðist vera talsverður áhugi á náminu. Mér finnst tækifærin vera að fara fram hjá okkur, að við fáum ekki inn nemendur sem séu að fara að undirbúa sig undir það að taka þátt í því stóra verkefni sem fram undan er.



[16:56]
mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hv. fyrirspyrjanda af því að við séum ekki að halda í við hraða tækninnar, ekki að mæta þeim áskorunum sem þar eru uppi og gera í raun ekkert annað en að aukast. Þeim fjölgar viðfangsefnunum sem við þurfum að glíma við á degi hverjum og á meðan við mætum þeim ekki með einhverjum hætti lætur íslenskan undan síga. Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá og höfum ágætan samhljóm í því hér í þessum sal að reyna að berjast gegn þeirri þróun.

Þegar spurt er um fjármögnun á þessu námi veturinn 2017/2018, hvort þessi aukafjárveiting geti gagnast í þeim efnum, þá þekki ég það ekki. En ég mun skoða það og leita þeirra leiða sem færar eru til þess að mæta þeim áhuga sem við erum, bæði fyrirspyrjandi og sá sem hér stendur, upplýst um að sé fyrir hendi í háskólasamfélaginu, þar sé áhugi fyrir hendi að takast á við nám í þessum fræðum. Við erum á þeim stað í tíma að við eigum að nýta og grípa sérhvert tækifæri í þeim efnum sem gefst til að geta barist gegn þessu. En veröldin er svo fljótandi og hröð í dag að ég heyrði fyrst af þessum hugrenningum í einni lítilli fésbókarfærslu þar sem ég bara rakst á þessar upplýsingar sem við höfum verið að skjóta hér á milli okkar.

Lokaorð mín í þessu eru þau að ég mun nýta sérhvert það tækifæri sem ég get komið auga á til að skjóta styrkari stoðum undir þá vinnu sem við ætlum að leggja í á þessu sviði til þess að mæta þeim áskorunum sem íslenskan stendur frammi fyrir.