146. löggjafarþing — 66. fundur.
vextir og verðtrygging o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 216. mál (lán tengd erlendum gjaldmiðlum, EES-reglur). — Þskj. 300, nál. 771 og 780, breytingartillaga 772.

[17:29]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtyggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán, og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum).

Nefndarálitinu, sem er á þskj. 771, fylgir breytingartillaga á þskj. 772.

Á fund efnahags- og viðskiptanefndar komu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, fulltrúar Fjármálaeftirlits, fulltrúi frá Neytendasamtökum, frá Samtökum fjármálafyrirtækja og frá Seðlabanka Íslands. Að auki bárust nokkrar umsagnir sem greint er frá í álitinu.

Með frumvarpinu er lagt til að lán tengd erlendum gjaldmiðlum verði heimil með vissum takmörkunum. Lán til neytanda verði háð því að hann hafi tekjur í þeim gjaldmiðli sem lán tengist, geti staðið af sér verulegar breytingar á greiðslubyrði vegna gengis- og vaxtabreytinga eða leggi fram fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu. Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja lánveitingum skorður í þágu fjármálastöðugleika.

Í nefndarálitinu er nánar fjallað um sjö greinar frumvarpsins. Ég tel ekki ástæðu til þess að gera sérstaklega grein fyrir því í ræðustól, það stendur allt í nefndarálitinu.

Í breytingartillögu, sem fylgir hér með, eru tíu breytingartillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þær standa í breytingartillögunni og eru skýrðar að hluta til í umfjöllun í nefndarálitinu. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja það nánar. Það skýrir sig að mestu leyti sjálft.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt sem breytingum sem gerðar eru á sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Óli Björn Kárason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Þetta er gert á Alþingi, 11. maí 2017.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson og Jón Steindór Valdimarsson. Það er meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins, sem hefur þinglega stöðu, og sömuleiðis til breytingartillögu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[17:33]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum). Hér er um að ræða mál sem verið hefur til umræðu oft áður á Alþingi. Um það eru töluverðar deilur. Það snýst fyrst og fremst um lán tengd erlendum gjaldmiðlum, svokölluð gengistryggð lán, sem vöktu umræðu um þetta mál og hafa vakið deilur hér á fyrri stigum.

Með frumvarpinu er lagt til að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna neytenda ef þeir hafa nægar tekjur til að standa undir verulegum sveiflum í greiðslubyrði lánanna. Það er álit minni hlutans að með þessu frumvarpi sé verið að greiða fyrir aðgangi efnaðs fólks, sem hefur tekjur til að standa undir gjaldmiðlasveiflum, að lánum sem ekki munu standa öðrum til boða.

Sterkur hvati er til að taka slík lán enda eru vextir víða erlendis mun lægri en hér, eins og við þekkjum öll. Vextir hér á landi hafa verið talsvert hærri en í öllum helstu viðskiptalöndum okkar. Eru fyrir því ýmsar ástæður sem ég ætla svo sem ekki að rekja hér, en það tengist bæði þeim gjaldmiðli sem við erum með hér á landi en ekki síður þeim hagvexti sem hér hefur verið sem verið hefur umtalsvert meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Með því að ávaxta féð hér á landi geta lántakendur fengið í sinn hlut umtalsverðan vaxtamun. Sá ávinningur er ekki kostnaðarlaus fyrir samfélagið. Stýrivextir Seðlabanka Íslands hrífa síður ef efnafólk getur tekið gengistryggð lán á vöxtum sem eiga ekkert skylt við stýrivextina sem Seðlabanki Íslands ákveður hverju sinni. Á móti munu aðrir þeir sem ekki hafa efni á að taka slík lán þurfa að þola meira aðhald af hálfu peningastefnunnar og greiða hærri vexti en ella. Mikil erlend lántaka óvarinna lántaka getur líka magnað upp gengissveiflur og aukið fjármálaóstöðugleika. Líkur eru til að margir þeirra muni leitast samtímis við að kaupa gjaldeyri til að lágmarka gengistap ef krónan tekur að lækka. Það ýkir lækkunina sem hækkar verð innflutts varnings og eykur því verðbólgu. Því gæti þetta hækkað verðtryggðar skuldir hefðbundinna lántakenda.

Brýnt er að Seðlabanki Íslands hafi heimildir til að setja lánastofnunum reglur um útlán tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu, sér í lagi ef fram koma vísbendingar um að lánveitingarnar geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Því þurfa viðeigandi þjóðhagsvarúðartæki að vera til staðar til að hægt sé að grípa til viðeigandi aðgerða tímanlega. Minni hlutinn tekur undir áherslu sem Seðlabanki Íslands hefur sett fram að hann fái skýrt umboð til að beita því þjóðhagsvarúðartæki sem reglusetningin er.

Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að Eftirlitsstofnun EFTA telji bann íslenskra laga við gengistryggingu ekki samrýmast meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Það er þó ekki svo að stofnunin hafi krafist þess að opnað verði fyrir gengistryggð lán til óvarinna lántaka. Ákvörðun um að útfæra þetta, bregðast með þessum hætti við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA er því pólitísk og verður ekki réttlætt með því að vísa ábyrgð til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Því má segja í stuttu máli að í frumvarpinu endurspeglist pólitísk ákvörðun um að greiða fyrir aðgangi efnafólks að ódýrri erlendri fjármögnun sem ekki mun standa öðrum til boða og verður, ef illa fer, á kostnað annarra í samfélaginu.

Minni hlutinn getur því ekki stutt framgang þessa máls. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart sem hlýddi hér á umræður við 1. umr. og hefur fylgst með málinu og framgangi þess á fyrri stigum. Það verður að segjast eins og er að í þeirri ríkisstjórn sem nú situr hefur greinilega myndast meiri hluti fyrir því að heimila þessar lánveitingar því að sá meiri hluti náðist ekki fram í síðustu ríkisstjórn sem hér sat. Þessar lánveitingar til tiltekins hóps í efnafólks í samfélaginu skrifast því algjörlega á reikning þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Undir þetta nefndarálit, sem ég hef nú farið yfir með nokkrum innskotum frá sjálfri mér, skrifa: Katrín Jakobsdóttir, Lilja Alfreðsdóttir, Oktavía Hrund Jónsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.



[17:37]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég hef ekki miklu við nefndarálit minni hlutans að bæta, sem Oktavía Hrund Jónsdóttir, varamaður minn, skrifaði undir fyrir mína hönd og okkar Pírata, þar sem ég var staddur erlendis þegar málið var afgreitt úr nefnd.

Mig langaði þó að koma aðeins inn á og taka undir að röð atburða virðist hafa verið svolítið undarleg í þessu máli þegar farið var í ákveðna vegferð núna í vor við að lyfta gjaldeyrishöftum af okkar ágæta gjaldmiðli og síðan átti að afgreiða þetta mál sem gengur út á að heimila lán í erlendum gjaldmiðlum. Þetta gerist hvort tveggja áður en einhvers konar skipulag eða reiða er komin á vaxtastigið í landinu. Það skýrir hættuna sem verður til vegna þess vaxtamunar sem bent er á í minnihlutaálitinu, að víða erlendis eru vextir mun lægri en hér, jafnvel svo munar heilum 5% eða svo ef maður ber íslensk lán saman við þau lán sem fást á meginlandi Evrópu. 5% mismunur á lánum er alveg nóg til þess að til verði mjög öflugir hvatar til þess að fólk fari að stunda vaxtamunarviðskipti með einhverju móti. Að auki er ekki verið að takmarka þessi lán nema við örfá skilyrði, sem gerir það að verkum að hættan er mjög mikil. Á það bendir Seðlabanki Íslands sem sagði í áliti sínu að það væri galopin áhætta fyrir almenning og hagkerfið ef þetta færi ekki í gegn, sem er mjög skrýtið einmitt vegna þessarar undarlegu atburðarásar.

Það er mjög margt sem fram kemur í umsögnum um þetta mál, bæði frá hagsmunaaðilum í fjármálageiranum, en líka frá t.d. Neytendasamtökunum, sem fær mann til þess að velta fyrir sér hvort þetta sé ekki bara enn eitt dæmið um að verið sé að hlaupa af stað í einhvers konar reddingar, sérstaklega í þessu tilfelli þar sem verið er að leiðrétta einhvers konar mistök — eða ekki mistök í ljósi hrunsins — sem gerð voru gagnvart EFTA-samningnum þar sem þeim skyldum sem við eigum að standa undir hefur í rauninni ekki verið sinnt.

Nú er hlaupið til og það lagað án þess að allar forsendurnar séu lagaðar fyrst, þannig að við séum örugg um að þegar opnað er á þetta gerum við hlutina rétt. Ég segi, og hef sagt það áður í fyrri umræðu um þetta mál, að við eigum að bíða með þessa aðgerð þangað til við höfum náð að koma böndum á vaxtamuninn einmitt til þess að við séum ekki að skapa þá gríðarlegu áhættu sem þessu máli fylgir.

Einnig hefur verið bent á að hér sé verið að ganga mjög langt í því að opna á lán í erlendum gjaldmiðlum, að hægt væri að opna á það mjög takmarkað til þess að uppfylla ákvæði EES-samningsins. En í staðinn er verið að opna á þau töluvert meira, einmitt af því er virðist í þágu þeirra sem hafa meira fé á milli handanna. Verði þetta að veruleika, eins og virðist vera gengið út frá, er hættan orðin töluvert mikil á að vaxtamunarviðskipti og annars konar brask geti enn og aftur leitt okkur í fjármálalegar ógöngur í þessu landi. Ef þetta frumvarp verður að lögum núna verður það alfarið að skrifast á þá sem greiða því atkvæði og samþykkja framgöngu málsins. En ég myndi gjarnan vilja að við settum þetta mál á ís, að við biðum með það og löguðum vaxtamuninn hér í landinu, lækkuðum vexti neytendalána á Íslandi, og svo getum við samþykkt þetta mál, vegna þess að í sjálfu sér er ekkert að málinu sem slíku, það er bara tímasetningin sem er röng.