146. löggjafarþing — 66. fundur
 16. maí 2017.
brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands, 2. umræða.
stjfrv., 387. mál. — Þskj. 517, nál. 779.

[17:43]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurfellingu laga um Eftirlaunasjóð starfsmanna Útvegsbanka Íslands, á þskj. 779.

Hér er um tiltölulega einfalt mál að ræða en í frumvarpinu er lagt til að lög um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga verði felld niður og sjóðurinn sameinaður B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hins vegar er lagt til að Eftirlaunasjóður starfsmanna Útvegsbanka Íslands verði lagður niður. Ríkissjóður greiði réttindi samkvæmt samþykktum sjóðsins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins annist útreikninga á réttindahlutföllum.

Umsagnir um frumvarpið, þær fáu sem bárust, voru allar jákvæðar.

Nefndin er einhuga um að leggja það til að frumvarpið verði samþykkt.

Smári McCarthy var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita auk þess er hér stendur hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Katrín Jakobsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Lilja Alfreðsdóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.



[17:44]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég kem hér til þess að lýsa yfir almennum stuðningi við að þetta mál nái fram að ganga. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur við afgreiðslu málsins í nefnd, en þetta virðist einmitt vera mál sem nokkuð góð samstaða ríkir um hjá lífeyrissjóðnum og öllum þeim sem hafa þar hagsmuna að gæta. Ég get því tekið undir meirihlutaálitið og hlakka til þess að málið fái framgöngu.



[17:45]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þetta mál á lokasprettinum. Þegar fjallað hefur verið um sameiningar lífeyrissjóða eða niðurlagningu, alveg eins og gert er ráð fyrir brottfalli laga um Lífeyrissjóð bænda, er að mörgu að hyggja. Ég get auðvitað ekkert látið hjá líða þó að ég ætli ekki að bera á móti því að það sé skynsamlegt að leggja þessa lífeyrissjóði niður eða sameina þá með þeim hætti sem hér er lagt til, a.m.k. miðað við þær forsendur sem gefnar hafa verið og umsagnir segja til um. Ég vitna til þess sem fram kemur í lögunum og vakin er athygli á að þegar farið var í að reyna að sameina lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og hins almenna atvinnumarkaðar voru ákveðnar forsendur þar á bak við.

Af því að við fjöllum um ríkisfjármálaáætlun er í rauninni ekki gerð nein tilraun til þess að jafna kjör opinberra starfsmanna við hin almennu. Ekki hefur verið gerð atlaga að því að reyna að búa til einhverjar sviðsmyndir eða neitt slíkt, vegna þess að öll umræðan um opinbera starfsmenn og lífeyrisréttindi þeirra, að þau væru betri en gerðist á hinum almenna markaði og það þýddi að launin væru lægri að einhverju leyti, það er auðvitað ekki algilt frekar en neitt annað. En heilt yfir hefur það verið þannig í gegnum tíðina.

Mér finnst ástæða til þess að halda því á lofti þar sem ég var í fjárlaganefnd að umræða kom fram um lífeyrismálin og hvernig bera ætti sig að í því efni og varðandi hækkun sem var á framlögum vegna lífeyrismála.

Ég vildi nú bara minna á þetta af því að mér finnst það ábyrgðarhluti að afsala sér lífeyrisréttindum, eins og gert var. Þó að þetta frumvarp fjalli um að sameina lífeyrissjóði eða leggja þá niður þá breytir það því ekki að undirliggjandi er það vandamál sem við höfum áður fjallað um hérna, þ.e. hvernig meta á kjör og í hverju réttindin eru fólgin, þ.e. þau réttindi sem fólk er í rauninni að afsala sér með því að gangast undir það að jafna lífeyrisréttindin til hins almenna vinnumarkaðar, að ekki skuli hafa farið fram nein greining á því. Ég vildi bara árétta það í þessari umræðu.



[17:48]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Ég ætla að leyfa mér í framhaldi af ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur að vitna hér í umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ljóst er að gera þarf breytingar á starfsemi Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) þar sem sjóðfélögum sjóðsins fer ört fækkandi og hjúkrunarfræðingar sem þiggja lífeyri frá sjóðnum eru mun fleiri en þeir sem greiða inn í sjóðinn. Ljóst var að ganga hefði þurft á bakábyrgð launagreiðanda á sjóðnum í byrjun árs 2018 að óbreyttu og hefði slík ráðstöfun getað reynst heilbrigðisstofnunum erfið.“

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frumvarpinu er þess jafnframt gætt að enginn sjóðfélagi LH tapi áunnum rétti við sameiningu sjóðanna. FÍH lýsir yfir ánægju með þetta og telur að verði frumvarpið samþykkt muni sameining LH og LSR verða sjóðfélögum LH til góða.“

Mér finnst rétt að þetta liggi í þingskjölum eftir ræðu hv. þingmanns hér áðan.



[17:50]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þeirra orða sem hér voru sögð þá var það var akkúrat það sem ég sagði. Ég var ekki að gera lítið úr því að sjóðurinn yrði sameinaður eða frumvarpið sem sem hér er undir væri haft með þeim hætti að í ljósi umsagna — og þá er ég ekki bara að tala um lífeyrisréttindin heldur þ.e. réttindin til launa. Við ræddum það töluvert í fjárlaganefndinni þegar þessi mál komu þar fyrir, af því að þetta er partur af því. Það er ekki bara að jafna lífeyrisréttindin. Partur af því er að réttlætt var að laun opinberra starfsmanna væru lægri vegna þess að lífeyrisréttindin væru svo rík. Það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég og það var það sem ég vildi vekja athygli á. Ekki er gerð tilraun hér til þess að, ég sé það a.m.k. ekki — við þekkjum að það er allt upp í 30% munur á kjörum sumra stétta opinbera geirans og hins almenna þar sem hægt er að meta það.

Síðan erum við með stéttir þar sem við höfum ekki hugmynd um við hvað ætlum við að miða. Það var það sem ég vildi vekja athygli á. Til dæmis í ríkisfjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir neinum verulegum hækkunum til handa opinberum starfsmönnum til þess að mæta þessu. En það er alveg rétt að lífeyrissjóðurinn er ekki sjálfbær eins og hann er í dag. Það höfum við líka tekið fyrir í fjárlaganefnd og hefur legið fyrir lengi að svo er.

Ég vildi líka árétta að það var þetta sem ég var að meina. Mér finnst það ábyrgðarhluti. Kennarasambandið kom fram, sem og BSRB og fleiri aðilar sem sögðu nákvæmlega þetta sem ég er að segja þegar við vorum að fjalla um lífeyrisréttindin, að það væru auðvitað mikil vonbrigði að öll þessi ár hafi ekki einu sinni verið gerð tilraun til þess að reyna að meta þetta.



[17:52]
Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þarf nú svo sem ekki að hafa þetta mjög langt. Ég heyri að við erum nokkuð í takt hvort við annað, ég og hv. þingmaður. Aðalatriðið sem er til umræðu hér er að með því að fella niður þau lög sem hér er um að ræða er ekki verið að skerða nein réttindi, þau haldast. Líklegast er hægt að færa rök fyrir því að verið sé að gæta réttindanna og tryggja þau enn betur en annars hefði orðið.



[17:53]
Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég ætlaði nú að láta staðar numið eftir síðustu ræðu, en í ljósi þess að umræðan fór aðeins út í almenna umræðu um lífeyrissjóðsmál og þá sérstaklega lífeyrissjóðsmál tengd opinberum starfsmönnum, fannst mér ástæða til þess að koma og leggja orð í belg. Það er í fyrsta lagi mikilvægt að leggja ekki að jöfnu þá breytingu sem nú er verið að gera og breytingar tengdar Lífeyrissjóði bænda. Málið hjá Lífeyrissjóði bænda virðist vera fyrst og fremst það að þar er gengið út frá ákveðinni réttindaskerðingu með því að fella lögin burtu og þrátt fyrir að einhver loforð séu gefin og tryggingar gerðar fyrir því, m.a. með vísun í eignarréttarákvæði stjórnarskrár, að þessar skerðingar muni ekki hafa áhrif á sérstaklega ekkjur bænda sem fengið hafa greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda. Það álit virðist vera enn þá til staðar og hefur ekki verið hnekkt með þeim rökum sem komið hafa fram þar, þar sem þetta er sérstök heimild sem snýr ekki að rétti sem ekkjurnar hafa, heldur réttinum sem eiginmenn þeirra höfðu. Þar er ekki um raunverulegan eignarrétt að ræða og þar af leiðandi er ekki ljóst að það verði varið með þeim hætti. En það er önnur umræða sem við munum koma að þegar við tökum fyrir lífeyrissjóðsmál bænda.

Hitt er að í desember sl. var gerð ákveðin aðgerð til þess að reyna að laga þá uppsöfnuðu tryggingafræðilegu skekkju eða þann halla sem hafði myndast í þeim sjóði með því að færa til rúmlega 100 milljarða kr. yfir í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Öllum var þá ljóst sem skoðað höfðu dæmið almennilega að þetta myndi vera tímabundin redding sem ekki myndi duga í ljósi mjög margra þátta. Þessi halli mun líklega halda áfram að aukast. En á sama tíma var farið í lífeyrisréttindaskerðingu hjá ríkisstarfsmönnum, sem eru töluvert margir í þessu landi. Það var gert, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á, án þess að laun væru leiðrétt á móti, sem hefði kannski átt að vera fyrsta aðgerðin sem farið var í frekar en að fara í réttindaskerðingu með óljósum loforðum um launaleiðréttingar eftir á, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjármálaáætlun eða fjármálastefnu. Og sennilega verður aldrei gert ráð fyrir því ef stefnu núverandi ríkisstjórnar verður haldið áfram.

Af því að þessar réttindaskerðingar eiga sér stað nú og tryggingafræðilegi hallinn mun halda áfram að aukast hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, og líklega mun sá plástur sem við erum hér með til umræðu bara leiðrétta smávegis í smátíma en svo mun þurfa frekari leiðréttinga við eftir á, er full ástæða til þess að við förum að skoða lífeyrissjóðakerfið í heild, metum það frá grunni, skoðum hvort ekki sé til betri strúktúr sem við getum notað til þess að reyna að tryggja framgang þess til framtíðar. Fólk er að eldast. Samfélagið er að eldast. Mannfjöldapýramídinn er að snúast við smám saman. Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef látið útbýta hér þingsályktunartillögu um að farið verði í heildarendurskoðun á lífeyrissjóðskerfinu. Hún hefur því miður ekki komist á dagskrá, en þar er leitast við að svara eftirfarandi spurningu: Hvernig getum við látið þetta kerfi ganga upp til lengri tíma?

Í ljósi þeirrar umræðu sem spannst hér er góð ástæða til að minnast á og minna á að þetta kerfi mun líklega hrynja að öllu óbreyttu. Það hefur verið að hruni komið áður. Því hefur verið reddað með einhverjum tilfærslum og plástrum. En ef við förum ekki í það heildstætt að endurskoða lífeyrissjóðakerfið frá grunni á næstu árum — því fyrr því betra — horfum við fram á gríðarleg útgjöld og að lokum einhvers konar hrun. Það vil ég helst ekki. Þannig að ég vona að við getum tekið þá umræðu, hvort sem er með því að taka tillögu mína á dagskrá eða með öðrum hætti.