148. löggjafarþing — 28. fundur
 22. feb. 2018.
lax- og silungsveiði, 1. umræða.
stjfrv., 215. mál (stjórn álaveiða). — Þskj. 302.

[12:25]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 302, mál nr. 215. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði.

Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að frumkvæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með því eru lagðar til breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði í 20. gr. laganna um að ráðherra geti með reglugerð sett reglur um álaveiðar, m.a. um að banna eða takmarka álaveiðar um allt land eða á tilteknum svæðum ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Tilefni þessa frumvarps er að með bréfi, dags. 24. nóvember 2015, óskaði Fiskistofa eftir því að ráðuneytið hlutaðist til um að álaveiðar yrðu bannaðar eða takmarkaðar á Íslandi og við landið. Einnig barst ráðuneytinu minnisblað frá Veiðimálastofnun um málið, dags. 30. nóvember 2015.

Umræddar tillögur um bann við álaveiðum eru að meginstefnu byggðar á því að mikil stofnstærðarminnkun hafi orðið á álastofninum, svo mikil að állinn hafi frá árinu 2009 verið á lista CITES, sem er stofnun tengd Sameinuðu þjóðunum, og heldur utan um samninginn um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem metin eru í útrýmingarhættu.

Þá barst ráðuneytinu sömuleiðis með bréfi, dags. 3. febrúar 2016, formleg ráðgjöf um málið frá Veiðimálastofnun, sem nú er Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, eftir sameiningu stofnana með lögum nr. 112/2015 og lögum nr. 113/2015. Þar er gerð grein fyrir líffræði og lífsferli áls, álaveiðum hér á landi, ástandi stofnsins og ráðgjöf stofnunarinnar. Meðal annars kemur þar fram að álastofninn sé í hættu og þoli illa veiðar. Stofnunin telur nauðsynlegt að settar verði reglur um friðun áls hér á landi á meðan ástand stofnsins sé undir viðmiði og að ráðherra verði veitt nauðsynleg lagaheimild til að setja slíkar reglur og jafnframt reglur um að ef áll veiðist í silungs- eða laxveiði verði skylt að sleppa honum. Að mínu mati er hér um að ræða ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem ætti að hafa sömu stöðu og önnur ráðgjöf þeirrar sömu stofnunar.

Í þessu sambandi er vert að nefna það sömuleiðis að í bréfi Veiðimálastofnunar sem vitnað var til áðan, frá 24. nóvember 2015, og fylgdi með erindinu frá Fiskistofu, kemur fram að nú sé svo komið að álaveiðar séu nær alls staðar bannaðar og áll kominn á bannlista sem verslunarvara og Alþjóðahafrannsóknaráðið ásamt fleiri alþjóðastofnunum um fiskveiðimál leggist alfarið gegn veiðum á ál meðan svo er ástatt fyrir stofninum eins og raun ber vitni.

Um álaveiðar hér á landi gilda reglur sem koma fram í 20. gr. laga nr. 61/2006, með síðari breytingum. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að álaveiðar eru heimilar á Íslandi allt árið. Að álaveiðum skal að jafnaði staðið þannig að veiðar og gengd lax og silungs spillist eigi. Einnig kemur þar fram að veiðifélög eða veiðiréttarhafar þar sem ekki eru veiðifélög skulu setja sér nánari reglur um veiðitíma og veiðitakmarkanir í einstökum veiðivötnum, þ.e. nýtingaráætlanir sem Fiskistofa staðfestir að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar.

Ef veiðifélög eða veiðiréttarhafar sinna ekki þessari skyldu getur Fiskistofa að eigin frumkvæði sett slíkar reglur. Í nýtingaráætlunum skal m.a. kveðið á um tíma eða staðbundna friðun áls og gerð og frágang heimilaðra veiðitækja. Ljóst er að það getur verið mikið og vandasamt verk, m.a. eiga ekki sömu sjónarmið við um öll veiðifélög. Engin heimild er hins vegar í lögunum eins og áður nefndi eða öðrum lögum til þess að banna eða takmarka álaveiðar á Íslandi.

Við samningu frumvarpsins var sérstaklega fjallað um það hvort setja verði heimild í lög fyrir ráðherra til að banna eða takmarka álaveiðar, eða hvort hægt væri að byggja þessa heimild á öðrum lögum. Einnig kom til álita að veiðifélög settu sjálf ákvæði um slíkt bann í nýtingaráætlanir sínar, samanber nefnt ákvæði í 20. gr. laganna, en umræddar nýtingaráætlanir geta þó aðeins mælt fyrir um tímabundið og staðbundið bann á vatnasvæði viðkomandi veiðifélags, auk þess sem ekki eru starfandi veiðifélög á öllum þeim svæðum þar sem áll veiðist eða kann hugsanlega að veiðast.

Til þess að hægt sé að banna eða takmarka álaveiðar hér á landi og í netlögum við landið verður að vera skýr lagaheimild til þess og einnig verður það að vera byggt á vísindalegum grunni og sömuleiðis vel rökstutt.

Eins og ég hef nefnt í máli mínu þá er slík lagaheimild ekki fyrir hendi í gildandi lögum eða reglum. Með vísan til þess sem ég hef rakið hér að framan er lagt til í þessu frumvarpi að nýrri málsgrein verði bætt við 20. gr., sem yrði þá 2. mgr., þar sem ráðherra fengi heimild til þess að setja með reglugerð reglur um álaveiðar, m.a. til þess að banna eða takmarka þær við tilteknar aðstæður ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir umræddu frumvarpi, en þar er ítarlega fjallað um efni þess.

Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.



[12:32]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mörgum kann að þykja sérstætt að álar hafi náð inn á Alþingi. Það eru fáir sem þekkja þennan merkilega fisk sem virðist enga umtalsverða þýðingu hafa hér á Íslandi og enginn veit hversu mikið hefur veiðst af í landinu. Hann hefur þó lengi verið veiddur í einhverju magni víða um land, m.a. í lækjum og smáám og jafnvel þar sem volgrur eru en þar hefur állinn haldið sig til, skurðum jafnvel, framræsluskurðum og öðru slíku. Þetta er fiskur sem er svokallaður farfiskur, hrygnir langt suður í hafi, m.a. í því fræga Saragossa-hafi, sem er á milli Suður-Ameríku og Afríku þar sem ríkir eilíft logn. Síðan kemur fiskurinn hingað og dvelur a.m.k. hluta úr ári.

Hér liggur fyrir að takmarka eða banna veiðar á álum á Íslandi, m.a. að beiðni erlendra samtaka, bæði samtaka veiðiþjóða og alþjóðlegra samtaka sem hafa með friðun að gera og annað slíkt, sem og sérfræðinga, með samþykki íslenskra sérfræðinga. Menn geta auðvitað spurt sig af hverju, hver bakgrunnurinn sé að þessu. Þá kemur það til að þessi ágæti fiskur er eiginlega það sem heitir á latínu pars pro toto, eða hluti fyrir heild. Það eru nefnilega umhverfisbreytingar í hafi sem kalla á þessa friðun fremur en miklar veiðar að mínu mati. Það eru veðurfarsbreytingar, hlýnun á heimsvísu, hún er eins og menn vita orðin hraðari en sum líkön gerðu ráð fyrir, m.a. hér á norðurslóðum. Það er auðvitað fleira sem hefur áhrif, veiði ála að einhverju marki, en líka umhverfisbreytingar sem við sjáum minna til, eins og súrnun í hafi. Súrnun sjávarins fer að verða alvarlegt vandamál sums staðar í heiminum, t.d. við vesturströnd Kaliforníu.

Þessar umhverfisbreytingar valda því að það fækkar í fiskstofnum. Þeir flytja sig til og það koma jafnvel fram sjúkdómar í þeim. Állinn er einmitt gott dæmi. Ýmsum smáum þekktum nytjastofnum hér við land hefur fækkað bókstaflega og ekki endilega hægt að tengja það veiðum. Tilflutningur stofna er þekktur hér. Dæmi um það er makríllinn. Og sjúkdóma sem gjósa upp í ákveðnum nytjastofnum eins og síld er að einhverju leyti hægt að rekja til þessara umhverfisbreytinga.

Við getum fært okkur inn á land og skoðað sjófugla eða nýjar tegundir fugla í skógum og annars staðar og síðast en ekki síst sjúkdóma sem eru farnir að berast hingað, m.a. með skordýrum sem ekki hafa þrifist hér, m.a. vegna veðurfars, en eiga nú greiða leið inn til okkar, eða berast jafnvel með fólki. Allt þetta gerir það að verkum að við þurfum að íhuga á hvaða ferð við erum.

Við getum fært okkur inn á land og lengra og skoðað aðrar umhverfisbreytingar sem blasa við, hvort sem það er hopun jökla eða annað. Allt þetta minnir okkur á að við verðum að fara að ná árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ég get líka nefnt rányrkju; þó að það eigi ekki endilega við um álinn er alveg ljóst að mjög margir fiskstofnar í heiminum eru núna fórnarlömb rányrkju sem þarf að koma í veg fyrir. Við erum því ekki bara að tala um sjálfbærar veiðar á álum hugsanlega í framtíðinni, heldur öðrum fiskstofnum og öðrum lifandi verum sem við ætlum að leggja okkur til munns.

Ég hvet til þess að þetta frumvarp fari sína hefðbundnu leið í gegnum nefnd og verði samþykkt skjótt og vel í þverpólitískri sátt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.