148. löggjafarþing — 33. fundur
 5. mars 2018.
gjaldtaka í ferðaþjónustu.

[15:30]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. ferðamálaráðherra varðandi gjaldtöku í greininni, stefnu stjórnvalda í gjaldtöku þar og kannski ekki hvað síst framferði einokunarfyrirtækis í eigu ríkisins, Isavia, í slíkum málefnum að undanförnu.

Verkleysi ríkisstjórnar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks hefur verið nokkuð til umræðu hér. Hins vegar hefur það verið svo að málefni ferðaþjónustunnar hafa verið á borði ráðherra Sjálfstæðisflokksins undanfarin fimm ár án þess að tekist hafi að ná þar niðurstöðu. Raunar hefur farið svo að hver sú hugmynd sem komið hefur fram, hvort sem hún heitir náttúrupassi, komugjöld, uppfærsla ferðaþjónustunnar í efra þrep virðisaukaskatts, hefur verið skotin jafnharðan niður, af Sjálfstæðismönnum sjálfum kannski fyrst og fremst. Eru margir orðnir langeygir eftir að sjá einhverja stefnu, ja, einhverrar ríkisstjórnar í þessum málum.

Það er hins vegar athyglisvert að þegar kemur að gjaldtöku á farþegaflutninga frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur og til baka tókst, eftir harðvítuga baráttu, árið 2011 að fá afnumið sérleyfiskerfi sem hafði hamlað verulega samkeppni á þessari leið. Má raun og veru segja að það hafi spornað gegn fjölgun farþega sem nýttu sér þessa þjónustu og þar með nýttu sér almenningssamgöngur á þessari leið. Loks var opnað fyrir samkeppni en nú virðist sem einokunarfyrirtæki í eigu ríkisins hafi ákveðið, með sínum eigin hætti, að endurvekja einhvers konar sérleyfiskerfi með verulegri gjaldtöku.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta samrýmist stefnu ráðuneytisins í málefnum ferðaþjónustunnar, gjaldtöku innan greinarinnar og gjaldtöku á farþega til og frá Keflavíkurflugvelli.



[15:32]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég lít svo á að þetta séu í rauninni tvær fyrirspurnir, alla vega í tveimur hlutum. Fyrst aðeins varðandi gjaldtökuna þá ætla ég ekki að standa hér og segja að það hafi gengið glimrandi að setja endapunkt við það mál. Við höfum ekki gert það enn þá og auðvitað hafa ýmsar leiðir og tillögur komið hingað inn. Þingið hefur heldur ekki getað klárað þau verkefni þegar þau hafa ratað hingað inn.

Komugjöldin komu hér inn fyrir einhverjum árum síðan. Náttúrupassinn fór eins og hann fór. Áform voru hjá síðustu ríkisstjórn sem lögð hafa verið til hliðar. Ég get alveg sagt að mig langar mjög gjarnan að klára þetta verkefni og ég held að almenningur kalli eftir því að við klárum það. Stjórnmálin í heild sinni þurfa á því að halda og ég held að greinin sjálf þurfi líka á því að halda að settur verði punktur aftan við gjaldtökuumræðuna.

Við getum litið til flestra landanna í kringum okkur þar sem ferðaþjónustan er í brennidepli, gjaldtakan er í brennidepli, rifist er um hvaða gjaldtöku eigi að leggja á. Hún er jafnvel lögð á og dregin til baka. Við sjáum að þessi atvinnugrein er að breytast mjög hratt og það eru ýmsar blikur á lofti. Við erum með hærri laun, við erum með sterkari krónu, fyrirtækin eru mjög misjöfn en það er líka erfitt að setja á gjaldtöku þegar horft er til þess hversu mikill munur er á stöðu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, sérstaklega með tilliti til nýtingar og umfangs fyrirtækja úti á landi.

Við erum núna með það verkefni í stjórnarsáttmálanum að kanna gjaldtökuleiðir. Þar er sérstaklega nefnt komu- og brottfarargjald. Ég er að skoða það í ráðuneytinu, ég hef sagt við greinina að það kalli á ákveðið samtal. Þetta er viðamikið mál.

Varðandi Isavia — ég er búin með tímann, en svara því í seinna svari. En mín persónulega skoðun varðandi Isavia er að það er löngu kominn tími á að horfa á það allt saman, hvort sem það eru áætlanir þeirra í fjárfestingum, hvernig haldið er utan um innanlandsflug eða varðandi gjaldtökuna sérstaklega. Ég kem að því í seinna svari.



[15:34]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, þegar horft er á gjaldtökuna sérstaklega með almennum hætti, að komugjöld leggjast fyrir það fyrsta bæði á erlenda ferðamenn en einnig á Íslendinga sjálfa og samkvæmt flestum athugunum á innanlandsflugið líka. Það er áhugavert að heyra sjónarmið ráðherra um það en tillögur um breytingu í virðisauka hefðu einmitt nýst almenningi hér á landi þar sem almenna þrepið hefði lækkað á móti.

En mér þykir athugunarvert, og hefði áhuga á að heyra nánar sjónarmið ráðherra um það, að sjá þá gjaldtöku sem á sér stað í Keflavík núna. Það er eins og einokunarfyrirtækið Isavia hafi ákveðið að grípa fram í fyrir stjórnvöldum, eða kannski gafst fyrirtækið upp á því að bíða, um gjaldtöku í ferðaþjónustu, ég veit það ekki. En þetta er alla vega sú gjaldtaka sem þarna er á ferðinni varðandi útboð á leyfum eða aðstöðu fyrir þau tvö fyrirtæki sem fá að njóta þess — og eru að greiða held ég um 30–40% af tekjum sínum í aðstöðugjald — og svo þau fyrirtæki sem eiga að greiða 19.900 kr. (Forseti hringir.) fyrir að fá að leggja rútum við Leifsstöð, sem er langt umfram alla þá gjaldtöku sem við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ég hygg að annars staðar á Norðurlöndum (Forseti hringir.) sé þetta meira og minna gjaldfrjáls þjónusta. Þetta hlýtur að vekja spurningar um það hvor ráði för, stjórnvöld eða einokunarfyrirtækið Isavia.



[15:36]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst örstutt varðandi Isavia. Ráðherra ferðamála er ekki einu sinni með fulltrúa í stjórn Isavia. Talandi um stefnu, jú, við erum búin að ræða lengi um langtímastefnumótun í ferðaþjónustunni. Það er auðvitað mjög mikil stefnumótun í gangi, en að taka það allt saman með tilliti til samgönguáætlunar, með tilliti til þess hvað Isavia áformar að gera, þá þarf í miklu meira mæli að tala saman. Ég hef verið mjög skýr með það.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður spyr um þessi bílastæðagjöld þá spurði ég þeirra líka og sendi raunar erindi til Isavia og bíð eftir svörum við þeim, mun þá taka málið áfram eftir því hverju Isavia svarar.

Ef ég man rétt er mál líka fyrir héraðsdómi eða er á leiðinni þangað þar sem eitt fyrirtæki leitar réttar síns vegna þessa. Þannig að sjáum þá líka hvað kemur út úr því.