148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

gjaldtaka í ferðaþjónustu.

[15:32]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég lít svo á að þetta séu í rauninni tvær fyrirspurnir, alla vega í tveimur hlutum. Fyrst aðeins varðandi gjaldtökuna þá ætla ég ekki að standa hér og segja að það hafi gengið glimrandi að setja endapunkt við það mál. Við höfum ekki gert það enn þá og auðvitað hafa ýmsar leiðir og tillögur komið hingað inn. Þingið hefur heldur ekki getað klárað þau verkefni þegar þau hafa ratað hingað inn.

Komugjöldin komu hér inn fyrir einhverjum árum síðan. Náttúrupassinn fór eins og hann fór. Áform voru hjá síðustu ríkisstjórn sem lögð hafa verið til hliðar. Ég get alveg sagt að mig langar mjög gjarnan að klára þetta verkefni og ég held að almenningur kalli eftir því að við klárum það. Stjórnmálin í heild sinni þurfa á því að halda og ég held að greinin sjálf þurfi líka á því að halda að settur verði punktur aftan við gjaldtökuumræðuna.

Við getum litið til flestra landanna í kringum okkur þar sem ferðaþjónustan er í brennidepli, gjaldtakan er í brennidepli, rifist er um hvaða gjaldtöku eigi að leggja á. Hún er jafnvel lögð á og dregin til baka. Við sjáum að þessi atvinnugrein er að breytast mjög hratt og það eru ýmsar blikur á lofti. Við erum með hærri laun, við erum með sterkari krónu, fyrirtækin eru mjög misjöfn en það er líka erfitt að setja á gjaldtöku þegar horft er til þess hversu mikill munur er á stöðu fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, sérstaklega með tilliti til nýtingar og umfangs fyrirtækja úti á landi.

Við erum núna með það verkefni í stjórnarsáttmálanum að kanna gjaldtökuleiðir. Þar er sérstaklega nefnt komu- og brottfarargjald. Ég er að skoða það í ráðuneytinu, ég hef sagt við greinina að það kalli á ákveðið samtal. Þetta er viðamikið mál.

Varðandi Isavia — ég er búin með tímann, en svara því í seinna svari. En mín persónulega skoðun varðandi Isavia er að það er löngu kominn tími á að horfa á það allt saman, hvort sem það eru áætlanir þeirra í fjárfestingum, hvernig haldið er utan um innanlandsflug eða varðandi gjaldtökuna sérstaklega. Ég kem að því í seinna svari.