148. löggjafarþing — 33. fundur
 5. mars 2018.
sérstök umræða.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[15:44]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að taka þátt í umræðu um skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi sem kom út í október sl. Ég tel brýna þörf á að ræða efni skýrslunnar, sem er afskaplega ítarleg og yfir 50 blaðsíður að stærð, enda koma þar fram fjölmörg varnaðarorð til stjórnvalda. Í ræðu minni leitast ég við að greina í sundur þau viðfangsefni sem lögregluyfirvöld standa frammi fyrir og beina kastljósinu að í skýrslunni.

Ég vil hefja mál mitt á fyrstu setningu í skýrslu greiningardeildar: „Áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi er mikil áhætta.“ Þetta er háalvarlegt áhættumat og ber að taka sem ákall af hálfu lögreglunnar um að bregðast við. Það er lögregluyfirvalda að benda á vandann en það er í höndum yfirvalda og okkar stjórnmálamanna að bera ábyrgð á viðbrögðunum.

Í upphafi tel ég rétt að vitna beint í skýrsluna á bls. 7, með leyfi forseta. Þar segja skýrsluhöfundar:

„Skipulögð glæpastarfsemi hefur grafið um sig og er umfangsmikil á Norðurlöndum. Áhrif þessa á samfélagið eru margvísleg og öll neikvæð.“

Það rammar ágætlega inn áherslu við umræðuna hér í dag. Lögreglan er ein af grunnstoðum lýðræðisskipulagsins og verður að búa yfir þeim styrk sem nauðsynlegur er svo hún geti sinnt hlutverki sínu. Í skýrslunni er fjallað um stöðu lögreglunnar til þess að takast á við vandamálið og á næstum hverri einustu blaðsíðu kemur fram mannaflaskortur í lögreglunni. Á bls. 47 segir, með leyfi forseta:

„[Það er] mat lögregluliðanna í landinu að lögregluna skorti bæði fjármagn og mannafla til þess að sinna frumkvæðislöggæslu með fullnægjandi hætti sem er einn mikilvægasti þátturinn í baráttunni gegn skipulagðri brotastarfsemi.“

Hér á þingi hef ég og fleiri rætt nauðsyn þess að fjölga lögreglumönnum og er óþarft að endurtaka það allt saman. En svo enginn fari í grafgötur með það þá hefur lögreglumönnum fækkað nánast allar götur frá upphafi þessarar aldar. Það gerist á sama tíma og verkefnum á borði lögreglu fjölgar og álag eykst vegna nýrra viðfangsefna. Í því sambandi má nefna hluti sem augljósir eru, svo sem fjölgun íbúa, margfalda fjölgun ferðamanna, stóraukið erlent vinnuafl, fjölgun aðfluttra, aukna alþjóðavæðingu, framfarir í nettækni, aukningu netverslunar, aukna notkun samskiptamiðla o.s.frv.

Því er nauðsynlegt að staldra við efni þessarar skýrslu sem lýsir aðsteðjandi ógnum, og huga að framhaldinu.

Lögreglan metur það svo að nú þegar hafi skipulagðir glæpahópar búið um sig hér á landi og hafi yfir að ráða umtalsverðum styrk. Og eftir því sem þeir verða öflugri verður erfiðara fyrir lögregluna að sporna við starfsemi þeirra.

Hluti af þeim veruleika er sú staðreynd að hóparnir leitast við með fjárhagslegum styrk að fela ágóða sinn í löglegri starfsemi.

Í árdaga lögreglunnar hafði hún í raun það einfalda verkefni að handtaka ofbeldismanninn og stöðva með því brotið, ná í þjófinn og endurheimta þýfið. Í smáu samfélagi þekkti lögreglan viðskiptavini sína og gekk stundum næstum beint að þeim ef eitthvað kom upp. Sá veruleiki er smám saman að hverfa með auknu þéttbýli, örri fólksfjölgun og tækniframförum, en ekki síður með því að samfélag okkar allt er alls ekki eins einsleitt og fyrir nokkrum árum. Hér er talaður fjöldi tungumála og bakgrunnur íbúa er að verða verulega ólíkur innbyrðis. Allt það gerir samfélagið flóknara, einnig fyrir lögregluna þegar hún er að kljást við afbrot. Sýnu verst er þegar afbrotamenn bindast samtökum og verða skipulagðari í ólöglegri starfsemi sinni, jafnvel oft landa á milli. Staðan er sérstaklega erfið ef slík samtök hafa til að bera mikla sérhæfingu, aðlögunarhæfni og fjármagn. Drifkrafturinn er ágóðavon og andvaraleysi yfirvalda. Það er það eldsneyti sem knýr vilja þeirra sem fremja afbrot.

Hvað er ég að tala um? Ég er að tala um að í skýrslu þeirri sem við fjöllum hér um bendir lögreglan á nákvæmlega þetta: Hún bendir á sterkar vísbendingar um að skipuleg glæpasamtök séu komin hingað til lands og ef ekkert verði að gert vaxi þeim einungis ásmegin.

Förum yfir vísbendingar um umfang skipulegrar glæpastarfsemi. Ég sé að tíminn er að verða búinn, en ég ætla að nefna það hratt: Það er smygl á fólki, mansal, vændi, fíkniefni og auðgunarbrot. Nýlegar fréttir um auðgunarbrot, um skipuleg innbrot um hábjartan daginn inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu renna stoðum undir það.

Megininntak og helsti boðskapur skýrslunnar er í fyrsta lagi lýsing á vaxandi umfangi skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi, langoftast með erlendum tengingum. Í öðru lagi eindregin skilaboð um að lögreglan sé vanbúin til þess að sinna þessu verkefni þrátt fyrir góðan vilja. (Forseti hringir.) Hér fer ekki saman hljóð og mynd.

Ég hef ekki tíma til að lesa upp spurningarnar. Þær eru til í prentuðu formi.



[15:50]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir áhugann á þessu máli og fyrir umfjöllunina hér. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni um að þessi skýrsla ríkislögreglustjóra er grafalvarlegt mál, en hún hefur legið fyrir síðan á haustdögum á síðasta ári. Þar fram kemur að áhættustig vegna skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi er mikið, eins og hv. þingmaður nefndi. Hér er mikil áhætta, rautt viðbúnaðarstig. Það er áhyggjuefni.

Ég vil líka geta þess í upphafi, vegna þess að umræðan á Íslandi um þessi mál hefur oft og tíðum verið örlítið sakleysisleg á köflum, ef ég má leyfa mér að segja það, ég ætla nú ekki að nota orðið barnaleg, og er alveg full ástæða til þess að þingmenn og aðrir sem þekkja þetta efni miklu betur, átti sig á því að Ísland er ekki á nokkurn hátt undanskilið þeirri áhættu sem önnur lönd í kringum okkur standa frammi fyrir í þessum efnum. Það er alveg ástæðulaust að ætla annað en að þau vandamál og þær hættur sem að steðja nágrannalöndum okkar berist hingað með sama hætti. Þess vegna er mjög mikilvægt að við séum undir það búin með öllum þeim tiltæku ráðum sem liggja fyrir.

Í kjölfar útkomu skýrslunnar fundaði ráðuneytið með ríkislögreglustjóra og ræddi m.a. um hvernig bregðast ætti við efni hennar. Sjálf er ég í góðu sambandi við ríkislögreglustjóra og lögregluembættin og ræði mjög reglulega m.a. um þessi mál. Fram kemur í skýrslu greiningardeildarinnar að frumkvæðisvinna sé sú aðgerð sem lögreglan telji að sé best til þess fallin að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi. Þar eru nefnd fleiri atriði eins og farþegalistagreining og áhersla á upptöku ólögmæts ávinnings af brotum.

Einnig kemur fram í skýrslunni að lögreglu skorti mannafla til að sinna framangreindum verkefnum en það kemur okkur ekkert á óvart sem hér erum. Það ákall frá lögreglunni að efla þurfi löggæsluna í landinu er svo sem bara framhald af umræðunni sem við áttum hér í síðustu viku þar sem við ræddum sérstaklega um löggæsluna. Ég fór þá yfir áform um að efla hana með fleiri lögreglumönnum í ýmsum störfum lögreglunnar.

Auðvitað hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir og ég kynnti þingheimi í síðustu viku hvernig við höfum lagt drög að því að fjölga rannsóknarmönnum á tilteknu sviði afbrota. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ekki seinna vænna.

Hv. þingmaður spyr líka um til hvaða ráða sé unnt að grípa til að koma í veg fyrir að erlendir glæpahópar nái hér fótfestu. Það er samt rétt að árétta að fram kemur í skýrslunni að skipulögð glæpastarfsemi er ekki eingöngu að hálfu erlendra glæpahópa heldur er hér líka skipulögð glæpastarfsemi að hálfu Íslendinga.

Fjallað er mjög ítarlega um að ákveðnir þættir séu til þess fallnir að laða að sér erlenda glæpahópa. Sérstaklega er nefnt í skýrslunni að framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda á undanliðnum misserum hafi verið til þess fallin að auka aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar fyrir farandfólk frá Evrópu í leit að betri lífskjörum. Svo er fjallað um að þetta fólk, einnig það sem leitar hingað vegna bágrar stöðu eða neyðar, sé oft og tíðum útsettara en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb skipulagðrar glæpastarfsemi. Til þess lítum við alveg sérstaklega og höfum gripið til ýmissa aðgerða í þeim efnum.

Svo er spurt um löggæsluáætlunina. Hún er og hefur reyndar verið tilbúin og fullgerð nokkuð lengi. En ég tel að hún þarfnist þó einhverrar endurskoðunar í samráði við lögregluembættin í landinu. Verið er að vinna að áætluninni og mun ég leggja hana fram á haustþingi.



[15:55]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að hefja þessa þörfu umræðu. Ófremdarástand í löggæslumálum hefur áður borið á góma á Alþingi og við, þingmenn Samfylkingarinnar, höfum oft vakið máls á þörf úrbóta á þessu sviði. Við höfum flutt beinar tillögur um meiri fjárframlög til handa lögreglunni og fjölgun starfa.

Ísland er í þjóðbraut og hefur á undraskjótum tíma orðið eitt helsta ferðamannaland í heimi með ævintýralegum vexti. Við það breytist yfirbragð samfélagsins og skyldur lögreglunnar vaxa að sama skapi. Taka ber varnaðarorðin alvarlega sem eru í þessari skýrslu og síst af öllu vil ég gera lítið úr þeirri hættu sem landi og þjóð stafar af skipulagðri glæpastarfsemi sem hér á sér stað eins og annars staðar í heiminum. Lögreglan þarf að fá meiri mannafla til að rannsaka slíka starfsemi og sporna við glæpum á borð við mansal.

Mig langar engu að síður til að minna á að Ísland hefur það orðspor á alþjóðavísu, sem er óumræðilega dýrmætt, að hér sé eitt friðsamlegasta og öruggasta samfélag á jörðunni. Í því felast verðmæti, fyrir utan það að sjálfsögðu hvílík gæfa það er fyrir okkur að búa flestöll í daglegu lífi okkar við sæmilegan frið og öryggi.

Eitt af því sem skapað hefur þá mynd af Íslandi er að hér eru vopnaðir menn (Forseti hringir.) nánast óþekkt sjón á almannafæri. Og þannig held ég að við viljum hafa það áfram.



[15:58]
Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þótt ekki hafi ég setið lengi á þingi hef ég nokkuð oft átt umræðu um þörf á auknum mannafla og fjármunum til löggæslumála. Þannig var það síðasta vor, þegar við ræddum fjármálaáætlun, að ítrekað var bent á að markmið um að skilgreina mannaflaþörf lögreglunnar og skilgreina þörf hennar fyrir fjármagn, sem rætt er um í þingsályktun um löggæsluáætlun, hafi ekki ratað í fjármálaáætlun til samræmis. Það var mjög miður og leiddi til þess að á sama tíma og vopnaðir lögreglumenn birtust í skemmtiskokki víða um bæinn vorum við ekki að bæta við fjármunum í sýnilega almenna löggæslu. Við vorum ekki að styrkja lítil lögreglulið í dreifðum byggðum. Mig langar þess vegna að spyrja ráðherrann hvort við megum búast við því að sú fjármálaáætlun sem á að birtast nú á næstu vikum boði aukna fjármuni í mannafla í takt við þá þörf sem svo augljóslega er fyrir hendi.

Í umræðunni fyrir ári kom fram hjá mörgum embættum víða um land að aðhaldskrafa myndi leiða til þess að lítil embætti þyrftu jafnvel að skera niður á næstu fimm árum, fækka lögregluþjónum á vakt. Mér datt þetta í hug þegar ég var fyrir norðan á ráðstefnu um löggæslu og samfélagið hjá Háskólanum á Akureyri, þar sem við fengum að heyra sögur af vettvangi. Þegar við fáum umsagnir hingað inn eru þær oft úr tengslum við raunveruleikann. Það var dálítið sláandi að sjá fyrir sér lögreglumann einan á vakt, eins og er farið að gerast æ oftar úti um landið, að aka um strjálbýlt, fámennt svæði. Hann ekur kannski fram á umferðarslys og er þá eini viðbragðsaðilinn í 20–30 mínútna fjarlægð, hann þarf að sinna öllu í senn, hlúa að slösuðum, tryggja rannsóknarhagsmuni, stýra umferð og tryggja öryggi viðstaddra. Þetta þurfum við að bæta.



[16:00]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir þessa þörfu umræðu, að taka þessa skýrslu til umræðu, og innlegg hæstv. ráðherra. Fram kom í máli beggja þegar kemur að borgaralegu öryggi hversu breyttu samfélagi við búum í. Ég vil segja að viðbrögð hæstv. ráðherra, fundur með ríkislögreglustjóra um skýrsluna og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í þessum breytta heimi eru mikilvæg skilaboð ein og sér.

Þetta kallar á árvekni allra, það blasir við. Starfsemi lögreglunnar og umfang breytist, og ekki síður skipulag og möguleikar til að bregðast við. Kröfur eru auknar, annars konar nálgun á vinnubrögð. Það er staðfest í skýrslunni. Við höfum haft fregnir af afbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu og víðar þar sem vísbendingar eru um að þaulskipulögð starfsemi eigi sér stað og að á bak við hana séu þaulskipulagðir glæpahringir.

Vísbendingarnar eru víða, fíkniefnaheimurinn er harðari, skipulögð starfsemi af hópum sem hafa gífurleg umsvif og fjárráð. Þannig að þetta er sannarlega ógn við samfélag okkar í meira mæli en áður. Það kallar á aukin og annars konar vinnubrögð. Það er áhyggjuefni þegar afbrotastarfsemin er orðin jafn víðtæk og þaulskipulögð og fram kemur í skýrslunni. Ég mun halda áfram máli mínu í seinni umferð.



[16:03]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þó að ég telji að gera þurfi enn betur en ráðherra fór ágætlega yfir hér áðan.

Þetta er mjög mikilvægt mál og sýnir skýrslan og sannar að skipulögð glæpastarfsemi er komin með allar sínar klær um allt, líka hér á landi. Þegar ég las skýrsluna hjó ég sérstaklega eftir því að greiningardeildin hefur áður vakið athygli á því að lítil löggæsla er á landsbyggðinni, að það skapi til dæmis glæpahópum tækifæri til framleiðslu fíkniefna og lögreglan hefur ítrekað stöðvað slíka framleiðslu á landsbyggðinni. Það er einnig sláandi að afskipti lögreglu í formi frumkvæðislöggæslu eru takmörkuð vegna manneklu.

Einnig er nauðsynlegt að vekja athygli á því hvort ekki þurfi að auka samstarf lögreglu og tollgæslu og þá líka með tilliti til gátta inn í landið, bæði í lofti og sjóleiðina. Þó svo að víða á landsbyggðinni verði ekki vart við skipulagða hópa er þrátt fyrir allt allt til staðar til að slíkir hópar geti skotið rótum og hafið þar starfsemi, einmitt þar sem löggæslan er minni.

Það er annað atriði skýrslunnar sem ég vil ræða en það er mansal og vændisstarfsemi sem virðist hafa vaxið hér. Það er hrikalegt til þess að hugsa að konur sem hingað hafa komið í leit að vernd séu fórnarlömb mansals. Enn og aftur má sjá að mannekla er helsta ástæða þess að þessi starfsemi dafnar. Það er grafalvarleg staða, það er ljóst. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á því.



[16:05]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga málefni. Það er tvennt sem mér þykir sérstaklega standa upp úr við lestur skýrslunnar. Ég tek undir með hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, sem talaði hér rétt á undan mér, að það er mjög mikilvægt að við getum brugðist með viðeigandi hætti við mansali, sérstaklega vinnumansali en líka kynlífsþrælkun og auknu vændi eins og komið hefur fram. Þar vil ég sérstaklega benda á að okkur vantar enn að aðgerðaáætlun gegn mansali sé uppfærð. Hún er ekki í gildi sem stendur. Ég sé ekkert bóla á henni.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær stendur til að leggja fram aðgerðaáætlun gegn mansali svo að við getum brugðist við með fullnægjandi hætti? Við vitum líka að þess eru dæmi að fórnarlömbum mansals sé vísað úr landi án nokkurrar aðstoðar eða stuðnings eftir að hafa orðið fyrir þessum glæpum. Ég spyr ráðherra hvenær hún hyggist gera bragarbót á þessu og leggja fram enn á ný aðgerðaáætlun gegn mansali.

Svo er annað sem vekur athygli mína í þessari skýrslu, en það er sífellt ákall lögreglunnar um forvirkar rannsóknir og forvirkar rannsóknarheimildir. Ég verð í því samhengi að segja að það er góðra gjalda vert að leggja þetta til, en þá verður líka að vera samhliða því virkt og sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu til að þessum aðgerðum sé ekki beitt með ótilhlýðilegum hætti.

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu hefur ekki enn skilað inn ársskýrslu um hvernig henni hefur gengið að hafa eftirlit með störfum lögreglu. Ég spyr því ráðherra: Hvenær stendur til að þessi ársskýrsla komi? Eitt ár er liðið frá því hún tók til starfa og rúmlega það. Hvenær liggur þetta fyrir? Telur ráðherra ekki ástæðu til að styrkja eftirlit með störfum lögreglu, sjálfstæði í eftirliti með störfum lögreglu, ef til stendur að veita henni frekari heimildir til forvirkra rannsókna?



[16:07]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessari skýrslu sem er fyrir margra hluta sakir ákaflega merkileg og varpar ljósi á vanda sem við þurfum að fást við í auknum mæli. Mig langar í fyrri umferð að beina sjónum mínum að þeim þætti sem lýtur að alþjóðavæðingu glæpastarfsemi á Íslandi. Í því samhengi beini ég sjónum að samstarfi íslensku lögreglunnar við lögregluyfirvöld í Evrópu og á alþjóðavísu, í Schengen-samstarfinu. Það er nú þannig að grundvöllur þess að geta fengist við alþjóðlega glæpastarfsemi hlýtur að vera mikil og náin samvinna við yfirvöld í öðrum löndum sem fást við glæpi af því tagi.

Ég held að það sé mikilvægt að við búum þannig um hnúta að Ísland og íslenska lögreglan verði ekki veikur hlekkur í því samstarfi, þ.e. að hún sé bæði í stakk búin til þess að sinna alþjóðlegu samstarfi og geti brugðist við og nýtt sér þær upplýsingar og þá samvinnu sem þar er að finna um það hvernig tekist er á við glæpi af þessu tagi, upplýsingar um glæpastarfsemi, upplýsingar um einstaka glæpamenn o.s.frv.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé ekki algjörlega skýrt að það sé forgangsatriði að styrkja lögregluna til að taka þátt í slíku samstarfi og að það sé mat (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra að mjög mikilvægt sé að það samstarf sé mjög vel virkt.



[16:10]
Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Í þessari mikilvægu skýrslu, sem felur í sér ótvíræð varnaðarorð en um leið ákall eftir því að lögreglunni verði tryggður nægilegur liðsafli og búnaður til að rækja skyldur sínar, kemur fram að það sé þekkt á Norðurlöndum og víðar í Evrópu að glæpasamtök nýti sér lögleg, opinber kerfi fyrir starfsemi sína. Þetta á til dæmis við um bótakerfi, um vinnumiðlanir og um móttökukerfi flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessi fullyrðing er studd með dæmum sem ekki er ráðrúm til að fara yfir hér. En það kemur sömuleiðis fram að stefna íslenskra stjórnvalda hafi á undanliðnum misserum verið fallin til að auka, eins og það heitir, aðdráttarafl Íslands sem áfangastaðar fyrir farandfólk í leit að betri lífskjörum.

Fram kemur að stigin hafi verið skref til þess að laga lagaumhverfið hér á landi að því sem ríkir annars staðar á Norðurlöndum og nefndar hérna tvær reglugerðir. Vil ég af því tilefni spyrja ráðherra hvort ráðherra telji nægilegt hafa verið að gert í þessum efnum.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Dæmi eru um að þeir sem sótt hafa um alþjóðlega vernd frá tilteknum ríkjum haldi strax aftur til Íslands eftir að hafa verið synjað um vernd og hlotið lögreglufylgd úr landi“.

Ályktunin er að þarna fari fram skipulögð misnotkun á móttökukerfi alþjóðlegrar verndar á Íslandi.

Af þessu tilefni spyr ég ráðherra: Telur ráðherra nóg hafa verið að gert til að setja undir þennan leka?



[16:12]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra eru mikilvægar og við þeim verður að bregðast. Þær niðurstöður sem birtast í skýrslunni sýna okkur skýrt þær auknu áskoranir sem birtast stjórnvöldum og lögreglunni í landinu í auknum mæli í skipulagðri brotastarfsemi, eins og mansali, fíkniefnaviðskiptum, peningaþvætti, auðgunarbrotum, netglæpum og kynferðisbrotum.

Það fækkar alltaf landamærum í þessari starfsemi. Því þurfum við að tryggja gott samstarf við nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum sem búa við sömu áskoranir og styrkja áfram starf okkar við Evrópuþjóðir og á alþjóðavísu. Við þurfum því nægan sérhæfðan mannafla sem er menntaður og þjálfaður í skipulagðri brotastarfsemi, þannig náum við að manna næg sérhæfð rannsóknarteymi sem geta tekist á við þessa glæpahópa og tryggt að skipulag lögreglunnar geti fljótt aðlagað sig að breyttum veruleika.

Þó að enn sé mikið verk óunnið höfum við verið á réttri leið undanfarin ár. Þegar niðurskurður til lögreglunnar var stöðvaður árið 2014 og fyrsta aukaframlagið til lögreglu kom, þá upp á 500 milljónir, var horft til þágildandi skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, við forgangsröðun fjármunanna og meðal annars komið á ákveðinni þjálfunaráætlun fyrir lögreglumenn. Löggæsluembættin voru aðskilin frá sýslumönnum og stækkuð til að gera þau öflugri og betur í stakk búin til að setja upp sérhæfðari teymi í að takast á við stærri verkefni. Fyrirkomulagi löggæslunáms var breytt með því að bæta aðkomu háskólanna að náminu og menntasetur lögreglunnar var sett á fót. Ég held að þetta eigi eftir að verða gæfuríkt spor fyrir löggæsluna til framtíðar.

Þá má ekki gleyma því að embætti héraðssaksóknara var sett á fót og málaflokkum eins og peningaþvætti, efnahagsbrotum og rannsóknum kynferðisbrota gert mun hærra undir höfði. Samvinna stofnana var einnig aukin. Það hefur því margt verið gert til að bregðast við breyttum heimi en áfram er mikið verk óunnið og mikilvægt er að löggæsluáætlun taki gildi sem allra fyrst.



[16:14]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í skýrslunni sem hér er undir kemur margt fróðlegt fram. Þótt Ísland sé eitt friðsamasta land í heimi og með tiltölulega lága glæpatíðni geta slíkir hlutir breyst. Auðvitað ber ætíð að gæta að borgaralegum réttindum einstaklinga þegar kemur að hvers konar greiningarvinnu lögreglu. Engu að síður er slík vinna mikilvæg og okkur hér á þingi ber að taka ábendingar fagaðila alvarlega. Áhætta vegna skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi er sögð vera mikil og er sérstaklega varað við auknum umsvifum skipulagðra glæpahópa, svo sem í mansali og vændi.

Það er ljóst að Ísland er ekki eyland þegar kemur að alþjóðlegri glæpastarfsemi og auðvitað getur það oft verið auðveldara og jafnvel ódýrara að koma í veg fyrir að eitthvað gerist í stað þess að bregðast við einhverju ástandi. Þetta á að sjálfsögðu við um glæpi.

Herra forseti. Löggæslan er ein af grunnstoðum ríkisvaldsins. Okkur ber því að fjármagna lögregluna svo vel sér gert. Samfylkingin hefur sýnt í verki að hún vill styrkja löggæsluna í landinu, nú síðast þegar fjárlög voru afgreidd. Þess vegna er það ákveðinn tvískinnungur hjá stjórnarliðum að koma ítrekað í þennan sal og tala um að þeir vilji gera allt fyrir lögregluna.

Herra forseti. Verkin tala og allir stjórnarliðar felldu tillögur okkar um aukinn stuðning til lögreglunnar fyrir einungis rúmum tveimur mánuðum.

Herra forseti. Það segir sína sögu.



[16:16]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Aukið álag á löggæslu kallar á aukið fé og mannafla og það leysum við heildrænt en ekki í skyndingu. Orsök álagsins er meðal annars allhröð fólksfjölgun, að hluta til útlendingar til vinnu og búsetu á landinu, stóraukinn ferðamannastraumur, aukinn innflutningur fíkniefna, mansal o.fl., í samvinnu innlendra og erlendra aðila, á það legg ég áherslu, það hefur komið í ljós.

Í löggæslumálum vil ég leggja höfuðáherslu á almenna eflingu löggæslustarfa í landinu. Það vantar hér langt yfir 200 lögreglumenn til að standa jafnfætis íbúahlutfallinu fyrir hrun og í skjóli aukinnar umferðar tveggja til þriggja milljóna ferðamanna og hraðvaxandi umsvifa í þjóðfélaginu hafa vissulega orðið til vaxtarhillur skipulagðrar glæpastarfsemi. Við erum enn langt frá Norðurlöndum í umfangi þessa en þó eru vísbendingar til staðar og við þeim þarf að bregðast.

Ég vil vara hraustlega við að gera útlendinga að meginblórabögglum í þessu tilliti, jafnvel á fleiri sviðum en afbrotum. Þetta er allt saman flókið samspil fólks, bæði innlends og útlends, í heimi afbrota og snýr ekki fyrst og fremst að útlendum ríkisborgurum. Það eru til drög að löggæsluáætlun og þar vísa ég í stjórnarsamkomulagið. Ég slæ því hér fram hvort það sé ekki þjóðráð, þegar verið er gera þetta umrædda þjónustukort í heilbrigðisþjónustunni, að taka líka til hina almennu löggæslu.



[16:18]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þakkir fyrir þessa mikilvægu umræðu hér til hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar. Ég endaði fyrri ræðu mína á því að segja að þessi umræða og skýrsla staðfesti þau áhyggjuefni sem blasa við um þá breytingu og þá ógn, sem samfélagið er að takast á við, sem af slíkri þaulskipulagðri starfsemi stafar. Sú ógn hefur aukist, að því er virðist, gífurlega í seinni tíð, þegar kemur að fíkniefnum, mansali, vændi, peningaþvætti og öllu því sem þessu tilheyrir.

Í seinni tíð hefur heyrst mikið ákall um að það vanti að bæta verulega í í mannafla. Það þarf breytt vinnubrögð. Ég fagna boðaðri löggæsluáætlun hæstv. ráðherra þar sem við getum tekist enn frekar á við þessi verkefni. Það hefur komið fram að það þarf breytta nálgun, breytt vinnubrögð, frumkvæðislöggæslu, farþegalistagreiningu og aukið samstarf við erlend yfirvöld, Europol, Eurojust, þessi starfsemi er af þeim toga. Það þarf líka aukna þjálfun lögreglunnar.

Það hefur komið fram að þetta kostar allt peninga og fjölmörg önnur verkefni bíða. En ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ég held að löggæsluáætlun muni í framhaldinu verða ansi mikilvæg í þessari umræðu.



[16:20]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mikilvæg. Hugtakið skipulögð glæpastarfsemi hefur verið okkur Íslendingum tiltölulega framandi. Við höfum haft tilhneigingu til að trúa því að á ferðinni væru vandamál sem ekki væru til staðar á Íslandi, raunin er því miður önnur. Eins og komið hefur fram hefur skipulögð glæpastarfsemi fest rætur á Íslandi og það sem verra er, greiningardeild ríkislögreglustjóra hefur metið áhættustigið vegna skipulagðrar glæpastarfsemi hátt. Þetta er mikið áhyggjuefni.

Ég vil beina máli mínu að landsbyggðinni eða dreifbýlinu í þessu samhengi. Á landsbyggðinni er löggæslan því miður allt of lítil. Í sérstakri umræðu hér þinginu fyrir skömmu, um löggæsluna, kom fram að lögreglumönnum fækkar alls staðar á landsbyggðinni, á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Suðurnesjum svo að dæmi séu tekin. Í skýrslu greiningardeildar kemur skýrt fram að dreifbýli, þar sem lítil löggæsla er, skapar þessum hópum, þessum afbrotahópum, tækifæri hvað varðar ræktun og framleiðslu á fíkniefnum og jafnvel vinnumansali.

Rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi eru mjög seinlegar og flóknar. Hér er verið að eiga við flókin kerfi og það er mikilvægt að við sem hér erum veitum þá aðstoð sem við getum veitt og er nauðsynleg eins og að tryggja nægilegt fjármagn og rýmka heimildir til rannsókna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í allmörg ár verið ábyrgur fyrir málefnum löggæslunnar í landinu. Ég verð að segja það hér að mér finnst skorta á skilning Sjálfstæðismanna á mikilvægi þessa málaflokks. Það er ekki nóg að tala um mikilvægi þess að styðja vel við bakið á lögreglunni og gera svo ekkert í því. Það er ekki eins og þetta vandamál sé nýtt af nálinni.

Miðflokkurinn lagði til að auka fjárveitingu til lögreglunnar við afgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu jól. Lagt var til að setja 250 milljónir aukalega til rannsókna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Skref í rétta átt. Tillagan var felld. Hún var felld af ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokknum, hæstv. dómsmálaráðherra, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. Svo kemur (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra hér sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar og talar um mikilvægi þess að unnið sé gegn skipulagðri glæpastarfsemi; fékk tækifæri til þess og sagði þá nei.



[16:23]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í þessari skýrslu, svo að skilaboðin séu alveg skýr, er greiningardeild ríkislögreglustjóra að segja okkur að lögreglan geti ekki sinnt skyldu sinni, geti ekki gætt öryggis okkar, geti ekki verndað borgararéttindi í landinu, út af því að hún hafi ekki mannafla til þess. Það er það sem er verið að segja. Hún getur ekki sinnt þeirri grunnskyldu sinni að vernda borgararéttindi, vernda fólk gegn mansali, vernda borgarana í landinu, vegna manneklu. Færir lögreglan rök fyrir máli sínu í skýrslunni? Já, alveg skýrt. Hún notar líkan Sameinuðu þjóðanna til að meta þessa áhættu og benda á hvernig líkur aukast eftir því sem menn hafa getu og þekkingu á því að brjóta af sér og eftir því sem þeir sjá fram á að þeir komist upp með það og nái því fram.

Hvað segir lögreglan? Ef við hefðum meiri mannafla gætum við minnkað áhuga þeirra á því að koma hingað út af því að við erum að standa okkur í því að stöðva þetta. Það er það sem þeir eru að segja. Það vantar mannafla. Og til þess að ráða þessa aukalögreglumenn vantar peninga. Það er það sem þetta snýst um. Það snýst um að það vantar meiri fjármuni til lögreglunnar.

Píratar ganga út frá því að vernda borgararéttindi, það er grunnurinn í stefnu okkar og einnig lýðræðisumbætur. Við höfum alltaf talað fyrir því að setja þurfi meiri peninga í löggæslu út af því að annars verndar þú ekki borgararéttindi. Og það er verið að segja að það sé ekki hægt að gera það núna vegna manneklu. Það er það sem þessi skýrsla er að segja okkur. Annaðhvort eru settir meiri peningar — og þá kemur það fram í fjármálaáætlun sem lítur dagsins ljós á næstunni, í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar — til lögreglunnar eða að ríkisstjórnin getur ekki sagst vera að bregðast við mati út frá líkani Sameinuðu þjóðanna um áhættu varðandi (Forseti hringir.) skipulagða glæpastarfsemi. Ekki er verið að bregðast við því að vernda réttindi borgaranna hvað þetta varðar. Þetta er hjá ríkisstjórninni.



[16:25]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar í síðari hluta þessarar umræðu aðeins að beina augum að öðrum þáttum. Það liggur fyrir að lögreglan þarf að vera í stakk búin til að sinna verkefnum sínum og gæta öryggis borgaranna. Við megum heldur ekki gleyma því að þetta mál snýst ekki eingöngu um það að við höfum eins sterka lögreglu og hægt er í landinu. Þetta snýst líka um það að við hugum að því að jarðvegur fyrir glæpi verði ekki frjórri en nauðsyn ber til — ég get þó varla orðað það svo, því að það er mjög óviðeigandi, en við eigum að koma í veg fyrir að jarðvegurinn verði til.

Við erum með viðkvæma hópa í samfélaginu. Við höfum nefnt stöðu innflytjenda og þeirra sem sækjast eftir því að koma til landsins. Ég held að við þurfum að skoða mjög vel að hér verði ekki til jarðvegur fyrir glæpastarfsemi. Það getum við gert með því að hlúa vel að þeim sem hingað koma, vera með fræðslu og gæta þess að ekki skapist félagsleg einangrun; að við búum ekki þannig um hnúta að til verði hverfi sem eru fyrst og fremst byggð tilteknum þjóðfélagshópum sem hafa orðið út undan í samfélaginu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við hugum að þessu samhliða og þar með t.d. stefnu okkar í baráttunni við fíkniefnin; að við hugum að því hvaða þættir það eru í þjóðfélaginu sem við getum bætt til þess að koma í veg fyrir glæpi.



[16:27]
Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svör hennar og einnig öðrum þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu um skýrslu greiningardeildar. Mér heyrist flestir taka skýrsluna mjög alvarlega og er það algjörlega eftir efni hennar og innihaldi.

Ég saknaði þess auðvitað að hæstv. ráðherra kæmi ekki hingað upp og færði lögreglunni skýr skilaboð, t.d. um fjölgun lögreglumanna. Ég saknaði þess en að öðru leyti þakka ég henni fyrir svörin sem voru ágæt. Ég ætlaði kannski líka að bæta svolítið við mína fyrri ræðu, sérstaklega varðandi landamærin.

Ég get ekki skilið við þessa umræðu án þess að minnast á mikilvægi landamæranna því að skipulögð glæpastarfsemi er ein mesta ógnin sem stafar að landamæravörslu. Hér er ég að tala um Keflavíkurflugvöll sem er okkar mikilvægustu landamæri og kallar á mikil umsvif lögreglunnar. Þar hefur skilríkjamálum fjölgað verulega. Lögreglan segir einnig í skýrslunni að virkt eftirlit lögreglu með útlendingum, í samræmi við inntak Schengen-samningsins, sé takmarkað sökum manneklu. Í því sambandi er farþegalistagreining nefnd sem er eitt öflugasta tæki lögreglu við landamæraeftirlit. Vegna skorts á mannafla og fullnægjandi tækjabúnað er þessu verkefni, farþegalistagreiningu, lítið sinnt sem telst verulegur veikleiki.

Til þess að koma í veg fyrir alvarlega glæpi, sem teygja sig þvert yfir landamæri, t.d. mansal og fíkniefnaviðskipti, er mjög brýnt að tekið verði upp skilvirkt kerfi við farþegalistagreiningu á landamærunum.



[16:29]
dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ánægjulega umræðu og upplýsandi um afstöðu hv. þingmanna, langflest mjög málefnalegt. Ég verð þó að segja það og ítreka, þreytist ekki á að segja það, að hvað mannafla varðar og fjárframlög til lögreglunnar þá hafa fjárheimildir verið auknar frá árinu 2013–2014 fram til dagsins í dag um 4,7 milljarða. Það eru um 2 milljarðar að teknu tilliti til vísitalna. Það liggur fyrir að á fjárlögum fyrir árið 2014 var samþykkt 500 millj. kr. fjárveiting til að efla löggæsluna, 2016 400 millj. kr., 2017 hátt í milljarður, og á fjárlögum 2018 var 400 millj. kr. tímabundið framlag, sem úthlutað var árið 2017, gert varanlegt. Á fjárlögum 2018 voru þess utan framlög til lögreglunnar aukin um 218 millj. kr. til eflingar málsmeðferð í kynferðisbrotamálum. Þetta eiga hv. þingmenn að þekkja mjög vel.

Fjárframlögin hafa því verið aukin verulega og lögreglumönnum hefur verið fjölgað eins og kynnt var hér nýlega. Það er von mín að við getum gert enn betur á næstu árum. Ég tel það nauðsynlegt og tek sérstaklega undir með hv. þingmanni, málshefjanda, um landamæravörsluna. Ég legg á það mikla áherslu að lögreglumönnum verði fjölgað við landamæravörslu mjög fljótlega.

Ég vil einnig nefna, af því að hér barst í tal samstarf við önnur lönd, að við erum í mjög mikilvægu samstarfi sem við höfum mikinn hug á að efla. Við höfum um árabil átt gott samstarf við Europol, þ.e. Evrópulögregluna, átt fulltrúa þar innan dyra. Nú er ég sérstaklega að skoða aukið samstarf við stofnunina Eurojust, sem er stofnun Evrópusambandsins, um ákærumál í sakamálum sem teygja sig yfir landamæri, og eru grundvallarforsenda fyrir samstarfi á milli ríkja er kemur að skipulagðri brotastarfsemi milli landa.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna.