148. löggjafarþing — 77. fundur.
rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 202. mál. — Þskj. 1194.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:08]

[14:58]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er tekið fyrir mál um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með málinu í þinginu þar sem skammtastærðir hefur borið mjög mikið á góma. Skilst mér að menn hafi náð utan um það allt saman, rafrettunotendum til mikillar gleði.

Þó að ég geri ráð fyrir að styðja þetta mál velti ég fyrir mér hvort eðlilegt sé að skilja út undan notkun á þessum tækjum á veitingastöðum, hvort það eigi ekki að falla undir sama hatt og tóbak, þ.e. að það sé bannað. En engu að síður hefur málið skánað og batnað mjög mikið. Ég held að það sé ástæða til að þakka þeim sem lögðu sitt af mörkum til að málið færi í þann búning að hægt væri að styðja það, sem við reiknum með að gera hér.



[15:00]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta var mjög umdeilt mál enda eitt og annað í því sem ríkir óvissa um. Til að mynda greinir menn á um hvort aukið aðgengi að svokölluðum rafrettum sé fyrst og fremst til þess fallið að fá þá sem reykja hefðbundnar sígarettur til að hætta reykingum, eða hvort það geti líka orðið til þess að fólk sem ekki reykir yfir höfuð prófi frekar rafrettur.

Unnið hefur verið mikið í þessu máli, sem var, eins og ég nefndi, umdeilt. Gerðar voru á því ýmsar breytingar með það að markmiði að koma til móts við þær athugasemdir sem komið hafa fram. Það er mjög til fyrirmyndar, virðulegur forseti, að menn skuli vinna hlutina með þeim hætti og mætti sjást víðar, í fleiri málum sem við ræðum í þinginu í dag þar sem er, má segja, allur gangur á því hvort menn hafa leitast við að ná lendingu eða jafnvel (Forseti hringir.) leitað að tækifærum til að sprengja mál í loft upp.



[15:01]
Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er nokkuð umdeilt mál og hefur farið nokkra hringi, veit ég, í nefnd þar sem það var til afgreiðslu. Í sjálfu sér má segja að okkur skorti enn þá rannsóknir um hvort rafrettur hvetji hugsanlega til annarra reykinga. Því hefur verið haldið fram að þær dragi mjög úr þeim, en okkur skortir reynslu til að meta hvort þær geti í einhverjum tilfellum hvatt til tóbaksreykinga.

Ég hef verið nokkuð nervus við þetta mál og var það lengi framan af. Það hefur vissulega skánað ögn í meðförum nefndar þannig að ég geri ekki ráð fyrir því að standa í vegi fyrir því að það verði afgreitt hér í dag. Samt sem áður er ég þokkalega nervus yfir málinu.



[15:02]
Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að vera aðeins ósammála þeim sem á undan hafa komið. Ég hef ekki fengið fleiri tölvupósta um nokkurt mál en þetta og voru þeir voru allir sömu skoðunar, sem sendu mér tölvupóst í málinu, en reyndar ekki þeirrar skoðunar sem endanleg tillaga gengur út á. Það segi ég nú kannski í smákerskni.

Það er ýmislegt sem fært var til betri vegar, bæði í nefndinni og milli umræðna. Meðal annars átti hæstv. forseti Alþingis oddaatkvæði hvað það varðar að leyfa svokallað veip á veitingastöðum. Skynsamleg skýring hv. þm. Brynjars Níelssonar þótti mér nokkuð góð hvað það varðar, að fólki væri treyst fyrir því að koma með stórhættuleg óargadýr inn á veitingastaði en mætti ekki koma með blöndu af vatni og lyktarefnum. Að því sögðu reikna ég með að styðja málið í heild sinni og vona að það verði til farsældar.



[15:03]
Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er býsna gott mál. Þetta er eiginlega mjög gott mál inn í þennan sal í dag því að með þeirri niðurstöðu sem við greiðum hér atkvæði um rétt á eftir er hægt að sýna og sanna að gjörsamlega ólík sjónarmið ná lendingu. Í nefndinni ræddum við töluvert um að við þyrftum að hjálpa fólki að hætta að reykja. Þetta er hluti af því. En á hinn bóginn var vandinn sá hvernig við komum í veg fyrir að börn byrji hugsanlega að reykja með því að veipa. Ég mæli með því að fólk taki þetta mál og hafi það hugfast hvernig við náðum að lenda því.



[15:04]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil við lokaafgreiðslu þessa máls nota tækifærið og þakka hv. velferðarnefnd fyrir að leiða saman ólík sjónarmið, eins og hér hefur komið fram. Ég held að í þessu máli hafi þingið sýnt hvað í því býr í flóknum úrlausnarefnum. Ég þakka sérstaklega hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir að halda utan um framsögu málsins og framvindu í flóknum úrlausnarefnum. Mat mitt er að þessi löggjöf sé verulega til góðs og að með henni náum við þeim markmiðum sem við fyrstu sýn virtust ósamrýmanleg. Hér eru þau öll saman til lykta leidd í samstöðu, vona ég.



[15:05]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eitt vildi ég nefna til viðbótar varðandi hættuna eða það sem maður þarf að hugsa sérstaklega að samhliða því að við samþykkjum væntanlega þetta frumvarp á eftir. Eitt er heilbrigðisspurningin sem ég nefndi áðan, um hvort þetta væri líklegt til þess að hjálpa fólki að hætta að reykja eða hugsanlega að venja einhverja á notkun nikótíns. Ég ætla ekki að fjalla meira um það heldur benda á að það er önnur hætta sem er sú að sum þessara tækja hafa sprungið og reynst þannig skaðleg, sprungið í vasa fólks eða jafnvel við notkun.

Það þarf því að gæta þess, virðulegur forseti, að þau tæki sem eru á markaði hér uppfylli öryggiskröfur hvað það varðar. Við viljum ekki að fólk lendi í því að stórskaðast af notkun þessara tækja. Langflest eru örugglega örugg og ekkert út á þau að setja. En það þarf að passa upp á að tæki sem hafa reynst hættuleg annars staðar, hafa sprungið, séu ekki í sölu á Íslandi, og (Forseti hringir.) gæta þar með að neytendavörnum í þessu máli.



[15:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í lokaorðum álits þeirra sem voru í minni hluta í velferðarnefnd, hv. þingmanna Halldóru Mogensen, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Guðmundar Inga Kristinssonar, segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi látast á hverju ári mörg hundruð manns af völdum reykinga. Sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti að rafrettur geti komið að miklum notum fyrir þá sem þurfa að hætta reykingum.“

Ég held að við getum flest verið sammála um þetta. Þetta er einn af mikilvægum þáttum í því að skilgreina betur það umhverfi sem þessi tæki eru seld í og notuð í. Auðvitað höfum við einhver áhyggjur af því að aukin notkun eða aðgengi að þessum tækjum geti mögulega haft einhver neikvæð áhrif á börn eða unglinga en ég held að með þessu máli sé reynt að taka utan um það líka. Þess vegna held ég að þær breytingartillögur sem hér hafa verið lagðar fram séu allar til mikilla bóta.



Frv.  samþ. með 54 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ATG,  ÁsgG,  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GBr,  GÞÞ,  GuðmT,  GBS,  HSK,  HKF,  HarB,  HVH,  IngS,  JÞÓ,  JSV,  KEH,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LRM,  LínS,  LE,  NF,  OH,  ÓGunn,  ÓÍ,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SEÞ,  SDG,  SIJ,  SPJ,  SMc,  SnæB,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞKG,  ÞorS,  ÞórE.
9 þm. (ÁÓÁ,  BÁ,  GIK,  HallM,  LA,  SÁA,  ÞorstV,  ÞórdG,  ÞSÆ) fjarstaddir.