149. löggjafarþing — 9. fundur.
stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda, fyrri umræða.
þáltill. KÓP o.fl., 19. mál. — Þskj. 19.

[17:57]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem auk mín standa að aðrir hv. þingmenn Vinstri grænna, Andrés Ingi Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela félags- og jafnréttismálaráðherra að koma á fót ráðgjafarstofu innflytjenda, þar með talið að leggja til viðeigandi lagabreytingar. Hlutverk stofunnar verði að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf og upplýsingar til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur. Ráðgjafarstofan verði jafnframt vettvangur fyrir félagslegan og sálfélagslegan stuðning til að renna styrkari stoðum undir árangursríka samfélagsþátttöku á Íslandi. Ráðherra hafi náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og leiðandi sveitarfélög á sviði innflytjendamála um uppbyggingu og rekstur ráðgjafarstofunnar, Rauða krossinn, verkalýðshreyfinguna og önnur félagasamtök og stofnanir sem koma að málefninu. Ráðherra kynni Alþingi áætlun um verkefnið eigi síðar en 1. maí 2019.

Virðulegi forseti. Tildrög þessa máls eru ekki síst ábendingar sem hafa komið fram í þessum málaflokki í skýrslum sem vitnað er til í greinargerðinni með málinu, t.d. skýrslu Ríkisendurskoðunar um málefni útlendinga og innflytjenda á Íslandi, skýrslu velferðarráðuneytisins um stöðu og þróun í málefnum innflytjenda og skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um greiningu á þjónustu við flóttafólk. Svo get ég nefnt hér stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Það hefur komið fram að þrátt fyrir að ýmislegt sé vel gert og ýmsar stofnanir vel reknar sem sinni ágætlega þessum málum sé þjónustan dálítið brotakennd. Þess vegna er lögð til meiri samræming í þessum málaflokki í mörgum þeirra skýrslna sem ég vísaði til og stefnum við að því að komið verði á fót aðstöðu þar sem innflytjendur eru flestir, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er farin sú leið að ráðherra verði falið að stofna þessa nýju ráðgjafarstofu.

Í greinargerðinni kemur einmitt fram að markmið þessarar þingsályktunartillögu sé að koma á fót miðlægri upplýsingastofu þar sem innflytjendur geti sótt allar þær upplýsingar um þjónustu, réttindi og skyldur sem auðvelda þeim að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Með tillögunni er gert ráð fyrir að ráðgjafarstofa innflytjenda verði samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga, þar koma líka inn í aðrar stofnanir sem og félagasamtök, og þar geti innflytjendur sótt sér upplýsingar þvert á sveitarfélög. Með innflytjendum er átt við íbúa á Íslandi sem fæddir eru erlendis, óháð ríkisborgararétti, og nær hugtakið einnig yfir flóttamenn, sem og umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Virðulegi forseti. Það er stórt skref hjá öllum að flytjast til annars lands og hefja þar nýtt líf. Ýmsar ástæður búa að baki því skrefi, en hvort sem það er stigið af sjálfsdáðum eða af illri nauðsyn er öllum í hag að njóta sem bestrar leiðsagnar um hið nýja samfélag. Það gerir breytingar á högum fólks léttari og stuðlar um leið að því að fólk verður mun fyrr virkt í samfélaginu og getur fyrr farið að gefa af sér. Því er mikilvægt að allir geti á einum stað sótt sér upplýsingar um hið nýja samfélag, hvaða réttindi og þjónusta bjóðist þar en einnig um þær skyldur sem íbúar þurfa að uppfylla. Ráðgjafarstofa innflytjenda yrði slíkur staður þar sem nálgast mætti allar nauðsynlegar upplýsingar og ráðgjöf undir sama þaki. Á ensku hefur slíkt verið kallað, með leyfi forseta, „first-stop-shop“, þ.e. sá staður þar sem fólk getur komið og fengið leiðsögn um allt sem að réttindum og skyldum þess lýtur.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni er farið yfir fordæmi af svipaðri starfsemi víða um heim, t.d. í Lissabon og víðar í Portúgal, í Kanada og Danmörku. Víða er þessi starfsemi víðtækari en hér er lagt til og nær til ýmissa verkefna sem hér á landi heyra undir Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins.

Eins og ég kom inn á fyrr í máli mínu hafa umfangsmiklar úttektir og skýrslur verið gerðar á stöðu og málefnum flóttafólks og innflytjenda og talað er um að betur þurfi að samræma þjónustuna, það þurfi að fá meiri fókus á hvernig þessi mál eru unnin þannig að það sé skýrara fyrir fólkið sem notar þessa þjónustu hvert það á að leita til að nálgast þær upplýsingar. Það er það sem öllu máli skiptir, þ.e. fólkið sem mun nota þjónustuna.

Ýmislegt í þessum skýrslum gefur tilefni til að álykta að þörf sé á enn frekari samræmingu í þessum málaflokki en hér er lagt til. Þessi mál eru á höndum tveggja ráðuneyta og ég held að það sé þarft verk í framhaldinu að setjast yfir málaflokkinn og reyna að finna hvaða leið er best til að hafa þetta allt sem skýrast, hafa flækjustigið sem minnst.

Ég vitnaði í skýrslu sem er unnin fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið þar sem segir um þær tillögur sem lagðar eru þar fram að komið verði á fót stofnun útlendinga- og innflytjendamála til að, með leyfi forseta, „samhæfa og samstilla aðgerðir til úrlausnar margra verkefna sem hafa mikið flækjustig, geta í senn verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg og kalla á skjótar en um leið vandaðar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fjölskyldna“.

Það er mikilvægt að horfa til hinna Norðurlandanna og þess fordæmis sem sett er í aðlögun umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna, ekki síst Rauða krossins.

Ég get upplýst að í aðdraganda framlagningar þessa máls ræddi ég einmitt við fjölmarga aðila sem koma að þessum málaflokki, þar með talið Rauða krossinn. Ég ræddi við aðila hjá Reykjavíkurborg og kynnti hugmyndina fyrir fólki úr verkalýðshreyfingunni af því að þar á bæ er unnið mikið og gott starf þegar kemur að því að veita innflytjendum upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Þá hafa margir aðilar haft samband við mig eftir að fregnaðist af þessu máli og verið jákvæðir í garð þess.

Meðal þeirra aðila sem ég ræddi við áður en ég lagði málið fram var Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum því að þar er unnið þarft og gott starf í þessum málum. Ýmislegt er gert þar sem er komið inn á hér sem verkefni þeirrar ráðgjafarstofu sem hér er lögð til. Í greinargerðinni er farið yfir það hver verkefni Fjölmenningarseturs eru. Þegar ég vísaði áðan til þess að fara þyrfti jafnvel í einhverjar lagabreytingar horfði ég ekki síst til þess að horfa þarf til þeirra verkefna sem þar eru unnin, hjá Fjölmenningarsetri og víðar. Hver endanleg niðurstaðan af þeirri vinnu verður ef Alþingi samþykkir að fela ráðherra verkið veit ég ekki en ég treysti bæði hv. nefnd sem þetta mál fer til og svo ráðherra til að vinna úr því. Ég veit bara að samræmingin þarf að vera og sérstaklega þegar kemur að Fjölmenningarsetri.

Í þeim efnum er ýmislegt mögulegt sem ég nefni af handahófi án þess að leggja neitt til. Þetta getur runnið saman sem ein stofnun, verið með starfsemi bæði þar vestra sem Fjölmenningarsetur er núna og á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna mætti breyta lögum um Fjölmenningarsetur og víkka út starfsemi þess, það væri með útibú á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv. Í það minnsta er mikilvægt að setjast yfir, samræma og koma á þessari beinskeyttu þjónustu sem kallað er eftir í öllum þeim skýrslum sem ég vísa hér til.

Það er nefnilega mikilvægt að horfa til þess að innflytjendur eru flestir á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir að í sumum tilvikum skipti staðsetning ekki öllu máli getur hún gert það í þessu tilviki og mikilvægt er að hér sé starfsemi af þessu tagi þannig að fólk geti einfaldlega gengið inn af götunni. Hins vegar er mikilvægt að þessari ráðgjafarstofu verði gert kleift að taka á móti og sinna fólki sem leitar til hennar hvaðanæva að. Þess vegna verður að tryggja frá upphafi að aðstaða til fjarfundar sé almennileg og í gegnum internetið svokallaða, sem er víst ekki bóla eftir allt saman.

Það er mikilvægt við þessa ráðgjafarstofu, og það er hugsunin sem mér finnst mikilvægt að komi hér fram, að þarna verði samstarf þvert á stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög, að þetta samstarf verði við þær stofnanir sem að þessu máli koma. Ég hef sérstaklega tiltekið Fjölmenningarsetur en það þarf líka samstarf við aðila eins og Rauða krossinn, Mími – símenntun sem er á vegum verkalýðsfélaganna og verkalýðshreyfinguna sjálfa.

Hvort sem fólk er komið til að setjast að til frambúðar eða einfaldlega vinna um hríð og leggja þannig sitt til samfélagsins getum við einfaldað því að setjast hér að í þann tíma sem það hyggst vera hér og það er gott. Því meira sem flækjustigið er og því meira sem fólk þarf að fara frá einum stað til annars og svo enn annars er ekki skynsamlegt, hvorki gagnvart því að hafa skilvirknina sem mesta né gagnvart líðan þess fólks sem eftir þessu leitar.

Virðulegur forseti. Ráðherra er því falið að hafa náið samstarf við alla þá aðila sem ég hef tínt hér til. Ég óska sérstaklega eftir því að hv. velferðarnefnd, sem ég mun leggja til að fái málið til umsagnar, vinni áfram með allar þær spurningar sem ég hef spurt, t.d. um samstarf við Fjölmenningarsetur og fleiri aðila, hvort ekki ættu einhverjir fleiri að koma að þessu og hvernig rekstrarfyrirkomulag slíkrar stofnunar ætti að vera. Í greinargerðinni er vísað til Bjarkarhlíðar sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og starfrækt í Reykjavík. Þar er öll þjónusta fyrir þolendur ofbeldis undir sama þaki. Ríki og Reykjavíkurborg hafa samstarf um reksturinn.

Mér finnst allt koma til greina í þeirri skoðun. Þetta þarf ekkert endilega að vera rekið af ríki eða sveitarfélagi, kannski er Rauði krossinn bestur til að reka svona, eða Fjölmenningarsetur eins og ég nefndi áðan.

Það er óvíst hve mikill kostnaður hlýst af stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda og hversu mikil áhrifin yrðu á ríkissjóð. Í greinargerðinni er rætt um að kostnaður við ríkisstofnun með fimm starfsmenn sé um 55 millj. kr. en ég bið okkur öll að hafa í huga að það er algjörlega óvíst hver kostnaðurinn yrði vegna þess að hluta af þeim verkefnum sem tiltekin eru í greinargerðinni er þegar verið að sinna annars staðar. Samlegðaráhrifin af því munu gera það að verkum að það er erfitt að átta sig á kostnaðinum. Sannast sagna held ég að hann yrði á endanum ekki mikill af því að verkefnunum er sinnt víða og því fleiri sem koma að þeim með þekkingu sína og sérfræðikunnáttu og setja þetta allt á þennan sama stað, því betra verður það og því meiri verða samlegðaráhrifin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni umræðunni.



[18:13]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða þingsályktunartillögu um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda og ríkið komi henni á fót. Hlutverk hennar verði, með leyfi forseta:

„… að bjóða upp á aðgengilega ráðgjöf og upplýsingar til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur. Ráðgjafarstofan verði jafnframt vettvangur fyrir félagslegan og sálfélagslegan stuðning til að renna styrkari stoðum undir árangursríka samfélagsþátttöku á Íslandi.“

Það vill svo til að á Ísafirði er Fjölmenningarsetur sem fór af stað árið 2001 að frumkvæði Vestfirðinga. Á Alþingi var samþykkt þingsályktunartillaga sem kom þessu af stað og í henni stóð:

„Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi.“

Á þessum nótum eru verkefni Fjölmenningarseturs byggð. Þar er unnið að upplýsingum til stjórnvalda og þá sérstaklega til sveitarfélaga sem eru oft sú stofnun sem innflytjendur leita fyrst til og svo líka til annarra stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga í tengslum við málefni innflytjenda, auk þess að halda innflytjendum upplýstum um réttindi þeirra og skyldur.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann Kolbein Óttarsson Proppé hvort hann haldi að Fjölmenningarsetur geti ekki valdið þessu hlutverki algjörlega og hvort það sé virkilega þörf fyrir þessa stofnun. Og ef svo er, hvort ekki væri hægt að stofna bara útibú á höfuðborgarsvæðinu.

Svo kem ég inn á annan þátt í síðari ræðu.



[18:15]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að hv. þingmaður hefði setið og hlustað á ræðu mína þar sem ég svaraði öllum þeim spurningum sem komu fram í máli hv. þingmanns hér áðan. Ég sagði að mögulega gæti þetta einfaldlega verið útibú frá Fjölmenningarsetri. Ég sagði að þar væri unnið þarft og gott starf. Ég teldi hins vegar að það þyrfti að fara í enn víðtækara samstarf um rekstur þess málaflokks en kveðið er á um í lögum um Fjölmenningarsetur. Það er sérstaklega tiltekið í greinargerð með málinu hver verkefni Fjölmenningarseturs eru samkvæmt lögum.

Ég held að ég hafi enga stofnun nefnt jafn oft í máli mínu hér rétt áðan og einmitt Fjölmenningarsetur, ef kannski er undanskilin ráðgjafarstofa innflytjenda sem tillagan gengur út á.

Virðulegur forseti. Ég hef skynjað ákveðna varúð og það á sérstaklega við um þingmenn Norðvesturkjördæmis og í síðustu viku var hér hv. þingmaður Samfylkingarinnar sem hvatti beinlínis til þess að þessi tillaga yrði dregin til baka. Ég skynja sérstaka varúð hjá þingmönnum hv. Norðvesturkjördæmis. Ég skil hana vel. Ég skil vel að þeir vilji standa vörð um það góða starf sem unnið er hjá Fjölmenningarsetri.

Einmitt þess vegna hafði ég samband við Fjölmenningarsetur áður en ég lagði þessa þingsályktunartillögu fram og fékk mjög jákvæð viðbrögð. Þar á bæ voru menn mjög spenntir yfir henni þannig að ég taldi ekkert að vanbúnaði með það að leggja tillöguna fram og ítreka það í greinargerð og svo í máli mínu hér aftur og aftur að samstarfið verður að vera gott.

Virðulegi forseti. Ég ítreka og endurtek að ég ætla hv. velferðarnefnd að vinna áfram með það hvernig (Forseti hringir.) skipulagið á þessu verður nákvæmlega. Hér er hins vegar um töluvert útvíkkaða starfsemi að ræða miðað við þá sem kveðið er á um hjá Fjölmenningarsetri í lögum.



[18:17]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hlustaði svo vel á ræðu hans að ég tók eftir því að hann var að tala um flækjustig og samstarf milli stofnana og ég fór að hugsa hvort það væri ekki aukið flækjustig að setja upp aðra stofnun, þótt ég skilji það fyllilega að þessi starfsemi þarf líka að vera hér á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé nefndi að það væri full þörf á þessu hér og það væri spurning um lög um Fjölmenningarsetur. Þarf kannski að breyta þeim eða koma á móts við eitthvað af þessu ef það ætti að setja upp útibú hér?

Þá langar mig líka til að spyrja: Á þá að flytja einhver verkefni frá Fjölmenningarsetrinu? Ég held að svona stofnun, ef hún er sett upp sérstaklega, myndi kannski veikja þá stofnun sem fyrir er. Væri ekki nauðsynlegt að byggja einmitt á reynslu hennar og útvíkka þá starfsemi sem þar er?

Þá vildi ég spyrja, ef þetta á að vera í góðri samvinnu og ég veit að það verður, ég efast ekki um að það verður horft til þeirrar starfsemi sem hefur verið þarna nærri tíu ár, hvort það sé einhver hætta á því að verkefni verði flutt frá Fjölmenningarsetrinu.



[18:19]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki ég sem settist allt í einu niður og hugsaði: Það þarf að minnka flækjustig og það þarf að hafa skýrari regluverk eða hvernig við eigum að orða það í þessum málum. Ég vitnaði í nokkrar skýrslur hér í máli mínu, þær er að finna í greinargerðinni. Ein þeirra var unnin fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið árið 2016. Nú man ég þetta ekki svo gjörla, en er ekki rétt að Framsóknarflokkurinn hafi verið með velferðarráðuneytið árið 2016? Það er eins og mig minni það.

Í skýrslunni eru gerðar tillögur um umfangsmiklar breytingar á skipulagi og stjórnsýslu útlendinga- og innflytjendamála. Meðal tillagnanna er að komið verði á fót stofnun útlendinga- og innflytjendamála til að, nú vitna ég beint í skýrsluna, virðulegur forseti, „samhæfa og samstilla aðgerðir til úrlausnar margra verkefna sem hafa mikið flækjustig, geta í senn verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg og kalla á skjótar en um leið vandaðar ákvarðanir í málefnum einstaklinga og fjölskyldna“. Þetta er úr umræddri skýrslu sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið árið 2016. Þá var Fjölmenningarsetur að sinna sínu góða starfi.

Þannig að já, þörfin virðist vera fyrir hendi til að draga úr flækjustiginu. Fyrir umrædd ráðuneyti var sérstaklega lagt til að komið yrði á fót ákveðinni stofnun til að draga úr henni. Hér er í raun og veru verið að vinna áfram með þá hugmynd.

Aftur spurði hv. þingmaður um ýmislegt sem ég taldi mig hafa svarað. Þarf að breyta lögum? Já, það segir í greinargerðinni. Kannski þarf að breyta lögum um Fjölmenningarsetur þannig að það taki yfir verkefnin. Flyst starfsemi þaðan? Ég veit það hreinlega ekki. Mér finnst mikilvægt að standa vörð um þau störf sem þar eru. Kannski flyst starfsemi þangað.

Á endanum er það nefndarinnar og svo ráðherra að finna út hvernig þessum málum verður best fyrir komið (Forseti hringir.) og um leið að standa vörð um þá starfsemi sem nú er fyrir hendi eins og skilmerkilega kemur fram í máli mínu og greinargerðinni.



[18:22]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um tillögu til þingsályktunar um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda. Það er fagnaðarefni að málefnum innflytjenda sé gefinn gaumur. Þetta er vaxandi hópur og vex talsvert hratt og er íslensku samfélagi dýrmætur liðsauki. Það er brýnt að búa í haginn fyrir þá sem flytja til landsins, eins og fram kom í máli framsögumanns. Við eigum að búa vel að öllum, bæði þeim sem hér hafa búið frá barnæsku og líka þeim sem flytjast til landsins. Við eigum ekki að etja þeim hópum saman. Okkur er allt þetta fólk dýrmætt.

Markmið með þingsályktunartillögunni er, svo að ég vitni, með leyfi forseta, í greinargerðina:

„… að koma á fót miðlægri upplýsingastofu þar sem innflytjendur geta sótt allar þær upplýsingar um þjónustu, réttindi og skyldur sem auðvelda þeim að koma sér fyrir í nýju samfélagi.“

Komið hefur fram að við eigum orðið rótgróna stofnun, að vísu ekki í 101 heldur er hún staðsett á Ísafirði, Fjölmenningarsetur, sem hefur starfað frá aldamótum og gegnt hlutverki sínu eftir atvikum og aðstæðum og eftir megni með miklum sóma en búið við fjársvelti. Ég skynja það af samtölum mínum við aðstandendur þeirrar stofnunar á Ísafirði að þeir eru aldrei tryggir um sinn sess, alltaf er verið að kanna hvort stofnunin plumi sig, sem hún gerir mjög vel.

Það hittir mig þannig fyrir að algjört samræmi sé á milli hlutverka þessara tveggja stofnana. Það sem okkur skortir er, eins fram kom í máli hv. þingmanns og framsögumanns, að samræma göngulagið, samræma verklagið, tryggja betur hag og markvissa þjónustu gagnvart nýjum Íslendingum.

Með finnst verið að hugsa á sama hátt og fyrr, hugsa í sílóum, þ.e. ný stofnun. Það þarf ekki að vera svo. Menn geta auðvitað unnið náið og vel saman.

Í ársbyrjun 2017 voru 36.000 innflytjendur á Íslandi, sem eru 11% af mannfjölda landsins. Innflytjendum hafði þá fjölgað um ríflega 4.000 frá árinu 2016. Um helmingur þeirra býr í Reykjavík. Hinn helmingurinn býr í nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur og eru dreifðir út um allt land. Þess vegna er ekki endilega höfuðatriði að slík þjónusta verði fyrst og fremst veitt í Reykjavík heldur einnig úti á landi. Tæknin er okkur hliðholl. Hér hafa verið nefndir fjarfundir o.fl. Sú leiðsla virkar í báðar áttir.

Fjölgun innflytjenda heldur áfram. Þeim hefur fjölgað frá árinu 2012 úr því að vera 8% mannfjöldans í það að vera u.þ.b. 11%, eins og fram hefur komið. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru líka fjölmennir og eru nú líklega um 4.500. Við erum því að eignast rótgróna kynslóð. Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda um 12% af mannfjöldanum á Íslandi. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra samkvæmt Hagstofu Íslands.

Frú forseti. Reynsla Íslendinga af búferlaflutningum og fólksflutningum á milli landa ætti að vera jákvæð í ljósi eigin sögu Íslendinga og flutninga á milli landa, bæði fyrr á tímum og á allra síðustu árum. Við fórum þúsundum saman til Vesturheims og við fórum líka þúsundum saman á allra síðustu árum út um alla veröld, mikið til Norðurlanda.

Hvernig er reynslan? Reynsla innflytjenda um allan heim er sú að þeir mæta oftar en ekki andstöðu í einhverri mynd í nýju samfélagi. Það hefur verið staðfest í skýrslum, m.a. skýrslu Fjölmenningarseturs og Mannréttindaskrifstofu Íslands frá árinu 2014.

Mikið er rætt og ritað í samtímanum um hlutverk og aðlögun innflytjenda í heiminum. Rauði þráðurinn í allri þeirri umræðu og í því hvernig til tekst er alltaf sá sami og gjarnan eru nefnd þrjú atriði: Viðhorf heimafólks, það ráði úrslitum, mikilvægt sé að uppbyggileg samfélagsumræða sem leidd er af stjórnvöldum fari fram og að hnitmiðaðir og vel skilgreindir langtímaferlar séu virkir. Þau atriði séu mjög mikilvægur lykill að því að innflytjendur fái greiðan aðgang að öllum þáttum samfélagsins, hvort sem það er menntakerfið, vinnumarkaðurinn, húsnæðiskerfið, heilbrigðisþjónusta eða íþrótta- og æskulýðsstarf, svo að eitthvað sé nefnt.

Þess má geta að velferðarráðherra lagði í árslok 2014 fram þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2015–2019 sem samþykkt var haustið 2016. Það er auðvitað knýjandi nauðsyn að þær tillögur sem kynntar voru í þeirri áætlun verði að raunverulegum verkefnum og varanlegum viðfangsefnum, að það verði hluti af langtímastefnu. Hér er ekki boðuð langtímastefna heldur lagt til að við stofnum eina skrifstofuna enn.

Við þurfum að bæta, samræma stofnanaumgjörð innflytjendamála með endurskoðun þeirra stofnana sem við eigum, Útlendingastofnunar, styrkja Fjölmenningarsetur, þá stofnun sem á að vera samkvæmt lögum stjórnvöldum til halds og trausts varðandi aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Við þurfum líka að efla verulega þróunarsjóð innflytjendamála svo að hlúa megi að verkefnum í málaflokknum.

Virðulegur forseti. Á Norðurlöndum er að finna samkeppnishæfustu samfélög í heimi með jafnrétti, velferð og samfélagslega ábyrgð í fyrirrúmi. Norðurlöndin hafa einnig verið í fararbroddi í málefnum innflytjenda. Bætt staða innflytjenda á Íslandi og stefnumótun á því sviði er því orðin brýn og er réttlætismál auk þess að vera mikilvægur þáttur í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags sem eflir mannúð og eykur fjölbreytni. Hvort tveggja stuðlar að meiri sköpun, víðsýni, virkjun hugvits, samfélaginu til góðs. Jöfnuður, velferð og virk þátttaka allra eru aðalsmerki farsællar samfélagsgerðar og forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs.

Ísland er nú líklega statt í innflytjendamálum þar sem mörg nálæg lönd voru fyrir mörgum árum eða áratugum. Stjórnvöld ættu að geta dregið lærdóm af reynslu og uppbyggilegri þróun á ýmsum sviðum málaflokksins hjá öðrum þjóðum. Þarna þurfum við að taka okkur á.

Ísland á að vera í forystu þegar kemur að því að takast á við þessa þróun og byggja á sterkum grunngildum réttlætis. Ísland er þegar orðið fjölþjóðlegt samfélag sem á að hafa í heiðri jafnrétti og réttlæti þar sem borin er virðing fyrir frelsi hvers og eins til þess að aðhyllast trúarbrögð, lífsskoðanir og lífsgildi af ólíkum toga án mismununar. Í slíku samfélagi er ekki rými fyrir rasisma og fordóma né aðra mismunun, hvort sem það er vegna trúar, menningar eða annarra þátta. Þess vegna er svo mikið gleðiefni að menn gefi þeim málum gaum, vilji styrkja þjónustu, aðbúnað og aðstöðu fyrir nýja Íslendinga, sem fjölgar stöðugt.

Álitamálið er þetta: Þurfum við að stofna nýja stofnun? Er ekki nær að styrkja þá stofnun sem við eigum þegar? Það geta verið starfsstöðvar á tveimur stöðum. Ég sé í tillögunni að áætlaðar eru 55 millj. kr. til starfseminnar en Fjölmenningarsetur fær 38,7 milljónir á næsta ári til starfsemi sinnar. Hugsanlega þyrfti Fjölmenningarsetur ekki nema hluta af þeirri upphæð til að geta af þrótti sinnt mikilvægu hlutverki sínu.



[18:32]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fékk það ekki af mér að fara í andsvar við hv. þingmann af því að í grunninn held ég að við séum algjörlega sammála. Ég vildi koma hér upp af því að ég skynja, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, ég veit ekki hvort ótti er rétta orðið, áhyggjurnar er kannski betra orð, yfir því að með þessu sé á einhvern hátt verið að vega að hlutverki Fjölmenningarseturs. Mér finnst þær eðlilegar. Ég held að það snúi ekki bara að búsetu eða neinu slíku, ég held að þetta snúi líka að því að það er unnið mjög gott starf á Fjölmenningarsetri og fólk skilji ekki alveg tilganginn með því að vera að leggja fram tillögu um, virðulegi forseti, svo ég vitni í hv. þm. Guðjón S. Brjánsson, „eina skrifstofuna enn“. Mér fannst hv. þingmaður tala eins og þetta væri nú enn ein stofnunin, það væri ekki leiðin sem við ættum að fara.

Nei, við erum ekkert að fara að stofna einhverjar stofnanir bara til að stofna stofnanir. En þegar skýrsla eftir skýrslu kemur út þar sem lagt er til að flækjustigið í þessum málum verði einfaldað, þar sem lögð er til ný stofnun, eigum við ekki að hlusta á sérfræðinga? Ef sérfræðingar skila tveimur ráðuneytunum skýrslu, tala um nýja stofnun, eigum við þá að segja bara nei, enn ein stofnunin? Eða eigum við kannski að setjast með opinn huga yfir þetta um að kannski sé eitthvað til í öllum þeim ábendingum sem hafa komið fram?

Hér er aðeins vísað til nokkurra þeirra, það þurfi einhvern veginn skýrari sýn í þessum málaflokki, það þurfi að minnka flækjustigið og gera þetta allt einfaldara. Það er hugsunin, virðulegur forseti, með þessari tillögugerð.

Ég ætla að segja það hér að mér sjálfum er alveg sama hvort þessi stofnun muni heita ráðgjafarstofa innflytjenda eða ekki, eða hvort lögum um Fjölmenningarsetur verði einfaldlega breytt og hlutverk þess útvíkkað. Ég held að svona stofnun eigi ekki að heyra beint undir ráðherra eins og Fjölmenningarsetur gerir í dag. Þar sé ég t.d. að væri þörf á að breyta lögum. Ég held að þetta eigi að vera regnhlíf fyrir alla þá aðila sem koma að þessum málum, sem koma að því að þjónusta fólk sem flytur hingað til landsins, sama hvort það er í sex mánuði til að vinna við smíðar eða sex ár til að koma undir sig fótunum undir einhverjar hörmungar, eða 60 ár og svo niðjar og afkomendur næstu 600 ár.

Ég held að markmið okkar allra sé það sama. Þess vegna vildi ég ekki fara í andsvar við hv. þingmann því ég held að í grunninn séum við algjörlega sammála, einnig ég og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir og þeir þingmenn sem ég hef heyrt tjá sig um þetta mál.

Þess vegna vil ég ítreka að það er ekki verið að stilla þessu upp gegn Fjölmenningarsetri. Það er frekar verið að stilla sér upp með því.

Ég held ekki endilega að við séum á þeim stað að starfsemi í þessu sé fullkomin eins og hún er og það megi ekki setjast yfir þetta og horfa á þetta, það megi ekki útvíkka hana, það megi ekki taka fleiri að sem koma að málaflokknum og það megi ekki horfa til þess að starfsemin eigi að vera víðar.

Það vill svo til að Reykjavíkurborg hefur gefið út samþykkta stefnu þar sem Reykjavíkurborg er að huga að akkúrat svipuðu. Mér finnst sóknarfæri þar. Hvort það verður undir hatti Fjölmenningarsetur og í einhverju samstarfsráði, það er bara hin besta hugmynd. Ef við teljum að það auki á flækjustigið að hafa einhverja svona stofnun eins og hér er kölluð ráðgjafarstofa innflytjenda við hliðina á Fjölmenningarsetri þá skulum við endilega ekki gera það, heldur breyta því umhverfi sem við höfum í dag og útvíkka starfsemi Fjölmenningarseturs.

Þessu vildi ég ekki svara sitjandi einn á skrifstofu minni þótt ég væri að tala við fólk úti í bæ áður en ég lagði þetta fram. Ég vil að hv. velferðarnefnd taki utan um þetta, fái umsagnir héðan og þaðan, verði óhrædd við að breyta og laga að því umhverfi sem við búum við í dag með það skýra markmið að þjónusta við innflytjendur verði eins og best verður á kosið. Ef við tryggjum það saman þá skiptir engu máli hvort þetta heitir ráðgjafarstofa innflytjenda, hvort þetta er enn ein stofnunin eða hvað það er. Ég held, virðulegi forseti, að við höfum öll það sameiginlega markmið. Þess vegna ber ég miklar væntingar til þess að fylgjast með því hvernig hv. velferðarnefnd mun vinna með þetta mál.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.