149. löggjafarþing — 22. fundur.
varnarmál.

[10:46]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða varnarmál á breiðum grunni við hæstv. forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs í dag. Tilefnið er að um þessar mundir fer fram hernaðaræfing Atlantshafsbandalagsins, með leyfi forseta, Trident Juncture eins og hún nefnist á ensku, og sú fer fram hér á Íslandi. Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu frá 19. september sl. kemur fram um æfinguna, með leyfi forseta:

„Dagana 19.–20. október verður haldin í Reykjavík skipulagsráðstefna vegna aðalæfingarinnar í Noregi. Von er á um tíu herskipum […] hingað til lands með allt að sex þúsund sjóliða. Um leið verður efnt til svonefndrar vetraræfingar í Þjórsárdal með 400 landgönguliðum hvorn dag.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að þess verði sérstaklega gætt að ekkert umhverfisrask verði vegna æfinganna.

Herra forseti. Í ljósi þess að Ísland hefur ekki lögfest 6. viðauka alþjóðasamnings um varnir gegn mengun frá skipum, og í ljósi þess að nú liggur fyrir að tíu herskip muni leggjast að bryggju hér á Fróni, spyr ég hvort tryggt hafi verið að þessi skip brenni ekki svartolíu eins og lög á Íslandi heimila og hvort gert hafi verið mat á umhverfisáhrifum af komu þessara skipa.

Þá vil ég spyrja hvað valdi því að fjárframlög til varnarmála hafi svo gott sem tvöfaldast frá árinu 2016, úr 1,1 milljarði í áætlaðan 2,1 milljarð kr. í fjárlögum ársins 2019.

Loks vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að ég veit að hún hefur talað fyrir friðsamlegum lausnum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, hvort henni finnist það líklegt til þess að tryggja frið og auka öryggi Íslendinga að hýsa hérlendis hernaðaræfingu sem líta mætti á sem beina ögrun við kjarnorkuveldið Rússland.



[10:48]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Hvað varðar fyrstu spurningu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, um mat á umhverfisáhrifum af heræfingunni sem hér stendur yfir, er mér ekki kunnugt um að slíkt mat hafi farið fram né heldur að slíkar heræfingar séu matsskyldar. Hæstv. umhverfisráðherra er hér í salnum og þekkir betur til lagaumgjarðarinnar í kringum mat á umhverfisáhrifum, en slíkt mat hefur í öllu falli ekki farið fram. Hins vegar er það svo að við þurfum að huga að svartolíumengun. Þar hefur Ísland verið í fararbroddi í alþjóðasamstarfi við að hvetja til banns við notkun svartolíu á höfum úti. Það á við um herskip jafnt sem önnur skip. Eins þurfum við að ráðast í verkefni sem er hluti af loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem er rafvæðing hafna. Við sjáum það auðvitað, ekki bara frá herskipum heldur öðrum skipum, að mengunin af þeim skipum sem hér liggja í höfn er gríðarleg. Þar þarf að fara í stórt átak. Ég tel að það eigi við um öll skip.

Hvað varðar matsskylduna á heræfingum verð ég eiginlega að vísa því til hæstv. umhverfisráðherra. Mér er ekki kunnugt um að slíkar æfingar séu matsskyldar.

Hv. þingmaður ræðir um varnarframlög. Kunnugt er að mjög rík áhersla hefur verið á það innan Atlantshafsbandalagsins að öll aðildarríki auki framlög sín til varnarmála. Rík krafa hefur verið um það á undanförnum árum. Þar hefur Ísland aukið sín framlög, en hins vegar liggur það fyrir að við erum fjarri öllum öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins þegar kemur að framlögum til varnarmála, við erum fjarri öllum fjárhæðum eða hlutföllum hvernig sem þeim teningi er snúið.

Síðan hvað varðar spurningu hv. þingmanns um friðsamlegar lausnir er tími minn á þrotum. Ég hlýt hins vegar að segja að skipulagning þessarar heræfingar var hafin áður en ég tók við sem forsætisráðherra. Heræfingar eru ekki eitthvað sem mér hugnast, enda er hv. (Forseti hringir.) þingmanni kunnugt um mína afstöðu og hreyfingar minnar til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, en þetta er auðvitað hluti af starfsemi bandalagsins.



[10:50]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Svo ég árétti það er ástæðan fyrir því að ég spyr út í svartolíuna sú að í sömu fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að þess skuli sérstaklega gætt að ekkert umhverfisrask verði af æfingunni. Mér finnst þá alveg tilefni til að skoða umhverfisrask skipa sem mögulega brenna svartolíu. Hvað varðar starfsemi Atlantshafsbandalagsins finnst mér munur á því að taka þátt í því á borgaralegum grunni og að hýsa hér hernaðaræfingu, en allt í góðu með það.

Mig langaði samt að spyrja um annan viðburð sem er líka á vegum Atlantshafsbandalagsins sem hefur verið kynntur sem Afvopnunarráðstefna NATO og er á dagskrá síðar í mánuðinum. Ég skil ekki alveg hvers vegna það er kölluð Afvopnunarráðstefna á Íslandi og hvers vegna hæstv. ráðherra hefur ítrekað kallað ráðstefnuna svo. Eftir því sem ég kemst næst er það Gjöreyðingarvopnaráðstefna NATO sem er haldin hér. Ég vil biðja um að talað sé skýrt um það hvað við erum að hýsa og hverju við erum að taka þátt í. Ég vil að athugað sé hvers vegna slíkur misskilningur kom upp og hvernig hin undarlega þýðing á orðunum „Weapons of Mass Destruction“, eða Gjöreyðingarvopnaráðstefna, varð til, en hún er kölluð (Forseti hringir.) Afvopnunarráðstefna bæði í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu og einnig í viðtölum hæstv. forsætisráðherra við fjölmiðla.



[10:51]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess sem hv. þingmaður segir hér um að forsenda þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu sé eingöngu á borgaralegum forsendum er það svo. Ísland leggur ekki til hergögn eða hermenn í þátttöku sinni í Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar hafa heræfingar farið fram á Íslandi alloft áður vegna þess að við erum meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Þetta er ekki fyrsta heræfingin á þeim tíma sem við höfum verið í Atlantshafsbandalaginu og þetta er ekki sú síðasta. Þessi æfing er tiltölulega umfangsmikil. Hún er ekki umfangsmesta heræfingin sem farið hefur fram á Íslandi. Ég rifja hér upp Norðurvíking 1993, svo dæmi sé tekið, þannig að við höfum séð umfangsmeiri æfingar.

Það sem ég hef lagt áherslu á er að það ríki sem mest gagnsæi um þessa æfingu. Ástæðan fyrir því að rætt var sérstaklega um umhverfisrask er að hluti þessara æfinga fer fram í Þjórsárdal, þar eru friðlýst svæði og menningarminjar. Við höfum lagt á það áherslu að ekki eigi að raska eða fara inn á friðlýst svæði í kringum þessa æfingu. Það er ástæðan fyrir þessu orðalagi.

Hv. þingmaður ræðir um afvopnunarráðstefnu. Jú, það er ætlunin (Forseti hringir.) að ræða það þegar um er að ræða gereyðingarvopn. Kjarnorkuafvopnun er eitt af því sem var beinlínis til umræðu á síðasta leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins. (Forseti hringir.) Gengið hefur mjög illa að fá kjarnorkuveldin (Forseti hringir.) að því borði. Til stendur að ræða það á þeirri ráðstefnu sem hv. þingmaður vísar hér til, en því samtali hefur því miður miðað mjög hægt, (Forseti hringir.) það verður að viðurkennast.