149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

varnarmál.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í ljósi þess sem hv. þingmaður segir hér um að forsenda þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu sé eingöngu á borgaralegum forsendum er það svo. Ísland leggur ekki til hergögn eða hermenn í þátttöku sinni í Atlantshafsbandalaginu. Hins vegar hafa heræfingar farið fram á Íslandi alloft áður vegna þess að við erum meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Þetta er ekki fyrsta heræfingin á þeim tíma sem við höfum verið í Atlantshafsbandalaginu og þetta er ekki sú síðasta. Þessi æfing er tiltölulega umfangsmikil. Hún er ekki umfangsmesta heræfingin sem farið hefur fram á Íslandi. Ég rifja hér upp Norðurvíking 1993, svo dæmi sé tekið, þannig að við höfum séð umfangsmeiri æfingar.

Það sem ég hef lagt áherslu á er að það ríki sem mest gagnsæi um þessa æfingu. Ástæðan fyrir því að rætt var sérstaklega um umhverfisrask er að hluti þessara æfinga fer fram í Þjórsárdal, þar eru friðlýst svæði og menningarminjar. Við höfum lagt á það áherslu að ekki eigi að raska eða fara inn á friðlýst svæði í kringum þessa æfingu. Það er ástæðan fyrir þessu orðalagi.

Hv. þingmaður ræðir um afvopnunarráðstefnu. Jú, það er ætlunin (Forseti hringir.) að ræða það þegar um er að ræða gereyðingarvopn. Kjarnorkuafvopnun er eitt af því sem var beinlínis til umræðu á síðasta leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins. (Forseti hringir.) Gengið hefur mjög illa að fá kjarnorkuveldin (Forseti hringir.) að því borði. Til stendur að ræða það á þeirri ráðstefnu sem hv. þingmaður vísar hér til, en því samtali hefur því miður miðað mjög hægt, (Forseti hringir.) það verður að viðurkennast.