149. löggjafarþing — 27. fundur.
ársreikningar, 2. umræða.
stjfrv., 139. mál (texti ársreiknings). — Þskj. 139, nál. m. brtt. 355.

[14:20]
Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, og síðari breytingar þar að lútandi. Forsaga málsins er sú að hinn 2. júní 2016 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um ársreikninga sem m.a. fólu í sér breytingar á 7. gr. laganna í þá veru að texti ársreiknings og samstæðureiknings skuli ávallt vera á íslensku en að auki á ensku ef þörf krefur. Orðalagið hefur ekki þótt nægjanlega skýrt og í minnisblaði um áhersluatriði í eftirliti ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2017 kemur fram að núgildandi lög feli í sér að semja þurfi ársreikninga á íslensku sem lagðir eru fram á aðalfundi. Það eru að sjálfsögðu íþyngjandi ákvæði fyrir félög sem kunna m.a. að hafa stjórnarmenn sem ekki eru altalandi á íslensku.

Í ljósi þess lagði ráðherra hér fram tillögu að breytingu á þessum lögum sem fæli í sér að hægt væri að semja ársreikning, frumrit ársreiknings, á ensku ef sérstakar aðstæður væru þar að lútandi, en áhersla var engu að síður lögð á að íslensk þýðing ársreikningsins ætti að berast ársreikningaskrá sem ætti að halda utan um ársreikninga allra íslenskra félaga, og að þeir ársreikningar ættu þá að vera á íslensku.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Nefndinni barst líka umsögn um málið frá Íslenskri málnefnd, auk sameiginlegrar umsagnar frá CCP, Eyri Invest, Icelandair Group, Marel, Meniga, Nasdaq á Íslandi, Össuri og Viðskiptaráði Íslands.

Við í nefndinni erum sammála um mikilvægi þess að samkeppnishæfni fyrirtækja verði ekki skert með neinum hætti. Ég held að við gerum okkur flest grein fyrir því að það kann oft að vera mikill akkur í því fyrir fyrirtæki að geta verið með stjórnarmenn sem eru erlendir og tala ekki íslensku. Samkeppnisaðstæður fyrirtækja geta líka verið með þeim hætti að þau starfi á alþjóðlegum markaði og finnist þar af leiðandi eðlilegt að ársreikningarnir séu lagðir fram á enskri tungu sem almennt er talið alþjóðlegt viðskiptamál.

Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega talað um þessi stærri fyrirtæki sem eru að vinna á alþjóðlegum markaði, en í umfjöllun okkar í nefndinni horfðum við líka til þess að þetta geta jafnframt verið minni fyrirtæki. Þetta geta verið sprotafyrirtæki í nýsköpun sem hafa kannski mjög mikinn ávinning af því að fá sérfræðinga í viðkomandi atvinnugrein eða á viðkomandi þekkingarsviði til að sitja í stjórn. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að ætlast til þess að stjórnarmeðlimir skrifi undir ársreikning á tungumáli sem þeir skilja ekki. Því teljum við mikilvægt að þessi heimild sé til staðar og nefndin telur að túlka beri ákvæði laganna með þeim hætti að félag með erlenda stjórnarmenn uppfylli skilyrði um mikilsverða hagsmuni og sé því heimilt að semja ársreikning á ensku.

En það er rétt að árétta að frumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við þeirri meginreglu að ársreikningar skuli skrifaðir á íslensku. Heimild til annars er undanþáguheimild og þess vegna skal beita henni eftir sem áður og þá skal senda ársreikningaskrá íslenskt eintak ársreikninga samhliða frumeintaki á ensku. Ávallt verði því íslenskt eintak ársreikninga vistað hjá ársreikningaskrá.

Í umsögn sem okkur barst frá Íslenskri málnefnd lagði nefndin til orðalagsbreytingu á 2. gr. frumvarpsins til að árétta sess íslenskunnar og vildi nefna íslensku á undan ensku. Nefndin tekur heils hugar undir þá tillögu og setur fram sem breytingartillögu við frumvarpið.

Auk þess er í nefndarálitinu önnur breytingartillaga sem hljóðar svo:

„Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Í stað tilvísunar „2. mgr. 7. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 3. mgr. 7. gr.“

Þetta er einungis tæknileg breyting vegna breytingar á röðuninni.

Nefndinni barst jafnframt sameiginleg umsögn frá Viðskiptaráði og sjö fyrirtækjum sem nýta heimild til að semja ársreikninga á ensku. Þau lögðu til að ekki væri ástæða til að skikka fyrirtækin til þess að leggja fram þýðingu, sem sagt ársreikning á íslensku, samhliða enskri útgáfu. Þessir ágætu umsagnaraðilar færa þau rök fyrir máli sínu að þetta sé íþyngjandi fyrir fyrirtækin, geti kostað umtalsverða fjármuni og finnst ástæða til að horfa til þess að enska sé almennt alþjóðlegt viðskiptamál. Nefndin fellst ekki á þau rök og telur ekki tilefni til að breyta frumvarpinu í þá veru sem þeir leggja til í umsögn sinni. Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt nánast óbreytt með þeirri breytingu sem ég fór yfir hér áðan á röðuninni, að í 2. mgr. 2. gr. segi „íslensku og ensku“ en ekki „ensku og íslensku“.

Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt mér Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy, Ólafur Þór Gunnarsson, Brynjar Níelsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Egilsdóttir.

Frumvarp þetta lætur ekki mikið yfir sér og er í grunninn ekki mjög flókið. Því er fyrst og fremst falið að árétta ákveðið verklag. Ég vil engu að síður leggja áherslu á að ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja að eiga þennan möguleika á sama tíma og við með þessu áréttum mikilvægi þess að íslenskur almenningur geti ávallt nálgast ársreikninga íslenskra fyrirtækja á móðurmálinu. Við teljum það einfaldlega hljóta að vera hagsmuni þeirra fyrirtækja sem eru undir og ekki síst samfélagsins alls að allir geti haft aðgang að slíkum upplýsingum og lesið þær á móðurmáli sínu.



[14:27]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir framsögu hennar í málinu. Eins og fram kom í máli hennar skrifa ég undir nefndarálitið. Mig langar að eiga örstutt samtal við þingmanninn um þá þætti sem komu fram í umsögninni með mörgu aðilanum, þ.e. hinum stóru fyrirtækjum á Íslandi auk Viðskiptaráðs, þar sem þeir fara yfir það að kannski sé óþarflega íþyngjandi að vera með íslensku í ársreikningum á Íslandi fyrir þau fyrirtæki og það dygði að vera með útdrátt.

Ég er þar að ég held að jafnmikilvægt sé fyrir íslensk fyrirtæki að geta kallað til íslenska stjórnarmenn eða stjórnarmenn sem hafa alist upp í því umhverfi sem fyrirtækin starfa í í einhverjum tilfellum, eins og það að geta kallað til ytri augu, af því að ég held að hvort tveggja sé mikilvægt. Þess vegna vil ég ræða við þingmanninn hvort hún sé sammála mér í því sjónarmiði samhliða því sem hún nefndi með íslenskan almenning sem fær væntanlega á einhverjum tímapunkti tækifæri til að eignast hlut í þessum fyrirtækjum eða hefur áhuga á að fylgjast með starfsemi þeirra, að hann geti á öruggan hátt á því máli sem hann skilur kynnt sér starfsemi fyrirtækjanna.



[14:29]
Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég get verið fyllilega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að fyrst og fremst þeir aðilar sem sitja í stjórnum fyrirtækja þurfi að hafa ársreikning á máli sem þeir hafa góða þekkingu á. Í flestum tilfellum er það íslenska enda verður enn þá meginreglan sú, hér eftir sem hingað til, að ársreikningar íslenskra fyrirtækja séu lagðir fram á íslensku. Ég geri ekki ráð fyrir því að einhver umtalsverð breyting verði á því.

Eins og ég nefndi í máli mínu áðan er hér um ákveðna undanþágu að ræða þegar mikilsverðir hagsmunir eru undir sem kunna að vera hjá íslenskum fyrirtækjum sem keppa mjög oft á alþjóðlegum markaði. Þá væri þessi heimild til staðar. Og þrátt fyrir að þessir ágætu umsagnaraðilar hafi í umsögn sinni reynt að færa rök fyrir því að ekki væri ástæða til að leggja um leið fram íslenska þýðingu ársreikningnum, var nefndin ekki sammála því. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann nefnir mikilvægi þessa því að það er auðvitað mikilvægt að við gætum íslenskrar tungu.

Það er mikilvægt að starfsmenn fyrirtækja hafi gott aðgengi að ársreikningum fyrirtækja sinna og geti kynnt sér þá. Fyrirtækin færðu rök fyrir því að það gæti verið mjög dýrt að þýða ársreikninga yfir á íslensku. Ég skil sjálf ekki alveg þá gagnrýni. Ársreikningar eru, eins og við vitum flest sem flettum þeim stundum, nokkuð staðlaðir í framsetningu og uppsetningu. Það er erfitt að ímynda sér að kostnaður við að þýða ársreikninga sé umtalsverður. Ef fyrirtæki starfa á annað borð á alþjóðlegum markaði myndi ég halda að það væri ekki stór hluti af kostnaði þeirra.



[14:31]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mig langar í seinna andsvari að ræða það sem var dálítið rætt í tengslum við þessar umsagnir sem þingmaðurinn var að nefna rétt í þessu. Það er mikilvægi þess að á heimamarkaði fyrirtækis, eins og hér á Íslandi, skapist traust almennings á viðkomandi fyrirtæki. Ég tel að íslensk fyrirtæki séu að þessu leyti ekkert öðruvísi en fyrirtæki í öðrum löndum heimsins. Njóti þau ekki stuðnings og trausts þaðan sem þau koma eru þau alla vega ekki eins líkleg til að geta haslað sér völl einhvers staðar annars staðar.

Þess vegna er þetta traust almennings á fyrirtækjunum mikilvægt og allar forsendur til að geta kynnt sér fyrirtækin verða að vera til staðar fyrir almenning. Alveg sama hvað okkur finnst um enskukunnáttu Íslendinga þá er mér til efs að íslenskukunnátta almennings í einhverju viðskiptalegu umhverfi sé þess eðlis að menn geti tekið upp blað og áttað sig á út á hvað einhver viðskiptamál ganga, hafi þeir ekki fengið til þess einhverja sérstaka menntun. Svo er það kannski allt annað mál hvort við ættum kannski að snúa okkur að því að efla menntun Íslendinga í alþjóðlegum viðskiptum. Persónulega finnst mér það kannski ekki vera brýnasta verkefnið hér heldur fyrst og fremst að reyna að tryggja að Íslendingar skilji það mál sem er talað í landinu og geti notað það tungumál til að kynna sér það sem er að gerast í landinu.



[14:33]
Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hygg að hv. þingmaður hafi mismælt sig og ætlað að tala um enskukunnáttu Íslendinga þegar kemur að því að lesa ársreikninga. Ég tel að hann hafi rétt fyrir sér í því að oft og tíðum kann tungumálið að vera þannig að það er ekki fyrir hvern sem er að lesa það þótt viðkomandi kunni að vera ágætlega að sér á enskri tungu. Þá kemur að hinu að það er líka þannig að stór hluti almennings áttar sig ekki á ársreikningum jafnvel þótt þeir séu á íslensku, og þá komum við inn á á fjármálalæsi og mikilvægi þess að efla það.

Ég ætla að taka heils hugar undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að fyrirtæki séu trúverðug og hafi traust og trú íslensku þjóðarinnar og mikilvægi þess að við eflum hlutabréfamarkaðinn okkar og Íslendingar sjái tækifæri í því að fjárfesta í fyrirtækjum. Ég held að eitt leiði af öðru. Þar af leiðandi ítrekum við það í umsögn okkar og ræddum töluvert í nefndinni um mikilvægi trúverðugleikans í íslensku viðskiptalífi og að einn þáttur í því sé að almenningur geti nálgast ársreikninga fyrirtækja á íslenskri tungu.

Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að svo verði áfram. Þetta frumvarp er eingöngu að tryggja þann möguleika, sem var reyndar áður fyrir breytinguna árið 2016, að fyrirtæki geti líka lagt fram frumrit ársreikninga á ensku. Það sem láðist að gera í breytingunum 2016 var að heimila ensku framlagninguna. Fyrirtækin vísa í það að áður hafi þau getað lagt fram ársreikninga bara á ensku. Það sem við erum að tryggja núna er möguleikinn til að leggja fram ársreikning á ensku og um leið að tryggja að alltaf liggi fyrir eintak á íslensku í íslensku ársreikningaskránni.



[14:36]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarinnar fyrir ágæta yfirferð yfir nefndarálitið og breytingartillöguna. Ég er samt ekki alveg sannfærður um að nefndin hafi endilega komist að bestu mögulegu niðurstöðu í málinu og leyfi mér að tiltaka nokkur atriði úr umsögn hópsins sem sendi inn í umsögn sameiginlega, sem eru nokkur af helstu og stærstu fyrirtækjum landsins og Kauphöllin og Viðskiptaráð.

Í fyrsta lagi þetta með að það efli trúverðugleika að ársreikningar séu samhliða á íslensku. Ég átta mig ekki alveg á því. Í umsögninni kemur fram að í löndum eins og Noregi, Danmörku og Hollandi séu ekki gerðar kröfur um að ársreikningar séu birtir á móðurmáli, heldur sé hægt að birta þá á erlendu tungumáli, a.m.k. á ensku. Maður hlýtur þá að spyrja sig hvort viðskiptalíf í þeim þremur löndum sé ekki trúverðugt. Ég sé ég ekki alveg þetta samhengi og langar aðeins að heyra um það.

Síðan er það spurningin um eftirspurnina eftir ársreikningum á íslensku hjá fyrirtækjum af þessu tagi. Það kemur skýrt fram í umsögninni sem ég vitna til að eftirspurnin er engin. Þá getur maður spurt: Hvaða trúverðugleika er verið að uppfylla ef enginn óskar eftir reikningnum á íslensku? (Forseti hringir.)

Rétt að geta þess að ársreikningar eru ekki bara nokkrar tölur á blaði. (Forseti hringir.) Síðasti ársreikningur Marel er t.d. upp á 65 síður, mikið talnaefni og mikill texti. (Forseti hringir.) Eins og réttilega er á bent á er villuhætta og (Forseti hringir.) ef villur koma í ljós gildir (Forseti hringir.) enski textinn. Ég skil þetta því ekki alveg með trúverðugleikann.



[14:38]
Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að ég hef mikla trú á því, og ég held við flest sem undir þetta nefndarálit skrifum, að hluti af því að byggja upp trúverðugleika sé einmitt gegnsæi. Gegnsæið varðar mikilvægi þess að hér séu lagðir fram ársreikningar og að hægt sé að nálgast þá. En það hefur lítið upp á sig ef erfitt er fyrir viðkomandi aðila að kynna sér innihald ársreikningsins. Þar af leiðandi leggjum við áherslu á mikilvægi þess að hann leggi þá líka fram á íslensku.

Hv. þingmaður vísar í umsögn aðila sem tala um ákveðinn kostnað sem því fylgir og færir rök fyrir því að ársreikningar kunni oft að vera flóknir. Eins og hv. þingmaður nefndi kunna þeir að vera upp á nokkra tugi blaðsíðna með fjölda skýringa. Það er alveg rétt og ég ætla ekkert að efast um að einhver kostnaður kunni að vera fólginn í því að þýða ársreikning, eins og t.d. hjá fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi, en mesti kostnaðurinn ætti að vera fólginn í fyrsta skiptinu sem það er gert. Eftir það eiga takmarkaðar breytingar sér stað, þó að þær séu vissulega einhverjar. Ef einhver fyrirtæki hefðu burði til þess að þýða ársreikning yfir á íslensku myndi ég halda að að það væru stór og öflug fyrirtæki eins og hv. þingmaður nefndi áðan, Marel.

En ég held að það sé líka mikilvægt að huga að því að það frumvarp sem við fjöllum um tryggir þann möguleika að hægt sé að hafa frumrit ársreikninga á ensku. Því að eins og lögin eru í dag er það ekki alveg ljóst. Með því frumvarpi sem hér er lagt fram tryggjum við þann möguleika og auðveldum þar af leiðandi þessum fyrirtækjum samkeppnishæfni þeirra með því að hafa frumrit ársreikningsins á ensku. Ég ítreka að íslenskt eintak skal jafnframt berast ársreikningaskrá.



[14:41]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég er ekki endilega viss um að kostnaðurinn sé út af fyrir sig kjarninn í málflutningi mínum. Ég efast ekki um að vel stæð fyrirtæki sjá ekki endilega eftir þessum peningum í þetta. En við erum líka með smærri fyrirtæki sem hið sama gildir um. Eins og bent er á í umsögninni gerir margt smátt eitt stórt og ýmsir hafa það á orði að frekar eigi að reyna að draga úr skriffinnsku og kröfum til reksturs til að bæta samkeppnishæfnina. Þetta er eitt af þessum mörgu atriðum sem þarna koma til skoðunar.

Ég efast ekki um að það sé rétt sem segir í umsögninni frá þessum aðilum að eftirspurn eftir textanum á íslensku er engin. Þá er spurningin: Af hverju á að skylda fólk til að fullnægja eftirspurn sem engin er? Það er kjarninn í því sem ég er að segja, að mér sýnist að þetta mál sé ekki þarft, þ.e. þessi partur af því. Hitt er auðvitað nauðsynlegt og gott að það sé alveg skýrt að menn geti haft sína reikninga á ensku máli.



[14:42]
Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fram kom í máli gestanna sem rituðu þessa umsögn að þeir teldu ekki eftirspurn eftir ársreikningum á íslensku í ljósi þess að á ákveðnum tíma hefðu þessi fyrirtæki getað skilað inn ársreikningum eingöngu á ensku fyrir breytinguna sem gerð var í júní 2016. Þá hefði enginn óskað sérstaklega eftir ársreikningum á íslensku.

Ég kann svo sem ekki að skýra það frekar en vil bara leggja áherslu á að hér er um að ræða breytingu frá því sem er í dag þar sem þessi fyrirtæki geta ekki ekki skilað ársreikningi og haft frumrit hans á ensku. Þau verða að hafa það á íslensku samkvæmt túlkun ársreikningaskrár og við erum að opna á þann möguleika. Umsagnaraðilar segja: Við ættum að ganga enn lengra og ekki gera kröfu um íslenskt eintak til ársreikningaskrár.

Þetta var töluvert rætt í nefndinni. Eins og fram kom áðan vorum við velflest í nefndinni sammála um mikilvægi þess að ársreikningi skyldi skilað inn í ársreikningaskrá á íslensku. Ég verð að segja það hreint út að ég held meira að segja það sé ekki meiri hluti hér á þinginu fyrir breytingu eins og fram kemur í frumvarpinu ef ekki er gerð krafa um íslenskt eintak til ársreikningaskrár.

Hv. þingmaður sagði áðan að hann teldi þetta ekki bestu mögulegu niðurstöðuna, en ég held einmitt að þetta sé besta mögulega niðurstaðan vegna þess þetta tryggir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem eru í þeirri sérstöku aðstöðu að þurfa að hafa frumrit ársreikninga sinna á ensku. En eins og ég segi ítrekum við jafnframt mikilvægi íslenska eintaksins.



[14:44]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er svo sem búið að nefna að upp kom umræða í nefndinni í kjölfar umsagnar Viðskiptaráðs og nokkurra fyrirtækja sem skila ársskýrslum sínum á ensku og íslensku í dag, um hvort ekki væri eðlilegt að fella brott kröfu um að íslensk þýðing fylgdi.

Ég er á því nefndaráliti án nokkurs fyrirvara vegna þess að ég held að niðurstaða nefndarinnar sé í grundvallaratriðum rétt. En mér finnst engu að síður ástæða til þess að bera þetta upp vegna þess að það er alveg til í dæminu að hægt hefði verið að komast að réttari niðurstöðu. Það eru nokkrir hlutir sem togast á. Þarna er annars vegar um að ræða hugmyndir um að verja íslenskuna og tryggja sess hennar. Það eru hugmyndir um hvort fólk sem vill kynna sér ársskýrslur kunni ensku að nægjanlegu marki til að geta skilið þær. Og hins vegar eru spurningar um þann kostnað sem fellur til.

En ég verð að segja að ég hef afskaplega takmarkaða samúð með kostnaðarsjónarmiðinu. Þetta er, eins og fram kom í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, takmarkaður kostnaður fyrir fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem um ræðir og fæst fyrst og fremst með skapalónum sem verða til á fyrsta ári, sem þýðir vissulega að fyrsta árið verður dýrara. En þegar við erum komin í þessa stærðargráðu er það kannski ekki höfuðatriðið.

Á móti held ég að þetta sé ekki endilega rétti staðurinn til þess að verja íslenskt mál. Það er nefnilega þannig að aldrei hafa fleiri talað íslensku en í dag. Aldrei hafa fleiri verið að læra íslensku en í dag. Það hafa aldrei verið til jafnmargar tæknilausnir til að styðja við íslensku sem tungumál. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétti staðurinn til að vera að verja tungumálið okkar.

Hvað varðar fólk sem ætlar að kynna sér þessar ársskýrslur grunar mig að allir þeir sem hafa fjármálalæsi til að komast í gegnum þykkar ársskýrslur af einhverjum skilningi hafi jafnframt töluverðan skilning á ensku máli, enda væru þeir varla í alþjóðlegum viðskiptum í nútímanum án þess.

Þarna þykir mér vera ákveðið jafnvægi milli sjónarmiða.

En þá kemur það sem mér finnst vera mikilvægasti punkturinn sem skekkir dæmið svolítið mikið. Það er ekki beint kostnaður fyrirtækja heldur flækja. Við höfum séð bara núna á síðustu dögum hversu alvarlegt það er að íslenskt hagkerfi er fábreytt með takmarkaða stærð og takmarkaðan fjölbreytileika. Það eru ótal dæmi um það.

Ég hef talað við fólk hjá erlendum fyrirtækjum sem gæti hugsað sér að flytja starfsstöð til Íslands, að vera með starfsemi hér, og um leið að auka flóruna okkar, gera hagkerfi okkar burðugra og þolnara gagnvart höggum. Það eru ótal dæmi um þetta. Það er mikill áhugi á Íslandi af ýmsum ástæðum. Stundum er það vegna náttúruauðlinda. Stundum er það vegna tengsla okkar og staðsetningar við bæði Evrópu og Norður-Ameríku. Það eru alls konar ástæður fyrir því. En þegar fyrirtæki kynna sér möguleikana á því að starfa hérna mætir þeim gríðarleg flækja. Og flækjan skilar sér í miklum kostnaði. Ég hef gagnrýnt þann kostnað áður. Það eru ótal gjöld sem eru íþyngjandi. Það eru ótal aðrir hjallar sem þarf að komast yfir; lögfræðilega álagið við að koma af stað rekstri, hvað þá að hafa rekstur í góðum farvegi, er töluvert. Ég vil meina, án þess í rauninni hafa farið í neinar ítarlegar rannsóknir á þessu, að hann sé töluvert meiri en í sambærilegum löndum, eða öllu heldur löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Þá er spurningin hvort við getum ekki notað tækifærið sem gefst til að losa um þetta flækjustig. Kannski er það að hætta að gera kröfu um íslenska þýðingu á ársreikningum ekki endilega risastórt stökk í þá átt. En það er engu að síður eitt af þeim skrefum sem við gætum tekið sem önnur lönd hafa tekið, eins og Holland, eins og Danmörk, eins og fjöldi Evrópulanda hefur tekið, hreinlega til að gera það meira aðlaðandi að stækka hagkerfið okkar.

Það þykir mér alla vega vera nægilega stór spurning og nægilega mikilvæg spurning. Þó svo að við förum kannski ekki út í það í þessu tiltekna frumvarpi ættum við að fara í það sem allra fyrst að greina hverjir hjallarnir eru fyrir fyrirtæki, bæði innlend og erlend, sem vilja hefja rekstur hér, sem vilja fara út í það að stækka hagkerfi okkar og gera góða hluti hér. Það ættum við að gera með það fyrir augum að fjarlægja eins mikið af flækjunni, sem er óþörf, og hægt er. Ég legg til að spurningin um þýðingar á ársreikningum verði einn af þeim þáttum þó að svo að það sé líklega lítilvægur þáttur í stóra samhenginu.

Varðandi tillögu að lausn þá er tilfellið að meiri hluti allra ársreikninga er byggður á frekar stöðluðum formum. Það er náttúrlega mismunandi milli fyrirtækja en það vill þannig til að bókhald var þróað fyrir mjög löngu síðan, fleiri hundruðum ef ekki þúsundum ára, og hefur í sjálfu sér lítið breyst. Að setja tölur ársreikninga fram með skýrum hætti er nokkuð sem við getum alveg tæknivætt. Við getum alveg skilgreint tiltekna reiti í tilteknu vélamáli sem tölvur skilja og haft síðan staðlaðar þýðingar á því hvað ákveðin orð þýða. Það er nokkuð sem við gerum mjög reglulega í tölvum alls staðar í heiminum í dag. Það er ástæðan fyrir því að hægt er að taka símann sinn og vera með hann á ensku eina stundina og á íslensku hálfri sekúndu síðar. Það er hreinlega hægt að stilla það.

Ef við getum notað sömu nálgun til að uppræta þetta flækjustig gagnvart ársreikningum með sjálfvirkum hætti er eiginlega aðalflækjan sem eftir situr fólgin í neðanmálsgreinum og skýringum sem fylgja stundum. Þær eru, að ég held, nægilega flóknar hvort eð er og mættu örugglega vera á ensku þar sem fólk sem ekki hefur fjármálalæsi til að átta sig á þeim á íslensku mun heldur ekki vera í vandræðum annars staðar [svo].

Það er ýmislegt jákvætt í farvatninu gagnvart fyrirtækjum á Íslandi. Þetta er auðvitað minni háttar atriði gagnvart þeim flestum. Samúð mín með þessum litla kostnaði er ekki mikil en ég hef töluverða samúð með fyrirtækjum sem þurfa að ganga í gegnum það flækjustig sem er til staðar í íslensku hagkerfi. Það er vandamál sem við þurfum að laga og ég legg til að við lögum það sem allra fyrst.



[14:53]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, enda kannski ekki um neitt risamál að ræða. Það er gott við þetta frumvarp að það er þó verið að reyna að skerpa á túlkun þannig að það verði skýrara hvenær fyrirtækin megi færa ársreikning á ensku og hvenær ekki. Það virðist hins vegar eins og við séum enn að eltast við of mikla þrengingu sem gerð var með lagabreytingu 2016.

Í grunninn sé ég ekki hvaða vandamál er hér á ferð. Við erum með þó nokkur alþjóðleg fyrirtæki sem starfa hér. Við ættum að vilja gera umhverfi þeirra sem hagkvæmast, að starfrækja alþjóðlega starfsemi hér á landi og við hljótum að geta treyst fyrirtækjunum til þess að meta á hvaða tungumáli þau reka meginstarfsemi sína og þá hvort þau geri ársreikninga sína á ensku eða íslensku. Þetta virtist vera vandkvæðalítið eða laust áður en þessar heimildir voru þrengdar með lögum 2016. Fyrirtækin gerðu þá eingöngu upp á ensku og skiluðu eingöngu ársreikningi á ensku og virtist ekki mikið yfir því kvartað. Ég sé því ekki sérstaka þörf á því að gera fyrirtækjum þá kvöð að færi þau ársreikninga á ensku skuli þau jafnframt þýða þá yfir á íslensku.

Ég sé ekki að línan um vörn okkar ástkæra tungumáls sé dreginn akkúrat þarna, við það á hvaða tungumáli ársreikningum sé skilað inn til ársreikningaskrár. Við hljótum fyrst og fremst að miða að því að starfsumhverfi alþjóðafyrirtækja hér á landi sé ekki flækt að óþörfu.