Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Prentað upp.

Þingskjal 355  —  139. mál.
Undirskriftir.

2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum (texti ársreiknings).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörpu Theodórsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni barst umsögn um málið frá Íslenskri málnefnd auk sameiginlegrar umsagnar frá CCP, Eyri Invest, Icelandair Group, Marel, Meniga, Nasdaq á Íslandi, Össuri og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað gera félögum sem skila ber ársreikningum heimilt að semja ársreikning á ensku ef mikilsverðir hagsmunir eru undir því komnir. Sé heimildinni beitt skal ársreikningur jafnframt þýddur á íslensku og skal hann sendur ársreikningaskrá á íslensku og ensku.
    Sjónir nefndarinnar hafa m.a. beinst að því hvað átt sé við með mikilsverðum hagsmunum sem samkvæmt frumvarpinu eru forsenda þess að félag megi nýta heimildina til að semja frumrit ársreiknings á ensku. Í greinargerð frumvarpsins eru tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar ágætlega skýrð og m.a. fjallað um ábendingar þess efnis að ákvæði 7. gr. gildandi laga sé íþyngjandi fyrir félög sem hafa erlenda stjórnarmenn. Nefndin bendir á mikilvægi þess að stjórnarmönnum fyrirtækja gefist kostur á að taka afstöðu til frumrits ársreiknings. Jafnframt telur nefndin mikilvægt fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja að þeim séu ekki reistar skorður við því að hafa erlenda aðila í stjórnum sínum. Telur nefndin því að túlka beri ákvæðið þannig að félag með erlenda stjórnarmenn uppfylli skilyrðið um mikilsverða hagsmuni og sé heimilt að semja ársreikning á ensku.
    Rétt er að árétta að frumvarpinu er ekki ætlað að hrófla við þeirri meginreglu að ársreikningar skulu skrifaðir á íslensku. Heimild til annars er undanþáguheimild og þegar henni er beitt skal eftir sem áður senda ársreikningaskrá íslenskt eintak ársreiknings samhliða frumeintaki á ensku. Ávallt verður því íslenskt eintak ársreiknings vistað hjá ársreikningaskrá. Í umsögn um frumvarpið lagði Íslensk málnefnd til orðalagsbreytingu á 2. gr. frumvarpsins til að árétta sess íslenskunnar á undan ensku. Tekur nefndin undir tillöguna og setur fram breytingartillögu í þá veru.
    Í sameiginlegri umsögn Viðskiptaráðs og sjö fyrirtækja er lagt til að fyrirtækjum sem nýti heimildina til að semja ársreikning á ensku verði ekki gert að skila íslenskri þýðingu samhliða, heldur verði nægjanlegt að gera grein fyrir ársreikningi á íslensku á aðal- eða hluthafafundi, eða skila útdrætti af ársreikningi á íslensku. Nefndin telur ekki tilefni til að breyta frumvarpinu í þá veru sem lagt er til í umsögninni og bendir á mikilvægi þess að almenningur skilji texta ársreikninga fyrirtækja, ekki síst fyrirtækjanna sjálfra vegna. Auk þess telur nefndin brýna þörf á að standa vörð um íslensku og að breytingin sem lögð er til væri ekki í þeim anda.
    Auk framanritaðs leggur nefndin til lagfæringu á 2. mgr. 9. gr. laganna vegna þeirra breytinga sem verða á 7. gr.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
              Í stað tilvísunarinnar „2. mgr. 7. gr.“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: 3. mgr. 7. gr.
     2.      Í stað orðanna „ensku og íslensku“ í 2. gr. komi: íslensku og ensku.

Alþingi, 2. nóvember 2018.

Óli Björn Kárason,
form.
Bryndís Haraldsdóttir, frsm. Brynjar Níelsson.
Oddný G. Harðardóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Smári McCarthy. Þórunn Egilsdóttir.