149. löggjafarþing — 36. fundur.
kynjavakt Alþingis, fyrri umræða.
þáltill. KÓP o.fl., 48. mál. — Þskj. 48.

[12:01]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að fá að mæla fyrir þessu máli á ný. Það er lagt hér fram í þriðja sinn. Á ekki lengri starfsaldri undirritaðs þingmanns hefur tillagan þó verið lögð fram þrisvar sinnum.

Virðulegur forseti. Kynjavakt Alþingis, hvað er nú það? Þrátt fyrir að þetta hafi verið lagt svona oft fram hygg ég að fyrir sumum hljómi þetta í það minnsta framandi, að fólk átti sig ekki alveg á því hvað þetta er. Ég ætla að útskýra örlítið forsöguna, leyfa mér að fara dálítið inn í málið, sem ég geri yfirleitt ekki, að lesa upp þegar ég mæli fyrir málum, en vegna þess að þetta er nýtt hugtak og okkur framandi ætla ég að leyfa mér að gera það.

Mig langar fyrst að fara örlítið í forsöguna. Þetta mál er afurð alþjóðastarfs Alþingis, þess að senda alþingismenn á fundi og ráðstefnur úti í hinum stóra heimi til að ræða við annað fólk og kynnast því sem verið er að gera þar. Þannig er mál með vexti að í fyrra fór undirritaður á fund hjá kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna. Meðal þess sem ég kynntist þar var akkúrat þetta tæki til að mæla raunverulegt jafnrétti kynjanna. Eins og við vitum öll eða eigum í það minnsta að vita er hægt að setja alls kyns reglur um kvóta og fjölda og telja hausa en þær segja ekki endilega allt um raunverulega jafnréttið, þ.e. aðkomu beggja kynja að raunverulegri ákvarðanatöku og þeim aðstæðum eða stöðum þar sem raunverulegar ákvarðanir eru teknar.

Þess vegna vann ég þetta frumvarp og það er flutt hér núna af mér og öðrum í þingflokki Vinstri grænna utan þeirra sem verma ráðherrastóla. Tillagan gengur út á að Alþingi álykti að fela forseta að koma á fót kynjavakt Alþingis sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt og skoði næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU. Þar eru þeir vísar sem ég vísaði til áðan, þetta mælitæki.

Til að tryggja fjölbreytt sjónarmið komi þátttakendur í kynjavakt Alþingis úr ólíkum áttum. Að vinnunni komi bæði fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu, karlar og konur. Fulltrúi skrifstofu Alþingis sitji í hópnum, sem og fulltrúi starfsmanna Alþingis. Haft verði samráð við jafnréttisnefnd skrifstofu Alþingis.

Kynjavaktin skili forseta Alþingis skýrslu fyrir 1. apríl ár hvert og forseti leggi skýrsluna fyrir Alþingi. Fyrstu skýrslunni verði skilað fyrir 1. desember 2019. Sérstaklega verði könnuð vinnustaðamenning Alþingis með tilliti til samskipta kynjanna.

Virðulegur forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um þetta mælitæki, þessa vísa. Eftirfarandi upptalning sem kemur hér er akkúrat lýsing á þeim og kemur úr þessum kynnæmu vísum Alþjóðaþingmannasambandsins.

Á meðal þeirra upplýsinga sem teknar verði saman og stuðst við verði listi yfir konur og karla sem sæti eiga á Alþingi, nú og á síðustu átta árum; listi yfir konur og karla í áhrifastöðum innan Alþingis, nú og á síðustu átta árum; listi yfir þingmenn í öllum nefndum Alþingis eftir kyni, þar með talið í áhrifastöðum, svo sem þingflokksformenn og varaformenn þingflokka, nú og á síðustu átta árum; listi yfir starfsfólk Alþingis eftir kyni, þar með talið í áhrifastöðum, á sama tímabili; þingsköp og starfs- og siðareglur Alþingis; öll lög sem tengjast kynjajafnrétti sem samþykkt hafa verið á Alþingi á síðustu átta árum; allar þær áætlanir sem í gildi eru um kynjajafnrétti; listi yfir konur og karla í áhrifastöðum í stjórnmálaflokkum; allar stefnur og áætlanir ríkisstjórnar, stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna er lúta að kynjajafnrétti; hver sú stefna Alþingis sem hefur áhrif á kynjajafnrétti, t.d. siðareglur, stefna gegn mismunun, samskiptastefna, og þær aðgerðaáætlanir sem í gildi eru; hvaðeina er lýtur að þátttöku Alþingis í starfi Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti, t.d. skýrslur Alþingis til nefndar um afnám misréttis gegn konum og allar umræður á Alþingi um þær skýrslur, þátttöku Alþingis í störfum umræddrar nefndar og á árlegum fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem og allar skýrslur sem Ísland hefur gefið Sameinuðu þjóðunum síðustu fimm ár og snerta stöðu kynjanna.

Þetta er nokkuð ítarlegur listi yfir það sem skoða skuli. Þó þarf hann ekki endilega að vera tæmandi ef í vinnunni kemur í ljós að skoða þurfi fleiri upplýsingar og taka þær saman. Í grunninn lýtur þetta að því að taka stöðuna, hver hún sé raunverulega, skoða þróun síðustu ára og ekki síst fara yfir allar þær samþykktir, stefnur og ályktanir sem við höfum þó gert í þessum málum og vega og meta hvernig hefur gengið að framfylgja þeim.

Í greinargerðinni er svo farið aðeins yfir stöðuna á milli kynjanna eftir þjóðþingum heims. Ég ætla ekki að lesa nákvæmlega það allt en ætla þó að leyfa mér að benda á það, virðulegur forseti, að fjölmörg þjóðþing hafa tekið upp akkúrat svona kynjavakt sem fylgist með jafnrétti kynjanna. Í Finnlandi er sérstök nefnd að störfum á vegum þingsins í þessum málum. Þó að ég hafi stundum orðið var við það, bæði í umræðum í þingsal og á göngum hússins, að sumum finnist þetta framandi, eins og ég hef komið inn á, er þetta alls ekki eitthvað glænýtt, kokkað upp í því höfði sem fast er á þeim búk sem hér stendur, heldur tæki sem er víða í notkun og þykir hafa gefið góða raun.

Alþingi hefur á undanförnum árum samþykkt ýmsar stefnur og aðgerðaáætlanir í jafnréttismálum. Nokkuð hefur þó skort á eftirfylgni. Nefna má að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum rann út vorið 2015, en ný var ekki samþykkt fyrr en í september 2016. Þá hefur ekki verið gerð heildstæð aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi síðan 2011.

Ýmislegt er væntanlegt til bóta í þessum málum, en þetta sýnir kannski að við höfum ekki alltaf litið þannig á að þegar ein áætlun rennur út verði önnur strax að taka við heldur hefur oft orðið hlé.

Kynjavaktinni er ætlað að meta stöðuna í þessum efnum og fylgja eftir þegar með þarf, svo og að greina aðstöðu kynjanna til að hafa áhrif og gera úttekt á þeim reglum og lögum sem í gildi eru varðandi jafnrétti kynjanna, því sem heitir, með leyfi forseta, á engilsaxnesku „gender sensitivity“. Nauðsynlegt er að Alþingi fylgist betur með þróun þessa málaflokks en nú er. Alþingi sendi t.d. árið 2017 fulltrúa á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í fyrsta sinn frá hruni. Þá kom í ljós að þegar að kreppti töldu þau sem hér um véla að þar mætti skera niður. Þar kom glögglega fram hve mikilvægt vægi kynjajafnréttis er á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Ísland stendur sig að mörgu leyti vel á þessum vettvangi og er á ákveðinn hátt til fyrirmyndar, ásamt því að styðja baráttu þeirra kvenna sem eiga í vök að verjast vegna fátæktar, stríðsátaka, karlrembu og ýmislegs fleira. Ísland hefur því að nokkru tvíþætt hlutverk, að vera til fyrirmyndar og sækja um leið fram, ásamt því að koma öðrum til varnar og aðstoðar.

Virðulegi forseti. Þetta lýtur ekki aðeins að okkur sem í þessum sal stöndum, þjóðkjörnum fulltrúum, heldur einnig að Alþingi sem heild, þar með talinni skrifstofunni, starfsfólkinu. Hvað skrifstofuna varðar er nefnilega mikilvægt að fylgjast með framgangi í starfi og kynjaskiptingu í ólíkum störfum á vettvangi þingsins. Í þeim efnum er mikilvægt að byggja á því starfi sem unnið er innan jafnréttisnefndar skrifstofu Alþingis. Staða starfsfólks er nokkuð önnur en staða þingmanna og um það gilda önnur lög og reglur sem geta t.d. haft bein áhrif á skyldur skrifstofunnar til að gæta jafnræðis kynja í ráðningum o.fl. Kynnæmir vísar Alþjóðaþingmannasambandsins taka þó til þingsins alls, bæði til Alþingis sem lýðræðisvettvangs og löggjafarsamkundu sem og til skrifstofu Alþingis sem vinnustaðar opinberra starfsmanna.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að upplýsa um þá skoðun mína að þessi nálgun þykir mér sérstaklega heillandi, að við lítum á Alþingi sem heild meira en við gerum, þó að við gerum það að einhverju leyti í dag, þannig að við séum öll sem undir þessu þaki störfum og þeim fjölmörgu þökum sem eru víða í kring, enn þá í það minnsta, þar til ný bygging rís, sem ein heild, hvort sem við erum þjóðkjörnir fulltrúar eða höfum einfaldlega ráðið okkur til starfa.

Kynjavakt Alþingis væri framsækið tæki í baráttunni fyrir fullu jafnrétti kynjanna innan Alþingis. Með hugtakinu „kynnæmir vísar“, virðulegur forseti, sem ég hef komið nokkuð inn á er átt við vísa sem greina fólk eftir kyni, aldri og félags- og efnahagslegum bakgrunni. Fyrir mjög áhugasama þingmenn er vefslóð inn á síðu IPU, Alþjóðaþingmannasambandsins, þar sem þessir kynnæmu vísar eru útskýrðir betur. Þeir eru hannaðir til að sýna breytingar á áhrifum kvenna og karla í tilteknu samfélagi og yfir tímabil. Þess vegna er í þessari tillögu horft átta ár aftur í tímann. Þar gæti verið önnur tala, fjögur ár, sextán, tíu, en hér er lögð til átta af því að það á að greina breytingarnar yfir tímabil. Vísarnir eru verkfæri til að meta áhrif íhlutunar í þágu kynjajafnréttis. Kyngreindar upplýsingar sýna hvort bæði konur og karlar eiga aðild að verkefnum sem þátttakendur og sem haghafar á öllum stigum. Nálgunin gerir ráð fyrir markvissri vöktun og árlegu mati í formi skýrslu til Alþingis.

Virðulegur forseti. Verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt er hér verið að koma á, eins og ég hef vonandi komið nokkuð vel inn á, nýju tæki til vöktunar á raunverulegri stöðu kynjanna og hvort munur sé þar á á hinu háa Alþingi og kannski ekki síst að vakta og meta árangur og eftirfylgni þeirra ályktana sem við höfum samþykkt sjálf og eins þeirra sem hafa verið samþykktar í ráðuneytum, inni í stjórnkerfinu, og í þeim skýrslum sem við höfum gefið erlendum samtökum sem við erum aðilar að og stofnunum þar sem við gumum oft af því hver staðan er.

Fyrsta kastið, virðulegur forseti, geri ég ráð fyrir að það gæti tekið örlítinn tíma að koma þessu á koppinn. Þess vegna gefum við ríflegan tíma til að skila fyrstu skýrslu og miðum við haustið 2019. En þegar eitt ár er liðið og það er búið að gera þetta einu sinni, ég tala nú ekki um tvisvar, verður þetta vonandi tiltölulega sjálfvirk vinna þar sem einfaldlega er vegið og metið hvað hafi gerst á þessu eina ári og hver þróunin sé.

Við sem tölum fyrir kynjajafnrétti, og það held ég að allir hv. þingmenn hafi gert, eigum að taka fagnandi öllum nýjum leiðum til að tryggja að það verði sem mest.

Þar sem þetta mál, virðulegur forseti, lýtur ekki bara að þingmönnum heldur jafnvel yfirstjórn og skrifstofu Alþingis legg ég að lokum til að því verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.



[12:15]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta með kynlegri málum sem hafa komið inn í þingið upp á síðkastið. Það er ekki vegna þess að ég geri lítið úr markmiði tillöguflytjanda um að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna en ég verð að játa að mér finnst nálgunin í málinu frekar óljós og ekki mjög markviss. Athugasemdir mínar lúta fyrst og fremst að því.

Í þessu andsvari vildi ég samt fyrst og fremst beina þeirri spurningu til hv. 1. flutningsmanns málsins hvort hann telji — ég er bara að reyna að átta mig á og bið hv. þingmann að hjálpa mér að átta mig á því hvernig hann sjái þetta formað. Það er ekki sett fram í tillögunni sjálfri með mjög skýrum hætti. Forseti á að setja á fót jafnréttisvakt. Er þetta nefnd á vegum þingsins? Er þetta nefnd á vegum forseta þingsins? Hvernig sér hann þetta fyrir sér?

Ég les það út úr þessu að þarna eigi að vera fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu og síðan starfsmanna og ég velti fyrir mér stöðu þeirra í hinu stjórnskipulega samhengi þingsins eins og hv. flutningsmaður hefur hugsað það.

Þetta segi ég vegna þess, sem ég kannski kem inn á síðar, að ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé rétt að skoða málefni þingsins með þeim hætti sem hér er gert. Ég held að það verði að gera mjög skýran greinarmun á stöðu annars vegar þingmanna og þeim hlutverkum sem þeir gegna í þinginu og hins vegar stöðu starfsmanna þingsins sem auðvitað, (Forseti hringir.) eins og reyndar kemur fram í málinu sjálfu, búa við allt annað lagalegt umhverfi.



[12:17]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það kemur í ljós sem mig hefur löngum grunað, að hann er meiri formalisti en ég. Það er gott því að það þarf að vera ákveðinn formalismi á hinu háa Alþingi.

Fyrst aðeins um að nálgunin sé óljós og ekki mjög markviss. Þar er þá við mig að sakast sem höfund að tillögunni og greinargerðinni, en einmitt í því skyni er vísað sérstaklega til þess hvernig farið er með þessi mál í öðrum löndum og hvernig Alþjóðaþingmannasambandið leggur til að það sé gert. Þar vona ég að verði leiðarvísir fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að móta þetta enn frekar. Eins og ég nefndi áðan er þetta ekki eitthvað sem er kokkað hér upp. Það er komin reynsla á þetta víða annars staðar og ég legg til að horft verði til þess sem þar hefur verið gert.

Þá kemur að hinni athugasemd hv. þingmanns, um hvernig nákvæmlega þetta verði formað stjórnskipulega. Aftur þar eftirlæt ég hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að koma því fyrir. Ég hygg að hér séum við í raun og veru að fara nýja leið er lýtur að stjórnskipulegu skipulagi Alþingis sem er akkúrat sú leið sem hv. þingmaður upplýsti hér að honum hugnaðist ekki. Ég virði það bara við hv. þingmann. Við erum ósammála um að líta á Alþingi í þessu tilviki sem eina heild þar sem bæði verði horft til þjóðkjörinna fulltrúa og starfsmanna.

Leiðin nákvæmlega, hvort þetta verður einhvers konar starfshópur, skipaður bæði kjörnum fulltrúum og starfsfólki, eða ekki, er bitamunur en ekki fjár fyrir mér. Aðferðafræðin kemur ekki frá mér heldur Alþjóðaþingmannasambandinu og þar er akkúrat horft á (Forseti hringir.) þjóðþingin sem eina heild, bæði starfsfólk og kjörna fulltrúa, því að þrátt fyrir ólíkar forsendur fyrir veru okkar hér erum við öll hér á einum og sama vinnustaðnum.



[12:20]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég játa að ég hef ekki kynnt mér þau gögn sem vísað er til í greinargerð með tillögunni en auðvitað er óþægilegra fyrir okkur sem erum að reyna að taka afstöðu til málsins að ekki sé farið út í það með hvaða hætti önnur þjóðþing hafa nálgast þetta fyrst vísað er til þess að reynsla sé fyrir hendi annars staðar og að hún sé góð.

Hitt sem ég vildi árétta er að þingmenn sem eru hér sem þjóðkjörnir fulltrúar eru með engum hætti starfsmenn í hefðbundnum skilningi þess orðs, njóta hvorki réttinda né bera skyldur á þeim forsendum, heldur hafa sérstakar skyldur við kjósendur sína sem velja þá til starfa á lýðræðislegum forsendum.

Ég lýsi í raun og veru aftur miklum efasemdum með þá nálgun að horfa á þetta, eins og mér finnst vera hægt að lesa út úr tillögunni, þannig að með einhverjum hætti sé hægt að bera saman eða leggja að jöfnu stöðu þingmanna og starfsmanna þingsins að öðru leyti. Lagaumhverfið er einfaldlega gerólíkt og þegar menn velta fyrir sér stöðu manna innan þingsins í mismunandi hlutverkum verður auðvitað að hafa þennan grundvallarmun í huga.

Síðan vildi ég bara varpa því til hv. 1. flutningsmanns hvort mörg af þeim verkefnum sem hér eru greind og lúta fyrst og fremst að almennri stefnumörkun á sviði jafnréttismála, því að ég skil a.m.k. síðari hluta (Forseti hringir.) upptalningarinnar hér sem svo að verið sé að biðja um mat á áhrifum tillögugerðar á sviði jafnréttismála, hvort það sé ekki verkefni sem á frekar heima undir Jafnréttisstofu, Jafnréttisráði og öðrum slíkum aðilum innan stjórnkerfisins sem þegar hafa hlutverk á þessu sviði.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna þingmenn á að halda ræðutíma.)



[12:22]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er leitt að hv. þingmaður hafi ekki gefið sér tíma til að skoða gögnin á bak við þessa tillögu þó að hann hafi haft dálítið rúman tíma til þess frá því að málið kom fyrst fram. Hann getur vonandi gefið sér tíma til þess á næstunni.

Já, það er grundvallarmunur á afstöðu minni og hv. þingmanns þegar kemur að Alþingi sem heild hvað þetta varðar. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að staða þjóðkjörinna þingmanna er allt önnur en fólks sem ræður sig í vinnu. Ég hélt að ég hefði komið inn á það í ræðu minni áðan. Það breytir hins vegar ekki raunveruleikanum á hverjum degi sem er sá að við erum öll hér og eigum í samskiptum. Nú þegar við hv. þingmaður höfum lokið umræðum á eftir getur vel verið að við röltum fram saman og fáum okkur að borða. Þar eigum við í samskiptum við starfsfólk. Það er Alþingi í heild sem vinnustaður. Og þó að við virðulegur þingmaður séum ekki hér sem ráðnir starfsmenn er þetta engu að síður vinnustaður, þetta er vinnustaðurinn okkar.

Þess vegna er þetta tilraun til að líta á Alþingi einmitt ekki eftir hátimbruðum hugmyndum um helgi þingmanna, helgi Alþingis, heldur sem vinnustað þar sem við öll, einstaklingarnir við, erum saman í daglegum samskiptum.

Ég veit að hv. þingmaður er mikill einstaklingshyggjumaður þannig að hann hlýtur að styðja mig í þessari nálgun minni. Hvað varðar grundvallarmuninn virði ég hann bara. Ég er löngu kominn yfir það, virðulegur forseti, að halda að ég hafi rétt fyrir mér í öllu. En þetta er mín skoðun.

Hvað varðar þá aðila sem eiga að vakta stöðuna? (Forseti hringir.) Mér finnst eðlilegt að akkúrat sá hópur sem muni koma að þessari vinnu leiti eftir upplýsingum hjá þeim aðilum sem hv. þingmaður taldi upp áðan.



[12:25]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka 1. flm. þessarar tillögu, hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, fyrir ágæta yfirferð á málinu. Einnig verð ég að segja að ég hef haft nokkuð gaman af því að hlusta á orðaskipti félaga minna. Þeir eru hreint ekki sammála en verð að segja að ég skil báða að nokkru leyti. (Gripið fram í.) Þess vegna erum við kannski í samvinnu, enda er gott að fá Framsóknarmenn inn í málin og ræða þau frá báðum hliðum.

Þetta er nokkuð ítarleg upptalning á verkefnum sem tína þarf til þegar við komum að þessu. Ályktunin felst í því að fela forseta að koma á fót kynjavakt Alþingis sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlun ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt og skoða næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna samkvæmt kynnæmum vísum Alþjóðaþingmannasambandsins.

Kynnæmir vísar. Ég verð að viðurkenna að þetta er mér nokkuð nýtt hugtak og ég er að reyna að tileinka mér það. Nú er ég nokkuð næm á mörgum sviðum og allt í góðu með það. En þá langar mig, fólki til upplýsingar, að grípa niður í greinargerðinni þar sem er skýring á hugtakinu, með leyfi forseta:

„Með hugtakinu „kynnæmir vísar“ er í tillögunni átt við vísa sem greina fólk eftir kyni, aldri og félags- og efnahagslegum bakgrunni. Þeir eru hannaðir til að sýna breytingar á áhrifum kvenna og karla í tilteknu samfélagi og yfir tímabil. Vísarnir eru verkfæri til að meta áhrif íhlutunar í þágu kynjajafnréttis. Kyngreindar upplýsingar sýna hvort bæði konur og karlar eiga aðild að verkefnum sem þátttakendur og sem haghafar á öllum stigum. Nálgunin gerir ráð fyrir markvissri vöktun og árlegu mati í formi skýrslu til Alþingis.“

Margt af þessu liggur fyrir og víðast hvar liggur það fyrir. Við þekkjum nokkuð, hæstv. forseti, hvað eru margar konur og hversu margir karlar. Fyrir nokkrum árum var mjög bjart yfir okkur að því að hlutur kvenna hafði vænkast mjög á Alþingi. Svo hefur heldur dregið úr því. Við þurfum einhvern veginn að átta okkur á því hvað veldur, hvað gerist. Hvernig stendur á því að það eru fleiri karlar í oddvitasveitum, t.d. hjá flokkunum? Eru það einhver náttúruvísindi? Það eru það ekki. Ég kem úr miklum jafnréttisflokki sem hefur lagt áherslu á jafnréttismálin og tekið stór og góð skref í þeim. Það voru settar reglur varðandi framboðslista, ákveðnar hlutfallareglur. Það voru ekki allir á eitt sáttir um að það væri rétta leiðin en ég held að núna þegar reglurnar hafa verið í gildi nokkur ár og menn hafa unnið eftir þeim sé það orðið okkur eðlilegt. Það er aldrei neinn vafi á því að hlutur kynjanna t.d. á listum, þarf að vera jafn. Þetta kemur með þjálfuninni og kemur með æfingunni hjá okkur, af því að við höfum virkilega þurft að æfa okkur í því og taka okkur á í þeim málum.

Þetta er misjafnt eftir flokkum. Hérna eru taldir upp nokkrir punktar, listi frá flokkunum, þannig að þetta ætti allt að vera auðvelt. Ég held í rauninni að við höfum þetta allt fyrir, við erum búin að gera margar jafnréttisáætlanir, bæði hvað varðar búsetu, kyn, aldur o.s.frv. Það vantar ekki, en það sem okkur vantar er kannski yfirsýnin og samfellan í því, hvernig það virkar. Þess vegna get ég tekið undir með hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé um að okkur vanti það. Við þurfum að vita hvað virkar og megum svo alveg greina hvað brást, hvað gekk ekki eftir og af hverju það gerðist.

Það eru örugglega margir þættir sem koma þar inn í. Það er ekki til eitt beint svar við því. Það að mörg önnur þing hafa komið upp kynjavakt er jákvætt og gott. Við hljótum alltaf að geta lært af öðrum þjóðþingum og fólki í öðrum löndum, hvernig það hefur þetta. Vissulega er horft til okkar varðandi jafnréttismálin. Fulltrúar okkar eru kallaðir víða til til að ræða jafnréttismál, af því við erum talin standa þar framarlega.

En því er ekki lokið, þetta er stanslaus vinna. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um að þetta sé eitthvað sem við viljum hafa. Ástandið í dag er ekki það sem ég vil að börnin mín alist upp við, hvorki sonur né dætur. Við þurfum að ná lengra. Þetta er þverpólitískt mál og þetta er mál okkar allra sem við eigum alltaf að hafa uppi og alltaf að ræða.

Ég get þó tekið undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að þetta sé svolítið kynlegt mál, komi spánskt fyrir sjónir að vissu leyti. Draumastaðan er náttúrlega sú að við þurfum ekki að vera með eftirlit eða nefndir til að vera að skoða það sem er að gerast. Þetta á að vera okkur eðlislægt, en raunin er önnur.

Þá er það spurning hvernig við formum þetta, hvernig við ætlum að fylgja því eftir. Hv. flutningsmaður er mikill hugsuður og fer oft víða í hugmyndum sínum og það er gott. Þá er hægt að opna hlutina upp á gátt og svo kemur náungi eins og hv. þm. Birgir Ármannsson og neglir það niður. Ég skal síðan fara með hv. þingmönnum hérna fram og við formum þetta saman og finnum millileiðina. Við finnum samvinnuleiðina og við finnum réttu leiðina. Ég er mikið meira en til í það.

Varðandi þá hugmynd að þetta sé einn vinnustaður þá komum við hér inn á mismunandi forsendum. Þingmenn koma inn á öðrum forsendum en þeir sem eru ráðnir hingað. En ég get alveg tekið undir að við erum öll undir sama þaki. Sú sem hér stendur er verkefnisstjóri í Olweusar-áætlun gegn einelti. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá tækifæri til þess að fara með þær áætlanir fyrst manna inn á fullorðinsvinnustaði og gera tilraunir með þær. Þá kristallaðist í huga mínum hvað vinnustaðamenning getur verið misjöfn og er misjöfn, bæði eftir því hvert hlutfall kynja er á vinnustöðunum og öðru. Það er ýmislegt sem er bara tíðkað og liðið. Svo kemur nýr starfsmaður inn á vinnustaðinn og hann fellur ósjálfrátt inn í eitthvert munstur. Það er engin sérstök hugsun á bak við það, það ætlar sér enginn að gera eitthvað slæmt eða koma illa fram.

Við þurfum alltaf að skoða hvernig menningin er, hvað við leyfum og hvað ekki. Ég get alveg fullyrt að við þingmenn værum ekkert mikið að bauka hér hefðum við ekki allt þetta mikla og góða starfsfólk með okkur húsinu. Við erum svo heppin að hafa allt þetta góða starfsfólk sem vinnur með okkur. Öll þurfum við, held ég, sem manneskjur að athuga hvað við erum að senda frá okkur, hvernig við virkum hér inni, hvað við ætlum að leggja til málanna á þessum vinnustað varðandi andrúmsloft og annað slíkt. Það er spurning sem við stöndum alltaf frammi fyrir hvert og eitt, hvaða skilning við leggjum í það að vera almennileg manneskja.

Þetta snýr kannski ekki beint að kynjaréttlæti — en þó.

Málið er um margt mjög athyglisvert, að koma með þetta fram. Mín skoðun er sú að málið sé alveg þess virði að við skoðum það. Við þurfum alltaf að fara yfir þau mál. Það er aftur á móti önnur spurning í hvaða farveg við setjum það. Eigum við að setja enn eina nefndina um eftirlit og eftirfylgni með atriði sem okkur finnast sjálfsagt og á að vera okkur eðlilegt? Kannski þurfum við það, kannski erum við ekki komin lengra. Ég ætla alls ekkert að útiloka það. Það kemur mér ekki til hugar, svo einfalt er nú ekki lífið.

Ég er mjög spennt að fylgjast með framgangi málsins. Í ljósi þess að við byggjum þennan vinnustað upp á samtali og samvinnu hyggst ég bjóða félögum mínum hér fram í matsal að ræða málin og kannski kippum við með okkur einhverjum af starfsmönnum þingsins.

Takk fyrir að leggja þetta fram og vekja athygli á þessu mikilvæga máli.



[12:35]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög góða ræðu. Hann fangaði margt betur sem ég vildi sagt hafa en sagði ekki sjálfur. Ég þakka sérstaklega jákvæðar undirtektir og viðhorf til þess sem er, eins og ég kom inn á í ræðu minni, nýtt fyrir okkur þó að það þekkist úti í heimi.

Eins og hv. þingmaður kom inn á þurfum við alltaf að vera á vaktinni. Það er ýmislegt sem ég hef þurft að læra, ekki vitað að væri til víða úti í heimi sem tæki, tól, reglur og viðhorf þegar kemur að því að bæta hag sem flestra og auka jafnrétti kynjanna.

Það er alltaf gott að læra og horfa til þess sem gengur vel annars staðar og vera akkúrat óhræddur við að prófa: Virkar þetta hér eða virkar það ekki? Og svo: Er þetta nákvæmlega leiðin eða eigum við eitthvað að hliðra henni til eins og hv. þingmaður kom vel inn á?

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs, virðulegur forseti, vegna þess að hv. þingmaður spurði: Eigum við að koma á fót enn einni nefndinni? Án þess að hv. þingmaður gæfi nokkuð út um það hvort það væri rétt eða rangt vildi ég ítreka að hér er ekki verið að leggja til mikla nefnd sem hafi einhvers konar skipunarvald eða sé með mikla byggingu yfir sér. Eins og hv. þingmaður lýsti svo vel er einfaldlega verið að taka saman allar upplýsingar, að einhver aðili sé ábyrgur fyrir því, um stöðuna eins og hér er farið ítarlega yfir. Síðan verði þetta bara árleg skýrsla, nánast eins og ársskýrsla. Það er engin sérstök nefnd eða yfirbygging þótt vissulega þurfi að vera eitthvert batterí sem ber ábyrgðina á því.



[12:37]
Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég held að um margt séum við bara sammála. Það sem ég velti fyrir mér varðandi umfangið á þessu er að við erum með skráningu á öllu. Það er hnippt í okkur ef hlutfall kynja er ekki rétt í nefndum, það kemur utan frá og við eigum líka að hafa aðhaldið þaðan.

Við setjum okkur reglur, við settum t.d. siðareglur. Ég er ekki alveg viss um að við höfum farið rétt að því og raunar held ég að við höfum ekki gert það rétt. Við settumst aldrei beint niður til að koma okkur saman um ákveðnar siðareglur sem hópur. Ef ég sest niður og tek þátt í því sem einstaklingur að setja einhverjar reglur og ramma um vinnustaðinn minn ber ég meiri ábyrgð á eftirfylgninni. Tilfinning mín er sú. Það á ekki við um eitthvað sem ég tek utan frá, þegar manni eru réttar reglur sem maður á að gjöra svo vel og fara eftir.

Jafnréttismálin og kynjamálin hafa verið að síast inn. Sem betur fer erum við komin langt frá því hvernig hér var einu sinni þegar fyrstu konurnar voru að berjast fyrir réttindum sínum, fyrstu einstaklingarnir. En það verður alltaf bakslag, þetta er stanslaus vinna, þetta er nokkuð sem við þurfum alltaf að halda á lofti. En ef hér á að vera einhver hópur sem er í sérstöku eftirliti, ég skildi það á tímabili að það ætti að vera þannig, gæti maður hugsað: Úbbúbúbb, þarna er eftirlitsmaðurinn, nú þarf ég að passa mig.

Þetta á ekki að vera þannig. En kannski þarf það í einhvern tíma. Við þurfum að setja rammana. Ég tek alveg undir það að við eigum að horfa til annarra landa, annarra þjóða, við eigum að vera óhrædd við að læra og við eigum að taka til okkar þekkingu og nýta okkur hana þar sem við getum. Þar er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni.



[12:39]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru eiginlega meðsvör frekar en andsvör hjá okkur hv. þingmanni en ég kaus samt að koma aftur upp til að útskýra enn betur hugsunina á bak við þetta meðan ég hefði færi á því að eiga beinan orðastað við hv. þingmann áður en við færum öll þrjú saman fram í matsal eins og búið er að boða.

Ég átti erindi á skrifstofu Samtakanna '78 um daginn og þar var mér m.a. sýnd yfirlitsmynd, kort sem samtökin búa til á hverju einasta ári, plakat sem raðar löndum upp eftir því hvaða réttindi hinsegin fólk af öllum toga hefur í viðkomandi landi. Þar er Ísland enn þá númer fimm, sex eða sjö, hægt var að sjá England o.s.frv. Þetta er enginn sérstakur hópur eða nefnd sem situr yfir og hvað þá að hún hafi eitthvert boðvald yfir einum eða neinum heldur einfaldlega taka samtökin, og þá systursamtök þeirra um allan heim, saman lista yfir stöðuna.

Á bak við þær upplýsingar eru upplýsingar af svipuðum toga og hér eru taldar upp. Hver er raunverulega staðan? Hver er stefnumótunin? Hver er staðan í lögum og lagasetningu? Hvernig hefur stefnumótun verið framfylgt? Plús það sem hér er svo nefnt, sem við sjáum öll hér inni, að það tekur ekki langan tíma að útbúa lista yfir konur og karla sem sæti eiga á Alþingi. Hann er á alþingisvefnum.

Þess vegna er ekki hér sú hugsun að það þurfi að fara í einhverja umfangsmikla rannsóknarvinnu heldur verði þetta einfaldlega árlegt stöðutékk. Hver er staðan núna frá því í fyrra? Hvað hefur gerst?



[12:41]
Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eða meðsvarið eða hvernig sem á það er litið. Ég held jafnvel að við séum að mjatlast töluvert áfram með þessu samtali hérna. En það er alveg rétt að það er mjög auðvelt að tína út úr listum Alþingis, nefndaskipaninni og öðru slíku. Hér er talað um að það eigi að gera lista yfir allar þær áætlanir sem eru í gildi um kynjajafnrétti, sem ég held að sé bara mjög gott, hvar þær eru staddar, hvenær þeim hafi verið komið á fót, hver eftirfylgnin hafi verið og hvort einhver samfella sé í þessum málum hjá okkur. Þetta er nokkuð sem ég get hæglega tekið undir að væri gott að gera.

Listi yfir konur og karla í áhrifastöðum í stjórnmálaflokkum? Það er einfalt, það er gott, en ég lít líka á það sem hvers stjórnmálaafls að vinna í sínum málum og leggja fram sína stefnu, setja sitt mark á vinnulagið. Samt er ekkert að því að hafa yfirlit yfir það.

Svo er einn punktur um allar stefnur og áætlanir ríkisstjórnar, stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna er lúta að kynjajafnrétti. Þetta fellur allt að einu, þetta eru allt þessar áætlanir sem við tökum. Ég held að í grunninn séum við öll sammála í þessum málum. Ég þori nánast alveg að fullyrða það. Öll viljum við það besta fyrir afkomendur okkar, fyrir börnin okkar og barnabörnin. Við viljum að þau búi við jafnrétti og búi í samfélagi þar sem stúlkur og drengir eiga jöfn tækifæri. Það eru engin geimvísindi að sjá það út af því að öll viljum við vera almennilegar manneskjur og bæta samfélagið okkar.

Einn punkturinn enn sem ætti að skoða er: hver sú stefna Alþingis sem hefur áhrif á kynjajafnrétti (t.d. siðareglur, stefna gegn mismunun, samskiptastefna) og þær aðgerðaáætlanir sem í gildi eru.

Þá komum við bara aftur að því að við þurfum að hafa yfirsýn yfir þetta, sjá samfelluna og vita hvert við stefnum.



[12:43]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, öll viljum við stuðla að jafnrétti. En við eigum ekki heldur að gefa sjálfum okkur afslátt af skýrri framsetningu og rökhugsun þótt við séum með góðan málstað. Það sem fer í taugarnar á mér í þessu máli er að hér er verið að grauta saman ansi mörgum mismunandi þáttum.

Ég nefndi í andsvörum áðan að mér fyndist að það þyrfti að gera skýran greinarmun annars vegar á stöðu kjörinna þingmanna, kjörinna stjórnmálamanna sem hér hafa réttindi og skyldur á þeim forsendum, í umboði kjósenda sinna, og svo hins vegar þeirra starfsmanna sem lúta þeim lögum og reglum sem gilda um stöðu opinberra starfsmanna. Ef það á að nálgast mál af þessu tagi þarf að hugsa þetta út frá því.

Það þarf líka að velta því fyrir sér hvert eigi að vera hlutverk Alþingis í þessu efni og hvert hlutverk annarra stjórnvalda. Nú höfum við ráðherra sem hefur stjórnskipulegar skyldur hvað varðar jafnréttismál og eftirfylgni áætlana á sviði jafnréttismála. Það er að jafnaði ekki hlutverk forseta Alþingis að hafa eftirlit með því hvernig gengur að hrinda í framkvæmd ályktunum um þetta málefnasvið frekar en önnur. Þar að auki höfum við sérstök stjórnvöld, Jafnréttisstofu, kærunefnd jafnréttismála og fleiri aðila, sem hafa einmitt það hlutverk að hafa almennt eftirlit með stöðu mála af þessu tagi. Þegar við nálgumst þetta mál þá þurfum við líka að hugsa: Hvað erum við að horfa á í þessu sambandi sem snýr að Alþingi sem slíku, sem stofnun eða sem vinnustað, ef við viljum orða það svo, og hvað snýr að aðilum annars staðar í þjóðfélaginu?

Þá hlýtur, og hv. fyrsti flutningsmaður leiðréttir mig ef ég er að misskilja, að koma til skoðunar, sérstaklega þegar við horfum á síðari hluta þeirrar upptalningar sem hér er að finna í tillögutextanum, hvort við séum að horfa á þessi atriði, þetta mat á stefnum og áætlunum og lagasetningu og öðru sem snýr að jafnréttismálum, inn á við eða út frá Alþingi sem vinnustað eða stofnun eða hvort við séum að hugsa um samfélagið í heild. Þegar við segjum að það sé hlutverk jafnréttisvaktarinnar að skoða hverja þá stefnu Alþingis sem hefur áhrif á kynjajafnrétti, er það bara kynjajafnrétti innan þingsins eða kynjajafnrétti í samfélaginu? Aðgerðaáætlanir — eru það aðgerðaáætlanir sem varða bara þingið eða þjóðfélagið í heild? Þetta á enn þá frekar við þegar kemur að síðasta liðnum þar sem vísað er til skýrslugerðar Alþingis og þátttöku í umfjöllun á alþjóðavettvangi og allar skýrslur sem Ísland hefur gefið Sameinuðu þjóðunum og snerta stöðu kynjanna.

Það sem ég er að hugsa er að til þess að ná þeim göfugu markmiðum sem tillöguflytjendur án efa stefna að, þarf kannski að móta þetta, skýra og skerpa þannig að viðfangsefnið sé með einhverjum hætti áþreifanlegt og viðráðanlegt. Ég sakna þess svolítið að ekki sé í tillögunni greint frá því hvernig þjóðþing annars staðar nálgast þetta viðfangsefni og hvernig þau forma það. Annars er hætta á því, svo ég tali frá innstu hjartans rótum, að málið fari einhvern veginn bara út og suður af því að það er verið að reyna að ná yfir svo margt með ómarkvissum hætti. Gagnrýni mín á málið lýtur m.a. að því.

Ef ég á að bregðast við þessu myndi ég segja að áður en farið er lengra með þetta mál, hvort sem það er gert á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða annars staðar, þyrfti að hugsa það dálítið skipulega hvert viðfangsefnið eigi að vera. Á það bara að snúa þinginu? Þarna er vísað til stjórnmálaflokka almennt. Á þingið að hafa eftirlit með starfsemi stjórnmálaflokka? Reyna að greina hvort það eru karlar eða konur í áhrifastöðum í stjórnmálaflokkunum? Það hlýtur að lúta að einhverju sem er utan þingsins, ef hægt er að lesa þetta í einhverju samhengi. Er það það sem við viljum? Erum við að hugsa um að þessi vakt eigi að hafa eftirlit með því að aðgerðaáætlun sem þingið samþykki sé hrint í framkvæmd? Er það hlutverk einhverrar vaktar á vegum forseta þingsins? Það eru svona spurningar sem við þurfum að reyna að átta okkur á áður en við förum lengra með þetta.

Síðan getum við sagt að sjálfsagt sé og eðlilegt og þarft að haldin sé tölfræði, og þess vegna birt með sama hætti og ég hygg að hafi nú verið gert á á heimasíðu þingsins, yfir hlutfall kynja og annað þess háttar, þ.e. hversu margar konur sitja á þingi, hversu margar konur eru í nefndum og annað þess háttar. Það þarf kannski ekki annað en ábendingu til þeirra sem halda utan um vefsíðu þingsins til að hægt sé að koma þeirri tölfræði á framfæri. En það getur hins vegar verið meira mat og krefst einhvers mats þegar farið er að reyna að greina hverjir eru í áhrifastöðum og hverjir ekki. Ef það á að meta hver formleg aðkoma er að áhrifastöðum og hver raunveruleg áhrif eru erum við farin að tala um einhverja félagsfræðilega rannsókn sem ég er ekki viss um að sé á verksviði forseta Alþingis.

Ég myndi nú segja að ég leggst gegn því að þetta mál verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Ég leggst ekki gegn því að það gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fái þá umfjöllun sem það þarf. En mér finnst hins vegar nauðsynlegt að hér við fyrri umr. komi fram þessi sjónarmið þannig að í framhaldi málsins geti menn áttað sig á því — eða reynt alla vega að ná einhverri samstöðu um það — hvaða vinnu þarf raunverulega að vinna til þess að þetta verði að einhverju gagni en ekki bara enn ein ályktunin um góð markmið.



[12:51]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góðar og gagnlegar ábendingar sem ég hygg að muni nýtast hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vel í sínum störfum. Það örlar þó á því innra með mér að mér finnist eins og hv. þingmaður nái samt ekki sambandi við hugsunina í þessari tillögu. Kannski er hún of nýstárleg fyrir hv. þingmann.

Mér finnst eins og hann sé að gera kröfu um að annaðhvort séum við að horfa út á við eða inn á við þegar beinlínis segir í upphafi þingsályktunartillögunnar hver tilgangur hennar er, að horfa bæði út á við og inn á við, með leyfi forseta:

„… að koma á fót kynjavakt“ — ekki jafnréttisvakt — „Alþingis sem geri úttekt á því hvort og hvernig kyn hefur áhrif á aðkomu að ákvarðanatöku innan Alþingis, hvernig ályktunum Alþingis og aðgerðaáætlunum ríkisstjórna í jafnréttismálum hefur verið framfylgt“ — út á við — „og skoði næmi Alþingis fyrir ólíkri stöðu kynjanna ...“ — eigum við að segja að það sé út á við og inn á við?

Þetta er nýleg aðferðafræði. Hún er þróuð á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins. Það eru ágætisábendingar hjá þingmanni að fara þurfi betur í það í vinnu nefndarinnar hvernig því hefur nákvæmlega verið komið fyrir í öðrum þjóðþingum. Það er kannski ekki nóg að hafa hlekk í þessari greinargerð á þessa vísa Alþjóðaþingmannasambandsins. Ég tek það til mín og læri af því þannig að það er komið gott fóður í vinnu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Aðeins hvað varðar þetta sem hv. þingmanni varð tíðrætt um, að hafa eftirlit með hinum og þessum stofnunum. Hér er í raun bara verið að tala um að taka saman staðreyndir.



[12:53]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri þá gagnlegt að við myndum aðgreina í þessu máli það sem annars vegar er bara samantekt á tölfræði — sem þarf ekki að setja neina sérstaka vinnu í, heldur væru einföld tilmæli til forseta um að láta upplýsingadeild Alþingis taka saman tölfræðina og birta á vef Alþingis — og hins vegar aðra þætti sem varða mat. Þar stöndum við frammi fyrir flóknara verkefni. Það er mikið álitamál að mínu mati hvort það verkefni eigi heima á forræði forseta þingsins eða annarra aðila. Í stjórnskipun okkar gerum við ráð fyrir að það séu ýmsir aðilar sem hafa almennt það hlutverk að fylgjast með stöðu jafnréttismála og málefna sem varða kynjajafnrétti með ýmsum hætti og alveg ástæðulaust að fela forseta þingsins að hafa eitthvert sérstakt hlutverk í þeim efnum.

Forseti þingsins hlýtur auðvitað að hafa hlutverk sem snýr að starfsemi Alþingis og þar af leiðandi því sem við getum sagt að horfi inn á við. Ef við viljum og teljum ástæðu til að fara út fyrir tölfræði og reyna að greina það með einhverjum hætti innan þingsins hvernig áhrif kynjanna séu, leyfi ég mér að efast um að rétt sé að það sé á vegum forseta þingsins, þó að það geti verið áhugaverð félagsfræðileg stúdía. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því. (Forseti hringir.)

En ég held að skarpari skil og skarpari verkefnalýsing myndi hjálpa málinu.



[12:56]
Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að skarpari skil og skarpari verkefnalýsing myndu hjálpa málinu — þannig endaði hv. þingmaður mál sitt. Ég er sammála honum hvað seinni hlutann varðar, skarpari verkefnalýsing myndi hjálpa málinu. Ég held að ég og hv. þingmaður séum einfaldlega ósammála. Það er ekki þannig að við misskiljum eða neitt slíkt. Við erum einfaldlega ósammála um þá aðferðafræði hvort skil eigi að vera skarpari eða ekki. Ég er kannski að hugsa út fyrir hefðbundinn ramma Alþingis og hvernig það hefur verið hugsað hingað til. Þá er það bara þannig. Þá reynir á þanþolið og hversu opin við erum gagnvart því að gera hlutina á nýjan hátt.

En ég ítreka að þetta er ekki eitthvað sem ég kokkaði upp í sófanum heima hjá mér þegar ég nennti ekki að horfa á sjónvarpið. Þetta er raunverulegt tæki sem er í notkun og ágætisábending hjá hv. þingmanni að gera betri grein fyrir því hvernig það sé. En raunverulega tækið byggir einmitt á að það séu ekki þessi skörpu skil, að allt þetta sé undir. Hv. þingmaður er þá bara ósammála þeirri aðferðafræði og það er heiðarlegur skoðanaágreiningur. En að krefjast skarpari skila gengur í raun gegn hugmyndinni.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um að forseti þingsins gerði þetta og hitt og hvort hann væri rétti aðilinn. Hér er talið upp hverjir eiga að vera; stjórn, stjórnarandstaða, karlar, konur, fulltrúi skrifstofu þingsins, fulltrúi starfsmanna, samráð við jafnréttisnefnd. Það er hugsunin, að reyna að víkka þetta út.

Virðulegur forseti. Ég hefði — afsakið að ég syndga upp á náðina með tímann — getað farið fram á skýrslubeiðni um að taka þetta saman. En (Forseti hringir.) þá hefði ég þurft að gera það á næsta ári og næsta og næsta. Hugsunin er að þetta verði bara skýrsla sem komi sjálfvirkt á hverju einasta ári.



[12:58]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég útiloka ekki að ég og hv. þingmaður séum kannski í grundvallaratriðum ósammála um nálgunina í þessu máli. Ég var að reyna að tala mig í þá átt að við gætum fundið sameiginlegan flöt á því en ég útiloka ekki að við lendum á þeim stað að við séum einfaldlega ósammála um að þetta sé mál sem eigi að fara í yfir höfuð, jafnvel þó að við getum verið sammála um að jafnrétti sé æskilegt og nauðsynlegt markmið fyrir okkur, bæði í störfum okkar innan þingsins og eins gagnvart þeirri lagasetningu og áætlanagerð og öðru sem snýr að samfélaginu í heild.

Ég byggi málflutning minn á mjög skýrum og sterkum fyrirvörum við þá nálgun sem hér er að finna. Ég met það þannig að þeir þættir sem þarna er verið að telja upp, og lúta einfaldlega að því að taka saman tölfræði, séu þess eðlis að ekki þurfi endilega þingsályktunartillögu eða málsmeðferð í þinginu til að koma því áleiðis. Ég held reyndar að sú tölfræði liggi meira og minna öll fyrir og það sé kannski bara spurning um framsetningu á heimasíðu Alþingis hvernig það er gert. Ef ég man rétt var töluverð vinna unnin í því sambandi í tengslum við 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna árið 2015 og væri hægt að viðhalda því, hafi það ekki verið gert. Ég hef ekki skoðað það í einhvern tíma.

En þegar kemur að öðrum þáttum geri ég fyrst og fremst athugasemdir við að það sem við köllum vakt, eða nefnd eða vinnu, á vegum forseta þingsins eigi að hafa þetta almenna eftirlitshlutverk með framfylgd áætlana og stefnumótunar á sviði jafnréttismála í þjóðfélaginu yfir heildina litið. Þá myndi ég segja: Nei, það er eðlilegra að það séu aðrir aðilar innan stjórnkerfisins sem sinna því eftirliti og þeir hafa það lögbundna hlutverk nú þegar.



[13:00]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum að þessari tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis og langar að segja nokkur orð um þetta mál, sér í lagi í kjölfar þeirra orðaskipta sem hér hafa átt sér stað. Ég tel þetta mál mjög mikilvægt og ég tel einmitt mjög mikilvægt að það komi hér fram í formi þingsályktunar að gerður verði listi sem safnar saman á einn stað upplýsingum um stöðu kynjanna á Alþingi. Það er alveg rétt, sem hefur komið fram hér í umræðunni, að auðvitað væri hægt að láta taka þennan lista saman og birta einhvers staðar á netinu. En í mínum huga birtist ákveðið pólitískt leiðarstef í því að þetta sé gert í gegnum ályktun frá Alþingi. Þar með er verið að segja: Við teljum sem þjóðþing mikilvægt að þessu sé haldið saman og að þetta sé birt.

Í mínum huga sprettur jafnréttissamfélag ekki bara einhvern veginn upp úr moldinni heldur þurfum við að vinna að því. Staða Íslands er vissulega góð í alþjóðlegum samanburði. En þess vegna er líka svo mikilvægt að fylgjast með því hvaða breytingar verða og í hvaða átt. Þær geta auðvitað orðið til þess að hér fari konur að ráða öllu. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að fylgjast með. Ég tel þess vegna mikilvægt að þetta komi fram sem stefnumótun frá Alþingi, að vilja gera þetta.

Mér finnst mikilvægt að málið nái einnig til annarra starfsmanna en ekki bara okkar sem erum þjóðkjörin. Þetta er ofboðslega flókinn og margbrotinn staður — ég ætla ekki að segja vinnustaður. Þetta er ofboðslega flókinn og margbrotinn staður þar sem eru líka mjög flókin og margbrotin samskipti milli fólks sem getur hreinlega verið í mjög ólíkri valdastöðu innan hússins. Mér finnst mikilvægt að reyna að ná utan um það líka.

Eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppé, sem er 1. flutningsmaður, hefur þetta verið útfært hjá öðrum. Vísað er í Alþjóðaþingmannasambandið í þeim efnum. Ég held að að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd reynist ekkert mjög flókið að lista það nánar upp í greinargerð, sem hefur verið saknað úr greinargerð með þessu máli, hvernig málum þar er háttað.

Ég tel að ef hinn pólitíski vilji sé yfir höfuð fyrir hendi sé lítið mál að koma þessu á. Það yrði okkur sem samfélagi og okkur sem Alþingi, þessari stofnun, bæði löggjafarþingi og vinnustað, til heilla



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til stjórnsk.- og eftirln.