149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

kynjavakt Alþingis.

48. mál
[12:22]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er leitt að hv. þingmaður hafi ekki gefið sér tíma til að skoða gögnin á bak við þessa tillögu þó að hann hafi haft dálítið rúman tíma til þess frá því að málið kom fyrst fram. Hann getur vonandi gefið sér tíma til þess á næstunni.

Já, það er grundvallarmunur á afstöðu minni og hv. þingmanns þegar kemur að Alþingi sem heild hvað þetta varðar. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að staða þjóðkjörinna þingmanna er allt önnur en fólks sem ræður sig í vinnu. Ég hélt að ég hefði komið inn á það í ræðu minni áðan. Það breytir hins vegar ekki raunveruleikanum á hverjum degi sem er sá að við erum öll hér og eigum í samskiptum. Nú þegar við hv. þingmaður höfum lokið umræðum á eftir getur vel verið að við röltum fram saman og fáum okkur að borða. Þar eigum við í samskiptum við starfsfólk. Það er Alþingi í heild sem vinnustaður. Og þó að við virðulegur þingmaður séum ekki hér sem ráðnir starfsmenn er þetta engu að síður vinnustaður, þetta er vinnustaðurinn okkar.

Þess vegna er þetta tilraun til að líta á Alþingi einmitt ekki eftir hátimbruðum hugmyndum um helgi þingmanna, helgi Alþingis, heldur sem vinnustað þar sem við öll, einstaklingarnir við, erum saman í daglegum samskiptum.

Ég veit að hv. þingmaður er mikill einstaklingshyggjumaður þannig að hann hlýtur að styðja mig í þessari nálgun minni. Hvað varðar grundvallarmuninn virði ég hann bara. Ég er löngu kominn yfir það, virðulegur forseti, að halda að ég hafi rétt fyrir mér í öllu. En þetta er mín skoðun.

Hvað varðar þá aðila sem eiga að vakta stöðuna? (Forseti hringir.) Mér finnst eðlilegt að akkúrat sá hópur sem muni koma að þessari vinnu leiti eftir upplýsingum hjá þeim aðilum sem hv. þingmaður taldi upp áðan.