149. löggjafarþing — 64. fundur.
matvælaverð.

[10:53]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Í gær birtist verðkönnun sem Alþýðusambandið lét vinna um samanburð á verðlagi neysluvara milli Norðurlandanna. Niðurstöðurnar eru sláandi þó að þær komi kannski ekki sérlega á óvart. Niðurstaðan sýndi að 67% verðmunur var á milli matarkörfunnar hér á Íslandi, þar sem hún var hæst, og í Helsinki, þar sem hún var lægst. Í samanburði við það Norðurlandanna sem dýrast var, Noreg, var matarkarfan hér engu að síður 40% hærri. Fyrir áhugasama má nefna að matarkarfan hér á landi var 60% hærri en að meðaltali í þeim þremur ríkjum Norðurlandanna sem eiga aðild að Evrópusambandinu, hvað sem menn vilja svo lesa í það.

Framkvæmdastjóri Bónuss kvartaði strax undan því að allt of mikið væri af landbúnaðarafurðum í þessari körfu og þess vegna væri samanburðurinn ekki sanngjarnt því að eins og allir vissu væru íslenskar landbúnaðarvörur þær dýrustu í heimi. Það kemur reyndar ekki á óvart því að þegar við skoðum samanburð hjá OECD-ríkjunum er enginn landbúnaður verndaður meira en sá íslenski. Því fylgir gríðarlegur kostnaður fyrir íslenskar fjölskyldur. Ætla má að fjögurra manna íslensk fjölskylda borgi að meðaltali um 60.000–70.000 kr. meira á mánuði fyrir matarkörfuna en sambærileg fjölskylda annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna spyr ég: Er hæstv. ráðherra ánægður með þann kostnað sem íslenska landbúnaðarkerfið hefur í för með sér fyrir neytendur? Og af því að ríkisstjórnin virðist vera að leita að einhverju útspili inn í kjaraviðræður spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra dottið í hug að taka upp hátt matvælaverð hér á landi, vegna verndarstefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaði, og breyta því sem innleggi í kjaraviðræður?



[10:56]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, ég heyrði nú megnið af henni og vel það. Þar kom svo sem ekki margt á óvart. Ég ætla ekki að svara sérstaklega fyrir verðkönnun ASÍ. Ég ætla bara að minna á, af því að hv. þingmaður nefnir hátt verð á íslenskum landbúnaðarafurðum, að það er fleira matur en feitt kjöt, eins og stundum er sagt við hátíðleg tækifæri. Íslendingar flytja inn mjög mikið af matvöru og tollmúrar Íslands eru einfaldlega miklu lægri í þeim efnum en nokkurn tímann Evrópusambandsins, bara svo að það sé nefnt, vegna þess að yfir 80% af innfluttum matvælum til Íslands eru án tolla. Þar undir er fullt af þáttum. Ég tel að í því ljósi standi íslenskur landbúnaður vel. Hann framleiðir góða vöru. Það má svo alltaf deila um á hvaða verði menn kaupa nauðsynjavörur.

Það er alveg hárrétt að í þessari könnun eins og hún birtist okkur er matarkarfan í þeim vörum sem þar eru bornar saman töluvert hærri hér. En þá er örugglega fróðlegt að skoða mismuninn og ég vænti þess að íslenskir framleiðendur þeirra matvæla sem í þeirri körfu voru muni leiða fram mismun í kaupgjaldi fólks og fleiri þætti sem spila inn í verðlagningu á vöru á markaði. Það er eðlilegt að það sé gert í þeim samanburði sem verið er að gera á bæði vörum sem við framleiðum sjálf og vörum sem við flytjum inn í landið þegar reynt er að leggja mat á verðmæti framleiðslunnar, að fleiri þættir séu teknir inn en bara beint útsöluverð úr búð.

Bara svo það sé sagt ætla ég ekki að svara fyrir orð framkvæmdastjóra einstakra verslana eða annað. Þeir verða bara að tala fyrir sig sjálfir. (Forseti hringir.) Það kann vel að vera að þetta séu atriði sem komu upp í tengslum við kjaraviðræður stjórnvalda, sem hv. þingmaður nefndi áðan. Ég veit ekki til þess að þessi mál séu enn komin inn á það borð, svo því sé svarað.



[10:58]
Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Þó að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað því beint heyrðist mér hann vera nokkuð ánægður með það verð sem íslenskir neytendur greiða fyrir verndarstefnu stjórnvalda í þeim efnum. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að horfa þarf til þátta eins og kaupgjalds en þar má hafa í huga að Noregur er hálaunaríki eins og Ísland og raunar standa öll Norðurlöndin nokkuð vel í alþjóðlegum samanburði, en samt sjáum við gríðarlegan mun.

Við berum okkur ekki saman við verðlag í Suður-Evrópu eða ríkjum með talsvert lægra kaupgjald. Enn og aftur er hið augljósa, sem kemur ítrekað fram í öllum verðsamanburði, að verðmismunurinn er ekki jafn sláandi þegar horft er á þær vörur sem innfluttar eru hér í frjálsri samkeppni, eins og hæstv. ráðherra benti á, að við erum almennt með lága tolla nema þegar kemur að landbúnaðarvörum, þannig að kostnaður fjölskyldunnar liggur í landbúnaðarvörunum. Kostnaðarauki matarkörfunnar liggur þar. Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld hafi (Forseti hringir.) eitthvað fram að færa í komandi kjaraviðræðum þegar ASÍ dregur fram þá mikilvægu staðreynd.



[11:00]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég var svo sem ekki með neinar ánægjuyfirlýsingar né harmagrát yfir því verði sem íslenskir framleiðendur fá fyrir vöru sína. Ég fagna því bara ef fólk í öllum atvinnurekstri getur haft þokkalega og góða afkomu af því sem það er að sýsla hverju sinni. Ég hlýt hins vegar að nefna við umræðuna að það eru fleiri þættir á því en aðeins þessi eina verðkönnun. Ég hef ekki upplýsingar um enn þá í hvaða magni eða hverrar gerðar þær vörur eru nákvæmlega en þegar við berum saman íslenska framleiðendur á markaði við annað sem þar er get ég ekki annað en vakið athygli á því að það eru lágir tollamúrar á innflutta landbúnaðarframleiðslu. (Gripið fram í.) Það er hluti af því og hlýtur að vera athugunarefni með hvaða hætti sú niðurfelling skilar sér til neytenda.