149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

matvælaverð.

[11:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég var svo sem ekki með neinar ánægjuyfirlýsingar né harmagrát yfir því verði sem íslenskir framleiðendur fá fyrir vöru sína. Ég fagna því bara ef fólk í öllum atvinnurekstri getur haft þokkalega og góða afkomu af því sem það er að sýsla hverju sinni. Ég hlýt hins vegar að nefna við umræðuna að það eru fleiri þættir á því en aðeins þessi eina verðkönnun. Ég hef ekki upplýsingar um enn þá í hvaða magni eða hverrar gerðar þær vörur eru nákvæmlega en þegar við berum saman íslenska framleiðendur á markaði við annað sem þar er get ég ekki annað en vakið athygli á því að það eru lágir tollamúrar á innflutta landbúnaðarframleiðslu. (Gripið fram í.) Það er hluti af því og hlýtur að vera athugunarefni með hvaða hætti sú niðurfelling skilar sér til neytenda.