149. löggjafarþing — 67. fundur.
velferðartækni, fyrri umræða.
þáltill. SilG o.fl., 296. mál. — Þskj. 343.

[19:21]
Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um velferðartækni. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir og með henni á tillögunni eru hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni nýtist í þjónustu við eldra fólk og fólk með fatlanir. Hópurinn leggi áherslu á að skoða hvernig aðferðir, t.d. í fjarþjónustu, geti nýst hér á landi með hliðsjón af reynslu annarra Norðurlanda. Hópurinn skili áliti sem nýtist við gerð heilbrigðisstefnu sem nú er unnin í ráðuneytinu. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í september 2019.“

Þá ætla ég að fylgja þessu eftir með greinargerðinni. Hugtakið velferðartækni er tiltölulega nýtt á Íslandi en það nær yfir fjölmargar tæknitengdar lausnir í þágu notenda sem eru til þess fallnar að viðhalda eða auka færni, samfélagsþátttöku og lífsgæði. Hugtakið er einkum notað á Norðurlöndunum en þau hafa unnið markvisst að því að kanna hvernig nýta megi nútímatækni til að þróa velferðarþjónustu. Velferðartækni er eitt af áherslumálunum í norrænu samstarfi og var nefnt sérstaklega í formennskuáætlun Noregs í Norðurlandaráði fyrir árið 2018. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla lögð á nýsköpun í heilbrigðismálum með því að nýta nýjustu tækni á því sviði og að styrkja þjónustu fyrir aldraða, þ.e. heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

Þá er það stefna stjórnvalda. Í september 2015 skipaði heilbrigðisráðherra verkefnisstjórn til að greina núverandi stöðu heilbrigðishluta þjónustu við aldraða og setja fram tillögur að mótun nýrrar stefnu í þjónustu við aldraða. Verkefnisstjórnin skilaði tillögum til heilbrigðisráðherra í mars 2016 og í september kom út skýrsla starfshópsins sem nefnist Mótun stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára. Tillögur samstarfsnefndar um málefni aldraðra til félags- og húsnæðismálaráðherra (2016). Á bls. 6 segir að rannsóknir sýni að flestir aldraðir vilji búa á eigin heimili eins lengi og mögulegt er. Mikilvægt sé að réttur til sjálfstæðrar búsetu sé virtur, þrátt fyrir þverrandi heilsu einstaklingsins og að sérstök áhersla verði lögð á að aldraðir fái viðeigandi stuðning og einstaklingsmiðaða þjónustu til að geta búið sem lengst á eigin heimili við öryggi.

Í skýrslunni kemur fram að tæknilausnir verði sífellt mikilvægari til að ná fram aukinni hagræðingu í opinberum rekstri. Þá kemur fram að félags- og húsnæðismálaráðherra hafi „markað stefnu í nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu. Nýting ýmiss konar tæknilausna og nýsköpunar við framkvæmd þjónustunnar, meðal annars til að viðhalda og auka færni aldraðra, getur aukið líkur á því að þeir geti búið lengur heima og þurfi síður að dvelja á hjúkrunarheimilum. Áskoranir framtíðarinnar í þjónustu við aldraða munu ekki bara felast í því að bregðast við og veita meiri þjónustu til þess að koma til móts við óskir og væntingar. Áskoranirnar munu felast í því að kveikja hugmyndir sem stuðla að nýsköpun innan þjónustunnar. Þetta kallar á að þjónustan verði einstaklingsbundin og að margra kosta verði völ þannig að hægt verði að laga þjónustuna að þörfum hvers og eins. Snjalllausnir munu bæta nýju lagi af getu inn í þjónustuna sem hjálpar til við að takast á við hinar nýju áskoranir.“

Í skýrslunni frá 2016 er vitnað í aðra skýrslu sem unnin var í ráðuneytinu og gefin út árið 2015 sem ber yfirskriftina Stefna í nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu. Í henni er rík áhersla lögð á nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu. Þar segir m.a. að „horfast þarf í augu við að velferðartækni er ein vænlegasta leiðin til að takast á við þær breytingar sem velferðarkerfið stendur frammi fyrir og því þarf að tryggja að mótuð sé sýn til lengri tíma og fjárframlög tryggð.“

Hér er einnig fjallað um fjarþjónustu og rafræna heimaþjónustu. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands 2017 verða yfir 20% landsmanna eldri en 65 ára árið 2039 og yfir 25% árið 2057. Frá árinu 2047 verða þeir sem eru eldri en 65 ára í fyrsta sinn fjölmennari en þeir sem eru undir tvítugu. Þessi þróun setur ríki og sveitarfélögum þrengri fjárhagslegar skorður við úrlausn verkefna á sviði heilbrigðis- og velferðarmála.

Velferðartækni getur stuðlað að margvíslegum jákvæðum áhrifum, svo sem auknu öryggi, aukinni þátttöku og meira sjálfstæði hjá einstaklingum með skerta hæfni og aðstandendum þeirra. Velferðartækni getur fyrirbyggt eða verið viðbót við þá stuðningsþörf sem veitt er. Einnig getur hún aukið skilvirkni í þjónustunni og auðveldað samskipti milli notenda, aðstandenda og starfsfólks. Síðast en ekki síst getur velferðartækni aukið félagslega virkni fólks og dregið úr einmanaleika þótt hún komi að sjálfsögðu aldrei í staðinn fyrir mannleg samskipti, svona „live“, eins og maður getur sagt, eða augliti til auglitis.

Einmanaleiki er samfélagslegt og einstaklingsbundið vandamál. Það er staðreynd að aldraðir eiga á hættu á að einangrast félagslega, sérstaklega þeir sem glíma við krónískan sjúkdóm eða hafa misst maka. Í doktorsritgerð Braga Skúlasonar Samtal um dauða og sorg: Íslenskir karlar og ekklar frá 2014 kemur fram að vísbendingar séu um að staða karla sem misst hafa maka sé á mörgum sviðum verri en staða kvenna sem misst hafa maka. Félagsleg aðstoð skiptir sköpum fyrir þessa einstaklinga. Samkvæmt könnunum hefur einmanaleiki aukist árlega og er mun meiri í þéttbýli. Nú er talið að um 18% telji sig einmana. Í könnun sem gerð var í lok árs 2016, Greining á högum og líðan aldraðra, og unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara, kom fram að um tveir af hverjum þremur eldri borgurum eru aldrei einmana. Hópurinn sem upplifir einmanaleika hefur þó stækkað frá árinu 2007 þegar fyrsta könnunin var gerð og árið 2012 reyndust 13% eldri borgara stundum eða oft einmana. Þá kom einnig fram að mun fleiri upplifa einmanaleika stundum eða oft í hópi þeirra sem eru ógiftir eða ekkjur/ekklar, búa einir, eru tekjulitlir eða búa við slæma heilsu.

Norðurlöndin og Bretland hafa sett af stað átaksverkefni til að sporna gegn einmanaleika. Fullyrt er að 9 milljónir Breta séu oft eða alltaf einmana og í danskri rannsókn kemur fram að um 24% þeirra sem eru 65 ára og eldri upplifi sig stundum eða oft einmana.

Ef við lítum til Norðurlanda og fleiri nágrannalanda hafa þau þróað ýmis verkefni tengd velferðartækni og við horfum til þeirra í þessari þingsályktunartillögu. Við höfum dæmi frá Álandseyjum um tilraunaverkefni sem var sett þar af stað og því lauk í desember 2015. Landsstjórn Álandseyja setti sér það markmið að 90% af öllum 75 ára einstaklingum gætu búið á eigin heimili árið 2020. Markmiðið var að innleiða fjarþjónustu hjá minnst tíu sveitarfélögum á Álandseyjum og að minnst fimmtíu aldraðir myndu nýta sér fjarþjónustu. Flest sveitarfélög þar hafa þetta markmið í áætlunum sínum á sviði öldrunarþjónustu. Öllum sveitarfélögum Álandseyja var boðin þátttaka í verkefninu. Á árinu 2013 skráðu átta sveitarfélög sig til þátttöku og sex bættust við árið eftir. Þeir sem vildu nýta sér fjarþjónustu fengu leiðbeiningar um hvernig nota mætti tæknina og notandavænum snertiskjá var komið fyrir á heimili notandans. Valin var skjástærð sem hæfði notandanum.

Við getum sagt líka að við horfum til þeirra tæknibreytinga og þróunar sem verða í framtíðinni og þeir sem verða komnir á þennan aldur, ég tala nú ekki um eftir 2040 eða 2050 eru einstaklingar sem þekkja vel og eru fljótir að tileinka sér þessa tækni. Það getur skipt máli.

Þegar kemur að fyrirmyndum að fjarþjónustu eru til tvær raunhæfar leiðir til að samhæfa þjónustuna. Annars vegar er gengið út frá því að hvert sveitarfélag sjái alfarið um sína eigin þjónustu. Hins vegar kaupa þau sveitarfélög sem taka þátt í verkefninu þjónustuna frá utanaðkomandi aðila. Í verkefninu á Álandseyjum fólst stuðningsþjónustan í þrennu; daglegum athöfnum, fjarþjónustu og félagslegri samveru. Á meðan á verkefninu stóð sýndi það sig að daglegar athafnir og félagsleg samvera var sú þjónusta sem sveitarfélögin nýttu best og mest. Verkefnisstjórar nálguðust verkefnið heildrænt og gátu veitt stuðning til notenda og sveitarfélaga. Þarfir sveitarfélaganna eru náttúrlega mismunandi og fólkið líka. Sum sveitarfélög hafa þörf fyrir að geta boðið upp á alla hluta þjónustunnar á meðan önnur sveitarfélög þurfa að geta boðið upp á hluta af henni. Þörfin verður alltaf háð aðstæðum borgaranna sem njóta þjónustunnar.

Niðurstaða skýrslunnar er sú að reynsla verkefnisins á Álandseyjum sýnir að fjarþjónusta getur haft jákvæða þætti í för með sér; lækkun útgjalda, aukin afköst meðal starfsfólks og tímasparnað vegna ferða þannig að starfsfólk hefur meiri tíma fyrir þá sem þurfa meiri aðstoð. Þetta á nú einmitt við hér á landi á öllum stöðum, bæði getur þjónustuumhverfið verið stórt, t.d. bara í Reykjavík, og um langan veg að fara og tímafrekt að fara á milli, sérstaklega eins og umferðin er hér, og við erum líka að tala um víðfeðm sveitarfélög úti um landið þar sem getur verið jafnvel klukkustunda keyrsla á milli þjónustuþega. Þetta hefur verið reynt á Norðurlöndum og tekist þar og við horfum til þess að þetta gæti átt erindi hingað heim.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja brýnt að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að innleiða fjartækni í velferðarþjónustu og bæta með því heilsu og líðan eldra fólks og fólki með fötlun um land allt. Fjarþjónusta gerir fólki t.d. kleift að búa lengur á heimilum sínum sem er ósk flestra og sparar um leið hinu opinbera umtalsverða fjármuni við rekstur heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Einmanaleiki og einangrun er heilsuspillandi. Það er því ekki síður mikilvægt að rjúfa félagslega einangrun fólks og nýta fjartækni til þess. Bætt heimaþjónusta og regluleg félagsleg samskipti hafa verulega jákvæð áhrif á heilsu fólks sem eykur hamingju og lífsgæði.

Lagt er til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem skili áliti sem nýtist við gerð heilbrigðisstefnunnar. Hópurinn leggi áherslu á að skoða hvernig aðferðir nýtist best hér á landi með hliðsjón af reynslu annarra Norðurlanda.

Virðulegur forseti. Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra lagt fram heilbrigðisstefnu sem nær til ársins 2030. Í henni má finna áherslur sem snúa að því að nýta tækniframfarir til að ná til þjónustuþega heilbrigðiskerfisins með t.d. fjarlækningum og auka tækifæri með fjarþjónustu og jafna tækifæri allra landsmanna. Það er mikilvægt að afgreiðsla þessa máls verði samhliða heilbrigðisstefnunni því að í þessari þingsályktunartillögu má finna sama tóninn og þar er sleginn.

Þingsályktunartillagan gengur nú til velferðarnefndar og það er náttúrlega hennar að vinna úr henni. Það er vonandi gott að fá hana inn samhliða heilbrigðisstefnunni þannig að við getum tvinnað þetta saman og jafnvel styrkir þetta hvort annað. Auðvitað kemur þessi tækni aldrei í staðinn fyrir mannleg samskipti augliti til auglitis en þetta er vissulega leið til að reyna að rjúfa þann múr sem margir búa við sem búa einir eða eiga ekki kost á þeim samskiptum sem við búum alla jafna við.



[19:36]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. flutningsmanni Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu. Hún ber vott um framsýni og líka meðvitund um þær samfélagslegu breytingar sem við göngum í gegnum og fram undan eru. Þessi tillaga rímar giska vel við þá umræðu sem við áttum í þingsal í gær, sérstaka umræðu um fjarlækningar og fjarheilbrigðisþjónustu og kallast líka á við þau viðhorf sem fram komu í máli flestra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni.

Það kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu að hugtakið velferðartækni sé ættað frá Norðurlöndum. Einhverjum kann að þykja þetta svolítið kalt heiti, velferðartækni, en eitthvað verður þetta að heita og ekki er óeðlilegt að velferðarþjónustan hagnýti sér nýja tækni og leiðir til að bæta þjónustuna því að þetta er bara einn þáttur í því að gera þjónustuna enn betri, ekkert síður mannúðlegri og markvissari. Þetta eru auðvitað þættir sem hafa verið forgangsverkefni á Norðurlöndunum öllum meira og minna og þau eru komin langtum framar okkur. Við sitjum eftir og getum gert miklu betur að þessu leyti í okkar strjálbýla, stóra landi þar sem hluti okkar þegna býr til sveita og gjarnan er það fullorðið fólk sem býr í dreifbýlinu. Það er nú þannig.

Velferðartækni hefur verið, eins og flutningsmaður kom inn á, áhersluatriði í formennskutíð Noregs í Norðurlandaráði og Noregur hefur talað mjög fyrir þessu máli. Ómurinn hefur borist til Íslands, því er ekki að neita. Við þekkjum hugtakið og þekkjum viðfangsefnið, við tölum eitthvað um það en okkur verður lítið úr verki.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru þó lögð nokkur orð í nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og þar er þessi tækni orðuð, fjarlækningar. Það er vel. Fjarlækningar ná kannski ekki nægilega vel utan um þetta viðfangsefni. Þetta er fjarheilbrigðisþjónusta sem getur náð yfir ýmsa aðra þjónustu á heilbrigðissviði og á félagslegu sviði svo sem líka. Það má líka geta um það, og það er ánægjulegt hvað sem mönnum finnst um byggðaáætlanir sem gerðar eru, að þær eru stundum dálítið opnar og fljótandi en í þeirri byggðaáætlun sem við höfum nýverið samið, sem gildir fyrir árin 2018–2024, eru býsna vel skilgreind nokkur atriði, þar á meðal fjarheilbrigðisþjónusta. Þar eru sett skýr markmið, þ.e. að bæta heilbrigðisþjónustuna með því að nýta nýjustu tækni og fjarskipti við framkvæmd þjónustu. Þar með verði það einn liður í því að bæta eða jafna aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu og jafnvel sérhæfðri þjónustu hvar sem menn búa. Þá erum við ekki eingöngu að tala um lækna og hjúkrunarfræðinga, við erum að tala um talmeinafræðinga, sálfræðinga og fleiri.

Síðan verður hin rafræna miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu og það er ekki bara fyrir sjúklinga heldur líka fyrir annað fagfólk sem býr kannski fjarri þeim stöðum þar sem sérfræðingar starfa. Þetta á að vera komið í gang og á fullan skrið, framkvæmdaraðili og sá aðili sem á að stjórna þessu er Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem er starfrækt hér í Reykjavík. Við vonumst til að sprotarnir nái að skjóta rótum úti um landið. Það á að gerast í samstarfi við heilbrigðisstofnanir, landshlutasamtökin og einstök sveitarfélög um landið allt. Í þetta eru settir peningar, 140 milljónir, og ég gat um það í gær í minni ræðu að þetta væru ekki nægilega miklir peningar, menn væru með þessu að sýna lit, það kostaði talsvert að koma þessu á laggirnar en ekki mjög mikla peninga. Hins vegar þarf að skapa um þetta umgjörð, þ.e. hvernig greiðslufyrirkomulaginu sé háttað og hverjir ætli að annast þjónustuna. Það þarf að skilgreina það vel. Þeir aðilar sem veita þjónustuna eða eru á hinum endanum þurfa ekki endilega að vera í Reykjavík, þeir geta verið á Akureyri eða á Ísafirði ef þekkingin er þar, þeir geta verið á Akranesi eða Suðurnesjum, hvar sem er, í útlöndum þess vegna.

Þetta eru allt góð markmið en mér finnst fara heldur lítið fyrir innleiðingunni því að samkvæmt tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði til að fjalla um fjarheilbrigðisþjónustu, fjarlækningar, og hefur skilað af sér á, samkvæmt tímaplani, innleiðing þeirra að vera í fullum gangi á þessu ári. Ég verð lítið var við það, a.m.k. í mínu kjördæmi sem er víðfeðmt og strjálbýlt á köflum. Þar er mikið landbúnaðarhérað og dreifbýli og væri kjörið til innleiðingar á lausnum sem þessum.

Frú forseti. Á komandi árum eru allar líkur á því að við leggjum stöðugt meiri áherslu á sjálfstæða búsetu einstaklinga á eigin heimili þrátt fyrir að viðkomandi búi hugsanlega við fötlun eða skerta hreyfifærni vegna aldurs eða áfalla. Það má segja að NPA-hugmyndafræðin sé angi af þessu og að þessi stuðningur verði veittur með mjög markvissum hætti. Við eigum ríka hefð á Íslandi fyrir því að vista fólk á stofnunum. Það er eiginlega ljóður á okkar ráði og við þurfum að fara að snúa þessu við. Sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi og verður eldri borgarar innan fárra ára mun ekki una þeim lausnum sem eldri borgarar nútímans hafa unað við.

Um ástæðu þess að við höfum valið þessa leið er ekki gott að segja. Vegna hvers flytur fólk af sínu eigin heimili á stofnun? Það er auðvitað krefjandi spurning sem við eigum að velta fyrir okkur. Það má segja að sé í fyrsta lagi vegna þess að heilsan brestur og það er metið að viðkomandi geti ekki búið heima; það er óhentugt húsnæði; félagsleg einangrun og síðast en ekki síst öryggisleysi. Það má vinna verulega með alla þessa þætti, óhentugt húsnæði, félagslega einangrun má rjúfa með ýmsu móti og öryggisleysi líka. Það má vinna á þessum þáttum og það eigum við að gera. Við getum einmitt hagnýtt svona lausnir til þess. Við Íslendingar eigum mýmörg tækifæri á þessu sviði og eigum að þaulnýta þau. Þau eru jafnan farsælli fyrir viðkomandi, gera meiri kröfur til manns, en hluti af lífinu er að baksa og hafa fyrir hlutunum.

Þetta er líka hagkvæmari lausn fyrir samfélagið í heildina. Í þeirri greinargerð sem fylgir þessari tillögu eru tekin dæmi frá Álandseyjum sem er lítið eyjasamfélag sem ætti að höfða til okkar með 40.000 íbúa. Þar hefur gengið á ýmsu og við eigum að læra af því. Þessari umbreytingu verður ekki komið á yfir nótt. Við þurfum að aðlaga okkur að þessu, við erum að aðlaga skjólstæðinga okkar að þessu og við þurfum að þjálfa starfsfólk síðast en ekki síst.

Frú forseti. Tíminn rennur út eftir fáeinar sekúndur. Þessi tillaga er komin fram á ágætum tímamótum, nú þegar við höfum til umfjöllunar í þinginu tillögu ráðherra að heilbrigðisstefnu. (Forseti hringir.) Það er beinlínis ætlan þeirra sem að tillögunni standa að hún nýtist með beinum hætti við lokagerð þeirrar stefnu og verði hluti af aðgerðaáætlun sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja nýrri heilbrigðisstefnu. Framkomin þingsályktunartillaga af þessu tagi er fagnaðarefni.



[19:47]
Forseti (Bryndís Haraldsdóttir):

Tíminn var sannarlega runninn út og rúmlega það.



[19:47]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir ræðuna og vil jafnframt nota tækifærið til að fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin hingað til umræðu, enda er ég einn af flutningsmönnunum eins og hv. þingmaður.

Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að við höfum í mörgu ekki staðið okkur vel og þingmaðurinn kom með dæmi frá öðrum Norðurlöndum þar sem menn væru um margt að standa sig betur. Ég held að það sé rétt hjá honum. Víða annars staðar á Norðurlöndunum eru menn komnir miklu lengra, jafnvel farnir að útvega einstaklingum flókin tæki í heimahús, flókinn tækjabúnað, sem þeim er jafnvel bara kennt á til að hjálpa viðkomandi að búa betur og geta betur annast sjálfa sig.

Þá kemur eiginlega að spurningunni, eða vangaveltum öllu heldur, sem mig langar að ræða aðeins við hv. þingmann, og það er þetta: Á öðrum Norðurlöndum er það víðast hvar þannig að sveitarfélögin eru ábyrg fyrir öldrunarþjónustunni og eru líka ábyrg fyrir rekstri hjúkrunarheimila, öfugt við það sem gerist á Íslandi þar sem félagsþjónustan er annars vegar á ábyrgð sveitarfélaganna og hins vegar eru hjúkrunarheimilin á ábyrgð ríkisins.

Mig langar að ræða við þingmanninn hvort hann telji að það geti verið að áhugaleysi eða meint áhugaleysi íslenskra sveitarfélaga á að grípa til tækninnar í meiri mæli en þau hafa gert, geti að einhverju leyti legið í því að ekki er beinlínis hægt að halda því fram að það sé a.m.k. fjárhagslegur hagur sveitarfélaganna undir í því að útvega skjólstæðingum sínum tækjabúnað vegna þess að ríkið tekur við þeim ef sveitarfélögin geta ekki lengur séð um þá.



[19:49]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni andsvarið. Ég held að þetta sé laukrétt hjá þingmanninum. Góð ábending.

Um hagsmunina, þá er það nú bara þannig þó að það eigi ekki að vera þungamiðja málanna, að hinir fjárhagslegu hvatar til þess að vinna að samþættum lausnum kastast dálítið á dreif. Annars vegar erum við með félagsþjónustuna sem er á hendi sveitarfélags og hins vegar heilbrigðisþáttinn sem er á hendi ríkisins. Auðvitað ætti öldrunarþjónustan, þjónusta við okkar góðu og gegnu eldri borgara að vera hluti af nærþjónustunni í meginatriðum, en auðvitað verða aldraðir veikir eins og aðrir og kannski öðrum fremur, eðli málsins samkvæmt, og þá tekur heilbrigðiskerfið til sinna ráða. En almenn félagsleg þjónusta ætti auðvitað að vera á einni og sömu hendinni. Þá leiðir af sjálfu sér að sveitarfélögin í sínu samfélagi leita bestu lausnanna í þágu sinna eldri borgara í byggðarlaginu.

En það má kannski benda á í þessu efni, af því að hv. þingmaður drap á það að við værum ekki komin eins langt eða höfum ekki leitt hugann eins mikið að þessu eins og Norðurlöndin, eða víðast á Norðurlöndum skulum við segja. Norðurlöndin eru misjöfn eins og önnur lönd. Tæknin er þrautreynd og hún virkar. En við megum ekki vanmeta innleiðinguna gagnvart því að kenna skjólstæðingum að nýta hana og ekki síst að fá starfsfólk í lið með okkur, að það nýti sér þetta og sjái tilganginn til hagræðingar fyrir það sjálft og alla í málinu.



[19:52]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að við hv. þingmaður séum í öllum grundvallaratriðum sammála um þessa vinkla, þ.e. hvernig væri hægt að bregðast við.

Í seinna andsvari langar mig að fá þingmanninn til að ræða betur það sem hann impraði aðeins á í fyrra andsvari sínu, þ.e. hvers eðlis búseta á hjúkrunarheimili er. Þingmaðurinn þekkir það jafn vel og ég að sú umræða hefur lengi verið uppi að búseta á hjúkrunarheimili sé a.m.k. að stórum hluta til búsetuúrræði en ekki heilbrigðisþjónusta. Auðvitað sé heilbrigðisþjónusta þar í boði og þurfi jafnvel stundum að vera til reiðu allan sólarhringinn. Þingmaðurinn þekkir það.

Mig langar að velta því upp með þingmanninum hvort hann sjái einhverja fleti á því eða þekki dæmi þess að menn hafi þróað slíka hugsun eitthvað aðeins lengra, þ.e. að skilgreina til að mynda tiltekinn hluta, og þá væntanlega stærri hluta en eitthvað smávegis, af þjónustunni á hjúkrunarheimili sem búsetuúrræði, og kannski sem milliskref á milli þess að láta sveitarfélögin fá þetta algjörlega í sínar hendur, að þau sjái þá um þann hlutann og þar með að skapa þann hvata sem við erum að tala um fyrir sveitarfélögin að reyna að búa betur að fólki meðan það er enn þá heima og getur að einhverju leyti séð um sig sjálft með aðstoð samfélagsins.



[19:54]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kemur í seinna andsvari sínu að krefjandi og viðkvæmu atriði. Er hjúkrunarheimili búsetuúrræði? Ég leyfi mér að hafa þá skoðun, svona núorðið, að það sé ekki búsetuúrræði. Við höfum líka annað form sem heitir dvalarheimilisúrræði. Það kann að líkjast meira búsetuúrræði. Við þekkjum dæmi um einstaklinga sem hafa búið á stofnun áratugum saman, á dvalarheimilum og síðan á hjúkrunarheimili. Við þekkjum líka umræðuna um að þetta er stundum skæklatog, bitamunur en ekki fjár, þ.e. að fá skilgreind fleiri hjúkrunarheimili, jafnvel á kostnað dvalarheimila, til að auðvelda reksturinn á tiltölulega litlum og kannski óhentugum rekstrareiningum.

En við þekkjum það líka í seinni tíð, á síðustu árum, að viðdvölin á hjúkrunarheimilum er stöðugt að styttast og komin í mörgum tilvikum undir eitt ár. Þetta er þróun sem heldur áfram að einhverju marki. Auðvitað á allt sín takmörk, en við munum í framtíðinni leggja allt kapp á það, samfélagið og við saman, að búa í haginn heima fyrir.

Af því að hv. þingmaður spyr þá eigum við að vera opin fyrir öllum nýjum lausnum. Við eigum að vera það. Við höfum ekki ráð á öðru. Þessi hópur er að stækka. Hann getur verið þátttakandi og virkur mjög lengi og við eigum að nýta okkur það, ekki að kasta á glæ bæði kröftum og reynslu eins og við höfum gert í allt of ríkum mæli.



[19:56]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrir framlagningu þessarar þingsályktunartillögu og þakka sérstaklega Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að fara yfir þetta mál og leggja það fram. Þetta er mál sem, eins og kom fram í ræðum þingmanna hér áðan, sem við Íslendingar höfum trassað svolítið.

Mig langar í framhaldi af orðum þessara tveggja ágætu þingmanna sem hér tóku til máls, Guðjóns S. Brjánssonar og Ólafs Þórs Gunnarssonar, að koma inn í umræðuna varðandi hjúkrunarrýmin og dvalarrýmin. Velferðartæknin mun hjálpa okkur að leysa málin varðandi dvalarrýmin. Þau hafa verið búsetuúrræði fyrir það fólk sérstaklega sem kemur úr dreifbýli og þarf minni þjónustu, en sá hópur mun njóta þess þegar velferðartæknin verður orðin virk. Þessi tækni er til, eins og hefur komið fram, en við höfum ekki hagnýtt okkur hana eins og við hefðum getað.

Varðandi rekstur á hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum eru hjúkrunarrýmin rekin bæði af sveitarfélögum og ríkinu. Mig langar að minna á að eitt sveitarfélag á Íslandi sem rekur dvalarrými af miklum myndarbrag er Akureyrarbær. Öldrunarheimili Akureyrar eru rekin af bænum og þau hafa verið í fararbroddi í velferðartækni, þeirri sem er þó komin af stað í öldrunarþjónustu á Íslandi. Það er gaman að segja frá því líka í þessu samhengi að akkúrat núna þessa dagana er SÍMEY, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, að hefja nám á Akureyri í velferðartækni þar sem aðilar úr félagsþjónustunni, úr öldrunarþjónustunni og heimahjúkrun og öðru slíku eru að stíga inn í það nám. Það er fyrsta námið af þessu tagi á Íslandi og er í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið. Þetta er verkefni sem er komið af stað.

Það er alveg rétt hjá þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls að við höfum dregið svolítið lappirnar, Íslendingar. Hvort sem það er vegna þess að þetta er þjónusta sem sveitarfélögin eru kannski að meginhluta til að veita eða ekki, t.d. eins og heimahjúkrun sem er mikið á hendi ríkisins, þá eru þarna mýmörg tækifæri sem við vitum að við höfum ekki nýtt okkur. Þar er ríkið fyrsti aðili til að veita það. En auðvitað eru reynslusveitarfélög eins og Sveitarfélagið Hornafjörður og Akureyri til skamms tíma sem hafa sinnt heimahjúkrun og núna reyndar Reykjavíkurborg, sem er komin ný inn í og þar eru góðir hlutir að gerast og skemmtilegir.

Í þessari þingsályktunartillögu er ályktað að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa starfshóp sem meti með hvaða hætti velferðartækni nýtist í þjónustu við eldra fólk og fólk með fatlanir. Þessi þjónusta getur einnig nýst langveikum einstaklingum, fólki í endurhæfingu og öðru slíku, fólki sem býr fjarri miðlægri þjónustu. Þetta er talið til þess fallið að viðhalda og auka færni, samfélagsþátttöku og lífsgæði, en getur líka nýst vel við endurhæfingu, æfingar og annað slíkt.

Í greinargerðinni er talað svolítið um rafræna heimaþjónustu og sótt dæmi um verkefni til Álandseyja, sem er mjög gott, og komið inn á það líka að á næstu árum munu eldri borgarar þessa lands vera mjög snjallvænir. Þeir munu væntanlega eiga snjalltæki sem þeir geta nýtt og sótt öpp sem verða örugg fyrir þessa þjónustu o.s.frv. Við erum með fólk á Facebook í dag sem er á níræðis- og tíræðisaldri, sem verður fljótt að tileinka sér þessa þjónustu.

Það eru væntingar um að nýta þessa tækni þar sem mannafli minnki, það er rétt. Auðvitað er þessi félagslegi þáttur, það að eiga í samskiptum og að draga úr einmanaleika og öðru slíku, mjög mikilvægur í þessu samhengi. En þetta er bara það sem við gerum í dag, við erum að tala saman á Skype og Facetime og það allt saman. Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á að það sé ekki það sama og „live“ samskipti, en fyrir stóran hluta þjóðarinnar þá er það „live“ að vera á Facebook Live eða á Skype eða öðru slíku þannig að þröskuldarnir eru að lækka með hverjum deginum sem líður í þessari þjónustu.

Það sem mig langar líka til að bæta inn í umræðuna um velferðartækni er það sem snýr að stofnununum, að þegar ríkið er að hanna ný hjúkrunarheimili eða koma á fót nýjum stofnunum sé velferðartæknin nýtt þar. Þar er tækifæri fyrir ríkið til að koma inn með góðum hætti því einstaklingarnir sem dvelja á hjúkrunarheimilum í dag eru mun veikari en þeir sem tekin voru dæmi um hér áður, sem komu kannski inn í hálfgert búsetuúrræði en hafa kannski búið í mörg ár eða jafnvel áratugi inni á hjúkrunarheimilum. Þessum einstaklingum fækkar. Það er erfiðara að fá starfsfólk og annað slíkt og í dag eru til ýmsar snjalllausnir eins og gólf sem nema hreyfingu og byltur og slíkt og gefa merki. Þarna er stórt tækifæri fyrir ríkið til að koma myndarlega að og búa þau nýju heimili sem er verið að hanna snjalllausnum sem auka öryggi og lífsgæði íbúa og auðvelda starfsfólki líka umönnun.

Að lokum langar mig að ítreka það sem ég kom inn á í byrjun að það er að hefjast nám í velferðartækni á Akureyri og er það mjög vel gert hjá þessum aðilum. Akureyrarbær hefur verið í fararbroddi í velferðarþjónustu í öldrunarþjónustunni. Með náminu er stefnt að því að efla þekkingu og auka hæfni þeirra sem starfa eða hafa hug á að starfa í velferðarþjónustu og að takast á við nýsköpun í tækni í velferðarþjónustu. Starfsfólkið okkar sem starfar í heimahjúkrun, í félagslegri heimaþjónustu og í öldrunarþjónustu er hafsjór af hugmyndum, líka í nýsköpuninni. Ríkið þarf að koma öflugt þar inn í og styrkja nýsköpun á þessum vettvangi því að með velferðartækni er verið að innleiða ný vinnubrögð og nýjar lausnir, oft stafrænar, sem hjálpa fólki að takast á við daglegt líf, bæta lífsgæði og efla heilbrigði.

Velferðarnefnd fær þingsályktunartillöguna til umræðu og eins og hefur komið fram er mjög gott að hún kemur fram á þessum tíma og getur nýst með heilbrigðisáætluninni. Ég veit að í hv. velferðarnefnd er fólk með frjóa hugsun og það mun væntanlega geta bætt inn í þetta verkefni. Ég vona að niðurstaðan verði sú að þingsályktunartillagan verði samþykkt og skipaður verði starfshópur sem mun vinna með þetta verkefni áfram.



[20:04]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa verið ónákvæmur í orðavali. Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttur að bæði dvalarheimili og hjúkrunarheimili í nokkrum tilvikum eru starfrækt á vegum sveitarfélaga en fjármögnunin er á hendi ríkisins. Það er líka rétt að staðið hefur verið að öldrunarþjónustunni með miklum myndarbrag á Akureyri, en Akureyri var og er með þetta á sinni könnu alfarið, var annað tveggja sveitarfélaga sem var tilraunaverkefni og gafst mjög vel. Það er óumdeilt að gæði þjónustunnar urðu meiri. Höfn í Hornafirði var hitt sveitarfélagið. Svo deila menn auðvitað um kostnað. Auðvitað kostar allt sitt. Á Akureyri er afar metnaðarfullur forstöðumaður í öldrunarþjónustunni, Halldór Sigurður Guðmundsson, og hann kann stafrófið í velferðartækni býsna vel og það verður áhugavert að fylgjast með framvindunni þar. En sannast sagna þá hef ég á tilfinningunni að hann hafi talað fyrir býsna daufum eyrum lengi vel hvað þessa þætti varðar.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að einn þátturinn sem ýtir undir það að við eigum að nýta okkur þessa velferðartækni er auðvitað framtíðarhorfur varðandi mönnun. Við getum ekki vænst þess að geta mannað eins vel og mikið og við gerum í dag. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því hún hefur svo góða innsýn inn í þennan geira, hvort hún hafi dæmi um (Forseti hringir.) lausnir sem menn eru að nota á sviði velferðartækni á Íslandi í dag.



[20:07]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðjóni Brjánssyni fyrir andsvarið. Það sem mér finnst mest spennandi, alla vega sem er til í dag, eru þessir hreyfiskynjarar og vöktunarbúnaður og fleira slíkt sem ég veit að Akureyringar hafa verið að taka upp. Til dæmis hefur inni á hjúkrunarheimilum, þar sem sjúklingar eru órólegir, verið nýttur með leyfi aðstandenda myndavélabúnaður, vöktunarbúnaður, til að minnka áreiti á einstaklinginn. Ég nefni líka nýjar lausnir í byltuvörnum og hreyfiskynjurum, ekki gömlu rafmotturnar á gólfinu sem fólk var snjallt að komast fram hjá, heldur skynja geislar hvort fólk fer fram úr t.d. á nóttinni þannig að það er ekki heft, það eru ekki uppi grindur sem geta valdið byltum ef fólk er að fara yfir þær.

Það er rétt með sveitarfélögin, það getur verið að það hafi heft svolítið framgang velferðartækninnar að fjármagnið er ekki nægilegt. Það er bara þannig. En við þurfum að gera betur í þessu. Þess vegna tel ég að það væri mjög gott að ríkið kæmi þarna inn með styrki og fjármagn og stuðning til að koma þessu af stað. Þess vegna er líka mikilvægt að í þessum starfshópi sem verður, þá verði skipaðir fulltrúar sveitarfélaganna, að sjálfsögðu þar sem þetta er mjög stórt verkefni þeirra.



[20:09]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttur fyrir svarið. Mig langar að veita andsvar síðara sinni og fræðast aðeins um það hver hennar reynsla er gagnvart innleiðingu á velferðartæknilegum lausnum. Hvernig taka starfsmenn þessu? Taka þeir þessu fagnandi? Eru þeir tortryggnir? Hvernig sér hún fyrir sér þróun meðal starfsfólks í öldrunarþjónustu með því að við förum að taka inn og hagnýta okkur fleiri lausnir á þessu sviði? Er það mat hennar að hugsanlega verði menn á varðbergi gagnvart því að taka þær inn? Þær eru ýmislegar, bæði einfaldar og flóknar eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á. Það eru til einfaldar og flóknar lausnir, bæði ódýrar og dýrar. Einfaldur búnaður í heimahús kostar kannski 10.000 kr. sem kemur að mjög góðu gagni.

Ég leyfi mér að nefna á hraðbergi tvö dæmi sem ég upplifði. Annað er á Ísafirði í íbúðum aldraðra. Þar var einföld aðferð meðal íbúanna sem voru sjálfbjarga, bjuggu í þjónustuíbúð fyrir aldraða. Það var þannig kerfi að þegar þeir vöknuðu á morgnana þá fóru þeir fram á gang og kveiktu ljós sem var fyrir utan hurðina hjá þeim, það var staðfesting um að viðkomandi var kominn á fætur og allt í lagi. Annað er dæmi sem ég kynntist fyrir 25 árum í Bergen, fyrir 25 árum, hugsið ykkur. Þar var það þannig í þjónustukjarna að ef ekki var búið að sturta niður úr klósettinu fyrir ákveðinn tíma dagsins þá fór skynjari í gang og þjónustukjarni gerði aðvart. Svona lausnir eru til af öllu tagi.



[20:11]
Ásgerður K. Gylfadóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir andsvar síðara sinni. Varðandi starfsfólk og velferðarþjónustu þá held ég að almennt séð taki flestir fagnandi nýjum verkferlum og því sem auðveldar vinnuna, en auðvitað erum við misjöfn og þegar talað er um velferðartækni þá sjá kannski sumir fyrir sér einhverja róbóta og slíkt og verða smákvíðnir. Ég held samt að t.d. í heimaþjónustu þar sem einstaklingurinn er kominn að því að þurfa meiri þjónustu séu allir öruggari með það ef hægt er að fylgjast betur með fólki, hvort sem það er með því að viðkomandi gefi frá sér merki eða það sé hægt að hafa samband við hann í gegnum spjaldtölvu til að spjalla við hann eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé bara jákvætt.

Ég upplifi það ekki þannig að starfsfólkið í þessari þjónustu sé neikvætt út í þessa umræðu um velferðartæknina heldur hafi það frekar hugmyndir um það hvernig við getum unnið áfram með verkefnin, t.d. inni á stofnunum, að starfsmaður sé látinn vita að hann geti sinnt öðrum verkefnum og þurfi ekki að hafa áhyggjur af einstaklingi. En auðvitað þurfum við líka að passa að tæknin getur klikkað og við verðum alltaf að vera á tánum. Þegar vöktunin er komin á þýðir það ekki að ekki þurfi að sinna einstaklingnum heldur frekar að starfsmaðurinn geti einbeitt sér betur að því sem hann er að gera hverju sinni, nýti tæknina til hagsbóta. Ég held að þetta sé bara jákvætt og eigi eftir að koma mjög hratt og vel inn í þá þjónustu sem við veitum nú þegar.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.