149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

velferðartækni.

296. mál
[19:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég held að við hv. þingmaður séum í öllum grundvallaratriðum sammála um þessa vinkla, þ.e. hvernig væri hægt að bregðast við.

Í seinna andsvari langar mig að fá þingmanninn til að ræða betur það sem hann impraði aðeins á í fyrra andsvari sínu, þ.e. hvers eðlis búseta á hjúkrunarheimili er. Þingmaðurinn þekkir það jafn vel og ég að sú umræða hefur lengi verið uppi að búseta á hjúkrunarheimili sé a.m.k. að stórum hluta til búsetuúrræði en ekki heilbrigðisþjónusta. Auðvitað sé heilbrigðisþjónusta þar í boði og þurfi jafnvel stundum að vera til reiðu allan sólarhringinn. Þingmaðurinn þekkir það.

Mig langar að velta því upp með þingmanninum hvort hann sjái einhverja fleti á því eða þekki dæmi þess að menn hafi þróað slíka hugsun eitthvað aðeins lengra, þ.e. að skilgreina til að mynda tiltekinn hluta, og þá væntanlega stærri hluta en eitthvað smávegis, af þjónustunni á hjúkrunarheimili sem búsetuúrræði, og kannski sem milliskref á milli þess að láta sveitarfélögin fá þetta algjörlega í sínar hendur, að þau sjái þá um þann hlutann og þar með að skapa þann hvata sem við erum að tala um fyrir sveitarfélögin að reyna að búa betur að fólki meðan það er enn þá heima og getur að einhverju leyti séð um sig sjálft með aðstoð samfélagsins.