150. löggjafarþing — 29. fundur
 11. nóvember 2019.
rekstraraðilar sérhæfðra sjóða, 1. umræða.
stjfrv., 341. mál. — Þskj. 389.

[19:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Frumvarpið er á þskj. 389 og mál nr. 341. Frumvarpið var unnið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með aðstoð frá nefnd skipaðri helstu haghöfum og felur í sér innleiðingu tilskipunar nr. 2011/61/ESB, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, í íslenskan rétt sem og tilskipun nr. 2013/14/ESB, um breytingu á tilskipunum nr. 2003/41/EB, um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 2009/65/EB, um UCITS-sjóði, og fyrrgreindri tilskipun nr. 2011/61/ESB að því er varðar oftraust á lánshæfismötum.

Þetta mál er þannig vaxið að í dag gilda lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lagaskipan sem munu hafa áhrif á þá sem reka sérhæfða sjóði hér á landi, þ.e. annars konar sjóði en verðbréfasjóði. Nýr eftirlitsskyldur aðili á fjármálamarkaði verður til, þ.e. rekstraraðili sérhæfðra sjóða.

Meginefni frumvarpsins eru í fyrsta lagi ákvæði sem lúta að starfsleyfisskyldu stærri rekstraraðila, þ.e. þeirra sem hafa sérhæfða sjóði í stýringu sem eiga samtals eignir umfram tiltekin fjárhæðarviðmið. Ýmis skilyrði eru sett fyrir starfsleyfi, svo sem um stofnframlag og eigið fé, áskilnaður gerður um viðeigandi þekkingu stjórnenda og hæfi þeirra sem fara með virkan eignarhlut í rekstraraðila.

Í öðru lagi eru ákvæði um skráningarskyldu smærri rekstraraðila, þ.e. þeirra sem hafa sérhæfða sjóði í stýringu sem eiga samtals eignir undir fjárhæðarviðmiðum. Munu þeir þurfa að skrá sig hjá Fjármálaeftirlitinu og uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur hvað varðar verðmat eigna, ársreikninga, lausafjárstýringu og upplýsingagjöf, bæði við upphaf viðskipta og reglulega til eftirlitsaðila.

Í þriðja lagi eru gerðar í frumvarpinu kröfur um skipulag rekstraraðila, stjórnun og innra eftirlit, þar á meðal ákvæði um hagsmunaárekstra, áhættustýringu, lausafjárstýringu og verðmat eigna, en einnig er kveðið á um heimildir til útvistunar verkefna og skilyrði sett fyrir útvistun.

Í fjórða lagi eru gerðar kröfur um upplýsingagjöf við upphaf viðskipta, reglubundna upplýsingagjöf til fjárfesta og reglubundin gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.

Í fimmta lagi er kveðið á um skyldu rekstraraðila til að skipa vörsluaðila fyrir hvern sjóð, hverjir geta gegnt hlutverki vörsluaðila og hver er ábyrgð slíkra aðila.

Þá er í sjötta lagi kveðið á um heimildir rekstraraðila með starfsleyfi til að markaðssetja fjárfestingarsjóði til almennra fjárfesta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem sérstaklega um staðfestingu Fjármálaeftirlitsins, um fjárfestingarheimildir og innlausnarskyldu. Einungis er heimilt að markaðssetja aðra sérhæfða sjóði til fagfjárfesta samkvæmt frumvarpinu.

Í sjöunda lagi er svo gert ráð fyrir því, ólíkt því sem nú gildir, að starfsleyfi sem veitt er rekstraraðila innan EES til rekstrar og markaðssetningar sérhæfðra sjóða muni gilda í öllum löndum EES að undangenginni tilkynningu til viðeigandi stjórnvalds í hverju landi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi rekstraraðila og vörsluaðila sjóðanna. Fjármálaeftirlitið mun hafa hefðbundnar eftirlitsheimildir en þær viðurlagaheimildir sem ganga munu hvað lengst eru afturköllun starfsleyfis og álagning stjórnvaldssekta. Eftirlitsstofnun EFTA hefur enn fremur eftirlit með afmörkuðum þætti samkvæmt frumvarpinu en heimildir hennar munu takmarkast við þröng undantekningartilvik í tengslum við takmarkanir á markaðssetningu sjóða með staðfestu utan EES á íslensku yfirráðasvæði.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa áhrif á alla sem reka sérhæfða sjóði hér á landi. Áhrifin verða þó mismikil, bæði eftir umfangi starfsemi rekstraraðila og því hvernig starfseminni hefur verið hagað hingað til. Umsvif Fjármálaeftirlitsins munu aukast og eftirlit á sjóðamarkaði færast í fastara horf. Þá verða sömu lágmarkskröfur gerðar til starfsemi starfsleyfisskyldra rekstraraðila hér á landi og gilda um starfsemi slíkra aðila innan EES. Þannig er eftirlitsaðilum innan EES, á Íslandi Fjármálaeftirlitinu, gert betur kleift að vakta kerfisáhættu og samræma viðbrögð og aðgerðir milli landa ef þarf vegna uppsafnaðrar áhættu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.



[19:15]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er tiltölulega stórt og veigamikið frumvarp. Það tekur til margs og svolítið strembið er að setja sig inn í það. En mig langar til að nýta tækifærið og spyrja örfárra spurninga til að geta áttað mig betur á þessu. Fyrsta atriðið er: Þar sem þetta er Evrópulöggjöf og á fyrst og fremst við um stærri sjóði á Evrópusvæðinu, þ.e. í Evrópu utan Íslands, velti ég fyrir mér hversu margir sjóðir það séu á Íslandi sem falli þar undir og ekki síst hversu margir sjóðir myndu falla undir 7. gr., sem er undantekning fyrir smærri sjóði svo þurfi eingöngu að tilkynna sig frekar en að sækja um starfsleyfi, ef ég skil þetta rétt.

Svo langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort til greina hafi komið að fara sömu leið og Liechtensteinar og gera meiri kröfur varðandi starfsleyfi en gerð er beinlínis krafa um samkvæmt þeim tilskipunum og reglugerðum sem frumvarpið byggir á. Ef ekki, hvaða ástæður lágu þá þar að baki? Nú er Liechtenstein land með töluvert stóran fjármálageira og hefur eins og við lent á gráum lista hjá FATF í fyrndinni eða fyrir nokkrum árum. Það er kannski ástæða til að líta til þeirra þegar þeir eru að setja strangari reglur en almennt gilda í Evrópu um fjármálaregluverk.



[19:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er meginefni frumvarpsins að samhæfa löggjöfina þannig að eftirlit og viðbragðsáætlanir vegna starfsemi sjóða af þessum toga geti verið skilvirkari. Hér er um að ræða markaðsfyrirbæri, ef má orða það þannig, sem hefur verið alveg þokkalega algengt á Íslandi og mikilvægt að löggjöf og reglur um þennan markað séu skýrar. Það er einnig þekkt að menn hafa haft áhuga á að markaðssetja á Íslandi sjóði sem eru staðsettir utan EES-svæðisins, eins og ég vék að stuttlega í framsögu minni, en þó er kannski fyrst og fremst við því að búast að stærri alþjóðlegir aðilar hafi áhuga á að markaðssetja sig á Íslandi. Við þekkjum það úr sögunni og kannski er miklu líklegra í alþjóðlegu fjárfestingarsamhengi að slíkir sjóðir séu þar af leiðandi háðir eftirlitsaðila sem starfar í öðru landi. Þó er ekki loku fyrir það skotið að innlendir aðilar vilji koma á fót sjóðum eins og þeim sem hér er fjallað um í samkeppni við stærri sjóði.

Ég þekki ekki söguna varðandi þá sérstöku aðlögun sem Liechtensteinar hafa kosið í þessu tilviki en frumvarpið hefur verið samið í ágætu samstarfi við hagaðila hér innan lands og allar málefnalegar ábendingar eru að jafnaði teknar til greina. Það kann að vera að það séu einhver sérstök skilyrði eða sérstök þörf fyrir Liechtenstein að gera slíkar breytingar en ég kann ekki að greina betur frá því.



[19:19]
Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er fullkomlega sammála hæstv. fjármálaráðherra um að auðvitað er það mikilvægt verkefni að samræma okkur við evrópska löggjöf, sérstaklega í fjármálalegum efnum, sem hefur stundum verið kallað eftirhrunsregluverk Evrópu. En eftir sem áður, af því að það kom ekki beint svar við spurningu minni um fjölda: Er það rétt skilið hjá mér að það séu ekki aðilar á Íslandi í dag sem myndu falla undir leyfisskylduna? Þetta væru í rauninni einhverjir smærri aðilar, bara svo ég hafi það á hreinu.

Hvað varðar Liechtenstein verð ég að viðurkenna að ég þekki heldur ekki nákvæmlega hverju þeir breyttu. Ég veit bara að þeir gerðu einhverjar aðlaganir sem sneru að því að herða skilyrði fyrir leyfi. Auðvitað er það hluti af þessu samræmi um eftirlit og viðbrögð og ég vona að við náum að fara svolítið yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd til að átta okkur á hvað var verið að gera þar.

En það væri gaman að fá svar hjá hæstv. ráðherra um fjölda aðila hér á landi, bæði sem væru leyfisskyldir og tilkynningarskyldir samkvæmt þessu.



[19:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í kafla 2.2. í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þeir sjóðir sem munu teljast til sérhæfðra sjóða leiki mjög stórt hlutverk á íslenskum fjármálamarkaði og samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hafi eignir 114 fagfjárfestasjóða verið um 393 milljarðar íslenskra króna í árslok 2018 og heildareignir 60 fjárfestingarsjóða, sem teljast munu einnig til sérhæfðra sjóða, um 326 milljarðar kr. Þetta eru því samtals um 719 milljarðar kr. og lýsir umfanginu. Hvernig þetta skiptist nákvæmlega eftir þeim línum eða þeim mörkum sem hv. þingmaður vék að, sem var þá bara tilkynningarskylt eða skráð, kann ég ekki betur að gera grein fyrir en gert hefur verið í frumvarpinu. Það sem ég átti við í fyrra svari mínu var að hér geta auðvitað bæði verið sjóðir sem eru innlendir og myndu falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og, eins og þekkt er, erlendir sjóðir sem eftir atvikum eru þá háðir eftirlitsvaldi annars staðar og eru markaðssettir á Íslandi. Hvernig sú innbyrðis skipting er nákvæmlega þekki ekki á þessari stundu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.