150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

rekstraraðilar sérhæfðra sjóða.

341. mál
[19:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Frumvarpið er á þskj. 389 og mál nr. 341. Frumvarpið var unnið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu með aðstoð frá nefnd skipaðri helstu haghöfum og felur í sér innleiðingu tilskipunar nr. 2011/61/ESB, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, í íslenskan rétt sem og tilskipun nr. 2013/14/ESB, um breytingu á tilskipunum nr. 2003/41/EB, um starfstengda eftirlaunasjóði, nr. 2009/65/EB, um UCITS-sjóði, og fyrrgreindri tilskipun nr. 2011/61/ESB að því er varðar oftraust á lánshæfismötum.

Þetta mál er þannig vaxið að í dag gilda lög nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núgildandi lagaskipan sem munu hafa áhrif á þá sem reka sérhæfða sjóði hér á landi, þ.e. annars konar sjóði en verðbréfasjóði. Nýr eftirlitsskyldur aðili á fjármálamarkaði verður til, þ.e. rekstraraðili sérhæfðra sjóða.

Meginefni frumvarpsins eru í fyrsta lagi ákvæði sem lúta að starfsleyfisskyldu stærri rekstraraðila, þ.e. þeirra sem hafa sérhæfða sjóði í stýringu sem eiga samtals eignir umfram tiltekin fjárhæðarviðmið. Ýmis skilyrði eru sett fyrir starfsleyfi, svo sem um stofnframlag og eigið fé, áskilnaður gerður um viðeigandi þekkingu stjórnenda og hæfi þeirra sem fara með virkan eignarhlut í rekstraraðila.

Í öðru lagi eru ákvæði um skráningarskyldu smærri rekstraraðila, þ.e. þeirra sem hafa sérhæfða sjóði í stýringu sem eiga samtals eignir undir fjárhæðarviðmiðum. Munu þeir þurfa að skrá sig hjá Fjármálaeftirlitinu og uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur hvað varðar verðmat eigna, ársreikninga, lausafjárstýringu og upplýsingagjöf, bæði við upphaf viðskipta og reglulega til eftirlitsaðila.

Í þriðja lagi eru gerðar í frumvarpinu kröfur um skipulag rekstraraðila, stjórnun og innra eftirlit, þar á meðal ákvæði um hagsmunaárekstra, áhættustýringu, lausafjárstýringu og verðmat eigna, en einnig er kveðið á um heimildir til útvistunar verkefna og skilyrði sett fyrir útvistun.

Í fjórða lagi eru gerðar kröfur um upplýsingagjöf við upphaf viðskipta, reglubundna upplýsingagjöf til fjárfesta og reglubundin gagnaskil til Fjármálaeftirlitsins.

Í fimmta lagi er kveðið á um skyldu rekstraraðila til að skipa vörsluaðila fyrir hvern sjóð, hverjir geta gegnt hlutverki vörsluaðila og hver er ábyrgð slíkra aðila.

Þá er í sjötta lagi kveðið á um heimildir rekstraraðila með starfsleyfi til að markaðssetja fjárfestingarsjóði til almennra fjárfesta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, svo sem sérstaklega um staðfestingu Fjármálaeftirlitsins, um fjárfestingarheimildir og innlausnarskyldu. Einungis er heimilt að markaðssetja aðra sérhæfða sjóði til fagfjárfesta samkvæmt frumvarpinu.

Í sjöunda lagi er svo gert ráð fyrir því, ólíkt því sem nú gildir, að starfsleyfi sem veitt er rekstraraðila innan EES til rekstrar og markaðssetningar sérhæfðra sjóða muni gilda í öllum löndum EES að undangenginni tilkynningu til viðeigandi stjórnvalds í hverju landi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með starfsemi rekstraraðila og vörsluaðila sjóðanna. Fjármálaeftirlitið mun hafa hefðbundnar eftirlitsheimildir en þær viðurlagaheimildir sem ganga munu hvað lengst eru afturköllun starfsleyfis og álagning stjórnvaldssekta. Eftirlitsstofnun EFTA hefur enn fremur eftirlit með afmörkuðum þætti samkvæmt frumvarpinu en heimildir hennar munu takmarkast við þröng undantekningartilvik í tengslum við takmarkanir á markaðssetningu sjóða með staðfestu utan EES á íslensku yfirráðasvæði.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu munu hafa áhrif á alla sem reka sérhæfða sjóði hér á landi. Áhrifin verða þó mismikil, bæði eftir umfangi starfsemi rekstraraðila og því hvernig starfseminni hefur verið hagað hingað til. Umsvif Fjármálaeftirlitsins munu aukast og eftirlit á sjóðamarkaði færast í fastara horf. Þá verða sömu lágmarkskröfur gerðar til starfsemi starfsleyfisskyldra rekstraraðila hér á landi og gilda um starfsemi slíkra aðila innan EES. Þannig er eftirlitsaðilum innan EES, á Íslandi Fjármálaeftirlitinu, gert betur kleift að vakta kerfisáhættu og samræma viðbrögð og aðgerðir milli landa ef þarf vegna uppsafnaðrar áhættu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.