150. löggjafarþing — 37. fundur
 28. nóvember 2019.
auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:31]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert sem kom fram í máli formanns Framsóknarflokksins um síðustu helgi um auðlindir landsins. Hann talaði mjög skýrt og sagði að það hefði ekki verið tilgangur fiskveiðistjórnarkerfisins að gera örfáa ofurríka. Ég held að öllum sé ljóst að það er hluti af því vandamáli og viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir í dag. Nú stendur yfir heildarendurskoðun samkomulags formanna stjórnmálaflokkanna sem hæstv. forsætisráðherra leiðir með miklum sóma og tekur átta ár. Ég hefði sjálf viljað sjá heildarendurskoðunina klárast á þessu kjörtímabili en gott og vel, betra er að taka einhver skref en engin. Nú liggur fyrir tillaga að auðlindaákvæði sem kemur frá forsætisráðherra og er í samráðsgáttinni. Það er alveg ljóst að mínu viti að það þarf að tímabinda samninga til að tryggja varanlegt eignarhald þjóðarinnar, ekki útgerðarinnar heldur þjóðarinnar, á auðlindum sínum og síðan þarf eðlilega að koma sanngjarnt og réttlátt gjald fyrir aðgang að auðlindinni okkar.

Allir flokkar nema einn, Sjálfstæðisflokkurinn, hafa léð máls á því að tímabinda samninga og núna formaður Framsóknarflokksins, eins og ég segi, með algjörlega afgerandi hætti. Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að taka upp auðlindaákvæðið þegar það er búið að vera í samráðsgáttinni með það í hyggju að tímabinda aðganginn að auðlindinni og að sanngjarnt, eðlilegt gjald komi inn í auðlindaákvæðið.



[10:33]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og ég vil byrja á að segja það að ég fagna því sérstaklega að þingmaður segir hér um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar — ég get að sjálfsögðu skilið þau sjónarmið að hv. þingmaður vildi flýta því ferli — að einhver skref séu betri en engin því að ég er sammála því. Ég held að það skipti gríðarlegu máli að við náum einhverjum alvöruskrefum í stjórnarskrárbreytingum á þessu kjörtímabili og byggjum á þeirri vinnu sem unnin hefur verið.

Hvað varðar auðlindaákvæðið er rétt að það hefur verið í samráðsferli og það er enn verið að vinna úr þeim athugasemdum sem þar bárust. Í því ákvæði sem fór inn í samráðsgáttina, sem var að sjálfsögðu rætt í hópi formanna flokkanna áður en það fór þangað, kemur fram að enginn geti fengið náttúruauðlindir Íslands til eignar eða varanlegra afnota. Ég lít svo á að setjum við þetta ákvæði inn þá myndi það vera algerlega skýrt að enginn getur fengið nýtingarheimildir eða auðlindir til varanlegra afnota né eignar. Þannig að ég tel að það felist hreinlega í því ákvæði sem við höfum þegar kynnt. Raunar tel ég svo líka vera, þar sem við ræddum hér fiskveiðistjórnarkerfið á kjörtímabilinu 2009–2013 og þá var nú harkalega tekist á um það í þessum sal, að sú leið sem þar var lögð til hafi ekki stangast á við gildandi stjórnarskrá en þar var lögð til nýtingarleyfaleið til tiltekins tíma. Ég lít svo á og er sammála formanni Framsóknarflokksins og ég tel að við séum nú flest sammála um það að auðlindir okkar í þjóðareign verða engum afhentar til eignar eða varanlegra afnota. Það ákvæði sem við settum í samráðsgáttina feli það í sér með mjög skýrum og afgerandi hætti. (Forseti hringir.) Þar er einnig kveðið á um gjaldtöku og ég kem nánar að því í mínu seinna svari.



[10:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að sérfræðingar eru ekki endilega sammála þessari nálgun hæstv. forsætisráðherra, að það sé algjörlega óvefengjanlegt að það sé búið að tryggja tímabundið aðgang að auðlindinni þegar kemur að útgerðunum. Það skiptir máli að við tökum þetta upp og þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra, ekki síst með það í huga að fyrr á þessu kjörtímabili, bara á síðasta þingi, höfnuðu stjórnarflokkarnir allir ásamt Miðflokknum því að setja fram tímabundna samninga varðandi aðganginn að auðlindinni. Því var hafnað. Ef þetta er skilningur hæstv. forsætisráðherra, af hverju eigum við þá ekki til öryggis að setja þetta skýrt fram í stjórnarskrá? Hvort er að mati forsætisráðherra mikilvægara að tryggja rétt þjóðarinnar til að ráða raunverulega yfir auðlindum sínum og fá fyrir það eðlilegt gjald og tryggja það í stjórnarskrá eða er kannski mikilvægara fyrir forsætisráðherra að halda ríkisstjórninni saman og hafa Sjálfstæðisflokkinn góðan?



[10:37]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hvort er mikilvægara, þegar við ræðum um stjórnarskrána okkar, þröngir flokkshagsmunir eða það verkefni að skapa sem breiðasta samstöðu um raunverulegar breytingar á stjórnarskrá? Hv. þingmaður hefur oft heyrt mig tala um þessi mál og hún veit að það er afstaða mín og sýn að við öll, ekki bara ég, því að það er ekki ég ein sem breyti stjórnarskrána, það er meiri hluti Alþingis og vonandi sem stærstur meiri hluti, að við eigum að geta hafið okkur yfir þennan vettvang dagsins sem við erum hér á þegar við tölum um stjórnarskrármálefni. Af því að hv. þingmaður nefnir ákvæði sem sett var fram vil ég nefna að þar segir beinlínis: „Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota …“

Ég tel að þetta sé algjörlega skýrt en ég er reiðubúin til þess að fara yfir þetta með öllum þeim sérfræðingum sem formenn flokkanna vilja fá til að ræða túlkun þessa ákvæðis sem og hvað felst í þeirri leið sem lögð var til hvað varðar gjaldtöku (Forseti hringir.) í ákvæðinu. Við verðum líka að átta okkur á því að þegar við ræðum um ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá erum við ekki bara að tala um fisk, við erum að tala um allar auðlindir eins og hv. þingmaður þekkir, og ákvæðið þarf að rúma þær allar.