150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

[10:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að sérfræðingar eru ekki endilega sammála þessari nálgun hæstv. forsætisráðherra, að það sé algjörlega óvefengjanlegt að það sé búið að tryggja tímabundið aðgang að auðlindinni þegar kemur að útgerðunum. Það skiptir máli að við tökum þetta upp og þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra, ekki síst með það í huga að fyrr á þessu kjörtímabili, bara á síðasta þingi, höfnuðu stjórnarflokkarnir allir ásamt Miðflokknum því að setja fram tímabundna samninga varðandi aðganginn að auðlindinni. Því var hafnað. Ef þetta er skilningur hæstv. forsætisráðherra, af hverju eigum við þá ekki til öryggis að setja þetta skýrt fram í stjórnarskrá? Hvort er að mati forsætisráðherra mikilvægara að tryggja rétt þjóðarinnar til að ráða raunverulega yfir auðlindum sínum og fá fyrir það eðlilegt gjald og tryggja það í stjórnarskrá eða er kannski mikilvægara fyrir forsætisráðherra að halda ríkisstjórninni saman og hafa Sjálfstæðisflokkinn góðan?