150. löggjafarþing — 102. fundur.
vernd uppljóstrara, 3. umræða.
stjfrv., 362. mál. — Þskj. 1331, nál. m. brtt. 1367.

[17:10]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Eftir 2. umr. tókum við málið inn í nefnd aftur og fengum á fund okkar fulltrúa Amnesty International en umsögn frá þeim barst okkur á milli umræðna.

Í umsögn Amnesty International var aðallega gerð athugasemd við notkun hugtaksins „góð trú“ sem eitt skilyrði fyrir verndinni sem frumvarpið mælir fyrir um. Samtökin telja að orðalagið geti verið umdeilt og að notkun þess geti leitt til þess að sjónir beinist aðallega að hvötum uppljóstrara og ásetningi að baki uppljóstruninni í stað efnislegs inntaks upplýsinganna sem ljóstrað var upp um.

Meiri hlutinn bendir á að sambærilegar athugasemdir komu fram við meðferð málsins á fyrri stigum og hefur meiri hlutinn bent á að í hugtakinu „góð trú“ felist í meginatriðum að starfsmaður hafi haft góða ástæður til að telja þær upplýsingar sem hann miðlar sannar, en jafnframt að hann hafi talið í þágu almennings að miðla þeim og að hann hafi ekki átt annan kost til að koma í veg fyrir umrædda háttsemi. Þá bendir meiri hlutinn enn fremur á að flestar umsagnir framangreinds eðlis virðast vera til komnar vegna kafla 2.2. í greinargerð með frumvarpinu sem ráðuneytið áréttaði í umsögn sinni að væri ekki í samræmi við efnisatriði frumvarpsins og fjallað var um í fyrra nefndaráliti meiri hlutans við málið. Meiri hlutinn telur þrátt fyrir framangreint að skynsamlegt sé að taka af allan vafa og leggur því til að við 1. mgr. 1. gr. verði bætt skilgreiningu á skilyrðinu um góða trú. Þá skilgreiningu skuli jafnframt leggja til grundvallar við túlkun skilyrðisins í öðrum ákvæðum laganna.

Einnig var við meðferð málsins lagt til að hugtakið góð trú yrði fellt brott úr ákvæðum frumvarpsins og í staðinn yrði inntak þess skýrt. Meiri hlutinn leggur, líkt og áður segir, til að skýringu á inntaki hugtaksins verði bætt við lögin en telur ekki tilefni til að fella hugtakið sjálft úr lögunum. Því til stuðnings vísar meiri hlutinn til þess að skilyrðið um góða trú sé viðtekið í íslenskum rétti og er til að mynda rótgróið í gildandi ákvæðum um uppljóstraravernd á Íslandi. Meiri hlutinn telur því ekki að skilyrðið sé til þess fallið að valda vafa í dómaframkvæmd. Jafnframt gengur frumvarpið, greinargerð og skýringar við einstök ákvæði út frá því að góð trú sé skilyrði fyrir vernd en með því að fjarlægja það úr ákvæðum frumvarpsins yrði ákveðið samhengisleysi milli greinargerðar og ákvæðanna að þessu leyti.

Í umsögn Amnesty International kom jafnframt fram að rýmka þyrfti frekar skilgreiningu 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins á hugtakinu starfsmenn og lögðu samtökin til að skilgreiningunni yrði breytt á þann hátt að hún næði til einstaklinga utan hefðbundins vinnusambands starfsmanns og vinnuveitanda. Meiri hlutinn hefur tekið athugasemd samtakanna til skoðunar og bendir á að breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar í fyrra nefndaráliti tekur einnig til þeirra hópa sem samtökin telja að verndin skuli ná yfir en þar er lagt til að starfsmaður í skilningi laganna teljist sá sem hefur aðgang að upplýsingum eða gögnum um starfsemi vinnuveitanda vegna hlutverks síns, þar með talinn ráðinn, settur, skipaður, sjálfstætt starfandi verktaki, stjórnarmaður, starfsnemi, tímabundinn starfsmaður og sjálfboðaliði.

Samtökin lögðu enn fremur til að vernd samkvæmt frumvarpinu og gegn hefnd skyldi ekki takmarkast við uppljóstrara heldur ætti hún einnig að ná til annarra tengdra einstaklinga. Meiri hlutinn áréttar að vernd uppljóstrara samkvæmt frumvarpinu felur aðallega í sér að þeir beri ekki refsi- eða skaðabótaábyrgð vegna miðlunar upplýsinganna, sem og vernd gegn óréttlátri meðferð vinnuveitanda. Þá bendir meiri hlutinn á að einstaklingar sem aðstoða við uppljóstrun eða veita upplýsingar til stuðnings uppljóstrunar geta notið verndar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, að öðrum skilyrðum uppfylltum, séu þeir þátttakendur í að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum.

Að lokum bentu samtökin á að vernda beri uppljóstrara sem og ætlaða uppljóstrara auk tengdra einstaklinga fyrir hefndaraðgerðum, ógnunum, áreitni, hótunum, árásum og annars konar líkamlegum skaða. Meiri hlutinn bendir á að framangreindir verknaðir eru refsiverðir samkvæmt almennum hegningarlögum og njóta allir einstaklingar verndar gegn slíku óháð uppljóstrunum.

Í ljósi framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Með góðri trú er átt við að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar sem miðlað er réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir.

Undir þetta rita hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Páll Magnússon, Birgir Ármannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Andri Thorsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.



[17:16]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að skilja þessa breytingartillögu sem kemur fram eftir að nefndin tekur málið aftur til sín. Nú segist meiri hlutinn hafna því að taka hugtakið „góð trú“ út vegna þess að þá myndist ósamræmi á milli þess sem stendur í lagatextanum og þess sem stendur í greinargerð. Ég skil reyndar ekki alveg þá röksemdafærslu bara almennt miðað við hvernig farið er með lagafrumvörp, að löggjafinn veigri sér við að breyta ákvæðum lagafrumvarpa sem koma frá ráðuneytum vegna þess að breytingarnar gætu haft í för með sér ósamræmi við greinargerð. Mér finnst það ekki alveg fullnægjandi röksemdafærsla fyrir því að gera góða og rétta breytingu á frumvarpinu vegna þess að nefndarálit er jafn gilt greinargerð.

Hvað varðar innra samræmi langaði mig að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um það vegna þess að hér er verið að setja þrjú skilyrði fyrir því sem nefndarmenn kalla góða trú; að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost á að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir. Í fyrsta lagi held ég að þriðja skilyrðið sé þrengra en skilyrðin sem finna má í lagafrumvarpinu sjálfu, en ég velti líka fyrir mér hvort nefndin hafi skoðað innra samræmi á milli þessarar skilgreiningar á góðri trú, segja að þessi þrjú skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að um góða trú sé að ræða, en hafa svo t.d. í 2. gr. frumvarpsins um innri uppljóstrun aðra vísun í góða trú þar sem einmitt er verið að lýsa skrefunum sem uppljóstrarar þurfi að taka til þess að mega fara í ytri uppljóstrun. Var skoðað samræmið þarna á milli? Það er verið að nota hugtakið um góða trú í frekar frjálslegum skilningi í breytingartillögunni, finnst mér, og þetta virðist ekki vera í fullkomnu samræmi innbyrðis vegna þess að í 2. gr. er talað er um að miðla upplýsingum í góðri trú. Hvernig rímar þetta saman?



[17:18]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við skoðuðum málið út frá skilgreiningunni sem frumvarpið hefur að geyma sem og nefndarálitinu þar sem við vorum búin að gera ákveðnar breytingar eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi lesið sér til um. Í rauninni var eini ágreiningur innan nefndarinnar sá að einn nefndarmaður hélt því til haga að hann vildi bara taka út þessi tvö orð, góða trú, hafði ekki aðrar athugasemdir í sjálfu sér við skilgreininguna á þessu eða annað slíkt. Við fórum yfir þetta með Amnesty, við fórum yfir þetta með ráðuneytinu og vorum búin fara mjög ítarlega og vel ofan í málið í öllu þessu ferli þannig að ég deili ekki þeirri sýn hv. þingmanns um að þetta skarist eða að hér sé verið að þrengja hugtakið af því að þetta er jú það sem málið felur í sér: Ef við þurfum að uppljóstra þá höfum við góða ástæðu til að telja að gögnin séu rétt, að upplýsingarnar sem við höfum séu réttar, það er tekið hér fram, og það sé í þágu almennings að miðla þeim og við eigum ekki annan kost til að vernda almenning varðandi þau brot sem við teljum að sé hér um að ræða. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því að hv. þingmaður telji að þetta þrengi hugtakið miðað við það sem nú er og hitt sé fullfrjálslegt.



[17:20]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég á við með því að það sé verið að þrengja er að hér er verið að vísa til þess að viðkomandi þurfi að telja að það sé í þágu almennings að miðla ákveðnum upplýsingum. Í fyrsta lagi erum við farin að meta núna hug uppljóstrara gagnvart þeim uppljóstrunum sem eiga sér stað, sem er ekki markmið þessara laga. Markmið laganna er að koma upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi upp á yfirborðið. Það er hlutverk fjölmiðla að meta hvort upplýsingarnar eigi erindi. Það er hlutverk þeirra innri eftirlitsaðila sem uppljóstrarinn leitar til að meta hvort upplýsingarnar eigi rétt á sér. Það er hlutverk ytri uppljóstrunaraðila að meta það. Það að fara að setja rýni á það hver hugur uppljóstrarans er undirbýr bara jarðveginn fyrir það að þetta fari allt að snúast um hvaða forsendur uppljóstrarinn hafði fyrir því að uppljóstra, hver hugur hans var á bak við það.

Þetta er akkúrat það sem við Píratar höfum lagt áherslu á að sé áhyggjuefni. Þegar verið er að setja ásetning uppljóstrarans í forgrunn virkar sú taktík sem hefur sífellt verið notuð þegar fólk stígur það stóra og mikilvæga skref að gerast uppljóstrari, allur fókusinn fer á uppljóstrarann sjálfan og hvers konar manneskja hann sé og hvaða hugur liggi að baki uppljóstruninni hjá honum. Hér er verið að setja þrjú skilyrði um ásetning uppljóstrarans: Í fyrsta lagi að hann hafi góða ástæðu til að telja að gögnin eða upplýsingarnar sem hann miðlar séu réttar, sem mér finnst sjálfsögð og eðlileg krafa. Það hefði líka verið einfalt að setja ákvæði í lögin þar sem segði bara að þessi vernd ætti ekki við um einstaklinga sem vísvitandi miðla röngum upplýsingum. Þá væri það þar með afgreitt. En nei, til viðbótar vilja nefndarmenn setja þá kröfu að uppljóstrari meti hvort upplýsingarnar eigi erindi til almennings og hvort hann viti hvaða leiðir hann hafi til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir. (Forseti hringir.) Ef við skoðum 2. gr. þá virkar það ekkert rosalega vel því hvernig á hann að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir áður en hann fer í innri uppljóstrun?



[17:22]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Við deilum augljóslega ekki sýn á framsetningu þessa efnis. Ég get hins vegar tekið undir það að því miður hefur þetta verið þannig. Ég veit svo sem ekki hvort það myndi breytast þó við tækjum góða trú út úr frumvarpinu eins og þingmaður Pírata í nefndinni óskaði eftir, að þá færi fókusinn af uppljóstraranum þegar kemur að almenningi eða þeim fyrirtækjum sem við á. Ég deili þeirri skoðun að því miður er það allt of oft raunin að athyglin hefur beinst of mikið að þeim sem stígur fram og miðlar upplýsingum. Ég deili hins vegar ekki þeirri skoðun að þetta geri viðkomandi erfitt fyrir af því að ég tel að sá sem þarf að miðla slíkum upplýsingum og gerast uppljóstrari einhverra hluta vegna sé búinn að eiga það við sig ansi lengi og stígi ekki fram bara af því bara. Hann sé með upplýsingar sem hann telji að hann geti ekki með öðru móti komið fram til að stöðva háttsemi þess sem hann er að ljóstra upp um.

Ég tel að þetta snúi ekki að því að meta hug uppljóstrara eins og hér er verið að segja að sé fyrst og fremst undir. Það er alltaf þannig, hver svo sem á í hlut, að við tökum svona skref væntanlega ekki nema hafa til þess góðar og gildar ástæður. Og ég lít ekki svo á að þeir sem fá svo málið í fangið, yfirvöld og dómarar og aðrir slíkir, komi til með að horfa fyrst og fremst á það hvort einhver annarlegur tilgangur búi að baki hjá viðkomandi því að það lægi væntanlega fyrir mjög fljótt ef svo væri. Þannig að ég held að við höfum búið ágætlega um málið og vona að það fái góða afgreiðslu á eftir.



[17:24]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um vernd uppljóstrara. Það er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni að frumvarpið sé komið jafnlangt og raun ber vitni í þinginu. Það hefur lengi legið fyrir að Ísland skorti almennilega vernd uppljóstrara og að gera þurfi gangskör í að koma því í kring. Af þeim sökum er vert að lýsa yfir ánægju með að frumvarpið sé hingað komið. Ég verð hins vegar að segja að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með vinnu nefndarinnar milli 2. og 3. umr. vegna þess að mér finnst málið verr statt nú en það var áður en það var tekið inn í nefndina til að ræða við Amnesty International, sem hafði láðst að senda umsagnarbeiðni.

Ég verð að segja að mér þykir það miður vegna þess að mér fundust ábendingarnar sem komu frá Amnesty International, sem voru einmitt að taka út hugtakið „í góðri trú“ vera fullkomlega réttmætar og algerlega í takt við tilskipun Evrópusambandsins og ráðsins um vernd uppljóstrara, og sömuleiðis við tilmæli Evrópuráðsins um vernd uppljóstrara. En að einblína svona á ásetning uppljóstrarans sjálfs er engum til gagns og uppljóstraranum sjálfum bara til trafala. Skilyrðin í frumvarpinu eru nú þegar mjög skýr, hvað þarf til, hvað má. Mér þykja þau nú þegar of ströng, hvenær starfsmaður, eins og hann er skilgreindur í frumvarpinu, má uppljóstra. Í frumvarpinu eru nú þegar þrengri skilyrði en hjá Evrópusambandinu gagnvart því hvenær uppljóstrarar mega uppljóstra. Þau skilyrði eru nokkuð skýr í frumvarpinu nú þegar. Fram kemur í 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu er starfsmanni sem býr yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitanda hans heimilt að miðla slíkum upplýsingum og gögnum í góðri trú til aðila sem stuðlað getur að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi.“

Farið er yfir það hvernig svona miðlun getur átt sér stað. Síðan er farið yfir hvenær má fara í ytri uppljóstrun og eru skilyrði fyrir því.

En nú ætlar hv. allsherjar- og menntamálanefnd að bæta við skilyrði um að starfsmaður þurfi að hafa haft góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar sem miðlað er réttar, sem ég get alveg tekið undir að sé réttmætt sjónarmið. En ég hefði viljað sjá það afgreitt með allt öðrum hætti, eins og ég kom inn á í andsvari við hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur rétt áðan og mun koma að aftur á eftir. En hér er verið að bæta inn skilyrði um að það sé í þágu almennings að miðla þeim og að viðkomandi eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir.

Í 2. gr., sem ég vísaði í rétt áðan, eiga uppljóstrarar að miðla upplýsingum og gögnum í góðri trú til aðila sem stuðlað getur að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi. Þannig er verið að biðja uppljóstrarann um að ganga fyrst úr skugga um að hann eigi ekki annan kost en þennan til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir. Það er góða trúin sem sett er sem skilyrði fyrir því að hann leiti til aðila sem stöðvað getur þá háttsemi sem um ræðir. Í því er þversögn, hrein og klár þversögn, sem sýnir að viðbrögð meiri hluta nefndarinnar voru ekki nægilega úthugsuð. Hún hefði mátt taka sér meiri tíma í að ígrunda hvaða áhrif það hefur á aðrar greinar frumvarpsins að bæta inn lögformlegu skilyrði um góða trú, sem setur þrjú skilyrði fyrir því hvað það þýðir að vera í góðri trú. Því miður er misræmi í þessum ákvæðum, virðulegi forseti, og mér þætti góður bragur á því ef nefndin tæki það til endurskoðunar.

Ég endurtek: Starfsmaður á að fara í góðri trú til einhvers sem brugðist getur við því sem viðkomandi kallar refsiverða eða ámælisverða háttsemi, en fyrst á hann að vera búinn að útkljá alla möguleika sem yfirmaðurinn, sem hann á að leita til, á í raun að útkljá fyrir hann.

Herra forseti. Það er ósamræmi. Og það er ekki rétt að setja þrjú skilyrði fyrir góðri trú. Ef nefndarmönnum er svo mikið í mun að halda góðri trú þarna inni vegna einhvers innbyrðis samræmis við greinargerð, sem ég vil endurtaka að mér þykja ekki góð rök sem fastanefnd Alþingis beiti fyrir sig, vegna þess að hún vill ekki bregðast við ítrekuðum ábendingum umsagnararaðila um að hugtakið góð trú sé bara ekki gott, og að það stangist á við greinargerð að breyta því. Ég velti fyrir mér hvert hlutverk löggjafans sé í því samhengi og umsagnaferli og öðru ef það er bara löggild afsökun að það sé óþægilegt upp á samræmi við greinargerð að breyta göllum í löggjöf sem kemur frá ráðuneytum. Mér finnst það skrýtin sýn á löggjafarhlutverkið og það hlutverk sem nefndir eiga að gegna við að betrumbæta málin sem fram koma. Það er eini tilgangurinn með meðferð svona mála. Það er ástæða fyrir því að það var risaslagur um hugtakið góða trú hjá Evrópusambandinu þegar verið var að semja tilskipunina þar vegna þess að fókusinn á ekki að vera á hvatir uppljóstrarans, hann á bara ekki að vera þar.

Í stað skilgreiningar á góða trú, sem ég held í fyrsta lagi að haldi engu vatni, sé ekki í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins, sé mótsagnakennt, hefði ég viljað sjá ákvæði um að lög þessi eða vernd þessi nái ekki til aðila sem vísvitandi miðla röngum upplýsingum. Þar með er náð utan um þessa vondu aðila sem meiri hluti nefndarinnar virðist hafa svo miklar áhyggjur af að séu í hefndarhug að miðla röngum eða villandi upplýsingum um vinnuveitendur sína. Þá þyrftum við ekki að vera hér að rökræða um hvað góð trú þýðir og við þyrftum ekki að setja þær þrjár grundvallarskyldur á uppljóstrara, að þeir íhugi fyrst hvort upplýsingarnar séu í þágu almennings og hvaða kosti viðkomandi hafi til að koma í veg fyrir þau brot eða háttsemi sem um ræðir.

Það er mér huggun harmi gegn, virðulegi forseti, að tilskipun Evrópusambandsins, sem er langtum umfangsmeiri, veitir betri vernd og stendur betur með uppljóstrurum en þetta frumvarp og mun koma til framkvæmda hér á einhverjum tímapunkti, vonandi fyrr en síðar. Það breytir því ekki að hugtakið góð trú, eins og það er skilgreint af nefndinni, finnst mér ekki standast skoðun og er til þess fallið að veikja vernd uppljóstrara og letja uppljóstrara til að stíga fram vegna þess að þeir þurfa að skilja og vita hvað sé í þágu almennings að miðla og hvað ekki. Það er skilyrði fyrir því að fara í innri uppljóstrun, að fara til næsta yfirmanns og segja: Samstarfsfélagar mínir eru, að ég tel, að brjóta lög. Samkvæmt 2. gr. þarf uppljóstrarinn að telja gögnin eða upplýsingar réttar. Hann þarf að telja það í þágu almennings að miðla þeim og hann má ekki telja neinn annan kost vera til staðar til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir áður en hann leitar til þess sem frumvarpið kallar hans næsta yfirmann og er móttakandi upplýsinganna eða gagnanna og þeim er skylt að stuðla að því að látið verði af hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða brugðist verði við á annan hátt við henni. Hvernig gengur þetta upp, virðulegi forseti? Það gerir það bara ekki.

Ég veit ekki hvað ég þarf að endurtaka það oft í þessum ræðustól. Ég tel mig hafa komið því skilmerkilega til skila að hér er innri mótsögn í nýrri breytingartillögu meiri hluta allsherjar- menntamálanefndar og í frumvarpinu sjálfu. Verði þetta að lögum er uppljóstrurum þannig séð gert lagalega, alla vega lagatæknilega, ómögulegt að leita til næsta yfirmanns vegna þess að hann uppfyllir ekki skilgreiningu meiri hlutans á góðri trú.

Það er klaufalegt, það verður að segjast.

En nú er vernd uppljóstrara að minnsta kosti komin inn. Ég vona, virðulegi forseti, að dómstólar landsins fari ekki að gera ásetning uppljóstrara að höfuðatriði, þrátt fyrir að frumvarpshöfundar og nefndarmenn meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar geri það að miklu aðalatriði. Það hlýtur að vera eðli upplýsinganna sem skiptir máli, eðli brotanna sem verið er að upplýsa um, enda stendur í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni.“

Hér eru ótal hindranir settar í götu þeirra sem vilja stíga fram, þar á meðal einhvers konar skilyrði um að uppljóstrarar verði fyrst að tryggja að þeir hafi enga aðra leið til að stoppa lögbrot áður en þeir leita til yfirmanna sem eiga að stoppa lögbrotin. Það nær ekki nokkurri átt. Þótt hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætli sér líklega ekki að bregðast við þessum ábendingum mínum núna áttar hún sig vonandi á mistökunum þegar fram líða stundir og lagfærir frumvarpið þar með. Þá er líka hægt að leggja fram nýtt frumvarp með nýrri greinargerð sem getur verið í fullkomnu samræmi við það að hafa enga góða trú þarna inni. Þá hljóta allir að verða sáttir.