150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[17:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að skilja þessa breytingartillögu sem kemur fram eftir að nefndin tekur málið aftur til sín. Nú segist meiri hlutinn hafna því að taka hugtakið „góð trú“ út vegna þess að þá myndist ósamræmi á milli þess sem stendur í lagatextanum og þess sem stendur í greinargerð. Ég skil reyndar ekki alveg þá röksemdafærslu bara almennt miðað við hvernig farið er með lagafrumvörp, að löggjafinn veigri sér við að breyta ákvæðum lagafrumvarpa sem koma frá ráðuneytum vegna þess að breytingarnar gætu haft í för með sér ósamræmi við greinargerð. Mér finnst það ekki alveg fullnægjandi röksemdafærsla fyrir því að gera góða og rétta breytingu á frumvarpinu vegna þess að nefndarálit er jafn gilt greinargerð.

Hvað varðar innra samræmi langaði mig að spyrja hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur um það vegna þess að hér er verið að setja þrjú skilyrði fyrir því sem nefndarmenn kalla góða trú; að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost á að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir. Í fyrsta lagi held ég að þriðja skilyrðið sé þrengra en skilyrðin sem finna má í lagafrumvarpinu sjálfu, en ég velti líka fyrir mér hvort nefndin hafi skoðað innra samræmi á milli þessarar skilgreiningar á góðri trú, segja að þessi þrjú skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að um góða trú sé að ræða, en hafa svo t.d. í 2. gr. frumvarpsins um innri uppljóstrun aðra vísun í góða trú þar sem einmitt er verið að lýsa skrefunum sem uppljóstrarar þurfi að taka til þess að mega fara í ytri uppljóstrun. Var skoðað samræmið þarna á milli? Það er verið að nota hugtakið um góða trú í frekar frjálslegum skilningi í breytingartillögunni, finnst mér, og þetta virðist ekki vera í fullkomnu samræmi innbyrðis vegna þess að í 2. gr. er talað er um að miðla upplýsingum í góðri trú. Hvernig rímar þetta saman?