150. löggjafarþing — 106. fundur
 20. maí 2020.
grásleppuveiði og strandveiðar.

[15:30]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Byggðir landsins hafa orðið fyrir miklu fjárhagshöggi vegna Covid, ferðamennirnir koma ekki. Mig langar því annars vegar til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um stöðu smábátasjómanna, um stöðu sjávarbyggða, sem geta ekki tekið þátt í grásleppuveiðunum, og hins vegar um strandveiðarnar. Ráðherra vill meina að þetta sé allt saman misskilningur en smábátasjómenn, margir hverjir, benda á að það séu færri þorskígildi sem þeir geta veitt núna. Í besta falli er um að ræða óbreytt ástand, en margir vilja meina að þetta sé verra en í fyrra. Ráðherra hefur síðan varðandi grásleppuna leyft aðila á einu svæði að fara af stað og fara umfram það sem Hafrannsóknastofnun hefur sagt að sé sjálfbært. Þetta væri hægt annars staðar líka ef pólitískur vilji væri fyrir því.

Ráðherra hefur í aðgerðapakka sínum við Covid, sem hann auglýsti 27. mars, gefið aukið svigrúm til að flytja aflaheimildir milli ára. Það væri mögulegt með strandveiðarnar, færa það á þetta ár sem ekki var veitt í fyrra. Ráðherra hefur sagt, á fundum sem hann kom á fyrir atvinnuveganefnd síðast, að hann hafi ekki lagaheimild til að gera það. Hann getur fengið lagaheimild hér á Alþingi til að gera það, að færa þau 12–14% sem voru ekki veidd í fyrra í strandveiðunum yfir á þetta ár og gefa þannig í. Við sjáum að byggðir landsins verða fyrir virkilega alvarlegu höggi vegna Covid og nú kemur annað högg vegna þess að grásleppuveiðum er það illa stjórnað að fullt af aðilum sem ætluðu að fara að veiða er bannað að fara að veiða. Þetta væri hægt að laga og ráðherra hefur heimild til þess í stað þess að fara niður eða halda sjó varðandi strandveiðarnar. Ráðherra getur komið hingað og sótt sér lagaheimild til að færa það sem ekki var veitt á síðasta ári yfir á þetta ár, sem er sjálfbær nálgun. Ráðherra ætlar að færa 25% af því sem stóru útgerðirnar eru ekki að veiða í ár fram á næsta ár, og það þýðir fram í september út af því að þá hefst næsta fiskveiðiár. (Forseti hringir.) Ráðherra hefur tækifæri til að gefa í fyrir byggðir landsins vegna Covid, fyrir smærri aðilana. Hvað ætlar hann að gera í þessu?



[15:33]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er í henni ákveðinn misskilningur. 25% er ekkert nýtt. Það er 15% heimild í núgildandi regluverki til yfirfærslu milli ára. Það er ekki færsla sem gagnast stórútgerðinni sérstaklega. (Gripið fram í.) Þetta kemur minni útgerðum í aflamarkskerfi best, þeim sem byrja venjulega veiðar á vorin og eru að veiða mest fyrir ferskfiskmarkaði og hafa sótt inn á þá markaði og lenda í vandræðum vegna erfiðleika á markaði. Þetta gagnast þeim best en ekki endilega þessu „hræðilega fyrirbæri“, stórútgerðinni, eins og sumir vilja meina.

Fiskveiðistjórn á grásleppu er eins og hún er. Við erum að stjórna þessu með sóknarmarki, það eru dagar og það er ákveðin ráðgjöf. Já, þetta kemur vissulega illa við þá sem voru annaðhvort tiltölulega nýbyrjaðir eða ekki byrjaðir. Verst fóru svæði við Breiðafjörðinn út úr þessu vegna þess að þeim var meinað að byrja að veiða fyrr en eftir 20. maí. Aðrir á grásleppuleyfum máttu byrja að veiða 10. mars og það var enginn sem ákvað það nema þeir sjálfir hvenær þeir byrjuðu. Við erum vissulega að teygja aðeins á ráðgjöfinni en það er til þess að mæta þeim aðilum sem höfðu ekki neina kosti fyrr en eftir 20. maí.

Varðandi strandveiðarnar og yfirfærslu er það miklu flóknara mál en svo að færa milli ára með einfaldri lagabreytingu. Þá verðum við einfaldlega að færa alla löggjöfina um 5,3% byggðapottana í einhvern allt annan búning en er í dag. Það er viðameira verkefni en svo að það gerist bara á nokkrum dögum að færa þarna á milli. Meðan engin breyting verður á fyrirkomulagi byggðapottana og aflamarkskerfisins, við erum með 5,3% af öllum veiðiheimildum í pottinum og þeim er öllum úthlutað upp á hvern einasta ugga, er svigrúm ráðherrans eða stjórnvalda hverju sinni til þess að mæta áföllum ekkert. Þingið er búið að eyða því öllu.



[15:35]
Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ráðherrann getur leitað liðsinnis Alþingis til að fá lagaheimild til að gera það. Nú eru tveir mánuðir síðan ráðherra kom með tillögur sem gagnast þeim sem eru í kvótakerfinu, þ.e. 27. mars, að yfirfæra kvóta á milli ára. Já, það er rétt að það gagnast líka smærri aðilum en þeir sem eru í strandveiðikerfinu og þeir sem eru á grásleppuveiðum fá þetta ekki. Ég spyr: Ætlar ráðherra ekkert að gera fyrir þá, fyrir utan þennan eina aðila sem gat ekki byrjað að veiða? Hvað með alla hina sem voru ekki byrjaðir að veiða? Það var ekki vel haldið utan um þetta. Ég skal segja hvað ég les út úr þessu. Það sem ég les út úr þessu er að þeir sem ætla að vera fyrir utan kvótakerfið lenda bara svolítið illa í því. Svo á að koma nýtt strandveiðifrumvarp. Ætlar ráðherra í alvörunni ekkert að gera fyrir þá? Ætlar hann bara að bíða þangað til nýtt strandveiðifrumvarp kemur? Á ekkert að gera núna? Ætlar hann bara að bíða þangað til að hann kvótasetur grásleppu? Á ekkert að gera neitt núna fyrir þau byggðarlög sem verða fyrir mjög þungu höggi í kjölfar Covid (Forseti hringir.) þegar ekki skila sér aukin verðmæti eða jafnvel minni verðmæti inn í þau byggðarlög? Ráðherra getur gert það núna. Hann getur beðið þingið um það.



[15:36]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem hægt er að gera var gert í fyrra. Ég vil undirstrika að það er engin efnisbreyting á úthlutun veiðiheimilda til strandveiða á milli fiskveiðiársins núna og í fyrra, engin. Það eru nákvæmlega sömu heimildir í reglugerðinni í ár og var í fyrra (Gripið fram í.) — nei, nei, það er bara nákvæmlega það sama, 11.100 tonn, það er bara þannig. Heimild ráðherra til að bæta í þetta er engin. Ráðuneytið hefur fundað tvisvar með forsvarsmönnum Landssambands smábátaeigenda og kallað eftir hugmyndum þeirra um breytingar á því hvernig við getum skipulagt veiðarnar. (Gripið fram í.) Lagaheimild til að gera hvað, taka afla sem ekki er til ráðstöfunar? (Forseti hringir.) Ég bendi hv. þingmanni á það, virðulegur forseti, að lögin eru búin að úthluta öllum veiðiheimildum, samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, fyrir þetta ár þannig að það er ekki af neinu að taka nema einhverjum væntum aflaheimildum í framtíðinni. Ég er ekki þannig vaxinn að ég sé spámaður í þeim efnum. Það er Hafrannsóknastofnun sem við styðjumst við í því.