150. löggjafarþing — 107. fundur.
öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.
fsp. GBr, 656. mál. — Þskj. 1116.

[20:09]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara í kvöld. Jarðgöng eru nú orðin líklega tíu talsins á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, og spanna tæplega 60 km af þjóðvegakerfi okkar. Þau eru frá ýmsum tíma. Elstu göngin teljast vera Arnarnesgöngin í Álftafirði, milli Súðavíkur og Ísafjarðar, sem mér eru langkærust. Það er alltaf fallegt að koma að göngunum og sjá ljósið hinum megin um leið. Þau eru 30 m löng og tekin í notkun árið 1948. Göngin voru ekki óumdeilt mannvirki frekar en ýmis önnur mannanna verk en þau kostuðu á þeim tíma 750.000 kr. Menn tókust svolítið á um hvort ekki ætti að laga vegina sem voru illa á sig komnir þá eins og víða enn á Vestfjörðum.

Ég vil nota þetta tækifæri og nefna að fyrir þinginu liggur tillaga um að undirbúa ný göng sem tryggi öruggar samgöngur milli staðanna því að leiðin um Súðavíkurhlíð er stórhættuleg og lokast oft vegna snjóa og grjóthruns. Þokast hefur í áttina í vegabótum á Vestfjörðum en margt er enn ógert þar. Það stendur þó til bóta. Landsmenn allir og stjórnvöld gera stöðugt meiri kröfur um þægindi í akstri, styttingu á leiðum og um leið öryggi á ferðum sínum.

Nýjustu göngin eru Vaðlaheiðargöng, tekin í notkun í janúar 2019, og í haust verða væntanlega Dýrafjarðargöng tekin í notkun. Og við viljum auðvitað fá fleiri göng undir vestfirsku Alpana. Á ferðum okkar um landið verðum við vegfarendur þess áskynja að aðstæður eru æðimisjafnar í jarðgöngunum, bæði merkingar, lýsingar og ýmis öryggisbúnaður, t.d. slökkvitæki og neyðarsímar, þótt allt virðist þetta vera til staðar, sérstaklega í nýju göngunum.

Það sem vekur furðu er að æðimisjafnt er hvort símasamband, netsamband, sé í göngum á Íslandi eða að útvarpssendingar náist. Það hlýtur að teljast hluti af öryggiskerfinu í umferðinni. Það þykir sjálfsagt mál að í fjölförnum göngum sé það í lagi og til reiðu sem þarna er. Ég nefni Hvalfjarðargöng. En það er ekki síður mikilvægt að þessi atriði séu til staðar í göngunum þar sem minni umferð er og kannski getur liðið langur tími þar til að aðstoð berst ef svo ber undir. Það er skortur á þessu í göngunum fyrir vestan, og austan að einhverju leyti. Í Bolungarvíkurgöngum næst sími en ekki útvarp. Þetta eru 5.200 m löng göng, og sama er að segja um lengstu samfelldu jarðgöngin á Íslandi undir Breiðadalsheiði og Botnsheiði, sem eru samtals tæpir 10.000 m.

Ég spyr hæstv. ráðherra fjögurra spurninga: Hvernig eru veigamestu þættir öryggismála í jarðgöngum hér á landi skilgreindir? Eru öryggismál, öryggiseftirlit og umferðarþjónusta í jarðgöngum samræmd? Hvernig eru aðstæður með tilliti til öryggismála í hverjum og einum jarðgöngum hér á landi? Og í fjórða lagi: Hyggst ráðherra vinna skipulega að úrbótum ef misræmi reynist vera á milli jarðganga hvað varðar mikilvæga öryggisþætti?



[20:13]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Veigamestu þættir öryggismála eru þó nokkrir og skilgreindir. Í fyrsta lagi er hönnun veglínu og þversniðs, t.d. hvort þar séu krappar beygjur, hvort þau séu einbreið. Í öðru lagi, hvers konar umferð er um göngin. Sem dæmi má nefna hvort heimilt sé að flytja um þau hættuleg efni, sem við ræddum hér fyrr í dag, hvort þau séu gerð fyrir umferð gangandi og hjólandi fólks. Í þriðja lagi lýsing í göngum og loftræsting sem og merkingar. Í því sambandi mætti nefna hvort í þeim sé díóðulýsing sem leiðbeinir um flóttaleiðir beri hættu að. Í fjórða lagi mætti nefna fjarskipti í göngum. Sem dæmi hvort GSM-símar virki þar, hvort þar sé Tetra-samband, hvort þar séu hátalarar, hvort sendingar útvarps náist o.fl. Í fimmta lagi mætti nefna hvort til séu viðbragðsáætlanir, komi til þess að rýma þurfi göngin eða slökkva þar eld. Í sjötta lagi er vöktun ganga frá vaktstöð mjög mikilvæg. Með vaktstöð má fylgjast með aðstæðum í göngum, svo sem mengun og hvort búnaður þeirra sé í lagi að öðru leyti.

Varðandi það hvort þessi mál séu samræmd er búnaður í göngum á Íslandi samræmdur. Eftirlit með því hvort hann sé í lagi fer m.a. fram í vaktstöð Vegagerðarinnar í samræmdu vaktkerfi jarðganga. Almannaskarðsgöng eru ekki enn tengd vaktkerfi. Hvalfjarðargöng eru ekki inni í sama vaktkerfi og önnur göng. Með þeim er fylgst í öðru sambærilegu vaktkerfi. Vaktstöðvar fylgjast m.a. með mengun í göngum og geta stjórnað loftræstingu og lokað göngum ef þarf. Vaktstöðvar hafa einnig mikilvægt hlutverk við að upplýsa slökkvilið og lögreglu um ástand ganga í slysatilfellum.

Varðandi aðstæður með tilliti til öryggismála í hverjum og einum jarðgöngum vísa ég til upplýsinga sem við höfum fengið frá Vegagerðinni. Hvalfjarðargöng eru á samevrópska vegakerfinu og uppfylla öryggisreglur. Göng undir Breiðadals- og Botnsheiði eru orðin 24 ára gömul. Þau eru ein lengstu göng landsins, 9,1 km, og búnaður í þeim hefur verið endurbættur mikið. Ekki er aðkallandi að bæta hann frekar. Bolungarvíkurgöng voru opnuð 2010 og eru sögð í góðu lagi. Í Arnardalshamarsgöngum, elstu göngum landsins, er ekki talin þörf á neinum búnaði. Strákagöng voru opnuð 1967, þau voru endurbætt 1991, búnaður hefur verið endurbætur á síðustu árum. Áætlað er að endurbótum verði lokið í sumar. Héðinsfjarðargöng voru opnuð 2010 og eru í góðu lagi, er sagt í upplýsingum um þau. Múlagöng eru frá 1990, einbreið. Búnaður ganganna hefur verið endurbættur mikið, þau uppfylla nú öryggiskröfur. Umferð er orðin nokkuð mikil og umferðartafir nokkuð tíðar. Skoða þarf viðbrögð ef umferð heldur áfram að aukast. Vaðlaheiðargöng voru opnuð í desember 2018. Þau eru á samevrópska vegakerfinu og uppfylla kröfur þess. Neyðarsímar eru þó aðeins á 250 m bili en eiga strangt til tekið að vera á 150 m bili. Á ýmsum sviðum er búnaður ganganna hins vegar umfram kröfur. Norðfjarðargöng voru opnuð 2017 og eru ný og talin í góðu lagi. Fáskrúðsfjarðargöng voru opnuð 1995 og eru á samevrópska vegakerfinu. Þau hafa verið endurbætt til að uppfylla kröfur um öryggi. Það gera þau nema að einu leyti, það vantar rýmingarlýsingu nærri akbraut. Vilji er til að setja kantljós eins og eru í Norðfjarðargöngum. Almannaskarðsgöng, sem voru opnuð 1995, eru á samevrópska vegakerfinu. Þau hafa ekki verið endurbætt neitt sem heitir, en á næsta ári er á áætlun að fjölga símum og tengja göngin við vaktkerfi jarðganga. Rýmingarlýsingu vantar.

Síðan er spurt hvort ráðherra hyggist vinna skipulega að úrbótum ef þörf reynist, en almennt er samræming á mikilvægum öryggisþáttum í jarðgöngum á Íslandi góð. Þó er mikilvægt að hafa í huga að göngin eru mjög mismunandi að gerð. Nefna má þætti eins og breidd, lengd, aldur, augljóslega, og umferð. Kröfur til þeirra eru því eðlilega mismunandi. Kröfur til hönnunar jarðganga breytast með tímanum. Það á einnig við um kröfur til öryggis. Mjög erfitt getur reynst að verða við öllum nýjum og uppfærðum kröfum í mörgum eldri göngum sem hönnuð voru eftir stöðlum á byggingartíma. Ávallt er stefnt að því að öryggi í göngum á Íslandi sé eins gott og unnt er og að öryggisþættir í þeim fylgi bæði stöðlum og aðstæðum á hverjum stað. Ég vísa bara til upptalningarinnar á göngunum og hvað hefur verið unnið þar á síðustu misserum.



[20:17]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um öryggismál og umferðarþjónustu í jarðgöngum. Mér finnst mjög mikilvægt að heyra að reglulega sé unnið að endurnýjun og úrbótum á þeim vettvangi. Ég hef samt þá tilfinningu að brunavarnir, viðbragðsáætlanir og samhæfing við heimamenn sé nokkuð misjöfn eftir svæðum. Það merki ég af því sem ég þekki til, annars vegar á Austurlandi og hins vegar á Norðurlandi. Ekki virðist t.d. vera sami háttur hafður á um samstarf milli slökkviliðs og Vegagerðar þegar kemur að jarðgöngum og vil ég hvetja til þess að það verði samræmt. Svo finnst mér mjög mikilvægt að nefna að við fyrir austan getum líka tekið við fleiri jarðgöngum í austfirsku Alpana.



[20:19]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er stuttur tími sem maður hefur hér, það er svipað og að fara í gegnum Arnarneshamarinn. Ég hvet hv. þm. Guðjón Brjánsson til að koma oftar til Bolungarvíkur því að þá getur hann hlustað á útvarpið þar. Hvað varðar símamálin er síminn í Vestfjarðagöngunum bara fyrir þá sem eru þjónustuþegar Símans, ekki t.d. Vodafone. Það þarf kannski að samræma. En það skiptir virkilega máli að samvinna Vegagerðarinnar og sveitarfélaga sé höfð að leiðarljósi vegna öryggisatriða sem snerta t.d. brunavarnir. Hvert sveitarfélag ber ábyrgð á sínu slökkviliði og þá samvinnu þarf að samræma um landið. Ég er alveg sammála því. En mikilvægt er að öryggisáætlun fyrir hver göng sé góð og þar þyrfti að vera samræmi. En auðvitað er það erfitt vegna þess að göngin um landið eru misgömul, eins og komið hefur fram, og öryggisatriði eru misjafnlega uppfyllt. Ég vildi vekja athygli á að í nýjustu göngunum eru neyðarrými sem eru mjög mikilvæg fyrir fólk sem lendir í erfiðum aðstæðum.



[20:20]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með mælendaskrána og sjá að samgöngumál eru kvennamál. Það er grunnurinn að þessu öllu saman, til að tengja samfélögin. Takk fyrir að vekja máls á þessu máli, hv. þingmaður. En það hríslaðist líka um mig gleðihrollur þegar ráðherra taldi upp öll göngin sem komin eru, en það skerpir bara á þeirri hugsun okkar að við viljum meira, við viljum fleiri göng. Við þurfum fleiri göng og við fyrir austan og norðan getum alveg tekið við fleiri göngum líkt og Vestfirðingar. Með hverjum göngum erum við að auka öryggi okkar. Vegfarendur eru miklu öruggari eftir því sem við fáum fleiri göng og öll vinna við göng og vegi er unnin með öryggissjónarmið að leiðarljósi, og er það vel. Ég vil þakka fyrir þessa góðu umræðu og hvetja okkur áfram í því að byggja fleiri göng.



[20:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka þátt í gangaumræðunni af því að göng skipta gífurlegu máli hvað varðar búsetu. Oft eru það konur sem ráða búsetu fjölskyldunnar og skipta jarðgöng þar öllu máli. Það skiptir máli að hafa góðar samgöngur. Það þekki ég frá Vestfjörðum. Ég vil aðeins minnast á öryggismál í jarðgöngum eins og Vestfjarðagöngum, sem eru rúmir 9 km að lengd. Þar af eru 7 km einbreið göng sem eru stórhættuleg. Ég hef sjálf upplifað það í bílslysi og vil ekki sjá fleiri slík. Eftir að Dýrafjarðargöngin eru komin og hringvegurinn opnast á þessi einbreiði kafli í Vestfjarðagöngunum eftir að verða mikil slysagildra. Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa til þess í vinnu sinni, og þarf að koma því inn í samgönguáætlun hvað varðar þau einbreiðu göng sem eftir eru í landinu, eins og fyrir vestan, Múlagöng o.fl., að það verður að finna lausnir á því að hægt sé að aka í báðar áttir.



[20:23]
Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni af víðsýni og frjóum hug. Álitaefnin eru mörg og sú tilfinning situr eftir að kannski séu veikir hlekkir varðandi öryggisþætti í göngunum og að skerpa þurfi á þeim. Eins og ég nefndi áðan er ekki síður mikilvægt að þessi atriði séu í góðu lagi í þeim göngum þar sem minni umferð er, en það er mikil umferð um öll þau tíu göng sem við fjöllum hér um. Í minni göngunum er 700–1.000 bíla umferð á sólarhring og þaðan af meiri í Hvalfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum; 7.000, 8.000 eða 9.000 bílar fara um Hvalfjarðargöng á hverjum sólarhring og kannski 5.000 um Vaðlaheiðargöng.

En fólk getur orðið innlyksa í göngum og er þá mikilvægt að geta komið útvarpssendingum til fólks. Ég spyr ráðherra: Er unnið að því að samræma þetta með þeim hætti að hægt verði að ná útvarpi í öllum göngum á Íslandi þannig að þetta verði með kurt og pí? Getur hæstv. ráðherra svarað því hvert kostnaðarumfangið er? Hvað kostar að gera þessar úrbætur? Og í blálokin, á rauðu ljósi, getur ráðherra tæpt á því hvenær farið er að tala um tvíbreið göng? Hvað þarf umferðin að vera mikil? Hver eru öryggismörkin? Hvað segja nágrannaþjóðirnar, við hvað miða þær í þessum efnum?



[20:25]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu um jarðgöng og öryggismál þar. Ég vil bara ítreka í mínum lokaorðum að eins og kemur fram í upptalningunni er það mat manna að ástandið sé nokkuð gott og stöðugt sé verið í endurbótum. Ég þekki ekki svar við spurningu hv. þingmanns, um hvaða fjármuni þyrfti til að allt væri tipp topp, enda kannski ósanngjörn krafa þegar við vitum að umrædd göng eru byggð á mjög mismunandi tímum, og kröfur eru mismunandi á hverjum tíma. Við setjum hins vegar einhverjar lágmarkskröfur sem verða alltaf að gilda og þær eru samræmdar og það er það sem menn hafa verið að vinna eftir, að uppfæra þessi göng til að ná því. En það verður auðvitað ekki hægt í sumum göngum að ná þeim hámarkskröfum sem við gerum eðlilega til nýjustu ganganna.

Ég nefndi í svari mínu að nokkur göng uppfylltu svokallaðar samevrópskar kröfur. Ég ætla að útskýra það aðeins nánar. Samevrópskar reglur um jarðgöng gilda um svokallaða TEN-T vegi, sem er aðallega Hringvegurinn hér á landi. Nýjustu göngin, Norðfjarðargöngin, uppfylla samevrópskar kröfur en til að mynda ekki Héðinsfjarðargöng. Norðfjarðargöngin eru ekki á TEN-T vegi og ekki heldur Héðinsfjarðargöng. Það er fyrst og fremst Hringvegurinn, það eru gerðar sérstakar kröfur um hann. Í Héðinsfjarðargöngum vantar til að mynda rýmingarlýsingu eins og ég nefndi, en þau eru líka orðin það gömul að þau þurfa ekki að uppfylla núverandi kröfur, þær eru ekki afturvirkar. Hins vegar eru núgildandi kröfur notaðar til hliðsjónar til að tryggja lágmarksöryggi úti um allt og ásættanlegt öryggi. Það er það sem Vegagerðin vinnur eftir og matið er að þannig sé staðan í dag. En alltaf er hægt að gera betur.