150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um öryggismál og umferðarþjónustu í jarðgöngum. Mér finnst mjög mikilvægt að heyra að reglulega sé unnið að endurnýjun og úrbótum á þeim vettvangi. Ég hef samt þá tilfinningu að brunavarnir, viðbragðsáætlanir og samhæfing við heimamenn sé nokkuð misjöfn eftir svæðum. Það merki ég af því sem ég þekki til, annars vegar á Austurlandi og hins vegar á Norðurlandi. Ekki virðist t.d. vera sami háttur hafður á um samstarf milli slökkviliðs og Vegagerðar þegar kemur að jarðgöngum og vil ég hvetja til þess að það verði samræmt. Svo finnst mér mjög mikilvægt að nefna að við fyrir austan getum líka tekið við fleiri jarðgöngum í austfirsku Alpana.