151. löggjafarþing — 3. fundur
 5. október 2020.
Bjargráðasjóður.

[11:13]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Óveðrið sem gekk yfir landið í desember í fyrra hafði miklar afleiðingar eins og okkur er öllum kunnugt. Ríkið brást hratt við og gengið hefur verið í mikilvæga vinnu varðandi rafmagnsmál. Vinnu við að koma rafmagni í jörð hefur verið hraðað og munu 250 km komast í jörð á þessu ári. Það er vel. Þessi framkvæmd styrkir byggð um land allt og tryggir bændum og öðrum landsmönnum betra öryggi og aukin lífsgæði.

En óveðrið hafði víðtækari áhrif. Veðurofsinn kubbaði niður girðingar á stórum svæðum. Girðingar eru stór kostnaðarliður á hverju búi. Ofan í þetta kom svo í ljós kal í túnum á stórum svæðum norðan og austan lands. Samkvæmt mínum heimildum eru þar svæði þar sem enginn sleppur við kalskemmdir. Auðvitað brugðust bændur við með því að endurvinna tún og rækta en veðráttan var áfram erfið eins og svo oft á okkar góða landi. Á Norðurlandi var vorið afar þurrt og stór hluti endurvinnslunnar mistókst af þeim sökum. Þá hafa gæs og álft einnig lagt sitt af mörkum, ágangur þeirra er mikill.

Nú er staðan sú að margir eru tæpir á hey og þurfa því að taka ákvörðun um hvort mæta eigi því með fækkun á búfé eða kosta upp á kostnaðarsöm heykaup. Heyrist mér bændur ekki allir bjartsýnir á að hið opinbera komi að málum með þeim því að ekki hefur verið sett aukið fjármagn í Bjargráðasjóð. Síðast var sótt um aukið fjármagn í hann árið 2013. Stjórnvöld hafa farið þá leið að safna ekki upp fjármunum í sjóðinn en alltaf komið til aðstoðar þegar áföll hafa orðið. Nú liggja fyrir sjóðnum umsóknir vegna 4.700 hektara af kalskemmdum og u.þ.b. 200 km af girðingum.

Hæstv. forseti. Ég vil því spyrja hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð því að ekki trúi ég því að bændur eigi að sitja einir uppi með þetta tjón.



[11:16]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þetta brýna mál. Það er alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að bændur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi, urðu fyrir verulegum búsifjum í tengslum við óveðrið sem hún gerði að umtalsefni. Hv. þingmaður nefnir í þessu sambandi Bjargráðasjóð sem starfar samkvæmt lögum frá árinu 2009 og er í grunninn sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Sjóðurinn hefur það verklag að vinna úr eignum sínum auk þeirra fjármuna sem koma árlega á fjárlögum inn í sjóðinn. Eignir hans voru um síðustu áramót um 200 millj. kr. en fjárlögin eru u.þ.b. 8 milljónir á ári sem er lítið fé í því stóra samhengi sem hér er nefnt í kjölfar þessa óveðurs.

Sjóðurinn auglýsti eftir umsóknum um styrki og frestur til að skila umsóknum rann út 1. október síðastliðinn. 271 umsókn barst um bætur vegna kals í túnum og 74 umsóknir vegna tjóns á girðingum og verið er að fara yfir umsóknir. Það er alveg augljóst að í ljósi þessa umfangs dugar ekki hin venjulega fjárveiting, 8 millj. kr., og spurning hvaða svigrúm verður til að mæta þessum óskum öllum saman. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að leggja sig fram um það og mun beina þeim tilmælum til þingsins við meðferð fjárlaga að það verði gert. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á eru fordæmi fyrir slíku, árin 2012 og 2013 var kaltjón bætt með sérstakri fjárveitingu, og ég sé ekki forsendur fyrir öðru en að slíkt verði endurtekið í ljósi þeirra miklu hörmunga sem gengu yfir bændur á þessu svæði síðastliðinn vetur.



[11:18]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra gott svar og treysti því að hann fylgi þessum málum eftir. Glöð skal ég taka við því hér í þinginu og leggja mitt á vogarskálarnar hvað það varðar.

En þá langar mig örstutt í lokin að koma að máli sem er reyndar ekkert smátt og ekki hægt að taka fyrir á örstuttum tíma. Á dögunum kom í ljós mikið misræmi á milli talna um útflutning landbúnaðarvara frá ESB og talna um innflutning á Hagstofu Íslands. Þetta er mikið og stórt hagsmunamál og miklir hagsmunir í húfi, störf innan lands, tapaðar tekjur fyrir ríkissjóð og það eru sameiginlegir hagsmunir bænda, neytenda og innflutningsaðila að heiðarleiki ríki um viðskipti sem þegar hefur verið samið um. Þetta kom mönnum verulega á óvart og ljóst að íslenskir bændur verða fyrir miklum búsifjum og miklu tjóni. En það kemur niður á okkur öllum, bæði neytendum og framleiðendum. Mér sýnist að við þurfum að halda fast á þessum málaflokki og mig langar að athuga hvort ráðherra getur rætt þetta mál aðeins.



[11:19]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið aftur og vænti góðs samstarfs við hv. þingmann um vinnu að því að Bjargráðasjóður fái bætur á fjárhagsstöðu sinni. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér þá er það rétt að ákveðið misræmi hefur komið upp í tollskrám, skránni sjálfri, og innflutningi. Mér er kunnugt um að fjármálaráðherra er með það mál í vinnslu og hefur sett af stað vinnu við að uppfæra tollskrána og reyna að eyða þeim götum sem þar hafa verið. Það er alveg ljóst að stærsti veikleikinn í þessum efnum, ef við getum talað um veikleika, er sá samningur sem gerður var í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á árinu 2015, sem þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, og þáverandi landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynntu í september það ár og fól í kjölfarið í sér stóraukinn innflutning. Forsendur fyrir þessum samningi eru að mínu mati brostnar og við höfum þess vegna hafið vinnu, ég og hæstv. utanríkisráðherra, við að undirbúa endurskoðun á þeim sama samningi.