151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

Bjargráðasjóður.

[11:13]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Óveðrið sem gekk yfir landið í desember í fyrra hafði miklar afleiðingar eins og okkur er öllum kunnugt. Ríkið brást hratt við og gengið hefur verið í mikilvæga vinnu varðandi rafmagnsmál. Vinnu við að koma rafmagni í jörð hefur verið hraðað og munu 250 km komast í jörð á þessu ári. Það er vel. Þessi framkvæmd styrkir byggð um land allt og tryggir bændum og öðrum landsmönnum betra öryggi og aukin lífsgæði.

En óveðrið hafði víðtækari áhrif. Veðurofsinn kubbaði niður girðingar á stórum svæðum. Girðingar eru stór kostnaðarliður á hverju búi. Ofan í þetta kom svo í ljós kal í túnum á stórum svæðum norðan og austan lands. Samkvæmt mínum heimildum eru þar svæði þar sem enginn sleppur við kalskemmdir. Auðvitað brugðust bændur við með því að endurvinna tún og rækta en veðráttan var áfram erfið eins og svo oft á okkar góða landi. Á Norðurlandi var vorið afar þurrt og stór hluti endurvinnslunnar mistókst af þeim sökum. Þá hafa gæs og álft einnig lagt sitt af mörkum, ágangur þeirra er mikill.

Nú er staðan sú að margir eru tæpir á hey og þurfa því að taka ákvörðun um hvort mæta eigi því með fækkun á búfé eða kosta upp á kostnaðarsöm heykaup. Heyrist mér bændur ekki allir bjartsýnir á að hið opinbera komi að málum með þeim því að ekki hefur verið sett aukið fjármagn í Bjargráðasjóð. Síðast var sótt um aukið fjármagn í hann árið 2013. Stjórnvöld hafa farið þá leið að safna ekki upp fjármunum í sjóðinn en alltaf komið til aðstoðar þegar áföll hafa orðið. Nú liggja fyrir sjóðnum umsóknir vegna 4.700 hektara af kalskemmdum og u.þ.b. 200 km af girðingum.

Hæstv. forseti. Ég vil því spyrja hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð því að ekki trúi ég því að bændur eigi að sitja einir uppi með þetta tjón.