151. löggjafarþing — 6. fundur.
opinber fjármál, 1. umræða.
stjfrv., 6. mál (skilyrði um heildarjöfnuð og skuldahlutfall). — Þskj. 6.

[13:52]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem er að finna á þskj. 6. Með þessu frumvarpi er lögð fyrir Alþingi tillaga um ákvæði til bráðabirgða í tveimur málsgreinum er lýtur að tölulegum skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera árið 2023–2005. Með 1. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt, þrátt fyrir ákvæði 4., 5. og 7. gr. laga um opinber fjármál, að víkja frá skilyrðum um heildarjöfnuð og skuldahlutfall hins opinbera í 7. gr. árin 2023–2025 í tengslum við framlagningu þingsályktunartillögu um fjármálastefnu og þingsályktunartillögu um fjármálaáætlanir sem taka til þeirra ára. Sama eigi við komi til þess að leggja þurfi til endurskoðun á fjármálastefnu fyrir þau ár samkvæmt 10. gr.

Í þessu sambandi er ástæða til að minna á að í þingsályktun um endurskoðun fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, sem Alþingi samþykkti 3. september sl., hefur þessum sömu skilyrðum verið vikið til hliðar í þrjú ár, árin 2020–2022, svo sem heimilt er samkvæmt 10. gr. laganna við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum af völdum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Tilefni þessa frumvarps sem hér er til umræðu er að allt útlit er fyrir að efnahagsáfallið af völdum veirufaraldursins verði það þungt að óraunhæft hefði verið að gera ráð fyrir því í fyrirliggjandi fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 að gripið væri til svo stórtækra ráðstafana í opinberum fjármálum að unnt yrði að uppfylla skilyrðin aftur þegar árið 2023. Eins og ég rakti við umræður á Alþingi um fjármálaáætlunina sýna framreikningar að afleiðingar efnahagsáfallsins af völdum kórónuveirunnar verða það miklar og langvinnar að verulegur afkomuhalli verður viðvarandi út áætlunartímabilið, samhliða síhækkandi skuldahlutfalli. Miðað við þessar horfur þyrfti þá að taka halla sem næmi um 6% af vergri landsframleiðslu niður í 2,5% í einu vetfangi á árinu 2023 ef fjármálareglur laganna ættu að ganga aftur í gildi. Rétt er að benda á að slíkur viðsnúningur myndi kalla á um 120 milljarða kr. aðhaldsráðstafanir árið 2023 á verðlagi dagsins í dag. Árin þar á eftir þyrfti að halda áfram með umtalsverðar afkomubætandi aðgerðir til að standast skilyrði um að afkoman sé í jafnvægi yfir fimm ára tímabil. Að óbreyttum lagaákvæðum um tölulegu fjármálareglurnar þyrfti því að ganga svo hratt og svo harkalega fram að það gæti hamlað mjög hagvexti og raskað um of hag heimila og fyrirtækja. Það myndi draga þróttinn úr hagkerfinu og koma niður á tekjum hins opinbera og tefja þar með fyrir endurreisn opinberra fjármála.

Af þessum sökum tel ég að ef við höfum bæði hagstjórnarleg rök og grunngildi laga um opinber fjármál að leiðarljósi sé nauðsynlegt að víkja tölulegum fjármálareglum frá lengur en þau þrjú ár sem lögin heimila og Alþingi hefur þegar ákveðið. Þannig veitum við meira svigrúm til að aðlaga opinber fjármál að afleiðingum þessa afdrifaríka áfalls á lengri tíma, dreifum áfallinu, veitum meira svigrúm til að aðlaga aðgerðirnar á lengri tíma og tökum reglurnar upp aftur þegar hagkerfið hefur komist á gott skrið að nýju.

Sú aðlögun sem nauðsynleg er verður vitaskuld að hafa það að markmiði að tölulegu fjármálareglurnar geti gengið aftur í gildi á einhverjum tíma. Hér er lagt upp með að það verði frá árinu 2026. Ég lít einnig þannig á málin að sömu sjónarmið eigi við um aðstæður þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við eftir alþingiskosningarnar haustið 2021, þ.e. sú stjórn mun þurfa að leggja fram fjármálastefnu til fimm ára í upphafi nýs kjörtímabils, og fjármálaáætlanir í framhaldi af því. Í frumvarpinu er því lagt til að bráðabirgðaákvæðin gildi til ársloka 2025 til að stefnumörkun næstu ríkisstjórnar fái sama svigrúm til aðlögunar á stöðu opinberra fjármála.

Í ljósi þessa tímabundna fyrirkomulags sem frumvarpið gerir ráð fyrir telur ríkisstjórnin mikilvægt að í staðinn verði sett skýrt og raunhæft stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar. Slíkt stefnumið er með skýra stoð í grunngildum laga um opinber fjármál og er ætlað að verða leiðarljós allrar ákvarðanatöku þar til fjármálareglurnar taka aftur gildi. Meginmarkmið áætlunarinnar, að stöðva hækkun á skuldum eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar, er lykillinn að því að rjúfa vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar í því skyni að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera í framtíðinni. Þannig verði hafist handa við að endurreisa fjárhagslegan styrk hins opinbera. Öllu máli skiptir að við setjum okkur slíkt stefnumið á meðan tölulegu fjármálareglurnar njóta ekki gildis.

Virðulegi forseti. Með 2. mgr. er gert ráð fyrir að í umsögnum fjármálaráðs um þingsályktunartillögur, sem lögin gera ráð fyrir að það sendi Alþingi, skuli lagt mat á hvort yfirlýst markmið í opinberum fjármálum og framfylgd þeirra muni gera það kleift að skilyrði í 7. gr. taki aftur gildi frá og með árinu 2026. Það tel ég að sé rétta nálgunin, að í stað þess að við kippum afkomureglunni og skuldareglunni úr sambandi og látum bara þar við sitja þá setjum við nýtt markmið, sem ég hef hér verið að rekja, um að stöðva skuldasöfnunina. Og þá kemur hlutverk fjármálaráðs inn með hliðsjón af því nýja markmiði. Samkvæmt 13. gr. laganna er hlutverk fjármálaráðs að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi grunngildunum sem talin eru upp í 6. gr. og tölulegum fjármálareglum samkvæmt skilyrðum í 7. gr. Samkvæmt þessu frumvarpi mun ráðið eftir sem áður hafa það hlutverk, og er engin ástæða til að breyta því, að meta hvort og hvernig þessar þingsályktunartillögur samræmast grunngildum laganna á viðkomandi tímabili.

Á hinn bóginn, þar sem lagt er til í frumvarpinu að tölulegu skilyrðunum í 7. gr. verði vikið tímabundið til hliðar, mun ráðið ekki leggja mat á framfylgd þeirra á árunum 2023–2025. Í 2. mgr. er af þessum sökum kveðið á um að ráðið leggi í staðinn mat á hvort markmið stjórnvalda í opinberum fjármálum fyrir umrædd ár séu líkleg og hvort þau muni bera þann árangur að aftur verði hægt að fylgja tölulegu fjármálareglunum að fimm árum liðnum.

Eins og áður segir er þetta eitt af grundvallaráherslumálum þessarar fjármálaáætlunar. Ég hef ekki orðið var við mikinn ágreining um mikilvægi þess að skuldasöfnunin sé stöðvuð í fyrirsjáanlegri framtíð. Ég finn miklu frekar fyrir því að samstaða er um að með því að við höfum á undanförnum árum styrkt stöðu ríkissjóðs með uppgreiðslu skulda þá eigum við að leggja áfram áherslu á mikilvægi þess að ríkisfjármálin séu sjálfbær. Ég hef verið þeirrar skoðunar og það kom skýrt fram, vona ég, þegar fjármálareglur voru settar á sínum tíma, að við Íslendingar þurfum að miða við stífari skuldamarkmið til lengri tíma í fjármálareglum okkar en mörg önnur ríki geta leyft sér, sérstaklega ríki sem búa við stórar, alþjóðlegar myntir og hafa sínar eigin myntir, að ekki sé talað um það. Hagkerfið okkar sé þannig samsett að við séum útsettari fyrir meiri sveiflum. En við sjáum það t.d. núna hversu snar þáttur ferðaþjónustan hefur verið í efnahagsuppgangi undanfarinna ára og áfall í einni slíkri meginstoð getur þýtt meiri háttar áfall fyrir efnahagskerfið allt. Þetta eru rök fyrir því að við séum að jafnaði með stífari fjármálareglur til þess að góðu árin séu nýtt í fyrirbyggjandi aðgerðir eða til þess að fylla á kornhlöðurnar þegar erfiðari tímar koma. Þetta nefni ég hér vegna þess að það tengist auðvitað stefnumörkun um hvenær við teljum eðlilegt að fjármálareglurnar taki gildi að nýju. Ég er sannfærður um að ef við sammælumst nógu snemma um að stefna að hallalausum frumjöfnuði, þ.e. að frumjöfnuður verði jákvæður í lok áætlunartímabilsins og þar með hætti skuldahlutföllin að versna, er það vel raunhæft markmið. Það tel ég að sviðsmyndirnar sýni mjög vel.

Ég hef líka verið mjög opinskár um að ef okkur gengur verr að ná endum saman á næstu árum, þ.e. ef okkur gengur verr að örva hagvöxt sem skilar sér í minni halla, þá höfum við í sjálfu sér ekkert leyfi til að taka miklu lengri tíma í að stöðva skuldasöfnunina en hér er gert ráð fyrir. Ég tel að hallarekstur í lengri tíma en gert er ráð fyrir sé óréttlætanlegur gagnvart framtíðarkynslóðum. Við eigum enga tryggingu fyrir því að hér verði um alla framtíð mjög mikill hagvöxtur. Þó að við munum leggja mikið á okkur til að tryggja að svo verði þá getum við ekki leyft okkur að ganga út frá því að hagvöxtur framtíðarinnar muni endalaust bæta upp fyrir hallarekstur komandi ára. Þetta tvennt ætla ég að nefna sérstaklega til rökstuðnings því að lagt sé upp með það meginmarkmið að stöðva skuldasöfnunina í lok tímabilsins og að við fáum álit fjármálaráðs í millitíðinni á því hvernig það meginverkefni gangi hjá okkur.

Margt fleira er hér undir sem ég ætla ekki að fara út í, en það má nefna hér að við búum ekki við mjög djúpan skuldabréfamarkað. Ríkið getur ekki endalaust fjármagnað sig á innlendum markaði. Með því að vera með slakari viðmið bjóða menn heim hættunni á verra lánshæfi ríkisins o.s.frv. Við höfum enga tryggingu fyrir því að vextir verði áfram lágir þó að margt bendi til þess. Það er fjöldinn allur af rökum fyrir því að þetta eigi að vera leiðarljós okkar. Hér er þetta lagt upp svona og ég trúi því að takast megi góð samstaða um að fjármálaráðið hafi þetta hlutverk á meðan stefnumörkunin er þessi.

Við erum með ýmsar aðgerðir í áætluninni sem stuðla eiga að því að þessi markmið náist. Við sýnum þar fyrst mjög umfangsmiklar mótvægisráðstafanir til að styðja hagkerfið og veita viðspyrnu fyrir hagvexti. Síðan er áætlað umfang á aðhaldsstigi sem þyrfti til að beita á síðari hluta tímabilsins. Við leggjum það fyrir með mjög rúmum fyrirvara hvert umfang aðhaldsaðgerða verður ef hagspár ganga eftir og aðrir framreiknaðir hlutir verða eins og tölurnar sýna, þá er þörf á aðhaldsstigi á árum þrjú, fjögur og fimm á þessu áætlunartímabili upp á 37,5 milljarða. Mín persónulega skoðun er sú að við getum gert ýmislegt til að auka hagvaxtarhorfur, en svo er margt annað sem við ráðum ekki við sem getur verkað í hina áttina. Í augnablikinu eru það augljóslega áhrifin af veirunni sem geta unnið gegn okkur.

Mat á öllum þessum áformum langt fram í tímann er ekki auðvelt. Hlutverk fjármálaráðs verður heldur ekki neitt einfalt. En á þessu áætlunartímabili verður mat ráðsins tímabundið í formi annars mælikvarða á árangur við stjórn opinberra fjármála. Um það snýst þessi grein frumvarpsins. Þetta mun fela í sér mjög mikilvægt aðhald fyrir stjórnvöld og mjög mikilvægt samtal við þingið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um hversu mikilvægt ég tel að fjármálareglurnar taki aftur við. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að segja að þrátt fyrir að við höfum nú í tvígang þurft að taka upp fjármálastefnuna og þrátt fyrir að við þurfum nú tímabundið að víkja fjármálareglunum til hliðar þá eigum við áfram að sammælast um að slíkar reglur í lögum um opinber fjármál séu mikilvægar til lengri tíma. Það er ekkert að því að fjármálaráðherra þurfi að koma til þingsins og taka sérstaka umræðu og leggja til frávik frá meginreglu þegar aðstæður kalla á, þegar sérstakar aðstæður hafa skapast. Hér er nú varla ágreiningur um að ófyrirséðar, sérstakar, umfangsmiklar aðstæður hafi skapast. En það er samt sem áður ástæða til að hafa áhyggjur af því að menn muni nota síður mikilvæg tilefni í framtíðinni til að fylgja fordæmi um að víkja reglum til hliðar. En þá reynir á samstöðu í þinginu um að standa gegn slíku. Menn eiga ekki að nota möguleikann á því að fá undanþágu, tímabundna eða varanlega, frá fjármálareglum til þess að skjóta sér undan óþægilegum en nauðsynlegum aðgerðum, enda myndi það í mínum huga að stríða gegn grunngildum laganna.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir efni þessa frumvarps og legg til að því verði vísað til fjárlaganefndar þingsins og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[14:08]
Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir framsöguna hér. Hann fór skilmerkilega yfir það sem þetta frumvarp felur í sér, að víkja lengur en þessi þrjú ár frá fjármálareglunum með það að markmiði samhliða að stöðva skuldasöfnun og að reglurnar taki aftur gildi 2026. Ég vil segja það hér að ég tel þetta afar skynsamlegt. Þetta er ábyrgt líka gagnvart stjórnmálunum og fram í tímann. En við þurfum líka að huga að sjálfbærniþættinum og ég tek undir með hæstv. ráðherra að við sendum reikninginn ekki þar með á komandi kynslóðir. En ef við horfum ískalt á þetta getum við líka almennt sagt að mikilvægt sé að reglur haldi óháð því hvernig vindar blása og hvort heldur það er í efnahagsmálum eða á öðrum sviðum. Þá kann einhver að segja: Reglurnar halda bara þegar góðæri er en ekki þegar það er kreppa.

Ég held að í þessu samhengi sé afar mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, að þessi ár leggi fjármálaráð stöðugt og jöfnum höndum mat á að reglurnar taki aftur gildi 2026. En spurning mín er um hugleiðingar hæstv. ráðherra um þennan þátt, að reglurnar haldi í góðæri en ekki kreppu, og ég bið um rökstuðning í þeim efnum.



[14:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar við horfum á reglur um hallarekstur, 2,5% á einstöku fjárlagaári, sé innbyggt í þær töluvert svigrúm til að taka dýfu og niðursveiflu. Síðan má spyrja hvort veitt sé nægjanlegt svigrúm í ljósi reglunnar um fimm ára hallalaus fjárlög, þ.e. hvort samspil þessara reglna samanlagt veiti nægilegt svigrúm. 2,5% halli er um 75 milljarðar eða svo. Ef menn eru komnir 75 milljarða kr. í halla þá er augljóst að einhvern tíma tekur að vinna það upp. Það er nokkuð krefjandi að ná hallalausum fjárlögum á fimm árum ef menn hafa látið reyna á ytri mörk hallareglunnar eða farið alla leið í 75 milljarðana. Þetta er engu að síður innbyggt í lögin, að það sé ekki í andstöðu við nein meginmarkmið að ríkissjóður taki á sig að virkja sveiflujafnara og fari í töluvert mikinn halla.

Og þegar það dugar ekki til höfum við úrræðið sem hv. þingmaður nefndi, að taka tímabundið úr sambandi. Það er alveg sérstakt ákvæði. Samspilið á þessu tvennu finnst mér eiginlega ákveðin snilld. Ef menn ætla að fara út fyrir fimm árin, sem er grunnreglan, er einfaldlega gert ráð fyrir því í lögunum. Það kostar ekkert annað en samtal hér í þinginu og ákvarðanir þingsins en það kostar líka umræðu og það kostar að menn þurfa að fá fram álit fjármálaráðs. Þetta held ég að sé (Forseti hringir.) mjög gott fyrir lýðræðislega meðferð og gagnsæi (Forseti hringir.) við þær aðstæður.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.