151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[14:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þegar við horfum á reglur um hallarekstur, 2,5% á einstöku fjárlagaári, sé innbyggt í þær töluvert svigrúm til að taka dýfu og niðursveiflu. Síðan má spyrja hvort veitt sé nægjanlegt svigrúm í ljósi reglunnar um fimm ára hallalaus fjárlög, þ.e. hvort samspil þessara reglna samanlagt veiti nægilegt svigrúm. 2,5% halli er um 75 milljarðar eða svo. Ef menn eru komnir 75 milljarða kr. í halla þá er augljóst að einhvern tíma tekur að vinna það upp. Það er nokkuð krefjandi að ná hallalausum fjárlögum á fimm árum ef menn hafa látið reyna á ytri mörk hallareglunnar eða farið alla leið í 75 milljarðana. Þetta er engu að síður innbyggt í lögin, að það sé ekki í andstöðu við nein meginmarkmið að ríkissjóður taki á sig að virkja sveiflujafnara og fari í töluvert mikinn halla.

Og þegar það dugar ekki til höfum við úrræðið sem hv. þingmaður nefndi, að taka tímabundið úr sambandi. Það er alveg sérstakt ákvæði. Samspilið á þessu tvennu finnst mér eiginlega ákveðin snilld. Ef menn ætla að fara út fyrir fimm árin, sem er grunnreglan, er einfaldlega gert ráð fyrir því í lögunum. Það kostar ekkert annað en samtal hér í þinginu og ákvarðanir þingsins en það kostar líka umræðu og það kostar að menn þurfa að fá fram álit fjármálaráðs. Þetta held ég að sé (Forseti hringir.) mjög gott fyrir lýðræðislega meðferð og gagnsæi (Forseti hringir.) við þær aðstæður.