151. löggjafarþing — 31. fundur.
búvörulög, 1. umræða.
stjfrv., 376. mál (úthlutun tollkvóta). — Þskj. 468.

[18:23]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 468, mál nr. 376. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og varðar úthlutun tollkvóta. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Megintilgangur þess er að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu á landbúnaðarafurðum. Með hliðsjón af þeirri erfiðu stöðu sem ríkir á markaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þykir nauðsynlegt að styrkja stoðir innlendrar matvælaframleiðslu með því að taka upp eldra fyrirkomulag á útboði tollkvóta.

Með lagabreytingu sem tók gildi þann 1. janúar á þessu ári var svokölluðu jafnvægisútboði komið á vegna úthlutunar tollkvóta. Í því felst að tilboðsgjafar greiða lægsta samþykkta verð í tollkvóta í stað þess að greiða þá fjárhæð sem tilboð þeirra hljóðaði upp á. Framangreint fyrirkomulag útboðs var lagt til með hliðsjón af tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara. Meginefni þeirra breytinga var að draga úr kostnaði þeirra sem fengju úthlutað tollkvótanum. Lagabreytingin var lögð fram í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu með samningunum milli Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, sem voru undirritaðir 17. september 2015 og tóku gildi 1. maí árið 2018. Með þessum samningi voru tollkvótar fyrir landbúnaðarvörur auknir til muna.

Þá er horft til þess að hér á landi eru um tvær milljónir ferðamanna á hverju ári. Nú er staðan hins vegar talsvert breytt, m.a. vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Áhrifanna gætir víða en samkvæmt upplýsingum á vef Ferðamálastofu hefur erlendum gestum fækkað gríðarlega á milli ára. Í samanburði við árið 2019 var fækkun erlendra gesta um 53% í mars, 99% í apríl og maí og er komin niður í 95% nú í september. Í ljósi framangreinds er ljóst að eftirspurn eftir matvælum hefur dregist töluvert saman en innflutningur samkvæmt tollkvótum hefur á sama tíma haldist óbreyttur. Það er innlend matvælaframleiðsla sem tekur það högg og við því þarf að bregðast. Það er fyrirséð að samdráttur í eftirspurn eftir landbúnaðarafurðum, m.a. vegna fækkunar erlendra gesta, mun að miklu leyti bitna á innlendri framleiðslu með tilheyrandi samdrætti í afurðatekjum. Þau áhrif hafa raunar þegar komið fram.

Nauðsynlegt þykir að takmarka áhrif kórónuveirufaraldursins og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til samræmis við framangreint. Lagt er til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að eldra fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta taki gildi að nýju tímabundið í ljósi aðstæðna og gildi út árið 2021. Hið nýja fyrirkomulag við úthlutun mun því næst koma til framkvæmda eftir 1. febrúar á næsta ári. Við útboð á tollkvóta verður honum því fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hefur verið úthlutað og greiða bjóðendur tilboðsfjárhæðina að fullu. Var þetta gildandi fyrirkomulag við úthlutun fyrir þá lagabreytingu sem tók gildi, eins og áður sagði, um síðastliðin áramót. Að auki er lagt til í frumvarpinu að upptalning á númerum í 65. gr. breytist. Tollskráin tók breytingum í byrjun árs 2020 og því þarf að uppfæra greinina samhliða því. Líkt og hér hefur verið rakið er markmið frumvarpsins fyrst og fremst að lágmarka það tjón sem innlendir framleiðendur landbúnaðarvara hafa nú þegar orðið fyrir. Innflutningur á landbúnaðarvörum hefur haldist nær óbreyttur á meðan dregið hefur verulega úr eftirspurn.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir frumvarpinu en þar er ítarlegar fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.



[18:28]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi landbúnaðarráðherra, en þó með blendnum hug, um tímabundnar breytingar á lagaumhverfi við úthlutum samningsbundinna tollkvóta. Það er sagt að það eigi að lágmarka áhrif heimsfaraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða og draga úr því tjóni sem innlendir framleiðendur hafa nú þegar orðið fyrir. Það er vissulega skref í rétta átt og viðurkenning á erfiðri stöðu landbúnaðarins, en er ekki þörf fyrir að ganga lengra í stuðningi, hæstv. ráðherra? Væri ekki áhrifaríkara að fresta öllum útboðum tollkvóta meðan þessi alvarlega staða er uppi og áhrifa heimsfaraldursins gætir eins og dæmi eru um, t.d. í Noregi? Eins og við vitum og hæstv. ráðherra rakti hefur faraldurinn haft alvarleg áhrif á afkomu í landbúnaði. Það getur vissulega leitt af sér langtímaáhrif. Ég velti því fyrir mér hvort það sé eitthvað fleira á döfinni, fleiri lagabreytingar eða aðgerðir sem geta mætt þeim vanda sem uppi er. Við vitum að það hefur verið brugðist við bæði í Noregi og í aðildarríkjum Evrópusambandsins, bæði með beinum fjárstyrkjum, hagstæðum lánum og tímabundnum undanþágum frá evrópskum samkeppnisreglum. Eru einhverjir slíkir möguleikar í stöðunni hér?



[18:30]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Jú, að mörgu leyti get ég tekið undir það með hv. þingmanni að það er ástæða til að ganga lengra til að mæta þeim áhrifum sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir líkt og margar aðrar atvinnugreinar í því ástandi sem hefur skapast undanfarið, sérstaklega á þessu ári. Ég er ekki á þeirri skoðun að það eigi að fresta útboðum, samningsbundnum skyldum Íslands eins og gagnvart Evrópusambandinu. Við eigum að standa við þær skyldur. Það hefur t.d. átt sér stað mikil umræða um möguleikana á því að eiga viðræður við Evrópusambandið um þann tollasamning sem umdeildur er og ég teldi afar hæpið af hálfu Íslands að hefja þær viðræður undir þeim formerkjum að við værum búin að rjúfa samningsbundnar skyldur okkar. Ég hef verið að vinna að því að reyna að mæta þessu áföllum með öðrum hætti en þeim og reyna að kappkosta að við stöndum við þá samninga sem við gerum þar til þeim er sagt upp eða þeir renna út.

Ég þekki til umræðunnar um meðferð tollkvóta í Noregi og Evrópusambandinu. Sumt af því sem þar er sagt er að sumu leyti slitið úr sambandi. Engu að síður er alveg ljóst að nágrannaríki okkar, mörg hver, hvort tveggja Noregur og síðan innan Evrópusambandsins, hafa gripið til aðgerða til stuðnings landbúnaðinum og við eigum að sjálfsögðu að vinna í því með svipuðum hætti og þar er gert. Það eru leiðir færar og við erum að skoða þær og ég vænti þess að geta kynnt þær innan tíðar og með hvaða hætti við hyggjumst koma til móts við landbúnaðinn á þeim erfiða tíma sem hann er að glíma við.



[18:32]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og útskýringarnar. En ég vil hvetja til þess að sú þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar kynni sér vel hvernig staðið er að frestun á nýtingu tollkvóta annars staðar þannig að það liggi allt fyrir við afgreiðslu málsins. Ég fagna því mjög að það skuli vera til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að styðja og styrkja landbúnaðinn á þessum tímum. Ég vil kannski koma inn á og taka undir að það er mikilvægt að endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið vegna forsendubrests í kjölfar Brexit. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það ekki rétt skilið að við það að gerður hafi verið bráðabirgðafríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands sé í rauninni búið að semja um allan þann útflutning sem átt hefur sér stað innan þessa samnings Evrópusambandsins, hann hefur fyrst og fremst farið til Bretlands, og í rauninni sé ekkert eftir til þess að semja um við Evrópusambandið?



[18:34]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu efni vil ég segja að forsendurnar fyrir samningnum milli Íslands og Evrópusambandsins eru ekki þær sömu og voru þegar hann var gerður 2015 og tók gildi 2018, af þeirri einföldu ástæðu að Bretland er ekki lengur aðili að Evrópusambandinu eftir áramótin, væntanlega. Þannig háttar til að stærsti hlutinn, sem við höfum verið að reyna að flytja út samkvæmt þessum samningi sem ber tolla, burðurinn í því er kindakjöt og skyr, en það eru aðrir þættir sem hafa verið án tolla eins og útflutningur á hrossum. Þunginn í þessu hefur verið í kindakjötinu, í kjöthlutanum, og hann hefur að megninu til farið til Bretlands. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu er ástæða til að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um endurskoðun á þessu og alla vega ræða það. En það væri í mínum huga algjörlega galið að (Forseti hringir.) áður en til slíkra viðræðna kæmi þá værum við búin að brjóta það samkomulag sem í gildi er með uppsögn eða öðrum hætti.



[18:35]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans um þetta frumvarp og að einhverju leyti fyrir að bregðast við því ástandi í sambandi við uppsöfnun á kjötbirgðum, bæði hjá sláturleyfishöfum og eins hjá bændum með kjöt á fæti. Ef ekkert er gert mun það leiða til hruns á kjötverði til framleiðenda. Staðan er mjög alvarleg.

Ég var í raun og veru með sömu spurningu og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir til hæstv. ráðherra. Ráðherrann svaraði því að erfitt væri að stíga það skref að fresta fyrirhuguðu útboði á tollkvótum algerlega til að standa að einhverju leyti við samninga við ESB. En það kom líka fram í máli ráðherrans að verið væri að skoða enn frekari leiðir. Þá langar mig að spyrja: Hvaða leið sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt sé að fara? Og í sambandi við þetta skref sem er verið að taka núna, mun það einhverju breyta í sambandi við þá stöðu sem uppi er með birgðir af kjöti? Mun það einhverju breyta fljótlega?



[18:38]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mun þetta skref sem hér er verið að taka, þ.e. að færa úthlutun til fyrra horfs, einhverju breyta? Vonandi getur það styrkt stöðu íslenskrar framleiðslu. Tollamál eru önnur stoð flestra ríkja í stuðningi við innlenda framleiðslu. Þessi ósk hefur m.a. komið fram í viðræðum við fulltrúa greinarinnar þó svo að sjónarmið hafi verið ríkari, svo að það sé sagt, í þá veru að fresta útboðinu. Ég er þeirrar gerðar að horfa frekar til þess, sem ég sagði áðan, að virða samninga og að við reynum þá frekar að búa okkur til stöðu til að undirbyggja viðræður um upptöku eða endursamningu á samningi ef vilji samningsaðila stendur til þess. Ef ekki þá þurfum við að meta stöðuna í því ljósi. En ég neita að trúa því að ekki fáist viðræður á þeim forsendum sem ég hef þegar rakið. Það er verið að leggja mat á það af hálfu utanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins hvort efni sé til þess að óska eftir slíku og þeirri vinnu fer að ljúka fljótlega.

Varðandi það að skoða frekari leiðir og hvaða leiðir það gætu verið þá kann að vera að við getum unnið frekar með útboðið. Ég er að láta skoða hvort við getum komið með beinni hætti að stuðningi við t.d. kjötframleiðslu sem glímir við erfiðleika; lambakjöt og nautakjöt sérstaklega, að hluta til svín og minna í kjúklingi. Ýmsar leiðir eru því færar í þessu sem við erum að velta upp. Eins og ég gat um áðan í fyrra andsvari er ég að vonast eftir því að geta kynnt þær innan tíðar.



[18:40]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og að verið sé að leita frekari leiða til að mæta þessari stöðu. Ég mun fylgjast vel með því. Ráðherra svaraði því áðan að hann vildi standa við samninga og halda samböndum í lagi. Ég skil það ósköp vel og virði það. En í sambandi við að fresta fyrirhuguðu útboði, gæti ráðherrann útskýrt aðeins betur að ekki sé fært að fara þá leið? Gæti hann farið aðeins farið nánar út í það svo að ég skilji það svar þá enn betur?



[18:41]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekkert um að hv. þingmaður muni fylgjast vel með því hvað gerist í þessu. Það er gott að vita til þess. Þegar spurt er hvað geti falist í því fyrir okkur ef við frestum fyrirhuguðu útboði þá er það bara svo einfalt að við sömdum um aðgang að markaði fyrir framleiðslu okkar í Evrópu, um aðgengi íslenskrar framleiðslu inn á þennan 500 milljóna manna markað. Við sömdum um það að á móti þeim fríðindum væri samningsaðilanum heimilt að flytja inn til landsins ákveðin gæði sín megin frá. Það er það sem ég er að tala um að við eigum að standa við. Ef við klippum á það okkar megin án viðræðna og samkomulags erum við að setja aðra hagsmuni okkar í hættu. Og það er mikið undir í þeim efnum.



[18:43]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hann hefur rætt um það hér að ekki sé hægt að fresta þessu útboði vegna þess að þetta sé samningur og við séum samningsbundin og samninga beri að halda, og ég tek alveg undir það. En nú eru þær aðstæður sem landbúnaðurinn er í, og einnig landbúnaður í Evrópusambandinu, algjörlega óviðráðanlegar og skullu nánast á á einni nóttu. Þá spyr maður sig: Hefur það verið rætt við Evrópusambandið, hefur sú hugmynd verið reifuð, að nauðsynlegt sé fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu að fresta þessu útboði vegna þeirra aðstæðna sem landbúnaðurinn er í, sem að stórum hluta eru til komnar vegna veirufaraldursins? Hefði ekki verið eðlilegt að ræða það við Evrópusambandið að það væri ákaflega mikilvægt af hálfu Íslands að við fengjum að fresta þessu útboði? Þá er ekki um neitt samningsbrot að ræða heldur bara samningsatriði milli aðila um að vegna þessa ástands sé það heimilt. Ég bið hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir það.

Mig langar líka að spyrja varðandi samninginn almennt: Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að það hefði átt að segja þessum samningi upp vegna brostinna forsendna og hef flutt tillögu þess efnis, vegna þess að Bretland er að ganga úr Evrópusambandinu. Ég held að loksins séu íslensk stjórnvöld að átta sig á því að það sé kannski eitthvað sem vert væri að skoða og að það sé sú leið sem ætti að fara. En er það ekki mikill galli á samningnum sem er í gildi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að ekki skuli vera neitt svigrúm innan hans til að taka á svona aðstæðum þegar þær koma upp?



[18:45]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég vil byrja á því sem hv. þingmaður endaði á, hvort það sé ekki galli í samningnum að geta ekki einhvern veginn brugðist við svona aðstæðum. Það má með sanni segja að það gæti verið gott að hafa inni í samningnum eitthvert slíkt ákvæði sem tæki á óskilgreindum aðstæðum sem gætu komið upp. En ég held að það sé erfitt að skrifa slíkt inn í milliríkjasamning á annan veg en þann að samningsaðilar taki upp viðræður ef og þegar eitthvað kunni að gerast. Það höfum við verið að undirbyggja og erum m.a. í þeirri vinnu sem ég hef áður nefnt á vegum utanríkisráðuneytisins og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins að leggja mat á þá hagsmuni sem undir liggja í þeim samningi sem mörgum þykir í dag afar óhagstæður.

Ég þreytist ekki á að minna á það að í þessum samningum eru fleiri hagsmunir undir, og þá er ég að meina fyrir þjóðarheildina. Við getum ekki rætt einn lítinn hluta þessa samnings, þó að okkur þyki landbúnaðurinn mjög stórt atriði í þjóðarbúskapnum. Við verðum að hafa heildarmyndina undir þegar við ræðum mögulega uppsögn eða breytingar á samningnum. Ég nefndi fyrr í andsvari þætti á sviði landbúnaðarmála sem njóta tollfríðinda samkvæmt samningnum á erlendum mörkuðum. Hrossaræktin á Íslandi er t.d. með tollfrelsi samkvæmt þessum samningi. Það myndi breyta miklu fyrir hana ef við segðum samningnum einhliða upp og fengjum þá einhverja súpu yfir okkur, ef því væri að skipta. (Forseti hringir.) Ég er ekki að segja að þetta sé að gerast en þetta eru þau atriði sem leggja þarf mat á þegar við ræðum viðbrögðin.



[18:48]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Tímans vegna gat hann ekki svarað fyrirspurn minni varðandi það hvort einhverjar viðræður hefðu átt sér stað við Evrópusambandið. Ég bið hæstv. ráðherra að koma aðeins inn á það atriði að falla frá útboði, að ekki skuli litið á það sem samningsbrot.

Hæstv. ráðherra hefur talað fyrir því hér að mæta þurfi landbúnaðinum með öðrum hætti. Ég fagna því að sjálfsögðu en mér finnst stjórnvöld hins vegar hafa verið allt of svifasein í þessu. Það hefur nú verið ljóst síðan í apríl í hvað stefndi hvað landbúnaðinn varðar vegna veirufaraldursins. Hæstv. ráðherra hefur nefnt það hér að skoða aðrar leiðir. Nú sé ég þess hvergi merki í fjárlagafrumvarpinu að mæta eigi bændum með einhvers konar fjárstuðningi. Ég vil nefna í því sambandi að nú er Evrópusambandið einmitt að fara þá leið að veita bændum sérstaka fjárstyrki, allt að 100.000 evrum eða um 16 millj. kr. Síðan gefst bændum í Evrópusambandinu kostur á að taka hagstæð lán. (Forseti hringir.) Evrópusambandið er að mæta þessum erfiðu aðstæðum. Ég bið hæstv. ráðherra að fara yfir það með hvaða hætti hann hefur hugsað sér að gera það vegna þess að þess sjást ekki merki í fjárlögum.



[18:49]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég komst ekki tímans vegna í gegnum það að reyna að svara því hvort beinar viðræður hafi átt sér stað. Við höfum átt viðræður við sendiráð okkar í Brussel og verið að vekja máls á þeirri stöðu sem uppi er, án þess að ég ætli að fara eitthvað dýpra í þau mál. Utanríkisráðherra hefur sömuleiðis tekið þessi mál upp á þeim vettvangi sem hann sinnir þannig að samskipti, ef við getum orðað það þannig, hafa verið í gangi, án þess að ég fari nánar út í það.

Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að í fjárlagafrumvarpinu sér þess ekki stað en ég bind vonir við að við getum á næstunni kynnt með hvaða hætti við komum beinna að stuðningi við bændur. Ég hef sérstaklega nefnt kjötframleiðsluna sem ég held að glími tímabundið við töluvert mikla erfiðleika. Það kann vel að vera að við séum svifasein í þessum efnum en ég vil þó (Forseti hringir.) meina að við séum að reyna að vinna þetta á þeim hraða sem okkur er gerlegt. Ég vænti þess að það verði þá betra sem út úr því kemur loksins þegar það birtist.



[18:51]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir það að við getum ekki rætt einn lítinn bita í einu heldur þurfum við að horfa á heildarsamhengi hlutanna. Ég er sammála honum um það. Ráðherra fór ágætlega yfir það hvað felst í milliríkjasamningum af þessu tagi. Þeim fylgja skyldur og réttindi og báðir aðilar verða að virða sitt. Ég átta mig fyllilega á þeim erfiðu aðstæðum sem dunið hafa á ákveðnum atvinnugreinum hér í landi, þar með talið matvælaframleiðslu, og það ber að taka alvarlega. En af því að við þurfum að horfa á stóra samhengið skulum við ekki heldur gleyma því að slík áföll hafa líka dunið yfir stóran hluta þjóðarinnar. Það eru um 25.000 manns atvinnulausir. Þessi kreppa bítur harðast það fólk sem þarf að horfa á eftir hverri krónu þegar það kaupir í matinn. Þetta þarf einfaldlega að hafa í huga þegar við ræðum frumvarp af þessum toga, ekki að horfa á litlu bitana heldur heildarsamhengið.

Það er alveg rétt að hafa það í huga líka áður en málið fer til vinnslu í nefnd að í gegnum söguna hefur okkur Íslendingum alltaf vegnað langbest þegar við höfum verið í miklu samstarfi við aðrar þjóðir og viðskiptafrelsi hefur verið mikið. Íslenskur almenningur er reglulega minntur á þann ábata sem af þessu hlýst og af erlendri samkeppni líka, ekki síst í formi meiri vöruþróunar, lægra verðs til neytenda og betri framleiðslu. Íslenskir matvælaframleiðendur hafa vissulega orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu vegna Covid-19 og ég átta mig á að Alþingi og stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða. Það hefur að hluta til verið gert. Við höfum horft á ríkisstjórnina fara í stórar úthlutanir á styrkjum og hagstæðum lánum til fyrirtækja í landinu. Mörg af þessum matvælafyrirtækjum hafa í rauninni alveg getað gengið inn í það umhverfi líka og hafa örugglega nýtt sér það. Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur hvort það eigi þá ekki frekar að efla þær aðgerðir og horfa kannski til Evrópusambandsins, sem hv. þm. Birgir Þórarinsson nefndi áðan, að koma með beinni hætti að stuðningi við bændur í stað þess að eiga það á hættu að vera að seilast enn og aftur í vasa neytenda og skaða samkeppni í landinu.

Ef við samþykkjum þetta frumvarp óbreytt þá er a.m.k. mögulegt, og ég vil segja líklegt, að við horfum fram á verðhækkanir á matvælum á tímum sögulegs atvinnuleysis í landinu þar sem mjög margt fólk á bara býsna erfitt með að öngla saman fyrir matarinnkaupum frá mánuði til mánaðar. Matarkarfan er ekki aldeilis sérstaklega ódýr hér á Íslandi fyrir, miðað við það sem gerist í mörgum öðrum löndum. Matvælaverð hefur verið að hækka að undanförnu samfara fallandi gengi krónunnar. Enn hærra matarverð mun einfaldlega bara lengja þann spíral sem mun leiða til enn hærra matvælaverðs sem mun leiða til enn meiri verðbólgu með tilheyrandi áhrifum fyrir allan almenning í landinu. Þetta er því ekkert léttvægt og það er ekki hægt að taka þessa umræðu eins og bara sé verið að ræða um stuðning við eina atvinnugrein og þá sem vinna við hana. Þetta mun bitna á öllum. Hver og einn getur svo lagt sjálfstætt mat á hvort svona aðgerð er betri þegar á allt er litið. A.m.k. getum við ekki látið það eiga sig að ræða þetta án þess að koma inn á það.

Samfylkingin leggst gegn þessu frumvarpi hæstv. ráðherra og mótmælir því hreinlega. Við beinum því til ríkisstjórnarinnar að mæta frekar tímabundnu tekjutapi íslenskra matvælaframleiðenda með öðrum leiðum, með beinni hætti, ef það hefur ekki verið gert í nógu ríkum mæli. Ég treysti íslenskum matvælaframleiðendum óskaplega vel til að framleiða áfram góða, holla og verðmæta vöru. Matvælaframleiðsla er okkur dýrmæt. En verndartollar og höft af þessu tagi eru hluti af gamalli og skaðlegri arfleifð sem verður að vinda ofan af. Það þýðir ekki að við getum ekki stutt landbúnað í landinu með ríkulegum hætti og jafnvel ríkulegri hætti en við höfum gert hingað til.

Ég bendi á að frelsi til viðskipta milli landa getur leitt af sér meiri nýsköpun og meiri vöruþróun sem leiðir svo aftur til þess, ef okkur tekst vel upp, að við getum sótt út á markaði sem við höfum ekki náð að fullnýta. Við þekkjum alveg söguna þegar menn fóru að fara í auknum mæli til útlanda og komu með nýjar hugmyndir og nýjan smekk heim til sín. Við þekkjum það líka að þegar opnaðist að einhverju leyti fyrir erlenda matvælaframleiðslu inn til Íslands þá sýndu innlendu framleiðendur ótrúlega hugkvæmni og snerpu í vöruþróun. Þetta þekkjum við með ostana. Við þekkjum þetta með kjötið. Við þekkjum þetta með ýmislegt. Ég vil þvert á móti meina að svona samningar eigi að geta orðið okkur til gæfu. Vissulega erum við að glíma við tímabundið vandamál og vissulega eru íslenskir matvælaframleiðendur í vanda vegna Covid eins og svo margar aðrar atvinnugreinar. En ég held að þetta sé ekki rétta skrefið. Við skulum frekar styðja með beinni hætti framleiðendur í vanda, hvort sem þeir eru í matvælaiðnaði eða ýmsum öðrum atvinnugreinum sem eiga líka í vök að verjast.



[18:59]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Afstaða Samfylkingarinnar hefur komið hér fram, hún er á móti þessu frumvarpi og kemur kannski ekki á óvart. Þar sem landbúnaðurinn er annars vegar hefur Samfylkingin verið þeirrar skoðunar að affarasælast sé að sem mest sé flutt inn af landbúnaðarvörum. En það er nú einu sinni þannig, hv. þingmaður, að tollvernd er óaðskiljanlegur hluti af starfsumhverfi landbúnaðarins í heild sinni og öll ríki verja sinn landbúnað með tollvernd. Það gerir Evrópusambandið einnig. Það má kannski segja að það sé að mörgu leyti slyngt í samningum vegna þess að í tollasamningnum, sem var gerður hér 2015 og tók gildi 2018, hallar á íslenska bændur og að mörgu leyti er þetta góður samningur fyrir Evrópusambandið. Þeir vernda sinn landbúnað vel og eru í góðu samráði við bændur þegar þeir semja. Það er eitthvað sem við mættum horfa til vegna þess að samráð hefur skort við hagsmunaaðila að mínum dómi þegar samningar af þessu tagi hafa verið gerðir.

Hv. þingmaður nefndi það sérstaklega að vöruverð á landbúnaðarvörum myndi hækka verði þetta frumvarp að lögum, sem að mínum dómi gengur reyndar ekki nógu langt. Mig langar til að hv. þingmaður skýri það nánar út fyrir okkur vegna þess að það liggur ekki fyrir að neytendur hafi notið góðs af þessum tollasamningum í formi lægra vöruverðs. Það er nú einu sinni þannig, hv. þingmaður.



[19:01]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Öðruvísi mér áður brá. Mig minnir að fjölmargir þingmenn Miðflokksins hafi komið hingað upp og talað um undirverðlagningu á erlendri matvöru sem væri í raun skaðleg fyrir innlenda framleiðslu. Ég býst við að allar athuganir myndu sýna að samkeppni af þessum toga hefur leitt til lægra verðs á einstökum vörum. Ég held hins vegar að það séu líka svo margir aðrir þættir sem ýta undir það að lítil þjóð eins og við höfum gott af góðri og mikilli samkeppni erlendis frá. Það þekkjum við úr öðrum atvinnugreinum. Upp úr 1970 eða undir 1970, þegar var verið að opna ýmsar atvinnugreinar, voru margir framleiðendur sem fengu högg í upphafi en ég held að það hafi samt sem áður verið til bóta fyrir íslenskt samfélag.

Það kemur hv. þingmanni ekki á óvart að við leggjumst gegn þessu frumvarpi. Það er gott, en að það sé vegna þess að við séum eitthvað sérstaklega á móti landbúnaði er af og frá. Ég er talsmaður þess að við styðjum íslenskan landbúnað eins vel og við getum. Ég hef ekki talað fyrir því að við drögum úr þeim fjárhæðum sem við verjum til íslensks landbúnaðar. Ég vil hins vegar gera það með öðrum hætti en hefur verið gert. Ég vil ekki hvetja til framleiðslu á vöru sem í rauninni þarf að borga með þegar hún er seld. Ég vil hvetja til þess að þannig sé staðið að íslenskum landbúnaði að bændur hafi betri laun en þeir hafa. Landbúnaður skiptir miklu máli út frá menningarlegu sjónarmiði til að halda landinu í byggð og við getum framleitt umhverfisvæna, góða og holla vöru. En til þess þurfum við að stunda meiri vöruþróun en okkur hefur auðnast.



[19:03]
Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og það gleður mig að hann talaði tiltölulega hlýtt til landbúnaðarins. En það er nauðsynlegt að átta sig á því að nú er landbúnaðurinn í alvarlegum vanda og við erum að horfa upp á mjög mikla birgðasöfnun í landinu. Þetta eru aðstæður sem við höfum aldrei lent í áður og við þekkjum það í fleiri atvinnugreinum eins og margoft hefur komið fram hér. Þess vegna verðum við að mæta landbúnaðinum með einhverjum hætti. Þegar birgðasöfnun er orðin svo mikil að bændur geta ekki selt sína vöru er greinin í alvarlegum vanda. Á sama tíma er verið að flytja inn landbúnaðarvörur. Það sjá allir að það endar bara á einn veg, þessir innlendu framleiðendur geta ekki selt sína vöru og geta það eiginlega ekki nú þegar vegna ástandsins, og þá endar það náttúrlega með gjaldþroti í greininni. Það er eitthvað sem við viljum ekki sjá vegna þess að við eigum að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu. Það eru margvísleg rök fyrir því og ekki síst bara þjóðaröryggis vegna.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér að mæta bændum ef hann er á móti þessu frumvarpi? Það er alveg ljóst að það verður að gera eitthvað, hv. þingmaður. Þá væri gott að hann útlistaði það bara hér og nú með hvaða hætti hann sér fyrir sér að mæta vanda landbúnaðarins því að ekki vill hann styðja þetta frumvarp, sem gengur reyndar ekki nægilega langt. Hann hlýtur að hafa einhverjar lausnir í þeim efnum vegna þess að ekki viljum við sjá hér fjöldagjaldþrot eins og ég nefndi.



[19:05]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, við viljum ekki sjá fjöldagjaldþrot í þessari grein frekar en í öðrum atvinnugreinum eða hjá heimilum landsins. Þekkti hv. þingmaður mig betur þá vissi hann að ég er alinn upp í landbúnaðar- og matvælaframleiðsluhéraði og þekki auðvitað mikilvægi landbúnaðarins og mér hefur alltaf verið hlýtt til hans. Ég hef líka séð frá því að ég ólst upp og fram á þennan dag hvernig vöruþróun hefur batnað, vöruúrval hefur aukist, hollustan hefur lagast. Allt þetta held ég að haldist í hendur við það að við höfum opnað okkur gagnvart umheiminum. Við erum náttúrlega með ótrúlega framleiðslustýringu á okkar landbúnaðarframleiðslu og við framleiðum kannski ekki endilega í takt við það sem markaðurinn vill hverju sinni. Við höfum stundum setið uppi með of mikið af vörum og þurfum þá að koma framleiðslunni einhvern veginn frá okkur og borga með henni. Það er ekki skynsamlegt, hvorki út frá almennum rekstri né heldur þegar við stöndum frammi fyrir vanda sem snýr að loftslagsmálum. Ég myndi miklu frekar vilja styrkja landbúnaðinn með því að greiða styrki til búsetu, beina framleiðslunni í grænni átt frekar en að gera það á hvert kíló.

Hér kallar hv. þingmaður eftir því að ég leysi vanda landbúnaðarins með konkretlausnum. Það get ég ekki. Hins vegar hef ég sagt það og sagði það í ræðu minni að ég teldi að eðlilegra væri að gera það með beinum styrkjum og beinni aðkomu ef þeir sem hafa almennt dugað fyrir atvinnurekstur í landinu eru ekki nægir. Þá vísa ég aftur til orða hv. þingmanns í andsvörum áðan þegar hann talaði um ágætar leiðir Evrópusambandsins í þeim efnum.



[19:08]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta frumvarp er liður í því að reyna að mæta þeim alvarlega vanda sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir og gengur út á að gerðar verði tímabundnar breytingar á því lagaumhverfi sem varðar úthlutun á tollkvótum í landbúnaðarvörum. Ég sagði það fyrr í andsvari að ég tel, og við í Miðflokknum, að þetta frumvarp gangi ekki nægilega langt og það væri fullt tilefni til að fresta þessu útboði, tímabundið a.m.k. á meðan þessir erfiðleikar ganga yfir.

Það er rétt að nefna að tollvernd er óaðskiljanlegur hluti af starfsumhverfi landbúnaðarins í heild og hún verður að hafa tilætluð áhrif til að geta staðið vörð um innlenda framleiðslu og það er þannig, eins og ég sagði áðan, að öll ríki vernda landbúnað sinn með einhverjum hætti. Það er afar mikilvægt að við stöndum vörð um innlenda matvælaframleiðslu. Hún skapar í fyrsta lagi matvælaöryggi fyrir þjóðina og störf fyrir fjölmarga og við höldum landinu í byggð. Það eru því mörg rök sem mæla með því að við stöndum vörð um þessa mikilvægu atvinnugrein. Þess vegna eiga tollasamningar ekki að valda hnignun í íslenskum landbúnaði. Það er samdóma álit hins vegar og mat hagsmunaaðila í landbúnaði að hagsmunir landbúnaðarins hafi ekki verið nægilega vel varðir í þeim tollasamningum sem hafa verið gerðir og því miður hafa menn ekki staðið sig nógu vel í þeirri samningagerð. Alla vega erum við komin á þann vendipunkt að þessi samningur er orðinn verulega íþyngjandi fyrir landbúnaðinn og ekki síst nú þegar veirufaraldurinn hefur valdið miklum erfiðleikum hjá hinum mörgu atvinnugreinum í landinu og einstaklingum sem hafa misst vinnuna.

Við vitum að íslenskur landbúnaður er illa samkeppnisfær við landbúnað í nágrannalöndunum, t.d. landfræðilega. Greiningar á vegum OECD bera mikilvægt vitni um þetta, allar greiningar, að tollvernd er mjög mikilvæg fyrir íslenskan landbúnað og í raun og veru grundvallaratriði í starfsskilyrðum greinarinnar. Svo er það að með þessum samningum hafa evrópskir framleiðendur, evrópskir bændur, fengið hlutdeild í innanlandsmarkaði hér og það er sérstaklega áberandi í veirufaraldrinum, þegar birgðasöfnun verður með þeim hætti sem hún er núna í landinu vegna færri ferðamanna, að þessi samningur veldur enn meira óhagræði og ljóst að verði ekki gerðar breytingar mun það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þetta er skref í rétta átt en hins vegar teljum við það ekki nægilegt og að það eigi að fara þá leið að bíða með þessi uppboð.

Hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af því að þá séum við hugsanlega að brjóta samninginn en ég legg aftur á móti áherslu á að það er nauðsynlegt að taka þessa umræðu strax við Evrópusambandið í ljósi þeirra aðstæðna sem við erum komin í, eiga samráð við Evrópusambandið um það að þetta sé leið sem við Íslendingar teljum nauðsynlegt að fara. Svo er það aftur á móti annar handleggur að ég hef talað fyrir því að þessum samningi verði sagt upp og samið upp á nýtt vegna brostinna forsendna, vegna þess að Bretland er að ganga úr samningnum. Við höfum vitað það í marga mánuði og það mun þýða að stærsta markaðssvæði okkar, Bretland, mun ganga út úr samningnum. Þá er þessi samningur í raun og veru brostinn. Það sjá allir og ég held að Evrópusambandið átti sig líka á því.

Ég held að það sé nauðsynlegt að stjórnvöld hér láti kanna raunveruleg áhrif tollverndar á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi almennt. Auk þess verð ég að segja, og ég kom inn á það áðan, að ég tel að það sé galli á þessum tollasamningi að ekki skuli vera neitt svigrúm innan hans til að bregðast við aðstæðum sem þeim sem eru upp komnar í landbúnaðinum núna vegna veirufaraldursins. Þetta eru óviðráðanlegar aðstæður sem við erum lent í og væri eðlilegt að það væri ákvæði í samningum sem þessum, gagnkvæmt ákvæði sem báðir aðilar gætu gripið til ef aðstæður kæmu upp sem enginn sá fyrir þegar samningurinn var gerður.

Ég hef rætt það hér að það eru alvarlegar aðstæður í landbúnaði sem tengjast veirufaraldrinum og að mati hagsmunaaðila í landbúnaði er fyrirsjáanlegur afkomubrestur í greininni sem mun hafa mikil og varanleg áhrif á íslenskan landbúnað. Þess vegna er nauðsynlegt að grípa til margþættra aðgerða af hálfu íslenska ríkisins. Í raun og veru hefði átt að vera búið að gera það. Stjórnvöldum var gert kunnugt í apríl hvert stefndi hvað varðar landbúnaðinn vegna veirufaraldursins og það hefur tekið að mínum dómi allt of langan tíma að bregðast við. Þetta eru í raun fyrstu viðbrögð sem koma af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart landbúnaðinum. Mörgum öðrum atvinnuvegum, sérstaklega ferðaþjónustunni, var mætt nánast strax en öðru gegnir um landbúnaðinn.

Það er ljóst að innflutningur á búvörum hefur þrengt að mörkuðum á sama tíma og neysla hér á landi hefur dregist verulega saman. Veirufaraldurinn hefur aukið enn á þann vanda sem var fyrir og má rekja til hruns á komu ferðamanna til landsins og sóttvarnaaðgerðum. Þá hefur sala á kjöti, eins og bara í alifuglakjöti, hrossa-, svína-, nautgripa- og lambakjöti dregist saman, sérstaklega lambakjöti og nautgripakjöti síðastliðna þrjá mánuði, um u.þ.b. 9%. Nú hrannast því upp birgðir, bæði í búfé á fæti og hjá bændum og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Það er því afar brýnt að bregðast við og með þeim hætti að það beri árangur. Þess vegna held ég að sé algerlega nauðsynlegt, herra forseti, að það komi til beinir styrkir til bænda. Ég sakna þess mjög í fjárlagafrumvarpinu að ekki skuli vera gert ráð fyrir neinu slíku og hefur ekki verið í þeim aðgerðapökkum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og ekki heldur í fimmta og stærsta aðgerðapakkanum sem kemur núna í fjáraukalögum, þar er ekkert minnst á landbúnaðinn.

Við verðum líka að átta okkur á því að útflutningstækifæri íslenskra landbúnaðarvara, eins og í kjötvörum, eru mjög takmörkuð. Það er einfaldlega vegna hins háa framleiðslukostnaðar hér og aðstæðna, náttúrulegra aðstæðna, stærðar landsins o.s.frv. Það er í raun og veru óraunsætt að gera ráð fyrir því að við verðum stór útflytjandi á landbúnaðarvörum, þannig að aðstæður bænda eru mjög takmarkaðar hvað það varðar. Það er ljóst að íslensk kjötframleiðsla verður seint samkeppnisfær við erlenda framleiðslu og útflutningstækifæri sem endurspegla framleiðslukostnað eru bara ekki í sjónmáli. Það er þá kannski helst í garðyrkjunni sem eru einhver tækifæri. Auðvitað eigum við að leggja áherslu á fæðuöryggi og sinna neytendum innan lands af kostgæfni. En þá er búið að skekkja markaðinn vegna innflutnings þegar þetta mikil birgðasöfnun er í landinu, sérstaklega í kjötvörum.

Á síðastliðnum tveimur árum hafa samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði séð breytingu á sölu mjólkur og mjólkurvara. Það er birgðasöfnun í mjólkurpróteini eins og fleiri geirum og það hefur fyrst og fremst með það að gera að hér er flutt mikið inn af ostum og ójafnvægi í þeim málum, einfaldlega vegna þess að tollasamningurinn er óhagstæður okkur hvað það varðar. Ofan á þetta allt saman hefur komið í ljós að mikill misbrestur er á tollverndinni þegar kemur að innflutningi og tollnúmerum. Það mál hefur nú vakið athygli og er hafin rannsókn á því. Hagsmunasamtök í landbúnaði urðu þess áskynja að tollvernd virkaði ekki sem skyldi og hér væri verið að flytja inn vörur á röngum tollnúmerum sem bætti enn ofan á vandann. Þetta er því orðið ansi mikið, herra forseti, svo vægt sé til orða tekið. Þetta hefur náttúrlega valdi heilmiklu tjóni og sannarlega þarf að taka á því máli, sem virðist vera ansi viðamikið og verður sjálfsagt langt í að niðurstaða fáist í. Það sýnir bara að þetta kerfi allt saman virðist vera í einhvers konar ólestri og nauðsynlegt að taka á af festu í þeim efnum.

Ég verð að segja það í lokin, herra forseti, að eins og ég nefndi í andsvari er Evrópusambandið að mæta bændum með beinum fjárframlögum og ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld skoði þá leið. Ég nefndi t.d. að bændum stendur til boða fjárstyrkur og einnig aðgangur að ódýru lánsfé, þannig að Evrópusambandið er með viðamiklar stuðningsaðgerðir gagnvart landbúnaðinum. Það sama á við um fleiri lönd, eins og t.d. Noreg sem við berum okkur gjarnan saman við þegar landbúnaðurinn er annars vegar. Ég vona því og vænti þess að hæstv. landbúnaðarráðherra fari nú að segja okkur frá því hvernig hann hyggst mæta landbúnaðinum með öðrum hætti, eins og hann nefndi áðan, þótt þess sjáist ekki merki í fjárlögum.

Hvað okkur Miðflokkinn varðar er niðurstaðan sú að þetta frumvarp gengur ekki nógu langt. Við teljum að það eigi að fresta þessu útboði, það sé langskynsamlegast eins og staðan er núna. Ég er alveg sannfærður um að Evrópusambandið mun sýna því skilning vegna þess að þeir eru í sömu aðstöðu. Það er t.d. hægt að rökstyðja með því að hér hafa bændur ekki fengið nein bein fjárframlög frá ríkinu. Þetta sé í raun og veru fyrsta aðgerðin sem er lögð til. Það ættu þá að vera rök í málinu þannig að það verði ekki litið á það sem samningsbrot af hálfu Íslands að fresta þessu tímabundið meðan farið verður yfir málið. Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan eru öll þessi mál til skoðunar í utanríkisráðuneytinu varðandi samninginn í heild sinni, sem síðan er afar brýnt mál að fara yfir, hvernig menn ætla að fara út úr þeim samningi vegna þess að það er ekkert hægt að búa við þennan samning þegar Bretland er farið út úr Evrópusambandinu. Það held ég að sé alveg ljóst.

Alla vega er niðurstaðan þessi: Til þess að minnka líkurnar á því að hrun verði í landbúnaði, sem enginn vill sjá, ég er alveg sannfærður um það, þarf að efla stuðningskerfi landbúnaðarins. Liður í því er að tryggja að sá stuðningur sem er hér í formi tollverndar haldi og auk þess er nauðsynlegt að ríkisvaldið styrki bændur með beinum framlögum í ljósi þess ástands sem nú ríkir vegna veirufaraldursins.



[19:23]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er ekki gott frumvarp. Ég held að óhætt sé að segja það fullum fetum strax í upphafi. Vissulega er það svo að íslenskur landbúnaður og matvælaframleiðsla á í miklum vanda líkt og stór hluti af íslensku atvinnulífi. En það á ekki að styðja við íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu með aukinni vernd og hindrunum í viðskiptum. Það er röng leið. Það er alltaf röng leið og hún er líka röng á tímum Covid. Greið viðskipti hljóta alltaf að eiga að vera grundvallaratriðið. Samkeppni er góð fyrir bændur og matvælaframleiðendur eins og alla aðra. Þessi aðferð er til þess fallin að hindra innflutning sem er þó í sjálfu sér ekki mjög mikill ef litið er til innlendrar framleiðslu. Það má draga mjög í efa að það að draga úr þessum innflutningi muni skipta nokkru einasta máli fyrir bændur eða íslenska matvælaframleiðendur. Með sömu rökum mætti e.t.v. varpa fram hugmynd í þessum anda um hvort ekki væri rétt að setja innflutningstakmarkanir á áfengi til að vernda íslenska framleiðendur. Það hefur jú verið drukkið miklu minna áfengi í landinu eftir að allir ferðamennirnir fóru. Er það rétt aðferð? Nei, það myndi ekki nokkrum lifandi manni detta slík firra í hug. Það er nú þannig.

Þetta mál varpar ljósi á það að íslenskt landbúnaðarkerfi þarfnast algerrar uppstokkunar. Ég ætla svo sem ekki að ræða það hér en það er alveg augljóst að áherslan á framleiðsluna er enn allt of mikil. Við erum einfaldlega að framleiða of mikið, sérstaklega af kjöti. Það er staðreynd máls sem ekki er hægt að líta fram hjá. Þess vegna þarf að breyta kerfinu þannig að bændur og búalið geti haft viðurværi með öðrum hætti. Að sjálfsögðu mun kjötframleiðsla aldrei leggjast hér af, ég er alls ekkert að tala um það. En hún er of mikil. Það er of mikil áhersla á framleiðslu kjöts. Auðvitað blasir við að landbúnaðurinn og íslenskir matvælaframleiðendur eiga við mikinn vanda að etja eins og svo margar aðrar greinar. Til að koma á móts við þann vanda á að beita svipuðum eða sömu meðulum og beitt er fyrir aðrar atvinnugreinar í sama vanda. Lausnin er ekki sú að loka, draga úr samkeppni. Það getur ekki verið lausnin.

Þetta er auðvitað mikið vandræðamál. Það hlýtur að vera sérlega vandræðalegt fyrir þá sem tala mikið um frjálsa samkeppni og frjálsa verslun að beita sér fyrir frumvarpi af þessu tagi. En ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Þetta eru meginsjónarmið sem skipta miklu máli í þessu samhengi. Við eigum að aðstoða bændur, við eigum að aðstoða landbúnaðinn, við eigum að aðstoða matvælaframleiðendur. En við eigum ekki að gera það með þessum hætti, alls ekki. Viðreisn mun ekki geta staðið fyrir stuðningi við þetta frumvarp. Það er bara fjarri lagi.



[19:28]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Hún hefur á margan hátt verið áhugaverð þó að fátt hafi komið neitt sérstaklega á óvart. Full ástæða er til að þakka þann hlýhug sem ræðumenn hafa sýnt í garð íslensks landbúnaðar. Það er tvímælalaust ánægjulegt og gott þó svo að ræðumenn greini á um með hvaða hætti eigi að styrkja hann og styðja við hann.

Ég vil nefna örfá atriði varðandi það sem hefur komið fram, t.d. fullyrðingar um að þessi breyting muni koma til með að hækka verð til neytenda. Ég held að það sé ekki á færi nokkurs manns að svara því. Verð á heimsmarkaði á kjöti hefur lækkað um 14% það sem af er ári. Við höfum ekki hugmynd um hvernig það kemur til með að endurspeglast í verði á hugsanlegum innflutningi til neytenda hér. Verðið hlýtur sömuleiðis að ráðast af þeirri eftirspurn sem verður eftir tollkvótum í næsta útboði. Það má ekki draga úr því að lækkunin sem varð á tollkvótum við útboðið í júní stafar að hluta til af því mikla magni sem þá var boðið út. Sömuleiðis eru áhrifin af Covid-19, sem hér hafa verið nefnd, greinileg í þá veru að hafa áhrif á hversu hátt aðilar buðu. Auðvitað á breytt úthlutunin einhvern hlut sömuleiðis í þeirri lækkun sem varð á útboði.

Það eru í rauninni í mínum huga allt of margir óvissuþættir í stöðunni í dag til að menn geti fullyrt með afgerandi hætti að sú breyting sem hér er um rætt hækki verð til neytenda. Ég held að við höfum ekki nein bein skilaboð um það. Ég hef átt viðræður við aðila í íslenskri verslun og meðal innflytjenda sem flestir hafa fullan skilning á innihaldi frumvarpsins sem hér er verið að flytja. Þá stafar sá skilningur af því að þeir meta stöðuna í ljósi þeirra aðstæðna sem við er að glíma í þessum efnum.

Í tilefni þess sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði, varðandi það að bændur og búalið hafi viðurværi með einhverjum öðrum hætti en í dag, ætla ég að segja að það er vandrataður vegur að finna. Það hefur verið reynt að nálgast það í endurskoðun búvörusamninga undanfarin ár, m.a. eru komnar inn ákveðnar nýjungar í því. Sérstaklega á það við um sauðfjárræktina og kallast þar aðlögunarsamningar.

Ég get alveg tekið undir það með þeim þingmönnum sem nefnt hafa að grunnurinn undir velgengni þjóðfélags liggur m.a. í frjálsum viðskiptum. Það er langur vegur frá að ég geti tekið undir þær fullyrðingar sem komu fram í máli hv. þingmanns hér áðan um að þetta mál sé eitthvað vandræðalegt fyrir þá flokka sem standa fyrir frjálslyndi og hafa talað fyrir því. Breytingin sem hér er verið að leggja til er eingöngu sú að hverfa frá því fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta sem gilti þegar Viðreisn fór með landbúnaðarmál í ríkisstjórn Íslands. Breytingin er ekki stærri en það. Ekki voru gerðar miklar breytingar í þeim efnum í þeirri stjórnartíð.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.