151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessu efni vil ég segja að forsendurnar fyrir samningnum milli Íslands og Evrópusambandsins eru ekki þær sömu og voru þegar hann var gerður 2015 og tók gildi 2018, af þeirri einföldu ástæðu að Bretland er ekki lengur aðili að Evrópusambandinu eftir áramótin, væntanlega. Þannig háttar til að stærsti hlutinn, sem við höfum verið að reyna að flytja út samkvæmt þessum samningi sem ber tolla, burðurinn í því er kindakjöt og skyr, en það eru aðrir þættir sem hafa verið án tolla eins og útflutningur á hrossum. Þunginn í þessu hefur verið í kindakjötinu, í kjöthlutanum, og hann hefur að megninu til farið til Bretlands. Þó ekki væri nema af þessari ástæðu er ástæða til að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um endurskoðun á þessu og alla vega ræða það. En það væri í mínum huga algjörlega galið að (Forseti hringir.) áður en til slíkra viðræðna kæmi þá værum við búin að brjóta það samkomulag sem í gildi er með uppsögn eða öðrum hætti.