151. löggjafarþing — 32. fundur
 7. desember 2020.
vopnalög.

[15:32]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í starfi okkar þingmanna fáum við oft ábendingar um stór mál og smá. Nú er það svo að ég hef verið að æfa bogfimi undanfarin ár sem er sérstaklega góð íþrótt fyrir streituvaldandi starf eins og þingmennskan er. Og því miður tekur þingmennskan of mikinn tíma frá því að geta stundað íþróttina nógu mikið. Það þarf ákveðna hugarró og jafnvægi til að ná árangri. Bogfimi er líklega ein elsta áhaldaíþrótt mannkyns. Mér barst einmitt ábending frá bogfimihreyfingunni um að í vopnalögum standi að barn yngra en 16 ára megi ekki selja eða afhenda örvaboga með meiri togkrafti en 7 kg eða oddhvassar örvar. Nú er það svo að á alþjóðlegum mótum eru kannski 13 ára ungmenni að byrja að keppa á alþjóðavísu. Þar eru jafnvel notaðir 15–25 kílóa bogar sem gerir það að verkum að miðað við lögin okkar geta íslensk ungmenni í raun ekki æft eða keppt á Íslandi. Í raun geta þau ekki keppt, æft eða neitt svoleiðis fyrir erlend mót, hvað þá íslensk. Samt erum við t.d. með Íslandsmet í flokki undir 16 ára. Þetta er nýleg ábending sem vekur ákveðna athygli á því að við erum í vondum málum í þessari íþrótt. Mig langaði til að eiga orð við hæstv. ráðherra um þetta vandamál, að íslensk ungmenni geti ekki tekið þátt í þessari annars gömlu og göfugu íþrótt og ég leita eftir stuðningi ráðherra við að laga þetta vandamál.



[15:34]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta og get ekki annað en verið jákvæð fyrir þessum breytingum. Ég hef átt í samskiptum við Bogfimifélagið vegna þessa og ýmsar ábendingar hafa komið til ráðuneytisins um breytingar sem þarf að ráðast í á vopnalögunum, m.a. um aldursskilyrði og íþróttastarf en líka ýmsar aðrar breytingar. Það er auðvitað mjög eðlilegt að unglingarnir okkar standi jafnfætis jafnöldrum sínum í löndunum í kringum okkur. Vopnalögin eiga að sjálfsögðu ekki að koma í veg fyrir íþróttaæfingar ungmenna né keppni í bogfimi og gaman að heyra það sem hv. þingmaður fer hér yfir um velgengni unga fólksins okkar í þessari íþrótt sem hefur greinilega vaxið mikið síðastliðin ár. En það þyrfti auðvitað líka að samræma þetta við leyfi til skotvopnaíþrótta og kannski skoða það sérstaklega og hvort ekki sé hægt að hafa þessar undanþágur fyrir keppni og æfingar samræmdar. Það er þörf á heildarendurskoðun á vopnalögunum, bæði þarf að innleiða ýmsar ESB- og Schengen-gerðir sem eftir er að gera og sú vinna er í gangi í ráðuneytinu. Þannig að ég fagna þessum breytingum og tel mikilvægt að skoða þessi sjónarmið og hvort ekki sé hægt að verða við þeim með breytingunum.



[15:36]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hvet ráðherrann áfram í heildarendurskoðun í þessum málaflokki, alveg tvímælalaust. En þetta er akkúrat vandamál núna fyrir bogfimi ungmenna því að í vopnalögum er heimild til að víkja frá aldursskilyrðum vegna íþróttaskotfimi sem er kannski ekki eins aðkallandi vandamál hvað það varðar. Við getum tekið dæmi, núverandi Íslandsmethafi í svigboga, bæði undir 21, 18 og 16 ára, er 16 ára stúlka, þvílík hetja þar á ferðinni, en það er væntanlega af því að hún hefur verið að æfa sig að undanförnu. Það segir sitt um ástandið á þessum lögum.



[15:37]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Mér finnst sérkennilegt að ákvæðið í 30. gr. laganna, um að ríkislögreglustjóri geti vikið frá banni ef sérstakar ástæður mæla með því, myndi ekki ná utan um þetta tilvik. Það var kannski þannig ákvæði sem var sett inn í lögin þá einmitt til að koma til móts við sérstakar aðstæður eins og þessar. Bogfimi er greinilega íþrótt sem er að vaxa og dafna á Íslandi og við viljum auðvitað styðja við hana. Þetta er því eitthvað sem ég fer að skoða og mun bara fagna frumvarpi og breytingum á þessu og hlakka til að skoða það með hv. þingmanni.