151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

vopnalög.

[15:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Mér finnst sérkennilegt að ákvæðið í 30. gr. laganna, um að ríkislögreglustjóri geti vikið frá banni ef sérstakar ástæður mæla með því, myndi ekki ná utan um þetta tilvik. Það var kannski þannig ákvæði sem var sett inn í lögin þá einmitt til að koma til móts við sérstakar aðstæður eins og þessar. Bogfimi er greinilega íþrótt sem er að vaxa og dafna á Íslandi og við viljum auðvitað styðja við hana. Þetta er því eitthvað sem ég fer að skoða og mun bara fagna frumvarpi og breytingum á þessu og hlakka til að skoða það með hv. þingmanni.