151. löggjafarþing — 38. fundur
 15. desember 2020.
bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 211. mál (lokauppgjör). — Þskj. 212, nál. m. brtt. 561.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[14:56]

[14:49]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál og þingflokkur Pírata styður þetta mál, enda er það mikilvægt skref í uppgjöri á misgjörðum fortíðar gagnvart fötluðum börnum sem vistuð voru á vegum hins opinbera. Ég vil hins vegar segja að hér skortir upp á og ég hefði viljað sjá framsæknari tillögu og stærri hring sleginn utan um alla þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir vondri meðferð á stofnunum á vegum hins opinbera eða á einkaheimilum sem þau voru vistuð á fyrir tilstuðlan hins opinbera. Þetta er að ákveðnu marki viðurkennt í nefndaráliti þegar kemur að börnum sem vistuð voru á einkaheimilum. Það er vel. Eftir situr stór hópur fatlaðra einstaklinga, sem ekki eru börn, sem hefur verið vistaður á stofnunum á vegum hins opinbera og hefur orðið fyrir vondri meðferð og stendur ekki til, a.m.k. ekki í bráð, að gera neitt í því. Nú er að hefjast einhvers konar frumskoðun á því vegna vondra frásagna af Arnarholti en mér hefði þótt meiri framsækni og (Forseti hringir.) betri bragur á því að taka þetta allt í einu og viðurkenna að við berum öll ábyrgð á mannréttindavernd allra og að þolendur hins opinbera hafi almennt sama aðgengi að réttlæti.



[14:50]
Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög (lokauppgjör). Það eru hópar sem falla utan við þetta frumvarp. Út af stendur fjöldi barna sem vistaður var af hálfu stjórnvalda, t.d. barnaverndaryfirvalda, á einkaheimilum. Þeim var ráðstafað þangað af stjórnvöldum. Mikilvægt er að fundin sé leið til að sá hópur fái úrlausn mála sinna á svipaðan hátt og sá stóri hópur sem vistaður var á opinberum stofnunum þar sem í ljós kom, herra forseti, að víða var pottur brotinn svo kalla mætti þá sögu alla smánarblett í sögu þjóðarinnar. Þetta mál getur ekki kallast lokauppgjör fyrr en saga þessara barna hefur verið sögð.



[14:51]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um sanngirnisbætur til handa fötluðum börnum sem vistuð voru á stofnunum eða heimilum sem rekin voru af ríki eða sveitarfélögum. Ég held að við eigum öll að fagna því. Við erum með fjármuni setta í þetta núna í fjárlögum og það er afar mikilvægt að þessi hópur líði ekki fyrir það eða þurfi að bíða vegna þess sem hér hefur verið drepið á og varðar börn sem voru vistuð á heimilum sem ekki voru endilega opinber eða slíkt, þrátt fyrir hafa verið vistuð af opinberum aðilum eins og barnaverndarnefndum. Það hefur komið fram í nefndinni og kom fram í skýrslu sem gerð var í kringum sanngirnisbæturnar á sínum tíma að það gæti orðið snúið og annmörkum háð af ýmsum ástæðum sem m.a. eru raktar í nefndaráliti um þetta mál. Mér finnst ekki gott að við hefðum látið þann hóp bíða sem hér er undir meðan við biðum eftir því að gerð yrði skýrsla um alla hina.



[14:53]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um sanngirnisbætur. Hér erum við að greiða atkvæði um mistök fortíðar. Við náum ekki utan um alla, því er nú verr og miður, en þetta er alla vega eitt skref í einu. En látum þetta okkur að kenningu verða í eitt skipti fyrir öll. Öryrkjabandalagið gerði kröfu um það og það átti að vera komið inn frumvarp 13. desember um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra. Eigum við ekki að drífa í að ganga frá því máli þannig að við þurfum ekki að standa í þessum sporum í framtíðinni?



[14:53]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu þetta mál og tel það vera af hinu góða. Það er gott að við séum að afgreiða þetta mál í dag en ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég hefði viljað sjá meiri vernd og viðurkenningu á vondri upplifun og illri meðferð fullorðins fólks sem hefur stigið fram og sagt frá því að það varð fyrir illri meðferð sem börn á einkaheimilum sem þeim var komið fyrir á af hálfu opinberra aðila. Ef það hefði verið tryggt enn betur með þessu frumvarpi hér og nú hefðum við þar með staðið vörð um öll þau börn sem voru vistuð af hálfu opinberra aðila. En ég vona, þrátt fyrir að fyrirsögn frumvarpsins kveði á um lokauppgjör, að við getum samt sem áður farið í þann leiðangur að gera upp þá fortíð sömuleiðis. Það er kannski líka í takt við þau mál sem eru að koma frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra þegar við erum að endurskoða öll þau lög (Forseti hringir.) er varða börn og málefni þeirra.

Ég styð þetta mál en ég hefði gjarnan viljað sjá enn frekari vörn um það.



[14:55]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hægt og rólega erum við að horfast í augu við það sem miður hefur farið í sögu okkar. Við erum að greiða því fólki sanngirnisbætur og fjölskyldum þess sem hefur mátt líða fyrir röng viðhorf okkar til samborgara okkar. Þetta er sanngirnismál sem við í Samfylkingunni styðjum að sjálfsögðu. Ég tek undir það sem fram hefur komið hér um nauðsyn á því að útvíkka þetta enn frekar til þeirra sem dvöldu á einkaheimilum. Mig langar að nefna sérstaklega þátt Landssamtakanna Þroskahjálpar í því að leiða þetta mál og að koma okkur á þann stað þar sem við erum núna í dag.



 1. gr. samþ. með 60 shlj. atkv.

 2. gr. samþ. með 60 shlj. atkv.

Brtt. í nál. 561,1–2 samþ. með 60 shlj. atkv.

 3.–4. gr., svo breyttar, samþ. með 60 shlj. atkv.

 5.–14. gr. samþ. með 60 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.