151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

bætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum.

211. mál
[14:49]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál og þingflokkur Pírata styður þetta mál, enda er það mikilvægt skref í uppgjöri á misgjörðum fortíðar gagnvart fötluðum börnum sem vistuð voru á vegum hins opinbera. Ég vil hins vegar segja að hér skortir upp á og ég hefði viljað sjá framsæknari tillögu og stærri hring sleginn utan um alla þá einstaklinga sem hafa orðið fyrir vondri meðferð á stofnunum á vegum hins opinbera eða á einkaheimilum sem þau voru vistuð á fyrir tilstuðlan hins opinbera. Þetta er að ákveðnu marki viðurkennt í nefndaráliti þegar kemur að börnum sem vistuð voru á einkaheimilum. Það er vel. Eftir situr stór hópur fatlaðra einstaklinga, sem ekki eru börn, sem hefur verið vistaður á stofnunum á vegum hins opinbera og hefur orðið fyrir vondri meðferð og stendur ekki til, a.m.k. ekki í bráð, að gera neitt í því. Nú er að hefjast einhvers konar frumskoðun á því vegna vondra frásagna af Arnarholti en mér hefði þótt meiri framsækni og (Forseti hringir.) betri bragur á því að taka þetta allt í einu og viðurkenna að við berum öll ábyrgð á mannréttindavernd allra og að þolendur hins opinbera hafi almennt sama aðgengi að réttlæti.