151. löggjafarþing — 105. fundur
 2. júní 2021.
störf þingsins.

[13:00]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Fyrir tæpum sex mánuðum óskaði ég eftir upplýsingum frá sjávarútvegsráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi, öðru en sjávarútvegi. Þriðjungur þingmanna var með mér á skýrslubeiðninni sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í þingsal. Ráðherrar hafa tíu vikur til að skila umbeðnum skýrslum. Eftir að tíu vikna fresturinn var liðinn barst mér reyndar ósk frá ráðuneytinu um að beiðnin yrði afmörkuð. Ég varð við því. Síðan eru liðnar 14 vikur, samtals tæpt hálft ár. Upplýsingarnar sem ég óskaði eftir byggjast á gögnum um útgerðarfélögin sjálf, dótturfélög þeirra, eignarhaldsfélög þeirra og dótturfélög eignarhaldsfélaga þeirra, hvort sem félögin eru skráð á Íslandi eða erlendis.

Sterk fjárhagsstaða stærstu útgerðarfélaganna byggist á einkaleyfi þeirra til nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og skipar það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi. Uppi eru vísbendingar um að fjárfestingar þessara félaga út fyrir greinina hafi aukist verulega. Slíkt getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar sinnar er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni og íslenskt samfélag er sérstaklega viðkvæmt fyrir óeðlilegum og skaðandi ítökum sérhagsmunaafla. Skýrslan, þegar hún kemur fyrir sjónir almennings, mun veita mikilvægar upplýsingar um raunveruleg áhrif aðila sem hafa ótímabundið einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar, um áhrif þessara aðila á íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag, aðila sem hafa ótímabundið einkaleyfi í boði ríkisstjórnarinnar. Spurt er: Af hverju er þessi töf á samantekt á upplýsingum sem flestar liggja fyrir eða eru opinberar? Er eitthvað að óttast? Er slæmt að almenningur fái þessar upplýsingar eða er slæmt að þær berist fyrir kosningar? Er það slæmt? Fyrir hvern?



[13:03]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þrátt fyrir afsökunarbeiðni Samherja, sem var löngu tímabær en er mjög óljós, þá halda áfram að birtast fréttir af framgöngu forsvarsmanna fyrirtækisins gagnvart lykilstofnunum samfélagsins. Samherji hefur gengið óvenjuhart fram gegn fjölmiðlafólki, krafist þess með bréfi að ráðherra gefi skýringar á ummælum sínum hér í ræðustóli Alþingis og í morgun kom fram að fyrirtækið hafi haldið áfram vegferð sinni gagnvart starfsfólki Seðlabanka Íslands og seðlabankastjóra. Ég endurtek það sem sagt var hér í gær: Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla hér í ræðustól.

En stóra málið er að við verðum með einhverjum hætti að geta tekist á við svona framgöngu sem samfélag. Við verðum að geta tryggt vernd fjölmiðlafólks betur gegn ágangi stórfyrirtækja og tryggt nægjanlegar fjárheimildir til lögreglu, saksóknara og annarra eftirlitsstofnana til að hefja rannsókn ef upp kemur grunur um refsivert athæfi. Kerfið okkar verður nefnilega að virka og löggjafinn, við hér á Alþingi, verður að veita starfsfólki grunnstofnana samfélagsins vernd fyrir svona ásókn, eins og seðlabankastjóri sagði sjálfur.

Ég, og líklega fleiri, var að vona að afsökunarbeiðni Samherja mætti taka sem dæmi um einlægan vilja þessa mikilvæga fyrirtækis til sátta við samfélagið. En því miður virðist skorta auðmýkt gagnvart því að auðlindin sem fyrirtækið hefur fengið sinn arð af að nýta er í eigu þjóðarinnar allrar. Fyrirtæki sem nýta auðlind okkar verða líka að standa undir meiri kröfum en aðrir til samfélagslegrar ábyrgðar. Þau verða að vinna í sátt við samfélagið sem þau starfa í, fylgja lögum og reglum og ekki bara að greiða fullt gjald til eigandans fyrir nýtinguna heldur líka sýna eigandanum, sem er íslenskt samfélag, virðingu og auðmýkt.

Herra forseti. Ég vona líka að þessi mál öllsömul hjálpi okkur hér í þinginu til að ná saman um raunverulegar breytingar en ekki sýndarbreytingar á auðlindaákvæðinu í stjórnarskrá. Oft var þörf en nú er nauðsyn.



[13:05]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Við þinglok finnst mér áhugavert að spjalla aðeins um samstarf og pólitík. Það var umræða hér á þingi í gær, í andsvörum, um sýndarmennsku í pólitík og kom ýmislegt í ljós þar sem við sjáum kannski bak við luktar dyr o.s.frv., þar er ýmislegt sagt sem er síðan ekki sagt á nákvæmlega sama hátt þegar kemur í ræðustól. Við Píratar höfum ítrekað talað um að við séum ekki tilbúin í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eða Miðflokk um völd. Við erum hins vegar alltaf til í samstarf um málefni. Ef fólk er tilbúið til þess að koma á málefnalegan hátt með rökstuðning fyrir góðum málum þá erum við alltaf tilbúin til að hlusta. En það er oft brugðist við því á mjög undarlegan hátt þegar við segjum að við viljum ekki fara í ríkisstjórnarsamstarf með þeim flokkum sem ég nefndi og talað um einhvers konar útilokun og eineltistilburði eða eitthvað svoleiðis. En það er náttúrlega þannig að þau sem sitja á valdastólum sinna þjónustuhlutverki. Það er enginn sem á einhvern rétt á valdastólum og það á enginn heimtingu á því að allir aðrir verði að styðja þá til valda því að við eigum að beita málefnalegum rökstuðningi til þess að koma málum okkar á framfæri. Þar hefur það sýnt sig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki farið vel með völd. Öll einstök siðferðileg álitamál á undanförnum árum hafa verið á þeirra ábyrgð. Hvað málefnin varðar, þó að Miðflokkurinn segist vera með skynsemi og rökhyggju að vopni í sínum málflutningi, þá er einmitt ósamræmi þar miðað við það sem við heyrum baktjaldamegin og síðan þess sem heyrist í ræðustól þingsins, þannig að við treystum þeim einfaldlega ekki til að standa við orð sín. Þar af leiðandi hlustum við ekki á eitthvað sem segist vera skynsemis- og rökhyggja en er það síðan ekki þegar allt kemur til alls.



[13:07]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það vantaði ekki lúðraþytinn um endurreisn heilbrigðiskerfisins þegar ríkisstjórnin tók við. Í því ljósi er í raun sjálfstætt rannsóknarefni hvernig biðlistar í kerfinu hafa lengst allt þetta kjörtímabil. Mig langar að nefna hér svar sem mér barst við fyrirspurn fyrr á árinu um stöðu átröskunarteymis Landspítalans. Þar koma nefnilega fram sláandi tölur. Samantekið kemur fram að átröskunarteymið er fjórðungi minna en það var fyrir upphaf kjörtímabilsins. Teymið hefur verið í húsnæðisvanda eftir að hafa flúið myglu fyrir þremur árum og fjöldi á biðlista hefur sjöfaldast á kjörtímabilinu og biðtíminn rýkur eðlilega upp á sama tíma, úr 2–4 mánuðum upp í 18–20 mánuði, eftir því að komast í þjónustu átröskunarteymis Landspítalans. En hvað þýðir þessi biðtími? Á þetta löngum tíma getur sjúklingur með ómeðhöndlaða átröskun komist á margfalt verri stað þannig að öll meðferð verður þyngri og erfiðari og viðkomandi kemst í lífshættulegt ástand. Þetta þýðir líka að sjúklingar og aðstandendur verða að troða marvaðann á þessum biðtíma. En hvernig gera þeir það? Jú, með því að greiða úr eigin vasa sálfræðiþjónustu. Þetta er spurning um líf og dauða þannig að við niðurskurð í heilbrigðiskerfinu hefur kostnaði verið velt yfir á sjúklinga.

Síðustu vikur hafa bæst við fréttir af alvarlegri stöðu á BUGL. Ráðuneytið benti í svarinu á Landspítalann frekar en að leggja fram framtíðaráætlun en sem betur fer varð kúvending á þeirri afstöðu þegar fjölmiðlar fóru að ganga á ráðherrann og hún ætlaði að kalla eftir áætlun um úrbætur frá Landspítala.

Herra forseti. Við erum að tala um litlar upphæðir. Rekstur teymisins kostaði 55 milljónir á síðasta ári. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur gegn átröskunum og enn bíðum við frétta af áætlun um úrbætur í meðferð við átröskunum. Það hefði verið gráupplagt hjá ríkisstjórninni að nýta tækifærið í dag (Forseti hringir.) og sýna að henni standi ekki á sama um sjúklinga og aðstandendur.



[13:09]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegi forseti. Mig langar í dag að tala um skattalækkanir, það nauðsynlega atriði sem við verðum að ganga til strax að loknum kosningum til að tryggja að ráðstöfunartekjur almennings aukist og að fyrirtæki landsins hafi meiri peninga inni á rekstrarreikningum sínum til að efla sinn hag, styrkja starfsemina, ráða fleiri starfsmenn og borga þeim betri laun. Það er eins og eitthvert raunheimarof sé í gangi núna. Við fjöllum um hin ýmsu mál tengd fjárlögum á lokametrum þessa þings en á sama tíma virðist velferðarráðherra, svo ég taki einn ráðherra sem dæmi, varla komast fram úr rúminu öðruvísi en að dreifa tugum milljóna eins og að kasta þeim út úr þyrlu. Það kemur að því að við munum þurfa að borga þá reikninga. Öll sú óráðsía sem blasir við okkur núna, þar sem ríkissjóður virðist aldrei hafa verið hanteraður með jafn óábyrgum hætti og nú er af þeim stjórnvöldum sem stýra — þeir reikningar munu allir koma til baka og við munum þurfa að borga þá.

Í gær var rætt hér frumvarp um kjör alþingismanna. Kjör alþingismanna skulu breytast m.a. á þann veg að þeir njóti ekki ferðastyrkja síðustu sex vikur fyrir kosningar. Á sama tíma ættum við að setja reglur um það að ef það hittir þannig á að taka þurfi skóflustungu að hjúkrunarheimili tveimur vikum fyrir kosningar, þá ætti ráðuneytisstjórinn að taka þá skóflustungu. Verið er að meðhöndla ríkissjóð með slíkum hætti að óforsvaranlegt er. Við munum sjá í ágúst og september endalausa runu ráðherra með þyrlupeningana sína þar sem hinum og þessum hópum er gefinn peningur í von um að það fjölgi atkvæðum. Teknar verða skóflustungur hægri, vinstri sem engin innstæða er fyrir. Alla þá reikninga verður á endanum að borga. Ég skora á hæstv. forseta Alþingis, sem situr hér fyrir aftan mig og er flutningsmaður frumvarpsins, að taka það til skoðunar fyrir 3. umr. málsins að ráðherrum verði bannað að koma fram í skjóli embættis síns í uppákomum sem þessum síðustu sex vikurnar til að jafna þann aðstöðumun sem kann að verða á þingmönnum og ráðherrum þegar þar að kemur.



[13:12]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að tala um þjóðareign hinna fáu. Í þeirri umræðu sem nú á sér stað um ítök stórútgerðarinnar verða stjórnmálamenn að vera vakandi í því meginhlutverki sínu að verja almannahagsmuni. Í þessu samhengi verður að skoða það auðlindaákvæði sem Katrín Jakobsdóttir hefur nú lagt fram, og spyrja: Í þágu hverra er þetta ákvæði? Svar við þessari spurningu af hálfu VG kemur fram í dag í grein eftir þingflokksformann flokksins í Kjarnanum, þar sem fram kemur að vissulega sé mikilvægt að við séum með auðlindaákvæði en, eins og segir, með leyfi forseta, „án þess þó að miða algjörlega við þær helstu náttúruauðlindir sem við nýtum í dag“. Traust og tímalaust plagg verði þá niðurstaðan.

Forseti. Niðurstaðan yrði vissulega traust og tímalaus fyrir stórútgerðina með auðlindaákvæði sem haggar í engu hagsmunum hennar. Niðurstaðan yrði því miður um leið óbreytt ástand fyrir almenning. Í frumvarpi forsætisráðherra er talað um þjóðareign en án þess þó að nefna að rétturinn til að nýta þessa þjóðareign eigi að vera tímabundinn og að fyrir þann rétt þurfi að greiða eðlilegt gjald. Til að gefa þessu orði þjóðareign raunverulega þýðingu þarf að tryggja að nýting á sameiginlegri auðlind sé gerð með tímabundnum samningum og það skiptir auðvitað líka máli að fram komi að greiða skuli eðlilegt gjald fyrir þessa nýtingu. Þannig verjum við hagsmuni almennings. Þetta er það atriði sem öllu máli skiptir í hinu pólitíska samhengi og svar ríkisstjórnarinnar liggur skýrt fyrir. Hér á nefnilega engu að breyta. Það er af ástæðu sem þessi tillaga er þögul um stærstu pólitísku álitaefnin. Sterkustu skilaboðin hér felast nefnilega í því sem ekki er sagt, í þögninni um þau atriði sem myndu tryggja hagsmuni almennings.

Herra forseti. Þetta er tillaga um þjóðareign hinna fáu.



[13:14]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að yfir 60% þjóðarinnar skuli treysta núverandi ríkisstjórn til góðra verka. Það er mikilvægt við svona aðstæður að traust sé ríkjandi gagnvart þeim stjórnvöldum sem vinna erfið verk á erfiðum tímum eins og þessi kórónuveirufaraldur hefur reynst þjóðinni og heimsbyggðinni. Forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir, nýtur líka mikils trausts og það er mjög gott. Það sýnir líka að landsmenn treysta Vinstri grænum til að leiða þjóðina í gegnum erfiða tíma, og það hefur tekist vel. Stjórnvöld hafa gripið til fjölda aðgerða og mætt fólki og fyrirtækjum í erfiðum aðstæðum. Það hefur aldrei verið lagt meira fé í samgöngur eða nýsköpun, heilbrigðismál og aðra þætti meðfram því að vera að glíma við þessar erfiðu aðstæður. Það er oft mikill bölmóður í þessum ræðustól og það er með ólíkindum hvernig menn geta velt sér upp úr ólíklegustu hlutum til að reyna að draga andann í þjóðinni niður. En það tekst greinilega ekki og fólk er ánægt með hvernig til hefur tekist. Það er góð vísbending um að Vinstri græn, okkar flokkur, verða eftirsótt til stjórnarsamstarfs í næstu kosningum og trúlega vilja allir þá Lilju kveðið hafa í haust að reyna að mynda stjórn með Vinstri grænum. Við höldum því til haga að við treystum okkur til að leiða áfram í ríkisstjórn og það eru málefni sem ráða því með hvaða flokkum við vinnum. Traust er lykilatriði í stjórnmálum og verkefnunum fram undan verður aldrei lokið. Það eru alltaf einhver verkefni fram undan og við þurfum alltaf að gera betur í öllum málaflokkum, en það er gott að þjóðin treystir Vinstri grænum til að vera áfram í forystu og það hefur sýnt sig undanfarið kjörtímabil að það hefur gengið mjög vel.



[13:16]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það lýsir ekki metnaðarleysi að vinna skipulega að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Á innan við 20 árum gerist tvennt: Losun gróðurhúsalofttegunda minnkar um 55% eða meira í samfloti við önnur Evrópuríki samkvæmt Parísarsamningnum. Nú þegar eru skref næstu ára tekin samkvæmt fjármagnaðri aðgerðaáætlun sem verður auðvitað að endurskoða og aðlaga gerðum ESB og EES eftir því sem nær dregur 2030. Losun varðar jú fyrst og fremst samgöngur, atvinnurekstur sem er utan ETS-kerfisins. Samhliða er ráðist í margvísleg verkefni sem binda kolefni, allt frá skógrækt til niðurdælingar koldíoxíðs, allt með mælanlegum markmiðum, eins þótt mat á losun og kolefnisbindingu í landnotkun og skógrækt sé vandasamt verk. Sérstakt átak er nú gert til að afla frekari gagna og styrkja matið á kolefnisbúskapnum.

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um kolefnishlutleysi sem á að tryggja framgang verkefnisins og varðar leiðina fram á við að breyttu breytanda því að á 20 árum verða skrefin mörg, fjölbreytileg og aðlöguð raunveruleikanum í samvinnu við samstarfslönd okkar. Meira að segja má búast við að erlend fyrirtæki bindi kolefni hér á landi í votlendi, skógrækt og við niðurdælingu og greiði fyrir. Allt tal um metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar, skort á fyrirsjáanleika eða fé eru innihaldslitlar fullyrðingar og rökin auðvitað ekki á lausu. Ísland mun bæði standa við loftslagsmarkmið og auka umhverfisvernd ef Vinstri græn ná að stýra þróuninni áfram í samvinnu við aðra flokka á Alþingi. Margir einblína á skyldu ríkisins og gagnrýna það fyrir lág framlög en sannleikurinn er sá að kostnaður við kolefnishlutleysi fellur á ríkið, sveitarfélög, atvinnufyrirtæki og almenning. Það er enginn sem spilar sóló í þessum efnum.



[13:18]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Fyrirtækjum í ferðaþjónustu gengur illa að fá fólk af atvinnuleysisskrá aftur til starfa. Fjöldi atvinnulausra hafnar vinnu, lætur ekki ná í sig og mætir ekki í viðtöl. Ég hafði samband við Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu sem segja frá reynslu sinni frá síðasta sumri þegar erfiðlega gekk að manna ferðaþjónustuna og að það sé að endurtaka sig. Vandinn er hins vegar miklu útbreiddari og alvarlegri en ferðaþjónustan átti von á.

Ég vil telja upp nokkur alvarleg dæmi sem ég fékk upplýsingar um. Fyrirtæki sem starfar um allt land hringdi í 60 fyrrverandi starfsmenn sína og enginn þeirra vildi koma aftur til vinnu. Sumir Íslendingar eru erlendis og aðrir eru farnir til síns heima og vilja vera þar á atvinnuleysisbótum á Íslandi enda eru bætur þar hærri en laun. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu fékk ekki Íslendinga í vinnu því að þeir vildu ekki vinna um helgar. Fyrirtæki á landsbyggðinni fær ekki fólk í vinnu því að það vill taka sumarfríið fyrst á bótum. Fyrirtæki á landsbyggðinni eru í verulegum vanda við að fá fólk. Fyrirtæki á Norðvesturlandi, sem þyrfti að vera með 25–30 stöðugildi í gistingu- og veitingaþjónustu, nær t.d. bara að manna 12 stöður.

Þetta eru bara nokkur dæmi og ég hef heyrt fleiri sögur nær alls staðar að af landinu, hvar sem borið er niður, og er ekki í samræmi við það sem þingmenn hafa sagt í ræðum í þessum sal um að vilji til vinnu sigri alltaf líf á bótum. Samkvæmt mínum heimildum hefur Vinnumálastofnun tekið 350 manns út af bótaskrá vegna svona mála síðustu daga. Það veldur fyrirtækjum tjóni að þurfa að þjálfa upp nýtt starfsfólk og þá nýtast ekki úrræðin sem boðið er upp á. Fyrirtækin fá ekki ráðningarstyrki með nýju fólki sem ekki er ráðið af atvinnuleysisskrá. Niðurstaðan er að ef sama ástand heldur áfram hamlar það viðspyrnu greinarinnar verulega með tilheyrandi auknum og óþörfum kostnaði ríkisins við atvinnuleysistryggingakerfið auk þess sem verðmætasköpun fer hægar af stað.

Virðulegur forseti. Er þetta ástand laununum eða bótaupphæðunum um að kenna?



[13:21]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Markmið með lögum um opinber fjármál var m.a., þegar við settum þau lög og samþykktum hér, að treysta betur aðkomu Alþingis að markmiðssetningu opinberra fjármála sem leggur grunn að fjárlögum hvers árs. Segja má að það markmið hafi hlotið gildi hér síðasta árið í umfjöllun um öll Covid-mál sem afgreidd hafa verið með aðkomu þingsins í fjáraukalögum, auk þess sem stefnumörkunin sem liggur að baki hefur verið uppfærð í þeim viðbrögðum sem við höfum samþykkt hér við faraldrinum og þeim búsifjum sem hann hefur valdið.

Eitt af því sem við ræðum hins vegar sjaldnar hér í þingsal er framkvæmd fjárlaga. Það er mjög mikilvægur þáttur í að efla og bæta reikningsskil og aga í ríkisfjármálunum og markmiðið um leið með setningu þessara laga. Hver ráðherra ber, í samræmi við lögin, ábyrgð á virku eftirliti og ráðstöfun fjárheimilda, að þær séu innan þess ramma sem Alþingi ákveður og skal ráðherra upplýsa bæði ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis um fjárhagslega framvindu. Það skal gerast eigi sjaldnar en ársfjórðungslega.

Fjárlaganefnd hefur nú verið upplýst um helstu niðurstöður fyrsta ársfjórðungs og má segja að í heildina feli útkoman í sér jákvæðar vísbendingar. Rekstrarafkoma er vissulega neikvæð eins og áætlað var, en tekjur eru heldur meiri en gjöld og í heildina eru gjöld innan fjárheimilda. Afkoman felur í sér jákvætt frávik sem nemur um 7 milljörðum. Það ber þó að ítreka að hér er einungis um þriggja mánaða uppgjör að ræða og var frávikið í uppfærðri spá í tengslum við fjármálaáætlun sem við samþykktum nýverið heldur minna. Frekari mynd fæst á þróun og framvindu mála í sex mánaða uppgjöri. Fjárlaganefnd skoðar alveg sérstaklega frávik einstakra málaflokka og hefur þegar kallað eftir frekari upplýsingum um hvað veldur og hvernig ráðherra ætlar að bregðast við.

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að fjárlaganefnd sinni þessum þætti og gaumgæfi og að þessi þráður verði í lagi fyrir þá fjárlaganefnd sem tekur við að hausti.



[13:23]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Við upphaf þessa kjörtímabils, í október 2017, birtist sláandi skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Í henni fólst annars vegar alvarleg viðvörun þar sem bent var á að umfang slíkrar starfsemi hefði aukist til mikilla muna hér á landi og við ættum erfitt með að sporna við þeirri þróun. Hins vegar birtist í skýrslunni hálfgert neyðaróp lögreglunnar þar sem hún kallar eftir úrræðum til að takast á við þennan breytta veruleika og þennan vaxandi vanda, kallar eftir mannskap, tólum og tækjum, tækni, þekkingu, heimildum og fjárveitingum.

Hver hafa viðbrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans hér á þingi verið? Nánast engin. Og aftur birtist skýrsla um umfang skipulagðrar glæpastarfsemi 2019, á miðju kjörtímabili. Það dugði ekki til að vekja þau viðbrögð sem nauðsynleg eru og verða við þeim ábendingum sem lögreglan hefur ítrekað sett fram. Allar tillögur okkar um auknar fjárveitingar til lögreglu til að gera henni betur kleift að takast á við þennan vanda hafa verið felldar af ríkisstjórninni. Þess í stað leggur hún fram tvö ný þingmál sem ætlunin er að klára nú á þessu þingi, að því er virðist, sem eru til þess fallin að auðvelda þessum glæpahópum starfsemina hér. Það er annars vegar frumvarp um lögleiðingu fíkniefna að verulegu leyti og hins vegar frumvarp sem mun breyta hælisleitendakerfinu hér, nokkuð sem ítrekað er vikið að í þessum skýrslum, og gera okkur erfiðara að koma í veg fyrir misnotkun þess, á sama tíma og önnur Norðurlönd eru að fara í þveröfuga átt einmitt til að hindra misnotkun hælisleitendakerfisins sem bitnar verst á þeim sem þurfa mest á aðstoðinni að halda.



[13:25]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Umræðan um fjárhagsvanda hjúkrunar- og dvalarheimila er hávær. Mörg þeirra virðast komin að gjaldþroti. Nokkur sveitarfélög hafa þegar kastað inn hvíta klútnum og segja: Við getum ekki meir, við viljum ekki meir. Einn milljarður á fjáraukalögum breytir engu, viðheldur óbreyttu ástandi og áframhaldandi óvissu. Þetta er skammgóður vermir. Því síður breytir það nokkru að lofað er í nýrri fjármálaáætlun fjármögnun á 263 nýjum hjúkrunarrýmum á næstu fjórum árum. Hugmyndafræðin er líka gjaldþrota. Ramakvein heyrast víða í heilbrigðiskerfinu, enn og aftur frá Landspítala; mannekla, plássleysi, fjárskortur og fagleg kreppa.

Herra forseti. Það stappar nærri neyðarástandi á mörgum sviðum í þjónustu við aldraða. Stjórnvöld hljóta að þurfa að kúvenda í stefnu sinni í öldrunarþjónustu, horfa á stóru myndina í nýju ljósi. Sú allt of einhliða sýn sem lýtur að stofnanarekstri gengur ekki upp og er tímaskekkja. Öðrum þjóðum er orðið það ljóst, en ekki Íslendingum.

Eins og hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom inn á í ræðu sinni, um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða, sem við í Samfylkingunni lögðum fram um miðjan maí, er einsýnt að hjúkrunarheimilareksturinn mun kosta ríflega 100 milljarða eftir áratug ef við höldum sama striki. Það er ekki góður kostur fyrir aldraða sem í nútímanum sjá ekki fyrir sér vist á hefðbundnum langdvalarstofnunum sem boðlegan kost, og ekki góður kostur fyrir ríkiskassann, enda var nýkjörnum formanni Landssambands eldri borgara mikið niðri fyrir í Kastljóssviðtali í fyrrakvöld.

Herra forseti. Umbreyting er stórt verkefni en hún er nauðsynleg, ekki dægurmál. Hún krefst þverpólitískrar samstöðu og langtímastefnumótunar um nýtt líf og nýja framtíð fyrir aldraða. Heilbrigðis- og velferðartækni, frábært fagfólk og annað sérþjálfað starfsfólk í þjónustunni skapar okkur ótal möguleika sem við höfum enn ekki nýtt okkur. Þetta er nýsköpunarverkefni í sinni tærustu mynd og leiðarstefið á að vera samvinna, mannúð og skapandi hugsun. Þarna hefur Samfylkingin skýra sýn.



[13:27]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Á lýðveldistímanum hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að mestu haldið um stjórnartaumana, yfirleitt saman, stundum hvor í sínu lagi. Sú samfélagsgerð sem við búum við í dag er á ábyrgð þeirra. Auðvitað eru í þeirri sögu bjartar hliðar en því miður eru þær líka ansi margar myrkar. Það vita það allir sem vilja vita að ítök þessara flokka í grunnkerfum samfélagsins eru mikil og í gegnum lýðveldissöguna hafa myndast sterk hagsmunatengsl á milli flokkanna og helstu hagsmunaaðila íslensks samfélags. Þú klappar mér, ég klappa þér. Það er engin tilviljun að þessir flokkar vilja helst engu hagga þegar kemur að sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfunum. Það er ekki vegna þeirra ríku almannahagsmuna sem þeir verja. Nei, það er vegna sérhagsmuna flokkanna sjálfra og fyrirtækjanna sem þeir þjóna. Það er heldur ekki tilviljun að um leið og umræðan um krónuna og Evrópusambandið er opnuð þá fari þessir sömu flokkar á límingunum. Það er ekki vegna þeirra ríku almannahagsmuna sem felast í auknum gengisstöðugleika fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Nei, það er vegna þess að þeir sem telja sig tapa eru vörslumenn sérhagsmuna sem flokkarnir verja.

Forseti. Samherjamálið hefur gefið almenningi innsýn í það hversu gegnsýrðir þessir flokkar eru af sérhagsmunagæslu. Ég vona að almenningur sé reiðubúinn að opna augun fyrir því og velji frekar stjórnmálaflokka sem hafa almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Það er mikið í húfi fyrir framtíð lands og lýðs.



[13:30]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Forsenda vaxtar á landsbyggðinni er byggðastefna, öflug fjarskipti og gott vegakerfi. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið til uppbyggingar og má fylgjast með framgangi þeirra á nýrri heimasíðu sem haldið er út af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Vefurinn ber nafnið Vegvísir og er gagnvirkur upplýsingavefur þar sem hægt verður að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri um 500 verkefna og stöðu 60 árangursmælikvarða. Það verður því hægt að fylgjast með fleiru á netinu en eldgosinu, sem ég veit að margir landsmenn sitja spenntir yfir þessa dagana. Á nýja vefnum verður hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlanir á landsvísu eða einungis aðgerðir byggðaáætlunar á Vestfjörðum og tiltekna tegund aðgerða byggðaáætlunar eða t.d. styrki til verslana og/eða fjarheilbrigðisþjónustu.

En talandi um Vestfirði. Þegar ég kom inn á þennan vef sá ég, og hef orðið vör við það á mínum ferðum um Vestfirði, hvílík bylting er að verða í samgöngumálum og bættu vegakerfi þar. Þar má telja Dynjandisheiðina sem á að klára núna fyrir 2023, veginn um Gufudalssveit og ekki má gleyma Dýrafjarðargöngum ásamt ýmsum vegaframkvæmdum vítt og breitt um fjórðunginn. Þetta er fjórðungur sem hefur setið svolítið eftir síðustu áratugi. Þeir sem hafa lagt leið sína um Kjalarnes síðustu mánuði sjá að tvöföldun Vesturlandsvegar upp í Borgarnes er komin vel á veg, framkvæmd sem ég er viss um að muni stórbreyta tækifærum fyrir fólk á þessu svæði. Sagan hefur kennt okkur að þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð leiddi það til fjölbreyttari atvinnutækifæra á Vesturlandi í heild. Þessar framkvæmdir eru brotabrot af þeim markmiðum sem finna má á vefnum. Ég hvet alla sem áhugasamir eru um byggðaáætlun og samgöngu- og fjarskiptaáætlun að kíkja inn á Vegvísi og sjá hvernig framtíðin blasir við fyrir atvinnutækifæri og uppbyggingu atvinnuvega um allt land, það er með samgöngum og fjarskiptamálum.



[13:32]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Er það ekki gróft fjárhagslegt ofbeldi að skatta og skerða tekjur og lífeyrissjóðslaun öryrkja og aldraðs fólks í almannatryggingakerfinu um 75–100%? Að halda 26.000 kr. eða minna, jafnvel engu, eftir af hverjum 100.000 kr. eru ekki skattar og skerðingar heldur eignaupptaka. Hvers vegna hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn undanfarna áratugi byggt upp svona arfavitlaust kerfi og viðhaldið því? Það er þrátt fyrir endurtekin loforð fyrir kosningar um að breyta þessari grófu eignaupptöku. Lögþvingaður eignaupptökuvarinn lífeyrissjóður er notaður til að skerða lífeyrislaun almannatrygginga, eftir fyrstu 25.000 kr. bitnar það verst á þeim sem síst skyldi, láglaunafólki og þar er stærstur hluti konur. Þingfararkaup er nú 1.210.368 kr. á mánuði og ef það væri skattað og skert á sama hátt og lífeyrislaun væru eftir í vasa okkar 314.600 kr., jafnvel ekki króna eftir að keðjuverkandi skerðingar yrðu dregnar frá.

Hvers vegna er öllu snúið á hvolf í þessum stórfurðulega bútasaumaða óskapnaði sem almannatryggingakerfið er orðið, kerfi sem ríkisstjórnir síðustu áratuga hafa komið á, viðhaldið og gert viljandi svo flókið að bara tölva getur reiknað út keðjuverkandi skerðingar til þeirra verst settu og sett þá beint í sárafátækt? Á sama tíma borga þeir sem grætt hafa á tá og fingri af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar lítið sem ekkert í skatt af ofurgróðanum, ekki króna tekin af þeim í skerðingar eða keðjuverkandi skerðingar af milljarðagróðanum. Á sama tíma bindur skerðingarófétið þá verst settu í sárafátækt í almannatryggingakerfinu í boði ríkisstjórnarinnar. Vont er þeirra ranglæti en verra er svokallað réttlæti sem kemur bara fram rétt fyrir kosningar, innantóm loforð um að nú sé þeirra tími kominn og þeirra réttlæti nú loksins komið, en eftir kosningar fer það allt á sömu leið, auðurinn streymir beint í vasa auðmanna. Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst. Og sjáum til þess í eitt skipti fyrir öll að fjölskyldur, börn og einstaklingar þurfi ekki að lifa við fátækt á Íslandi.