151. löggjafarþing — 105. fundur,  2. júní 2021.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Forsenda vaxtar á landsbyggðinni er byggðastefna, öflug fjarskipti og gott vegakerfi. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið til uppbyggingar og má fylgjast með framgangi þeirra á nýrri heimasíðu sem haldið er út af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Vefurinn ber nafnið Vegvísir og er gagnvirkur upplýsingavefur þar sem hægt verður að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri um 500 verkefna og stöðu 60 árangursmælikvarða. Það verður því hægt að fylgjast með fleiru á netinu en eldgosinu, sem ég veit að margir landsmenn sitja spenntir yfir þessa dagana. Á nýja vefnum verður hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlanir á landsvísu eða einungis aðgerðir byggðaáætlunar á Vestfjörðum og tiltekna tegund aðgerða byggðaáætlunar eða t.d. styrki til verslana og/eða fjarheilbrigðisþjónustu.

En talandi um Vestfirði. Þegar ég kom inn á þennan vef sá ég, og hef orðið vör við það á mínum ferðum um Vestfirði, hvílík bylting er að verða í samgöngumálum og bættu vegakerfi þar. Þar má telja Dynjandisheiðina sem á að klára núna fyrir 2023, veginn um Gufudalssveit og ekki má gleyma Dýrafjarðargöngum ásamt ýmsum vegaframkvæmdum vítt og breitt um fjórðunginn. Þetta er fjórðungur sem hefur setið svolítið eftir síðustu áratugi. Þeir sem hafa lagt leið sína um Kjalarnes síðustu mánuði sjá að tvöföldun Vesturlandsvegar upp í Borgarnes er komin vel á veg, framkvæmd sem ég er viss um að muni stórbreyta tækifærum fyrir fólk á þessu svæði. Sagan hefur kennt okkur að þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð leiddi það til fjölbreyttari atvinnutækifæra á Vesturlandi í heild. Þessar framkvæmdir eru brotabrot af þeim markmiðum sem finna má á vefnum. Ég hvet alla sem áhugasamir eru um byggðaáætlun og samgöngu- og fjarskiptaáætlun að kíkja inn á Vegvísi og sjá hvernig framtíðin blasir við fyrir atvinnutækifæri og uppbyggingu atvinnuvega um allt land, það er með samgöngum og fjarskiptamálum.