152. löggjafarþing — 26. fundur
 25. janúar 2022.
skerðing í strandveiðum.

[14:20]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er með svipaða fyrirspurn og var hér áðan varðandi smábátakerfið eða strandveiðarnar. Hún lýtur að ákvörðun ráðherrans um reglugerðarbreytingu frá 23. desember þar sem hann skerti þorskveiðiheimildir til strandveiða um 1.500 tonn. Ég tel rétt að rifja aðeins upp kosningabaráttuna í Norðvesturkjördæmi. Það eina sem framboð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafði fram að færa í því kjördæmi var að þeir vildu efla strandveiðarnar, að þeir ætluðu að gera vel við strandveiðarnar. Það var raunverulega það eina sem var á borðinu þar. Um 1.900 kjósendur kusu þá og fá svo að heyra það núna, og það er orðin staðreynd núna, að fyrsta verk hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að skerða heimildir til strandveiða um 1.500 tonn. Það munar miklu fyrir strandveiðarnar. Ég bara trúi þessu varla, ég trúi þessu ekki enn þá. Þetta eru hrein og klár svik við kjósendur í Norðvesturkjördæmi, höfum það bara alveg á hreinu, og blekkingar líka. Blekkingin er sú að segja við kjósendur í kosningabaráttunni síðastliðið haust að þeir ætli að efla strandveiðar við strendur Íslands, svikin eru reglugerðarbreytingin, svo að það sé algerlega á hreinu.

Strandveiðar hafa reynst hinum dreifðu sjávarbyggðum mjög vel þó að litlar séu. Þetta eru mjög umhverfisvænar veiðar og hafa koma í veg fyrir samþjöppun og spornað gegn samþjöppun sem hæstv. sjávarútvegsráðherra fjallað um hér rétt áðan að væri mikilvægt að koma í veg fyrir. Þær hafa tryggt og komið í veg fyrir að fjölbreyttur sjávarútvegur legðist af. Það hafa líka verið tækifæri fyrir ungt fólk að hefja veiðar.

Spurningin er þessi: Mun hæstv. sjávarútvegsráðherra leiðrétta þann niðurskurð á þorskveiðiheimildum til strandveiða sem ráðherrann ákvað með reglugerðarbreytingu 23. desember og nam 1.500 tonnum?



[14:23]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Bara svo að við höldum staðreyndum til haga þá er úthlutunin í ár yfir tíu ára meðaltali. Það er rangt að tala um að hér sé einhver stefnubreyting á ferð. Þetta er afleiðing af því að veiðiráðgjöf í þorski var lækkuð um tæp 40.000 tonn. Það er staðreynd. Og til að taka þetta allt saman og setja í samhengi hafa síðustu 12 ár 3,4% af aflamarki í þorski runnið til strandveiða að meðaltali. Í ár er hlutfallið 3,8%. Almenn skerðing á aflaheimildum hefur áhrif á alla, á allt kerfið. Það er ekki rétt að halda því fram að verið sé að skerða strandveiðarnar sérstaklega heldur er veiðiráðgjöf í þorski minni og því minna til skiptanna.

Virðulegi forseti. Strandveiðarnar fá hins vegar hærra hlutfall en að meðaltali síðustu 12 ár og það er staðreynd. Við höfðum væntingar til þess að skiptimarkaður loðnu hefði gefið meira síðast en búist var við og því varð að bregðast við stöðunni eins og hún lítur út. En það er rétt að halda því til haga að skiptimarkaðir í nokkrum öðrum tegundum eiga eftir að eiga sér stað, eins og hér hefur áður verið rakið, og þannig mun líklega skapast svigrúm til að bæta inn í strandveiðipottinn. En að halda því fram að stefnubreyting hafi orðið og að halda því fram að hér sé um lægra hlutfall að ræða til strandveiða en áður hefur verið er einfaldlega rangt. Og ég bið hv. þingmann að halda sig við staðreyndir í fyrirspurnum sínum.



[14:25]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég skal halda mig við staðreyndir. Staðreyndin er þessi: Reglugerðarbreyting hæstv. ráðherra 23. desember síðastliðinn skerti þorskveiðiheimildir um 1.500 tonn. Það er staðreynd, 1.500 tonn. Þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að hann ætti von á því að þessi ákvörðun yrði leiðrétt. Spurningin er þessi: Mun ráðherra leiðrétta þessa ákvörðun eða ekki? Þetta er já eða nei spurning nánast.

Við skulum tala aðeins um fiskstofnana. Strandveiðar við Íslandsstrendur ógna ekki fiskstofnum. Ef við skoðum málefnaleg sjónarmið á bak við það að fara að skerða strandveiðar þá ætti meðalhófið að segja okkur að þær ættu að vera frjálsar raunverulega. Það er það sem þetta snýst um. Þær ógna ekki fiskstofnum. Og að tala um einhverja almenna skerðingu eða halda því fram að þessi 1.500 tonn muni bjarga fiskstofnum Íslands er bara hlægilegt. Það vita það allir. (Forseti hringir.) Og annað, varðandi þennan skiptimarkað á loðnu, það er eitt mesta „skam“ (Forseti hringir.) sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Þar var skipt á 35.000 tonnum af loðnu fyrir 3.000 tonn af þorski. (Forseti hringir.) Það mál á heima hjá samkeppnisyfirvöldum og ég vona að sú rannsókn hefjist sem fyrst.



[14:26]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Tonn af þorski er tonn af þorski, alveg sama hvar það er veitt og alveg sama í hvaða kerfi það er veitt. Það er þannig. Ég mun sem ráðherra sjávarútvegsmála ekki hvika frá því að fara að vísindalegri ráðgjöf um nýtingu fiskstofna. Það mun ég gera, enda er það forsenda fyrir því að aflaheimildir geti aukist yfir höfuð, bæði til strandveiða og til annarra aðila í sjávarútvegi. Það er í mínum huga afar einfalt: Það sem er gott fyrir fiskstofnana er gott fyrir Ísland. Það sem er gott fyrir fiskstofnana er gott fyrir samfélagið.

Ég er hins vegar algerlega sammála þeim forsendum sem lágu til grundvallar því að koma strandveiðikerfinu á á sínum tíma. Það var hugsað til að gefa þeim sem ekki hafa veiðiheimildir möguleika til að reyna fyrir sér í sjávarútvegi og auka nýliðun. Veiðarnar hafa alltaf verið undir sömu lögmál sett og aðrar veiðar á Íslandi, og þannig er það, að fiskstofnarnir verði nýttir á ábyrgan hátt. Fyrir því mun ég áfram standa en jafnframt standa með þeim aðgerðum sem styðja við atvinnu í dreifðum byggðum.